06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (2413)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Við höfum nú um stund verið í kennslutíma hjá hæstv. dómsmrh. Það hefur ekki staðið á fræðslunni með tilliti til ívitnana til Háskóla Íslands og erlendra blaða, en furðu fátt hefur komið frá hans eigin brjósti. Hann hefur kvartað undan treggáfuðum nemendum. Hann hefur sjálfsagt fyrr, enda tók hann það fram, búið við slíkt, og ég geri ráð fyrir, að honum endist hvorki þetta kvöld né þau næstu til að koma sínum gáfum eða sínum skilningi inn í þá alþm., sem vilja líta rétt á þessi mál. Hann hefur flutt hér boðskap um, hvernig beri að túlka þennan samning. En ég held, að það sé rétt, eins og einu sinni var sagt, að hafa þann boðskap hæstv. dómsmrh. að engu, vegna þess að a.m.k. treggáfaðir nemendur finna hvergi stoð í samningnum fyrir því, sem hæstv. ráðh. heldur fram að beri að túlka hann eða sé að finna í honum, — enda var það svo, að hann vitnaði ekki í ríkisstjórn Bretlands, hann forðaðist það, enda að vonum, þar sem hann er að reyna að túlka allt annað en stendur í samningnum sjálfum. Hann er að segja okkur frá því, að dagblöð hingað og þangað, ákaflega virðuleg og áreiðanleg dagblöð, sjálfsagt virðulegri og áreiðanlegri en málfærsla hæstv. ríkisstj., líti svona og svona á málið. Hann er að segja, hvað standi í þessum blöðum, og fram eftir götunum, en hann vék ekki að því fyrr en síðar og varð þá að hálfgerðu gjalti, hvað stendur í samningnum sjálfum um þessi atriði. Og ég held, að þessi hæstv. ríkisstj., með tilliti til, hvernig hún hefur hagað sér í þessu máli, með tilliti til þess, hve hún hefur sagt oft ósatt um það hér á hv. Alþingi í vetur, með tilliti til þess, hvað hún hefur oft logið að þjóðinni, með tilliti til þess, sem hún hefur verið að gera í vetur, þá geti hún ekki vænzt mikils trausts hér í sölum Alþingis, þegar hún fer að túlka, málið út fyrir það, sem stendur á prenti í samningnum sjálfum.

Ég er hræddur um, að það verði stoðlítið hjá Bretanum, eða honum er þá brugðið eða öðruvísi varið en maður hefur áður heyrt, hvernig hann heldur á málum, ef það þýðir fyrir hæstv. dómsmrh. að koma með lagaskýringu Háskóla Íslands á því, hvernig beri að skilja þennan samning, þegar ekkert stendur í samningnum, sem styður þá lagaskýringu.

Það var maður fyrir nokkrum dögum hjá mér, sem leit á þessa till. ríkisstj., þessa svokölluðu lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Hann sagði: Geta þeir ekki einu sinni haft fyrirsögnina — fyrirsögn tillögunnar í samræmi við efni hennar? — Hann bætti við: Auðvitað á ég við það, að þessi till. til þál. á að vera um lausn fiskveiðideilunnar, ekki við Breta, heldur fyrir Breta. — Og ég dreg ekki í efa, að þetta væri rétta orðalagið.

En auðvitað er hin óraunhæfa fyrirsögn þáltill. ekki annað en lítill forsmekkur af því, sem strax kom á eftir, eftir að till. var lögð fram á hv. Alþingi. Samstundis og till. var lögð fram, dundu yfir hinar furðulegustu moldviðrisblekkingar stjórnarblaðanna, og ekki var látið við það sitja, heldur var ríkisútvarpið einnig tekið í þjónustu þessa málstaðar. Og auðvitað hafa stjórnarblöðin síðan ekki látið sitt eftir liggja að gylla málið og skýra meir og minna villandi frá staðreyndum samningsins. Virðist þetta allt hafa verið gert til þess að reyna að festa blekkingarnar í hugum fólksins, áður en öðrum gæfist tækifæri eða tóm til að skýra opinberlega frá hinu rétta í málinu.

Það leiðir löngum af sjálfu sér, að sá, sem ber fram gott og heiðarlegt mál, hagar málflutningi sínum í samræmi við það, enda mundi annar málflutningur verða málinu til tjóns. Hér eru ekki slík vinnubrögð við höfð, enda hentar það ekki málstaðnum.

Margur spyr: Hvers vegna þessi vinnubrögð og málflutningur, þar sem fjallað er um örlagaríka ákvörðun í einu hinu þýðingarmesta máli þjóðarinnar, sem varðar hana miklu bæði í nútíð og framtíð? Skýringin hlýtur að vera sú, að stjórninni er ljóst, að hún hefur bundið sig við vont mál, og veit, að eins og komið er, verður hún að standa eða falla með hagsmunamálstað Bretanna. Og til þess að gera stuðningsliði sínu á Alþ. og annars staðar mögulegt að standa með henni þrátt fyrir samvizkunnar mótmæli, þá verður hún að leggja þeim til eitthvert deyfilyf, einhverjar moldviðris röksemdir, sem hjálpa í bili, á meðan hæstv. ríkisstj. er að hraða afgreiðslu málsins út úr þinginu.

Eins og komið er, er öllum ljóst, að meðferð málsins á Alþingi er aðeins form, því að vitanlega er ríkisstj. búin fyrir sitt leyti að binda málið í viðjar þessa fáránlega Bretasamnings. Og stjórnarliðið allt er búið að binda sig í málið með sinni stjórn. Samningur þessi verður því fyrirsjáanlega samþ. hér á Alþ., þótt í algeru heimildarleysi sé að mínum dómi. Hér er fjallað á óviðurkvæmilegan hátt um stórkostlegt hagsmunamál þjóðarinnar, mál, sem hún hefur ekki gefið einum einasta þingmanni umboð til að semja um, hvað þá á þann hátt, sem hér er um að ræða. Samkvæmt því, sem á undan er gengið, hafa allir íslenzkir þingmenn aðeins eina skyldu og einn rétt í þessu máli, þá er að standa skilyrðislaust vörð um 12 mílna fiskveiðilandhelgina án nokkurrar skerðingar um lengri eða skemmri tíma, — og ekki síður hitt, að varðveita óskertan einhliða rétt Íslendinga til frekari útfærslu, þegar þjóðinni þykir nauðsyn til bera. Eða hvaða þingmaður gæti haldið því fram, að hann hafi í þingkosningum 1959 lýst yfir, að hann hafi þá haft önnur sjónarmið í málinu? En fiskveiðideilan við Breta var einmitt eitt af þeim málum, sem mjög bar á góma, t.d. í haustkosningunum 1959, samhliða efnahagsmálunum. Í alþingiskosningunum í Austurlandskjördæmi þetta haust hélt ég því fram, að rökstudd ástæða væri fyrir því að óttast, að Sjálfstfl. og Alþfl. sætu á svikráðum í fiskveiðideilunni, eins og nú er líka komið í ljós, og að þeir vildu semja við Bretana þannig að veita þeim einhver fríðindi innan 12 mílna fiskveiðimarkanna. Hitt lét ég mér þá ekki detta í hug, að þessir flokkar gengju svo langt að vilja afsala Íslendingum sjálfsákvörðunarréttinum um frekari útfærslu síðar. Ég skoraði þá á menn, sem voru í framboði eystra fyrir núv. stjórnarflokka, að lýsa viðhorfi flokka sinna og sinni persónulegu skoðun í málinu. Yfirlýsingar þessara frambjóðenda fyrir eigin hönd og flokka sinna voru sízt linari eða óákveðnari en frambjóðanda Framsfl. og Alþb., og kváðu þessir menn, að það kæmi ekki til mála, að þeir eða þeirra flokkar, ef þeir kæmust sjálfir á þing, tækju þátt í nokkrum þeim samningum við Breta, sem táknuðu afslátt í einhverri mynd frá núverandi ákvörðun Íslendinga. Að sjálfsögðu vildu austfirzkir kjósendur taka slíka yfirlýsingu gilda og munu hafa glaðzt yfir því, hve samstaða allra stjórnmálaflokkanna virtist vera mikil og einhuga í þessu máli. En ég vil af þessu tilefni spyrja hv. 3. þm. Austf., Jónas Pétursson, hvaðan hann hafi umboð, hvort hann hafi það frá sínum kjósendum, að samþ. nú þennan smánarsamning. Og vitað er, að allt stuðningslið stjórnarinnar á Alþingi, er jafnheimildarlaust að samþ. samninginn. Þeir hafa ekkert umboð til þess frá þjóðinni, eins og allt er í pottinn búið. Það eina, sem á við í þessu máli, er, að ríkisstj. og stuðningslið hennar vilji samþ. að vísa málinu til þjóðaratkvæðis. Það er hið eina, sem stjórnarliðið og ríkisstj. getur gert, ef hún vill sjá sóma sinn í þessu máli.

Hér er um svo þýðingarmikið og örlagaríkt mál að ræða fyrir þjóðina í heild, að hún ein er réttbær að fella úrskurð, hvort á að staðfesta þennan brezka samning eða ekki, og því frekar ber henni þessi réttur, þar sem hún hefur ekki gefið ríkisstj. né þingmönnunum umboð til að semja á þennan hátt um fiskveiðilandhelgina, heldur hefur hún þvert á móti verið fram að þessu einhuga að hvika í engu frá settu marki og halda áfram óhikað að framkvæma nauðsynlegar aðgerðir til að vernda þennan rétt sinn. En stjórnin vill hraða málinu og vill nota til þess það hlé, sem gefst, á meðan moldviðri blekkinga hennar byrgir mörgum sýn til þess ömurlega sannleika, sem samningurinn hefur að geyma. Og auðvitað mun ríkisstj. halda áfram áróðri sínum og reyna að koma sem flestum til að trúa ágæti hans. Og svo gengur hún langt, að hún leyfir sér að kalla þennan samning glæsilegasta stjórnmálasigur, sem unninn hefur verið af íslenzkri ríkisstjórn á erlendum vettvangi. Og til þess að reyna að gera þessi háðungarorð sennilegri og til þess að reyna að berja þá skoðun inn hjá sem flestum, lætur hún blöð sín og útvarp dag eftir dag tína upp og flytja þjóðinni fregnir um, hversu Bretar séu sjálfir óskaplega óánægðir út af ákvæðum samningsins. Slíkar fregnir sem þessar eiga auðvitað að verka á hug tólksins þannig, að fyrst Bretar séu óánægðir, þá hljóti íslenzka ríkisstj. að hafa snúið óskaplega á Bretann og hún hafi náð öllum ávinningnum til Íslendinga.

En íslenzka ríkisstj. veit eins vel og Bretar sjálfir, að þetta er herfileg blekking. Hvenær mundi nokkur hygginn samningaaðili hæla sér hástöfum af því, hvað hann hafi snúið á þann, sem við var samið. Allra sízt mundu brezk stjórnarvöld láta henda sig slíkt, sem eru af öllum viðurkennd allra slyngasti samningsaðili á alþjóðavettvangi. Bretarnir eru því allra manna ólíklegastir til að veita íslenzku ríkisstj. slíka bakslettu, eftir að þeir með samningnum hafa dregið burst úr nefi hennar og tryggt sér meira en það bezta, sem þeim gat dottið í hug að ná í þessu máli, úr höndum Íslendinga. Það er því útlátalaust og raunar skylt af Bretunum að stuðla að því, að frá þeim heyrist kvartanir og opinber ramakvein, ef það getur gert íslenzku ríkisstj. auðveldara um vik að slá til hljóðs og berjast til sigurs á Íslandi fyrir málstað Bretanna.

Að sjálfsögðu hlutu svo einnig að koma fram óánægjuraddir þeirra Breta, sem telja sig hafa misst spón úr askinum sínum við útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1958. Slíkum mönnum finnst, að Bretar, sem í 70 ár hafa urið með botnvörpu meira og meira og sífellt eyðilagt íslenzk fiskimið frá landsteinum út á djúp, eigi veiðiréttinn utan við þriggja mílna mörkin og því beri Bretum að hrekja Íslendinga með hervaldi aftur inn fyrir 3 mílurnar og gera brezkum skipum fært að stunda veiðar þangað, svo að þeir hafi líka möguleika að bregða sér þaðan til veiða upp að landssteinunum, ef tækifæri byðist.

Í ummæli þessara brezku yfirgangsmanna vitnar ríkisstj. m.a. málstað sínum til stuðnings og ætlast svo til, að fólkið álykti sem svo: Fyrst þessir menn eru óánægðir, hljótum við að hafa gert góðan samning.

En hvað réttlætir svo það að gera slíkan samning sem þennan, sem hér um ræðir? Er það fyrir það, að ríkisstj. telji skylt að veita Bretunum meiri rétt en öðrum þjóðum til að stunda áfram hina 70 ára gömlu rányrkju á íslenzkum grunnmiðum, nærri því umhverfis allt landið? Eða er það fyrir það, að ríkisstj. telji, að Íslendingar eigi Bretum meira en öðrum þjóðum upp að unna vegna framkomu þeirra gagnvart Íslandi í baráttunni um útfærslu fiskveiðilandhelginnar á liðnum tíma og því beri að verðlauna þá? Ekki getur ríkisstj. borið slíku við. Allir Íslendingar vita, að engin erlend þjóð hefur eins dólgslega og miskunnarlaust snúizt gegn hverri tilraun Íslendinga að friða firði og flóa landsins fyrir botnvörpu, og sömu sögu er að segja af viðhorfi Breta og afskiptum þeirra, þegar mjög hóflegar grunnlínuleiðréttingar voru gerðar og fiskveiðilandhelgin færð út í 4 mílur. Engin þjóð hóf þá gagnráðstafanir gegn þessari ákvörðun okkar nema Bretarnir, sem gerðu tilraun til að lama efnahagslíf okkar og þannig að reyna að sveita okkur til hlýðni við brezk hagsmunasjónarmið.

Þessi þrælatök Bretanna urðu á ýmsan hátt okkur til góðs, og það var líka lærdómsríkt að kynnast hinu ógrímuklædda andliti þeirra í garð lítilmagnans í norðri. Eða skyldi það koma á daginn, að samningafríðindin til Breta séu verðlaun fyrir framkomu þeirra gagnvart Íslendingum, eftir að fiskveiðilandhelgin var færð út í 12 mílur 1958? Engin þjóð hefur beitt okkur beinu eða óbeinu ofbeldi vegna þeirrar útfærslu á fiskveiðilandhelginni nema þeir, og allar þjóðir hafa í framkvæmd virt hana nema þeir. Með vopnuðu ofbeldi og mannránum hafa Bretar gert allt, sem þeir hafa getað, til að hindra okkur í að koma íslenzkum lögum yfir lögbrjóta á íslenzku yfirráðasvæði. Og svo langt hafa þeir gengið í ofbeldinu, að þeir hafa látið herskip sín hjálpa brezkum veiðiþjófum að fiska innan 4 mílna markanna og jafnvel hindrað töku þeirra, þótt á þá hafi sannazt, að þeir hafi veitt uppí undir landssteinum, eða innan 3 mílna markanna, á að verðlauna Breta fyrir þetta með fríðindasamningi? Eða er þessi samningur gerður við Bretana vegna þess, að vörn okkar gegn ofbeldi þeirra var þrotin og því frekari mótstaða þýðingarlaus? Þessu er ekki til að dreifa, heldur öfugt. Það voru Bretar, sem voru búnir að tapa þessari svokölluðu þorskastyrjöld, eins og sumar þjóðir kölluðu árás Bretanna á okkur. Auðvitað áttu og eiga brezk herskip alls kostar við okkar litlu og vopnvana varðskip, sem af mikilil prýði reyndu óhikað að vinna skyldustörf sín, þótt brezkir sjóliðsforingjar eftir skipun frá æðri stöðum beindu að þeim sínum mörgu og stóru fallbyssum með hótunum að skjóta varðskipin niður, ef þau létu ekki lögbrjótana brezku í friði. En þrátt fyrir þessar hótanir létu íslenzku varðskipin ekki hræða sig og voru á verði, þótt þau gætu sjaldnast framfylgt skyldustörfum sínum vegna hins brezka vopnavalds.

En vopnavaldið dugði ekki Bretum til sigurs í þessu máli, og bar margt til. Það vantaði ekki, að Bretar hefðu hér við land meira en nóg af stórum herskipum, fullmönnuðum, með alvæpni og búnum mörgum fallbyssum. En það var fleira en þetta, sem var þeirra fylgifiskur úr brezkri heimahöfn á íslenzk fiskimið. Þeim fylgdi sem skuggi og þungt farg þögul fordæming flestra þjóða, yfir sjóræningjaframferði þeirra gegn fámennri og vopnlausri þjóð, sem ekkert hafði til saka unnið annað en að reyna að varðveita lífsbjörg sína og réttindi til þess að lifa áfram mannsæmandi menningarlífi í landi sínu, öllum öðrum að meinfangalausu.

Þrennt mun hafa ráðið miklu um ósigur Bretanna í þessari ofbeldisstyrjöld þeirra við Íslendinga, og mun þó sjálfsagt fleira hafa komið til: Fordæming almenningsálits flestra menningarþjóða á framferði Bretanna, ásamt meira og minna opinskárri aðvörun ýmissa vestrænna ríkja um, að þeir hættu hinu vopnaða ofbeldi, þar sem það gæti dregið alvarlegan dilk á eftir sér í samvinnu vestrænna þjóða. Í öðru lagi óbilandi einurð og viljafesta íslenzku þjóðarinnar frá upphafi að láta ekki undan ofbeldinu. Og í þriðja lagi aðdáunarverð frammistaða íslenzku varðskipanna, meðan mest reið á og svo lengi sem þau máttu koma fram gagnvart brezkum veiðiþjófum á þann hátt, sem vera bar. Árangurinn af þessari frammistöðu varðskipanna íslenzku varð sá, að Bretar gátu ekki fiskað sér til ávinnings innan 12 mílna markanna, heldur venjulega öfugt, og þá fór glansinn að fara af herförinni, sem auðvitað út af fyrir sig kostaði líka mikla peninga.

Íslendingum var það fullljóst, að Bretar voru búnir að tapa málinu, og það mun hafa verið í þann mund, sem hinn íslenzki dómsmálaráðherra náðaði alla brezka landhelgisbrjóta. Sú ákvörðun sætti ekki teljandi gagnrýni sökum þess, að þjóðin hélt, að hér kæmi aðeins fram göfuglyndi ríkisstj. gagnvart sigruðum andstæðingi. En Bretum var þessi sakaruppgjöf ekki nægileg og litu á hana sem veikleikamerki ríkisstj. og hafa síðan notað tímann til að liðka og lempa íslenzk stjórnvöld á sporinu í áttina að þeim áfanga, sem Bretar settu sér, þ.e. að reyna að vinna hina íslenzku ríkisstj. með friðsamlegu móti til að fallast á samninga, fyrst ofbeldi dugði ekki. Og á þann hátt vildu Bretarnir með samningi við ríkisstjórnina svíkjast að íslenzku þjóðinni, sem þeir vissu að vildi ekki fallast á neinar tilslakanir í sambandi við sínar fyrri ákvarðanir í þessu efni.

Í byrjun þessa tímabils kölluðu Bretar herskip sín heim, en töldu það aðeins vera um stundarsakir, en framlengdu svo þetta vopnahlé aftur og aftur. Auðvitað máttu þeir ekki viðurkenna allt í einu, að brezka ljónið hefði tapað þessu þorskastríði við Íslendinga, og einnig urðu þeir að geta haft í hótunum við íslenzk stjórnvöld um að hefja stríðið aftur, ef þau létu ekki til leiðast að sýna næga auðsveipni.

Þegar það kvisaðist, að íslenzk stjórnarvöld voru í samningum við Bretana um fiskveiðlandhelgina, reis mikil mótmælaalda. Ríkisstjórnin gaf þá út hátíðlega yfirlýsingu um, að enginn fótur væri fyrir slíku og að hún mundi aldrei semja um þetta mál við Breta, en þau viðtöl, sem ættu sér stað, væru aðeins samkvæmt eindreginni ósk Breta að fá að ræða ágreiningsmálin almennt. Væri það kurteisisskylda íslenzku stjórnarinnaar að verða við slíkri ósk. En þegar svo brezk sendinefnd kom til landsins til að ræða þetta mál, sló óhug á marga, og menn óttuðust, að þrátt fyrir fyrri fullyrðingar ríkisstj. væri hún búin að binda sig í samningamakk við Breta um íslenzku fiskveiðilandhelgina. Enn lýstu íslenzk stjórnarvöld því hátíðlega yfir, að ekkert slíkt ætti sér stað, viðræðurnar hefðu aðeins snúizt almennt um hin mismunandi sjónarmið og ríkisstj. þætti eðlilegt að geta kynnt Bretum sem bezt og nákvæmast hin íslenzku viðhorf. Að vonum var uggur þjóðarinnar ekki kveðinn niður með þessu. Var líka öllum vitanlegt, að langar og síendurteknar viðræður við brezk stjórnarvöld um álit og viðhorf Íslendinga í fiskveiðideilunni voru alveg óþörf, því að frá upphafi var engum kunnara en Bretum hinn íslenzki málstaður og ákvörðun þjóðarinnar að standa á rétti sínum.

Og tímar liðu, og einatt bárust böndin meir og meir að hinni íslenzku ríkisstjórn, að hún væri að semja við Breta um einhver fríðindi þeim til handa. En ætíð, þegar hún var að spurð, sór hún sig frá slíkum verknaði, og fyrir nokkru, þegar hún var spurð í tilefni af ummælum brezkra blaða, staðhæfði ríkisstj. kalt og rólega, að slíkt væri flugufregn ein og ekkert þvílíkt stæði til. En í ljósi þess, sem nú er skeð, virðist augljóst, að þegar ríkisstj. afneitaði síðast þessum verknaði sínum, þá hafi hún verið búin að semja, að minnsta kosti um öll aðalatriði, og allan tímann, sem ríkisstjórnin hefur verið að afneita þessum verknaði sínum, hefur hún ábyggilega staðið í samningamakki við Bretana. Verður að segja, að slíkt er í meina lagi óhugnanlegt og ógeðslegt fyrirbæri og einsdæmi, að nokkur ríkisstjórn í lýðræðislandi vogi sér að haga sér á þennan hátt. Og hér er vissulega um að ræða óskammfeilið virðingarleysi fyrir orðum og eiðum gagnvart þjóð sinni. Og svo bætir það ekki úr skák, að þetta er smánarsamningur, sem ríkisstj. hefur gert á bak við hana og á hennar kostnað. Svo þegar þessi smán er alþjóð kunn, samanber innihald þessarar þáltill., kalla valdhafarnir samninginn stóran sigur fyrir íslenzku þjóðina, og ekki nóg með það, heldur vill ríkisstj. halda því að henni, að samningurinn innihaldi annað og betra fyrir hana en raun ber vitni samkvæmt orðanna hljóðan.

Þrátt fyrir þessa sögu, þessar staðreyndir, sem ég hef lauslega rifjað upp, koma hér fram ráðh., sem furða sig á því, að þingheimur skuli ekki taka gilt það, sem þeir eru að segja okkur, en við sjáum að ekki á stoð í þeim samningi, sem þeir ætlast til að Alþingi samþykki.

Ríkisstj. segir, að með samningnum viðurkenni Bretar 12 mílna fiskveiðilandhelgi okkar. En hið sanna er, að Bretar veita enga formlega viðurkenningu, heldur láta kyrrt liggja, eins og þeir gerðu um skeið gagnvart 4 mílna landhelginni. Þetta þýðir það að mínu áliti, að Bretar geta aftur hafið ofbeldisárásirnar allt inn að 3 mílna línunni, ef þeim býður svo við að horfa, alveg eins og þeir tóku upp árið 1958 að virða ekki 4 mílna landhelgina og báru það fyrir þá, að þeir hefðu aldrei formlega viðurkennt hana. Gagnvart 12 mílna línunni geta því Bretar haft á lofti refsivöndinn á íslenzku þjóðina, hvenær sem þeim finnst, að Íslendingar séu svo óþægir við þá, að þeir verðskuldi refsingu, og þetta virðast þeir geta gert, án þess að formlega sé nokkuð hægt að að finna.

Stuðningsblöð stjórnarinnar segja, vafalaust með samþykki ríkisstj., að samningurinn þýði það, að Bretar fari aldrei aftur inn fyrir 12 mílna mörkin. En samningurinn er heimild fyrir Breta, og svo að sjálfsögðu allar aðrar þjóðir, að stunda fiskveiðar hér við land með botnvörpu og öllum öðrum veiðitækjum allt inn að 6 mílna mörkunum. Þetta á að gilda í 3 ár, innan landhelgi og inni á fiskveiðisvæðum allra landsfjórðunganna, en Vestfirðir eru undanskildir. En hver er svo tryggingin fyrir því, að Bretar hætti veiðum á þessum svæðum eftir 3 ár? Engin. Og ef þessi ríkisstj. ætti að sitja við völd þessi sömu 3 ár, þá þarf enginn að furða sig á því, miðað við það, sem á undan er gengið, þótt hún framlengi veiðirétt Bretanna um eitthvert árabil. En ef slíkt væri ekki til staðar, þá hafa Bretarnir fyrr og síðar brallað annað eins og meira en það að halda veiðunum áfram án leyfis, — segja: Við höfum aldrei formlega viðurkennt 12 mílna fiskveiðilandhelgi ykkar, og því teljum við okkur hafa rétt til veiða inn að 6 mílum og raunar nær landi en það.

Ríkisstjórnin segir, að Bretar hafi leyft okkur að leiðrétta nokkra grunnlínupunkta í tilefni af þessari samningsgerð, og stjórnin lætur svo sem Bretar hafi þar með gefið okkur vænar sneiðar af sænum skammt undan ströndum landsins.

Hið sanna er, að við áttum orðið þann rétt að leiðrétta grunnlínupunktana í kringum landið, ekki eingöngu þá, sem hér er um að ræða í þessum brezka samningi, heldur nokkra fleiri, sem engu eru þýðingarminni samanlagt en þeir, sem nú er um rætt. Þessa leiðréttingu á grunnlínupunktunum ætlaði íslenzka þjóðin auðvitað að framkvæma, strax og henta þætti, og það án þess að spyrja sérstaklega Breta eða aðrar þjóðir að, enda er slíkt réttur hennar.

En nú hefur íslenzka ríkisstj. samið af Íslendingum þennan sjálfsákvörðunarrétt, og verður hann framvegis í höndum Breta og alþjóðadómstólsins, og það er það svartasta við samninginn, sem eitt nægir til þess að fordæma aðgerðir þessarar ríkisstj. í nútíð og framtíð. Samkvæmt þessum samningi erum við látnir gefa eftir ákvörðunarrétt okkar um að færa út fiskveiðilandhelgina meir en orðið er. Ef við viljum reyna slíkt, verðum við að sækja undir Bretans náð og síðan til alþjóðadómstóls, sem mun varla hafa nokkur lög til að dæma eftir í svona máli, og má þá öllum vera vitanlegt og ljóst, hve Bretar hafa sterka aðstöðu til að eyða málinu fyrir okkur við þennan dómstól.

Síðan 1948 og raunar fyrr hafa allar aðgerðir og vinnubrögð íslenzku þjóðarinnar í því að færa út landhelgina verið mótuð af tvennu: því að nota ævinlega alla möguleika til hins ýtrasta að færa fiskveiðilandhelgina út, eins og mögulegt var á hverjum tíma, og jafnframt hefur það verið ófrávíkjanlegt sjónarmið að varðveita ætíð og ævinlega rétt þjóðarinnar til að færa síðan áfram út landhelgina með einhliða ákvörðun, þegar nauðsyn væri talin bera til, og við höfum haldið því fram, að við hefðum þennan rétt, svo langt sem landgrunnið nær.

Nú er samið við Bretana að falla frá þessum rétti og þessari framtíðarákvörðun, og er slíkt vitanlega algerlega fordæmanlegt. Og það má spyrja: Eru ekki önnur ókjaraatriði þessa brezka samninga nægileg, þótt hendur þjóðarinnar séu ekki bundnar um alla framtíð hvað snertir frekari útfærslu fiskveiðilandhelginnar, þegar lífsnauðsyn þjóðarinnar kann að krefjast? Er ekki nægilegt að afhenda Bretum og öðrum þjóðum fiskveiðilandhelgina inn að 6 mílna mörkunum og láta þar með öll tilheyrandi fiskimið fara aftur í hreina örtröð undan botnsköfum mörg hundruð erlendra togara og íslenzkra, og auk þess fylgja í kjölfar þeirra mörg hundruð erlend fiskiskip með alls konar nútíma veiðitækni?

Við Austfirðingar erum ekki látnir fara varhluta af þessari föðurlegu — eða hitt þó heldur — ráðstöfun ríkisstj., og var kannske ekki við öðru að búast, enda er það staðreynd, að enginn landshluti er eins miskunnarlaust seldur undir ok Bretans og Austfirðir. Sér nú á, að Sjálfstfl. er búinn að eignast einn þingfulltrúa í þessum landshluta, og eru Austfirðingar og þessi maður ekki öfundsverðir af því hlutskipti. Má telja augljóst, að það sem ríkisstj. hefur ekki að fullu enn tekizt með efnahagsráðstöfunum sínum þar eystra, skal nú Bretinn leggja smiðshöggið á, ef mögulegt er. Ágengni erlendra togara var löngum og er mikil og tilfinnanleg fyrir Austfjörðum, enda var svo víða komið, þegar fiskveiðilandhelgin var færð út 1958, að útgerð trillubáta og smærri þilfarsbáta, sem eingöngu urðu að binda sig við heimanróðra, var víðast og þá sérstaklega við Norðausturland komin í rúst. En ótrúlega fljótt eftir útfærslu í 12 mílur virtust útgerðarmöguleikarnir breytast til batnaðar, og vonir manna um hagstæðari framtíð við útgerð á smærri útgerðarstöðum norðaustanlands fóru vaxandi. Nú er sá draumur búinn og það um ófyrirsjáanlega framtíð, því að á verulegum hluta af núverandi fiskislóðum þessara staða eiga togarar og önnur útlend skip að fá að veiða. Grunnlínuútfærslan á þessum slóðum austan Langaness var æskileg og sjálfsögð út af fyrir sig, og henni hefði verið fagnað, ef hún hefði ekki verið keypt að óþörfu af Bretanum og auk þess of dýru verði og m.a. á kostnað fiskveiða aðliggjandi staða. Staðreyndin er sú, að þessi grunnlínuútfærsla ein út af fyrir sig bætir sáralítið úr og eykur lítið við fiskimið smærri báta og nær raunar ekki tilgangi sínum, fyrr en óskert 12 mílna landhelgi bætist þar við.

Það er auðséð, að Bretar hafa alveg fengið að ráða því, hvernig þeir fiskuðu við Austurland. Fyrir Norðausturlandinu mega þeir fiska í 8 mánuði á hverju ári, og inn í það tímabil fellur allur sá tími, sem fiskivon er þar fyrir báta á heimamiðum, og einnig fellur það inn í fiskitíma togaranna, þann tíma, sem von er um, að fisk sé hægt að fá með því að sækja að Langanesströnd. Útgerðinni við Norðausturland verða því aftur með þessari ráðstöfun allar bjargir bannaðar. Og í stórum dráttum munu útgerðarplássin á Austfjörðunum hafa það sama að segja hvað snertir nytjar af heimamiðum.

Stjórnarliðið er nú með bros á vör yfir því, að andstæðingar þessa máls hér á Alþingi eru ekki þess megnugir að stöðva framgang málsins. En leynist ekki uggur í brjósti margra stjórnarsinna út af afleiðingum þessa samnings? Og er ekki því miður hugsanlegt, að sá uggur, sem þeir kunna nú að bera í brjósti vegna þessa máls, verði strax á næsta sumri að óttalegri staðreynd, — þeirri staðreynd m.a., að erlendur síldveiðifloti geri íslenzka sumarsíldveiði enn aumari en hún hefur nokkurn tíma áður verið eða allt að því eyðileggi hana. En þá er of seint að iðrast. Íslenzk útgerð mun sitja uppi með tjónið af þessum samningi og þá um leið öll þjóðin, en skömmina hljóta þeir, sem gerðu og studdu að framgangi hans.