06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (2414)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Vorið 1958 voru hörð átök í íslenzkum stjórnmálum. Þá riðaði ríkisstj. til falls, svo sem kunnugt er. Þessi átök voru um það, hvort færa ætti út íslenzka fiskveiðilögsögu eða ekki. Vegna þess, að þá var örugg forusta í ríkisstj. landsins og giftusamlega á málum haldið, þá tókst að framkvæma það að færa út landhelgina með reglugerðinni frá því síðast í maí 1958. Þess skulu menn minnast nú, að ef það yrði staðreynd, að 12 mílna fiskveiðilögsaga yrði viðurkennd við Íslandsstrendur, þá er það vegna þess, að vinstri stjórninni tókst 1958 að framkvæma það verk. Það var ekki heldur átakalaust innan þeirrar stjórnar að koma því verki fram.

Það mál, sem hér er á ferðinni nú um að semja í sambandi við landhelgi Íslands, er á allt annan veg en þá var ákveðið. En mér segir grunur um það, að rætur þessa máls megi rekja til vordaganna 1958, og ég hef alið þá skoðun með mér, að einmitt þau samtök, sem þá áttu sér stað á milli núverandi stjórnarflokka, hafi verið upphaf að því stjórnarsamstarfi, er síðar hefur orðið, og þetta mál, sem nú er hér til meðferðar, sé meiri tengiliður á milli þessara tveggja flokka en aðra hefur grunað. Enda þótt ég muni sýna fram á það hér á eftir, að þjóðin hefði mátt ætla, að á annan veg yrði niðurstaða þessa máls en nú virðist ætla að verða, þá held ég samt, að það megi rekja ræturnar einmitt til þess, er þá átti sér stað. Og mig langar til að nota þann tíma, sem ég ætla að tala hér á þessum hv. fundi, til þess að ræða nokkuð um framkvæmd málsins.

Ég vil í fyrsta lagi minna á það, að íslenzka þjóðin hefur haldið því fram og það með réttu, að þetta mál væri hafið yfir venjulegar flokkadeilur, hér byði þjóðarsómi, hér væri svo mikið undir komið um afkomu þjóðarinnar í heild, að hér mættu ekki flokkasjónarmið ráða, heldur sjónarmið þjóðarinnar í heild. Og þegar farið var að undirbúa reglugerðina 1958, var það gert með þeim hætti, að til verksins var fengin sérstök nefnd, sem allir flokkar áttu fulltrúa í, líka stjórnarandstaðan. Á þetta vil ég minna nú, því að það skýrir betur en margt annað það, sem nú er að gerast. Ég vil líka minna á það, að þegar kom til framkvæmdanna, var farið að þessu máli með fullri gætni. Og eins og okkur bar sem einni af þjóðum Atlantshafsbandalagsins, var bandalagsþjóðum okkar í Atlantshafsbandalaginu tilkynnt, hvað til stæði. Málið var skýrt fyrir þeim þjóðum vorið 1958, og þeim var gerð grein fyrir því, að hverju við stefndum.

Þegar ég hlustaði á umr. um þetta mál í hv. Ed. í haust og einnig nú í útvarpsumræðunum um daginn, komu þar fram atriði í sambandi við viðskipti okkar við NATO, sem komu mér mjög ókunnuglega fyrir, því var haldið fram bæði í umr. í haust og einnig í þessum umr., að Hermann Jónasson, þáv. hæstv. forsrh., hefði gjarnan viljað semja við NATO-þjóðirnar, og því hefur verið slegið upp í Alþýðublaðinu: Hermann vildi semja. — Ég leyfi mér að skírskota til hæstv. ráðh. Alþfl., sem þá voru. Ég veit, að þeir muna þessi mál betur. Þeir vita vel, að það, sem við vorum að gera 1958, var það, að við héldum okkur við þá samninga, sem okkur bar sem bandalagsþjóð í Atlantshafsbandalaginu. Þeir vita vel, að við framsóknarmenn vorum fylgismenn þess, að þetta mál yrði kynnt eins og bezt mátti verða. En þeir vita líka vel, að það var enginn maður fjær því að hefja samninga en Hermann Jónasson. Þeir vita ósköp vel, að það var ekki á andstöðu þeirra Alþfl.-ráðherranna, sem það strandaði, að ekki voru teknir upp samningar innan NATO. Þetta er þeim ljóst, og það þýðir ekki að berja sér á brjóst og segja annað nú. Ég verð að segja það við þá hæstv. ráðh., að slíkur málflutningur gerir þá menn, sem honum beita, minni í mínum augum en áður hefur verið, og mér kom það mjög á óvart, þegar ég heyrði þá beita slíkum rökum eða rökleysi. Þeir vita ósköp vel, að það var á andstöðu Framsfl., sem strandaði, að farið væri út í samninga um málið 1958. Þeir vita líka vel, að ef við hefðum gert það, þá hefði málið strandað. Þetta vita þeir manna bezt og eiga ekki að leyfa sér að vera með blekkingar í þessu máli. Það er haldlaust í alla staði.

Eins og ég drap á áðan, tókst svo giftusamlega til fyrir forustu Framsfl., að útfærslan var gerð. Og það kostaði mikil átök. Það muna það allir, eins og ég drap á í upphafi máls míns, sem þessum málum voru kunnugir þá, að ríkisstj. riðaði til falls. En vegna hvers riðaði hún til falls? Það var af því, að Alþfl. var að bila, og hann fékkst ekki til þess að standa að framkvæmd verksins, fyrr en honum var ljóst, að það gæti kostað kosningar, ef stjórnin félli þá. Það vildi hann forðast, og þess vegna var hann með hangandi hendi fylgismaður málsins.

Sjálfstfl., sem einnig hafði verið kvaddur til ráða um þetta mál, gaf yfirlýsingu hinn 21. maí 1958, og niðurlag hennar er þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Sjálfstfl. getur ekki fallizt á þessa ákvörðun Framsfl., sumpart vegna efniságreinings og sumpart vegna ágreinings um málsmeðferðina.“

Þegar ákvörðun hafði verið tekin um útfærslu landhelginnar, þá gerðist það ekki, að þjóðin stæði einhuga að málinu, heldur gerðist það, að allt sumarið 1958 og fram til 1. sept. var haldið uppi í Morgunblaðinu alls konar áróðri gegn íslenzkri fiskveiðilögsögu. Það var hvað eftir annað verið að skýra frá því, sem í erlendum blöðum stæði um þetta, og þeirra málstaður var næstum því gerður að málstað Morgunblaðsins. Þeir Morgunblaðsmenn sýndu ekki sumarið 1958, að þeir væru fylgismenn útfærslunnar. Það var síður en svo, því að allur þeirra blaðakostur var notaður í gagnstæða átt.

Og það var ekki fyrr en þeim var fullkomlega ljóst, að þjóðin stóð einhuga um málið, að þeir breyttu um stefnu, og eftir að þeim á Akranesi hafði tekizt fyrir ötula forustu Péturs Ottesens að koma samþykktinni um málið inn í Morgunblaðið síðustu dagana í ágúst, var skipt um stefnu hjá Morgunblaðsmönnum. Hollusta þeirra við málið var ekki fyrr en á síðustu stundu. Þegar þeir töldu, að þeir væru búnir að tapa málinu, þjóðin mundi sameinast um það, þá snerust þeir einnig með því. En allt sumarið var vitnað í gagnstæða átt.

Hver eru nú áhrifin af því, að þessari stefnu var haldið uppi í Morgunblaðinu 1958 og sama veila kom fram hjá Alþfl., þegar málið var afgreitt? Það orkar ekki tvímælis, að það var fylgzt með þessu máli á erlendum vettvangi. Bretinn vissi vel, hvað var að gerast á Íslandi, og honum varð þá ljóst, að það var ekki fullkomin eining um málið í fremstu röðum íslenzkra stjórnmálamanna. Ekki orkar það heldur tvímælis, að framkoma Alþfl. í ríkisstj. og Morgunblaðsins sumarið 1958 varð til þess, að Bretinn leyfði sér að senda hingað sín herskip. Ef þeim hefði verið það fullkomlega ljóst, að hér yrði aldrei slakað á, hér yrði aldrei um neina samninga að ræða, þá hefðu þeir ekki farið út í það ævintýri. En þeir hugsuðu sem svo: Þeir menn, sem eru þessu raunverulega andstæðir, geta komið til valda síðar, og þá heppnast okkur leikurinn. Þess vegna er óhætt að fullyrða, að einmitt framkoma Alþfl. í ríkisstj. og Morgunblaðsins 1958 varð til þess að bjóða Bretunum heim. Þessu á þjóðin einnig að muna eftir í dag.

Þá hefur nokkuð verið um það rætt, hvort Bretinn hefði getað haldið því áfram að vera í þessu stríði við okkur. Það hefur verið á það bent, að aflaleysi brezku togaranna var svo mikið, að það var vonlaust að halda áfram þeirri útgerð, sem þeir hafa rekið hér við strendur Íslands, síðan útfærslan var gerð. Það var ekki heldur formandi að ætla sér að stunda útgerð við Ísland án þess að eiga þess kost að geta komizt í landvar á Íslandi. Þeir vetur, sem liðnir eru, síðan útfærslan var gerð, hafa verið óvenju mildir. En ef íslenzkur vetur hefði sýnt sig í þeim ham, sem hann getur orðið, þá hefði það ekki verið formandi fyrir nokkurt skip að geta ekki í höfn komizt, enda vissu hinir brezku það, að þeir gátu ekki haldið þessu áfram og urðu að finna leiðir til þess að koma sér út úr sínum eigin vanda. Þá var það líka vitanlegt, að það var mikil gagnrýni á aðstoðinni við brezku togarana helma í Bretlandi. Þetta var mikill kostnaður, sem brezka þjóðin varð að leggja á sig vegna útgerðarinnar við Ísland, og það var gífurleg gagnrýni á því. Þess vegna stóð brezka þjóðin ekki samstæð um þetta, og þessi gagnrýni hafði farið vaxandi.

En það, sem Bretum reið á, var að halda áfram, þangað til sú von rættist, að hér á landi fyndust Íslendingar, sem vildu aðstoða þá. Það var það, sem þeir kepptu að, og það virðist þeim nú ætla að takast.

Það hefur komið fram í þessum umr., að það sé rétt á þessu stigi málsins að semja við Bretann, þó að það hafi hins vegar sýnt sig, að hann var búinn að tapa þessu stríði, sem hann hafði háð hér. Mér þykir því rétt að víkja nokkuð að því, hvort íslenzka þjóðin gat vænzt þess vegna þeirra yfirlýsinga, sem stjórnmálaflokkarnir hefðu gefið í þessu máli, að samið yrði við Breta, og hver er ástæðan fyrir því, að sérstaklega er samið við Breta.

Það hefur verið spurt um það í umr. um þetta mál, á hvaða réttargrundvelli ætti að gera samninga, ef samningar yrðu gerðir. Í sambandi við Genfarráðstefnuna í vor sagði Morgunblaðið frá því, þegar till. Bandaríkjamanna o.fl. var felld þar á atkv. Íslands, að hinum sögulega órétti hefði verið bægt frá. Það var því ekki hægt að ætla, að þessi sögulegi óréttur yrði til þess að skapa grundvöll handa Íslendingum til þess að semja við Breta. Hvaða ástæða var líka til þess að semja við Breta eina um íslenzka landhelgi, en ekki aðrar þjóðir? Í þessu sambandi ber fyrst að minna á það, að Íslenzka þjóðin hefur haldið því fram í öllum umr. um landhelgismálið, að hún hefði ekki við neina að semja, þetta væri innanríkismál, en ekki utanríkismál, svo að hún þyrfti ekki að semja við aðrar þjóðir um það. Hún hefði rétt til einhliða ákvörðunar í málinu og við þann rétt mundi hún halda sig. Hér var því ekki um lítið atriði að ræða. Nú er verið með samningum að þverbrjóta þessar yfirlýsingar. Á hvaða réttargrundvelli fara svo þessir samningar fram? Ég sé ekki, að grundvöllurinn sé neinn annar en að virða rétt hins sterka. Hinum sterka og ósvífna á að gefa meiri rétt en hinum, sem skikkanlega fara að. Það er það, sem hér er að gerast þessa dagana, það er réttur hins sterka og ósvífna, sem á að virða umfram aðra.

Hæstv. dómsmrh. vék að því hér áðan, að það, sem hér væri verið að gera, væri að framkvæma þáltill. frá 1959. Það mun ekki hafa verið skilningur þjóðarinnar, að sú till. skapaði nokkrum rétt til þess að vera með undanslátt í landhelgismálinu. Það var skilningur íslenzku þjóðarinnar, þó að eigi samkvæmt klókri lögfræði að skýra þetta á annan veg nú, að hér væri girt fyrir það, að nokkur undansláttur gæti átt sér stað, og þegar hæstv. núverandi ríkisstj. komst til valda, lýsti hún þessu yfir 20. nóv., daginn sem hún tók við völdum, í sambandi við landhelgismálið:

„Þá þykir ríkisstj. rétt að taka fram, að stefna hennar í landhelgismálinu er óbreytt eins og hún kemur fram í samþykkt Alþ. 5. maí 1959.“

Þetta hefur öll íslenzka þjóðin skilið á þann veg, að um engan undanslátt gæti verið að ræða, og í kosningunum bæði vorið og haustið 1959 þótti það svo fráleitt að ætla það nokkrum frambjóðanda, að hann væri til viðtals um samninga við Breta um undanslátt í landhelgismálinu, að slíkt þótti ekki svaravert. Þessu var margyfirlýst á öllum þeim framboðsfundum, sem ég tók þátt í, og núverandi stjórnarliðar voru þar ekki eftirbátar annarra frambjóðenda um stár orð og miklar yfirlýsingar.

En þessar yfirlýsingar eru ekki þær einu yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið í þessu máli, og mig langar til þess að minna á nokkrar, til þess að við getum áttað okkur á því, hvort það var ástæða til að ætla, að út í samninga yrði farið nú. Það er líka nauðsynlegt, að við gerum okkur grein fyrir þessum yfirlýsingum, þegar við eigum að fara að standa frammi fyrir þeim yfirlýsingum, sem nú er verið að gefa í sambandi við þann samning, sem hér á að fara að staðfesta.

Þann 8. apríl s.l. fór hæstv. sjútvmrh., Emil Jónsson, með utanríkismál í fjarveru hæstv. utanrrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar. Þá sagði hann, hæstv. ráðh. Emil Jónsson, m.a. þetta — með leyfi hæstv. forseta — hér á hv. Alþ.:

Ríkisstj. er öll sammála um, að halda beri fast á þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið af fulltrúum Íslands í Genf, þ.e. undansláttarlausri kröfu um 12 mílna fiskveiðilögsögu, og enn fremur, að möguleika verði haldið opnum um frekari stækkun fiskveiðilögsögunnar.“

Þann 28. apríl s.l. sagði hæstv. forsrh. þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef ekkert umboð frá neinum í þessu þjóðfélagi til að afsala Íslandi 12 mílna fiskveiðilandhelgi.“ Og hann talaði um fátæka mannsins eins lamb, sem hann hefði ekkert umboð til þess að fórna og þaðan af síður nokkurn vilja.

Það hafa fleiri yfirlýsingar verið gefnar, sem bentu til þess, að ekki væri gert ráð fyrir, að samningar yrðu gerðir.

Hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, skýrði frá Genfarráðstefnunni 7. maí og sagði þá m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Við miðuðum allt okkar starf að því að tryggja 12 mílna fiskveiðilögsögu og standa gegn öllu, sem skemmra gengur. Við munum berjast gegn öllum frádrætti, hverju nafni sem nefnist, tímatakmörkunum eða öðru, — gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 12 mílna við Ísland. “

Haldið þið, hv. alþm., að þær yfirlýsingar, sem hæstv. utanrrh. er að gefa þingi nú og þjóðinni um það, hvernig fari um samninginn, sem hann er að gera nú við brezku ríkisstj., hvernig fari um framkvæmd á honum eða að hann verði ekki framlengdur á neinn veg, — haldið þið, að sú yfirlýsing sé meira virði en þessi? Er ekki þessi yfirlýsing nægjanleg til þess, að fólk með skikkanlega dómgreind og venjuleg viðhorf í málefnum skilji þetta sem algerða neitun? Ég er sannfærður um það, að íslenzka þjóðin skilur svo, að þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar, þá muni ekki sömu aðilar, áður en ár er liðið, vera búnir að kokrenna yfirlýsingu sinni, eins og ekkert hefði gerzt. Það þarf meira en vítt kok til þess, að svo sé gert. En það er einmitt þetta, sem hæstv. ríkisstj. er að gera og gefur þá út nýjar yfirlýsingar um framkvæmdina á því, sem hún er að semja um. En þær yfirlýsingar munu ekki reynast haldmiklar fyrir núverandi ríkisstj. Það er ekki hægt að halda áfram endalausum blekkingum. Það er skilið, fyrr en skellur í tönnum.

Það var ekki ástæða til að ætla, að til samninga yrði farið eftir allar þessar yfirlýsingar, og fram eftir öllu sumri var verið að gefa yfirlýsingar um það, að samningar við Breta kæmu ekki til greina. En hvað hefur skeð? Þann 10. ágúst var gefin út tilkynning um það, að ekki væri verið að semja við Breta. Nei, nei, það var nú eitthvað annað. Það var bara verið að tala við mennina til þess að sýna þeim eðlilega kurteisi. Árangurinn af samtölunum birtist í þingskjalinu, sem við erum nú að ræða um.

En hvað gerðist? Það gerðist fleira en það eitt, að tekin voru upp samtöl við Breta um landhelgismálið, þegar þeir samningar voru hafnir. Það gerðist það, að nú var ekki verið að hugsa um einingu þjóðarinnar, það var ekki verið að bjóða stjórnarandstöðunni að taka þátt í þessum samningum. Nú koma þeir hæstv. stjórnarsinnar og básúna mikið yfir því, hvílíkt ábyrgðarleysi sé hjá þessari stjórnarandstöðu, alltaf sé hún á móti málum. En þeir eru ekki að skýra frá því, hvaða rétt þeir gefa stjórnarandstöðunni. Þeir eru ekki að skýra frá því, að þegar þeir hófu þessa samninga, þá voru þeir ekki að leita eftir því við stjórnarandstöðuna, að hún ræddi málið líka og kynnti sér það, ef það mætti leiða til þess, að eining yrði um málið. Það var eitthvað annað. Það var engin tilraun gerð til þess að ná samstöðu um málið, heldur er stjórnarandstaðan fyrirlitin, og svo er blásið á hana á eftir um það, að hún vilji enga samvinnu eiga um neitt mál. Það gat verið eðlilegt, að stjórnarsinnum væri það ljóst, að um þetta mál fengju þeir ekki samstöðu. En þeirra verknaður var hinn sami, því að það var engin tilraun gerð til þess að halda þeirri einingu, sem alltaf hefur verið í landhelgismálinu til þessa.

Áður en ég vík að þeim samningum, sem hér hafa raunverulega verið gerðir, — vil ég víkja nokkuð að því, sem Alþýðublaðið hefur mjög rætt um þessa síðustu daga, þ.e. um vestræna samvinnu. Þeir hafa rætt mikið um það, að við framsóknarmenn værum ekki góðir í hinni vestrænu samvinnu, við sætum þar á svikráðum. Og þá gáfu þeir auðvitað sínar eðlilegu skýringar á því.

Í þessu sambandi vil ég minna á það, að þegar landhelgismálið var í okkar höndum, eins og ég benti á áðan, þá héldum við alla okkar samninga við vestrænar þjóðir um meðferð málsins, við sýndum þeim á engan hátt nein svik eða nein brigðmæli í sambandi við það. Við höfum aldrei brugðizt vestrænni samvinnu, þegar á það hefur reynt. En það er eitt, sem við virðum meira en vestræna samvinnu, það er okkar eigið mál. Það getur vel verið, að ritstjóri Alþýðublaðsins sé þannig settur, að hann þurfi að meta meira vestræna samvinnu en hagsmuni landa sinna, og þess vegna á hann eina skýringu til: Framsóknarmenn meta ekki vestræna samvinnu, þeir þurfa að taka tillit til hinnar austrænu. — Það eitt getur þessi ritstjóri Alþýðublaðsins, hv. 5. þm. Vesturl., skilið, að þeir, sem ekki snúa til vesturs, þeir verða að snúa til austurs. En að meta málefni íslenzku þjóðarinnar meira en tillit til vestrænnar samvinnu eða austrænnar, það er ofar skilningi hans.

Var það framlag til vestrænnar samvinnu, sem Bretinn lagði fram, þegar hann fór með herskip sín inn í íslenzka landhelgi? Var það til þess að tryggja hana? Nei, Bretinn leit fyrst og fremst á sína hagsmuni og mat þá meira. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er ekki framlag til vestrænnar samvinnu að ganga á hagsmuni íslenzku þjóðarinnar. Því aðeins verður vestræn samvinna hér með eðlilegum hætti, að við metum málefni íslenzku þjóðarinnar meira, og það þýðir ekki. hvorki fyrir utanrrh. né aðra, að brosa að slíku. Þeir munu sanna það, að íslenzka þjóðin metur þá mest, sem meta hennar hagsmuni umfram það að fá vinskap hjá þeim, sem þeir halda að séu sér æðri. Þess vegna er það ekki til stuðnings vestrænni samvinnu að bregðast málstað sinnar eigin þjóðar í þeirri von, að þeir ávinni sér vinskap herraþjóða. En þeir munu sanna það, að það er ekki virðing, sem þeir njóta hjá öðrum, er sýna undanlátssemi í málefnum sinnar eigin þjóðar.

Þá kem ég nokkuð að sjálfum samningnum, sem hér á að fara að gera og að vísu er búið að ræða hér allmikið. Ég ætla mér ekki þann hlut að fara út í lögskýringar þær, sem hæstv. dómsmrh. var með hér áðan eða þeir hæstv. ráðherrar, sem eru í lögum lærðir og prófessorar, — hafa verið það a.m.k. tveir hæstv. ráðh. En út af fyrsta atriðinu vil ég þó segja þetta: Hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, þegar hann áréttaði það, sem hann sagði í útvarpsræðu sinni. að fyrsta atriðið væri samkvæmt íslenzka textanum svo skýr viðurkenning á landhelginni sem á yrði kosið. „Þetta er svo skýr viðurkenning sem á verður kosið,“ sagði hæstv. ráðh. En svo segir hann síðast í sinni ræðu, eftir að hann er búinn að lesa upp álitið frá lagaprófessorunum við háskólann, að enski textinn gefi meiri rétt en sá íslenzki. Ég verð að segja það, að mig skortir skilning til þess að skilja það, að þegar ákvæðið er svo skýrt og viðurkenningin svo afdráttarlaus sem á verður kosið, þá sé hægt að koma með fyllri skýringu. Þeir gera það, sem í lögum eru lærðir, klókir að útskýra lög, en haldgott er þetta ekki.

Svo kemur hæstv. fjmrh., sem er líka fyrrverandi lagaprófessor, og hann segir þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég ætla, að það verði ekki vefengt með réttu, að þessi yfirlýsing Breta muni af Sameinuðu þjóðunum og alþjóðadómstólnum metin jafngild viðurkenningu berum orðum.“ — Ég ætla, að það verði ekki vefengt. — Einhvern tíma mundi maður segja, að hér væru leiðirnar opnar til þeirrar strandarinnar, sem bezt væri að fara í það og það skiptið.

Það er fleira, sem gefur ástæðu til að vera dálítið varkár gagnvart þessu atriði, þó að hæstv. dómsmrh. léti í ljós þá skoðun, að það væri ótrúlegt, að þm. skyldu vera að gagnrýna þetta.

Hæstv. utanrrh. fórust um það, að samningarnir yrðu nú haldnir og Bretar mundu fara eftir þrjú ár, orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. Íslands hefur í höndum yfirlýsingu Bretlands um, að ekki verði farið fram á framlengingu heimildarinnar til veiða innan 12 mílna í lok þriggja ára tímabilsins.“

Ég tók það fram áðan, að þjóðin mundi nú taka yfirlýsingu frá hæstv. ráðh. með nokkurri varúð, og færði fyrir því rök, að það væri fullkomin ástæða til þess. Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðh.: Ef það er allt afdráttarlaust, að 12 mílna reglan er viðurkennd, Bretar gera milliríkjasamning um þrjú ár, er þá nokkur ástæða til að vera að gera nokkurn undirsamning? Hvern er hæstv. ráðh. að vefengja hér? Ef viðurkenning á 12 mílna reglunni er alveg ótvíræð, þá léti sá ráðh., sem færi með dómsmálin, hreinsa landhelgina, ef þeir brezku væru með mótþróa.

Ég verð að segja það, að ég lít á þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. sem viðurkenningu á því, að hann er ekki eins sannfærður um ákvæði þessa samnings og hann vill vera láta, enda er það deginum ljósara, að ef þessi undirsamningur væri gerður, sem við skulum nú ætla, þó að yfirlýsingar hæstv. ráðh. hafi getað breytzt, hvaða gildi hefur hann gagnvart síðari ríkisstjórnum í Bretlandi? Er nokkur ástæða til að vera með sérsamning? Er ekki eðlilegast, að það fylgi þessum samningi? Þess vegna finnst mér, að þarna sé líka fólgin viðurkenning hæstv. ríkisstj. á því, að samningurinn, sem hún býðst til að gera við Bretland, er ekki eins pottþéttur og þeir vilja vera láta hér í umr. Ég verð að segja, að það kom mér nokkuð á óvart, af því að ég tel hæstv. ráðh. laginn að leggja mál fyrir, að þessi veila skyldi koma fram í hans ræðu, því að veila er það og ekkert annað.

Hæstv. ríkisstj. mun halda því fram, að þetta sé ekki svo hættulegt, sem um sé verið að semja. Í fyrsta lagi vil ég endurtaka það, sem ég benti á hér áðan, að samningarnir eru mál út af fyrir sig, þar sem það hefur verið regla íslenzkra stjórnvalda og íslenzku þjóðarinnar, að um landhelgi Íslands ætti ekki að semja. Þess vegna er hér verið að fara inn á nýja braut, sem auðvitað á eftir að draga dilk á eftir sér. Og ég vil líka í því sambandi minna á, hvort það hafi verið ástæða fyrir okkur að ætla, að samningarnir, sem hér eru núna á ferðinni, væru komnir á það stig, sem þeir nú eru. Í því sambandi vil ég minna á það, að hér á hv. Alþ. var utanrrh. spurður um þessa samninga 6. febr. s.l. Hann svaraði þá fsp. Þar skýrir hæstv. ráðh. frá því, að þegar hann fór til Parísar í des., þá hefði hann bæði þar og í London átt viðræður við brezka utanrrh. Svo bætir hann við orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessum viðræðum kom ekki fram nein till. eða neitt tilboð af Íslands hálfu um lausn málsins, og við höfum ekki heldur síðar sett fram neina slíka till.

Ég las hins vegar í Alþýðublaðinu „Um helgina“ eftir ritstjórann, að það hefði verið gengið frá þessu máli fyrir nokkrum mánuðum. Það hefðu verið einhverjir toppmenn, sem hefðu fengið að vita, hvað hér var að gerast. En hér á hv. Alþ. er því haldið fram 6. febr., að það sé engin till. og ekkert tilboð komið fram í þessu máli. En 28. febr. er lagt hér fram á hv. Alþ. tilboð frá utanrrh. Íslands til brezku stjórnarinnar. Trúi nú þeir, sem trúa vilja, að málið hafi verið á því stigi, að ekkert hafi verið farið að gera, ekkert tilboð, engin till. komin fram 6. febr., enda segir ritstjóri Alþýðublaðsins, sem að vísu má ekki trúa nema varlega, að það hafi verið búið að fást við þetta mál í marga mánuði. En ég segi: Þegar svona er að farið, höfum við þá ekki rétt til þess að álita, að það geti verið eitthvað fleira en till., sem hæstv. utanrrh. sagði frá, sem væri í fórum hæstv. ríkisstj. um þetta mál og ekki mætti skýra frá nema einhverjum toppmönnum? Svo lesum við síðar í Alþýðublaðinu, að það hafi verið í fórum ríkisstj. fleira um þetta mál en þá var skýrt frá, þegar málið var til meðferðar á Alþ., en það hafi ekki verið gerlegt að skýra frá því vegna stjórnarandstöðunnar. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að þegar þannig er á málum haldið, þá mun ég hafa alla varasemi um að leggja trúnað á málflutning þeirra manna, sem þannig eru sannir að sök.

Þá er því haldið fram í sambandi við þennan samning, að þetta sé ekki mikið, sem þurfi að fórna. Það er tekið til að reikna út, hvað það sé langur tími fyrir þessu og þessu svæði, og er þá venjulega miðað við kjördæmi, og t.d. eru mínu kjördæmi ætlaðir 9 mánuðir í allt, að ég hygg, samkvæmt því samkomulagi, sem hér á að gera. En hvað er hér á ferðinni? Það er verið að afhenda Bretunum viss svæði. Ég dreg mjög í efa, að það muni reynast happadrýgra að láta þá fá viss svæði heldur en landhelgin væri öll opnuð að sex mílum. Þessi svæði, sem þeim eru ofhent, eru miðuð við það, að þeir séu þar, þegar mesta veiðin er. Það á að afhenda með þessum samningi netasvæði Breiðafjarðarbátanna, einmitt á þeim tíma, sem þeir eru þar með sín net. Það mun sýna sig, að þetta mun reynast eins og færikvíarnar. Þar voru blettirnir notaðir alveg út í æsar, áður en farið var á þann næsta. Það mun líka sýna sig í framkvæmdinni, að Bretarnir líta á þessi svæði sem sína eign, sem öðrum sé ekki heimill aðgangur að. Þess vegna mun þessi framkvæmd sízt verða til þess að gera málið betra, enda mun hún miðuð við það, sem Bretarnir sjálfir óskuðu, og þau svæði undanskilin, sem þeir kærðu sig ekkert um. Hraunin í Breiðafirði, sem ekki er hægt að fara með botnvörpu yfir, þau eru ekki ætluð Bretunum, enda þýðingarlaus. Á svæðum Bretanna mun því verða um ofveiði að ræða, og gæti það leitt til landauðnar.

Þá hefur hæstv. ríkisstj. mjög verið að guma af því, að henni hafi tekizt að fá Bretana til þess að afhenda okkur útfærslu á grunnlínunum og beri að þakka það. Bezta sönnunin fyrir þessu máli er spurning konunnar á Selfossi, sem spurði um það, hvort Bretinn ætti Selvogsbanka. Það þótti ekki rétt að þinglýsa hann Bretum.

Þá segja þessir hæstv. ráðh.: Ef vinstri stjórnin gat gert þetta 1958, hvers vegna stóð þá á henni að taka grunnlínurnar með, þegar færð var út landhelgin? Þeir hafa að vísu ekki talað mikið um þetta, hæstv. ráðh. Alþfl., enda væri það að fara aftan að siðunum, ef þeir bættu því nú ofan á annað að fara að deila á aðra fyrir að hafa ekki tekið grunnlínupunktana með í sambandi við útfærsluna 1958. Hverjir voru það, sem heyktust á því máli eins og öðru, nema þeir? En ef þið hafið haft réttinn, því notuðuð þið hann ekki? Ég vil í þessu sambandi minna á það, að bóndinn, sem tekur mýri að vori og ræktar hana, á hana alveg eins í haust, þó að hann hafi ekki notað hana fyrr. Þess vegna hefur það verið, að okkar umráðaréttur yfir þessu svæði er jafn, þótt við höfum ekki notað hann fyrr. Það er engin sönnun þess, að við eigum ekki yfirráðin yfir svæðinu, þó að við höfum ekki notað það fyrr. Við vitum það ósköp vel, að við höfum fært landhelgina út í áföngum, og það mætti segja með sama rétti: Af hverju var ekki fært út í 12 mílur 1952? Af hverju? Það var af því, að það var talið hyggilegt, að fara ekki lengra þá. Þetta vita þeir, sem vilja vita, og það er ekki af ókunnugleika, að svo er spurt nú, heldur af hinu, að það er gerð tilraun til þess að blekkja í þessu sem öðru. Þess vegna er það engin sönnun fyrir því, að við höfum ekki haft yfirráðin yfir grunnlínupunktum, þó að við höfum ekki notað þá fyrr. En það, sem við gerum nú í leiðinni, er það, að við erum að afsala okkur rétti til þess að nota okkur þó útfærslu á grunnlínum, sem við höfum rétt til að framkvæma, áður en þessi samningur er gerður. Það er það, sem við erum að gera, og ættu hæstv. stjórnarliðar að hafa það í huga. Við erum að afsala okkur rétti, sem við höfum, en ekki að vinna rétt.

Þá hefur allmiklum tíma verið eytt í að ræða um það ákvæði samningsins, sem almennt er talið hættulegast, og það er viðvíkjandi framtíðinni. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég tel, að við værum ekki komnir út í 12 mílur núna með okkar fiskveiðilögsögu, ef við hefðum orðið að sækja undir alþjóðadómstól, því að það vita þeir, sem vilja vita, að einmitt vegna þeirra átaka, sem hafa orðið á milli okkar og Breta í þessu máli, hefur málinu sjálfu fleygt fram. Þess vegna er ég sannfærður um það, að við værum ekki búnir að fá dóm fyrir neinum 12 mílum nú. En út af Haagdómstólnum, sem nú er svo mjög á loft haldið og ágæti hans og ég ætla ekki að ræða, því að því máli voru gerð svo góð skil í dag af hv. 7. þm. Reykv., að ég hef enga kunnáttu til þess að bæta þar neinu við, vil ég minna á það, að það hefur verið fyrr gagnrýnt og talið orka tvímælis, hvort við ættum að leita til þess dómstóls. Og þegar menn eru nú að virða fyrir sér, hvort Bretinn haldi sína samninga, þegar þeir eru útrunnir, þó að þeir væru pottþéttir, þá er gott að hafa það í huga, að samningurinn, sem danska stjórnin gerði við þá, rann út og honum var sagt upp á löglegan hátt, og við tókum til okkar ráða eftir það. En hvað gerði Bretinn? Hann sagði ekki: Þetta er allt í lagi, því að við erum búnir að fá okkar samningi fullnægt, eins og til stóð. — Nei, hann ætlaði að reyna að svelta okkur inni. Þá áttum við í deilu, og þá var rætt um Haagdómstólinn í því máli. Þann 7. júní 1953 flutti núv. hæstv. forsrh., sem þá var sjútvmrh., ræðu á sjómannadaginn hér í Reykjavík. Þann dag mun hann hafa verið gerður að „heiðurssjómanni“ Íslands. Þá sagði hæstv. forsrh. í sambandi við Haagdómstólinn þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hvers vegna skyldu Íslendingar líka vera að leita uppi einhverja þá aðila, Haagdómstólinn eða aðra, sem kynnu að vefengja gerðir Íslendinga, og kosta til þess bæði fé og fyrirhöfn?“

Það er ekki nýtt í dag, að menn hafi skiptar skoðanir á ágæti þessa dómstóls. Hæstv. forsrh. sagði þetta einmitt um þetta mál, um Haagdómstólinn, 1953. Þess vegna þarf engan að undra, þó að menn séu gagnrýnandi á það, þegar á að afhenda þessum dómstóli alla möguleika til frekari útfærslu á landhelgi Íslands. Ekki sízt eigum við að gjalda þar varhug við, þegar það er haft í huga, að við eigum raunverulega okkar þjóðartilveru undir því að hafa þessi yfirráð.

Nú munu menn hugsa: Hvers vegna er nú verið að þessu, ef þetta er eins slæmt og þið stjórnarandstæðingar viljið vera láta? Leynist ekki hér einhver betri hlutur í þessum samningi en þið viljið eða teljið að sé? Ég vil nú svara þessu með því að benda á þær yfirlýsingar, sem ég las hér áðan um allar fullyrðingarnar um, að ekki yrði samið í þessu máli, og hafa stjórnarsinnar ekki verið neinir eftirbátar um það. Af hverju voru stjórnarliðar með þessa svardaga gegn samningum, ef þeir voru svo góðir sem nú er ætlað? Svari þeir, sem svara vilja.

En ég vil einnig minna á það, sem ég gat um hér í upphafi máls míns, að óheilindi komu fram í þessu máli þegar í upphafi. Það var ekki fyrr en þjóðareiningin var svo sterk, að ekki þótti gerlegt að láta sjást í úlfshárin undir sauðargærunni, að skipt var um skoðun og breytt um stefnu í þessu máli. Hins vegar sagði ég það líka í upphafi míns máls, að þetta mundi hafa verið meiri tengiliður í samstarfi stjórnarflokkanna en almennt hefði verið gerð grein fyrir.

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ræða það, hvers vegna það er, að þessir flokkar hafa setið á svikráðum um málið. Það má ætla, að þeirra hugsunarháttur gagnvart erlendum þjóðum, voldugum og sterkum þjóðum, sé þannig, að þeir treysti sér ekki eða hafi ekki þrek til þess að halda uppi andstöðu við þær. En mig langar líka til þess að spyrja um eitt: Þann 24. ágúst 1958 héldu þeir sjálfstæðismenn mikla samkomu uppi í Ölver í Hafnarskógi. Pétur Benediktsson bankastjóri var þar aðalræðumaður samkomunnar, og var ræða hans birt í Morgunblaðinu. Það kenndi margra grasa í þessari ræðu, og þar sagði bankastjórinn frá því, að Alþfl. hefði verið svínbeygður í málinu. En hann sagði fleira. Hann sagði þetta m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Það er auðséð á erlendum fréttaskeytum, að víða hefur sama spurningin vaknað: Hvað kostar það margar millj. dollara að fá íslenzku ríkisstj. til þess að renna þessum kröfum niður?“ Það segir svo gamalt máltæki: Eins og þú heilsar öðrum, ávarpa aðrir þig. Og nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., því að hún er að renna bitanum niður: fylgja bitanum dollarar og pund, eða hvað var það, sem gerði það að verkum, að þið rennið honum niður? Það er nokkur ástæða til að ætla, að hér liggi ekki allt ljóst fyrir. Hvað veldur?

Ég hef hér í ræðu minni að framan drepið nokkuð á sögu þessa máls og þau atriði, sem hér eru að gerast. En ég vil í lok hennar minna á helztu atriðin, sem nú eru að gerast í landhelgismálinu. Í fyrsta lagi þetta: Samningar um íslenzka landhelgi hafa aldrei fyrr verið gerðir af íslenzkum aðilum. Allar aðgerðir okkar í landhelgismálinu hafa verið útfærsla og meiri landhelgi. Nú er hins vegar verið að færa landhelgina inn. Ein þjóð hefur sýnt okkur ofbeldi, og henni er nú boðið upp á samninga. Ofbeldisþjóðin hafði tapað. Smán og hugleysi íslenzku ríkisstjórnarinnar leysir hana nú af hólmi og skapar henni sigur í málinu. Margendurteknar yfirlýsingar íslenzkra stjórnvalda og þjóðarinnar um, að aldrei yrðu gerðir samningar í landhelgismálinu, eru að engu hafðar. Árangurinn af þessum samningum, ef gerðir verða, verður þessi: 1) Ofbeldinu er boðið heim í framtíðinni. 2) Virðingarleysi fyrir heigulshætti þjóðarinnar verður algert hjá öðrum þjóðum. Frekari leiðum til útfærslu í landhelgismálum með einhliða ákvörðun íslendinga er lokað. Ríkisstj., sem þannig heldur á málum þjóðar sinnar, mun ekki heldur uppskera virðingu hennar.

Ég drap á það hér í ræðu minni áðan, að við hefðum fyrr átt í deilum við Breta út af íslenzkri landhelgi. Ég vitnaði þá í ræðu hæstv. núv. forsrh. (ÓTh), sem hann flutti á sjómannadaginn 7. júní. Og ég ætla nú að lokum að vitna einnig í þá ræðu. Þar er hæstv. ráðh. að skýra frá viðræðum sínum við brezk stjórnarvöld um landhelgismálið, og þar segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Og að lokum: Í viðræðunum, er ég átti um síðustu áramót við stjórn Bretlands, tók ég fram, að hvorki núv. ríkisstj. Íslands né nein önnur vildi víkja í þessu máli. Það gæti heldur engin íslenzk ríkisstjórn gert, þó að hún vildi. Sú stjórn, sem það reyndi, yrði ekki lengur ríkisstj. Íslands. Hún yrði að láta sér nægja að vera fyrrverandi ríkisstjórn.“

Og það er skoðun mín og trú, að þannig muni einnig fara fyrir þessari hæstv. ríkisstj., að hún sanni það, að sú stjórn, sem lætur sér sæma að vera með undanlátssemi í landhelgismálinu, verði að sætta sig við það að vera fyrrv. ríkisstj.