07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (2421)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Skúli Guðmundsson:

Ég vil fyrst leyfa mér að vekja athygli hæstv. forseta á því, að það vantar ákaflega marga þm. í fundarsalinn, og ég vil bera fram þá ósk til hans, að hann láti kveðja þm. til fundar og þeir komi í fundarsalinn. (Forseti: Ég hef nú þegar hringt til fundar.) Mundi ekki einhver vilja fara fyrir forseta og hafa samband við þingverði, vita, hvort þeir vildu ekki reyna að smala mönnum inn í fundarsalinn? Ég sé, að hér er nú annar hæstv. varaforseti staddur, og e.t.v. vildi hann aðstoða við þetta. (Gripið fram í.) Ég ætla þá að sjá, hver árangur verður, og ég vildi mjög óska þess, að hæstv. dómsmrh. væri við. Ég þarf lítið eitt að ræða við hann. Nú fyrir skammri stundu voru miklu fleiri þm. en þetta hér í húsinu. (Forseti: Ef ræðumaður óskar eftir, getur hann beðið með sína ræðu. Ég get hleypt næsta manni að á meðan.) Ég skal doka við, herra forseti. Ég vil gjarnan einmitt komast að núna, en ég vil ítreka ósk mína, og ég vil sérstaklega taka fram, að ég er óánægður með það, hvað fáir eru hér af stuðningsmönnum stjórnarinnar. Hér eru í fundarsalnum 2 auk hæstv. forseta, — það eru 3 alls, — ég sé glitta í einn hæstv. ráðh. hér í hliðarherberginu, það eru 4 af 33.

Ég hef sérstakt erindi við þessa menn öðrum fremur, stuðningsmenn ríkisstj., og ég tel, að ég hafi hér lög að mæla, að menn eigi að koma á fundinn, því að upphaf 33. gr. þingskapa vorra er þannig: „Skylt er þm. að sækja alla þingfundi, nema nauðsyn banni.“ Ég minnist þess ekki, að í upphafi fundar hér í dag væri lýst forföllum, svo að ég vil enn leyfa mér að ítreka þá eindregnu ósk við hæstv. forseta, að hann láti gera gangskör að því að kveðja menn á fundinn. Eins og ég sagði, þarf ég sérstaklega að beina máli mínu til hv. stuðningsmanna ríkisstj., og 29 af þeim eiga að vera hér einhvers staðar utan dyra enn þá. (Forseti: Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að boða þm., sem hér eru í húsinu, á fundinn. En ég ítreka og endurtek tilboð mitt til hv. þm. um að fresta sinni ræðu, þar til fleiri eru viðstaddir þeirra þm., sem hann telur sig helzt eiga erindi við.) Já, ég þakka nú hæstv. forseta gott boð. En ég vildi mælast til þess, að ekki yrði látið við það sitja að kveðja þá til fundar, sem eru hér í húsinu. Hér er sími og símaþjónusta, og það er auðvelt að ná til manna oft, þó að þeir séu utan þinghússins, og ég tel það ekkert betra, þó að einhver annar fái að tala hér að svo mörgum fjarstöddum heldur en ég. Mönnum er skylt að sækja fundi. Þetta er að flestra dómi mjög stórt mál, sem hér liggur fyrir. Allmargir hafa þegar rætt um það, og nokkuð margir eru enn á mælendaskrá. Ég tel þetta mjög eðlilegt, þegar um slíkt stórmál er að ræða. Það getur áreiðanlega, orðið mjög örlagaríkt, hvernig fer um afgreiðslu þessarar till., sem hér liggur fyrir. Menn voru hér á fundi langt á nótt fram s.l. nótt, og eins og ég sagði, eru enn margir á mælendaskrá, þótt enginn muni enn hafa talað nema einu sinni, nema e.t.v. einhverjir af ráðh., — ég man það ekki. En ég vildi nú beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að meðferð málsins verði hér eftir hagað þannig, að menn fái að ræða um það hér að degi til, en ekki á næturþeli, þegar svo og svo margir eru fjarverandi, og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en hæstv. forseti muni haga þessu á þann veg.

Ég vildi spyrja, hvort hæstv. forseti hefði óskað eftir því, að það væri hringt til þm. og þeir beðnir að koma á fundinn. (Forseti: Ef hv. þm. treystir sér ekki til að flytja sína ræðu nú, þá mælist ég til þess, að hann felli nú niður mál sitt og bíði betri tíma.) Það er langt frá því, að ég treysti mér ekki til að flytja mína ræðu, en ég tel mig eiga nokkurn rétt á því, að þeir, sem hér eiga að vera og taka þátt í fundarstörfum, séu viðstaddir. Hæstv. forseti hefur ekki svarað minni spurningu um það, hvort hann hafi óskað eftir því, að menn væru kallaðir á fund, þótt þeir séu nú um þessar mundir hér utan húss. Ég vildi mjög óska þess, að það væri gert, og er ekki til mikils mælzt við menn, þótt þeir komi á fundinn. Ég skal að vísu byrja á minni ræðu, en maður getur þá séð til, hvernig tekst með heimturnar, nokkru síðar.

Þessi till., sem hér liggur fyrir, heitir till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Ég er hræddur um, að svo geti farið, að þetta reynist öfugmæli eins og ýmislegt fleira, sem komið hefur frá hæstv. núv. ríkisstj. Ég tel mikla ástæðu til þess að ætla, að þetta verði alls ekki til að leysa fiskveiðideiluna við Breta, þannig hefur verið að málinu unnið. Ég gæti vel trúað því, að deilan einmitt blossaði upp, jafnvel enn verri en áður, ef þessi till. verður samþ. Bretar voru hættir hernaði sínum hér við Ísland. Þeir hættu honum fyrir alllöngu, tímanlega á s.l. ári, og ég tel ekki líkur til, að þeir mundu hefja hingað herferðir á ný. En hins vegar lítur út fyrir, að þeir hafi getað hrætt hæstv. ríkisstj. til þess að ganga til samninga með hótunum um það, að þeir mundu senda herskip sín hingað aftur. Og þó að þeir þannig hafi kúgað ríkisstj. Íslands til samningagerðar, þá er það ekki líklegast til að leysa fiskveiðideiluna við Breta, síður en svo. Að vísu sagði hæstv. utanrrh. í ræðu sinni áðan, að í inngangi orðsendingarinnar væri eitthvað um þetta. Jú, mikið rétt. Í inngangi orðsendingarinnar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Með tilliti til þessara viðræðna er ríkisstj. mín reiðubúin að leysa deiluna á eftirfarandi grundvelli.“ En er þetta fullgild sönnun þess. að deilan leysist með orðsendingunni? Er það fullgild sönnun fyrir því, að deilan verði leyst, þó að hans háæruverðugheit, Guðmundur Í. Guðmundsson, utanrrh. Íslands, sendi utanrrh. Bretlands orðsendingu um það, að hans ríkisstj., Guðmundar Í. Guðmundssonar, sé reiðubúin að leysa deiluna á þeim grundvelli, sem segir í nefndri orðsendingu? Ég fæ ekki séð, að í þessu fellst nokkur sönnun fyrir því, að deilan leysist.

Eins og ég nefndi áðan og öllum er kunnugt, héldu Bretar hér uppi hernaði á Íslandsmiðum frá því í byrjun septembermánaðar 1958 og nokkuð fram á árið 1960. Þeir sendu skip sin til veiða í íslenzkri landhelgi, vernduð af herskipum. Starfsmenn íslenzku landhelgisgæzlunnar lögðu sig vel fram á þessu tímabili við hinar örðugustu aðstæður. Þeir fylgdust með landhelgisbrotunum, stóðu lögbrjótana að verki og skráðu kærur á þá. Þegar Bretar létu undan síga og stefndu vígdrekum sínum og veiðiflota héðan burt á fyrri hluta s.l. árs eftir mjög misheppnaða útgerð að allra dómi, þá hafði safnazt fyrir hjá íslenzkum yfirvöldum mikið af kærum á brotlega brezka togaraskipstjóra. Þeir höfðu þessar rökstuddu kærur hangandi sem sverð yfir sér. En hvað gerðist svo? Dómsmálastjórnin íslenzka tók þá ákvörðun að gefa öllum þessum lögbrjótum upp sakir. Kærumálin voru dregin til baka fyrir fullt og allt. Til lítils höfðu íslenzkir varðskipsmenn unnið og sett sig í hættu til þess að sanna sakir á hendur þeim útlendu yfirgangsmönnum og lögbrjótum, sem hér voru að verki. Þetta var fyrsti leikur Íslandsstjórnar í taflinu við Breta árið sem leið. Áreiðanlega óvenjuleg taflbyrjun að leika af sér einum af sterkustu mönnum á taflborðinu þegar í upphafi skákar. Líklega vonlítið fyrir ríkisstj. Íslands að koma þessari byrjun sinni í skákfræðirit sem fyrirmynd.

Framhaldið af hálfu Íslandsstjórnar er í samræmi við þetta, hver afleikurinn öðrum verri og niðurstaðan í samræmi við það.

Ætli Bretar hefðu haft sama hátt á, ef þeir hefðu haft svipaðar sakir á Íslendinga? Er ekki trúlegra, að þeir hefðu fremur notað sér þá aðstöðu í samningum?

Já, erfiðlega gengur. Nú eru ekki nema 5 af stjórnarliðinu hér. 28 vantar. Ég vil enn mjög óska þess við hæstv. forseta, að hann láti gera tilraun til smölunar. (Forseti: Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að boða þingmenn á fund, og ef þeir ekki koma, þá er ekkert við því að gera.) Ég skil, að það er erfitt fyrir forseta að ráða við það. Ekki getur hann farið sjálfur úr stólnum að skipa þeim að koma á fund. En ég verð samt að láta í ljós mikla óánægju yfir þessu, og ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta að gefnu tilefni, að næst, þegar sæmilega verður mætt hér, bendi hann mönnum á þeirra þingmannsskyldur.

Ég mun þá einkum ræða hér um eitt atriði í þessari orðsendingu, sem ríkisstj. ætlar að senda til utanrrh. Bretlands, en orðsendingin er prentuð hér sem fskj. með tillögunni. Það, sem ég vildi einkum minnast á, er nokkuð af því, sem stendur í 4. tölulið orðsendingarinnar. Þar er m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstj. Bretlands slíka útfærslu með sex mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins.“ Þetta hefur oft verið lesið áður hér í umræðunum, því að þetta er veigamikið atriði og oft til þess vitnað.

Mér sýnist ljóst af þessu, sem þarna er sett fram, að Bretar og Íslendingar eigi hér að vera jafnréttháir aðilar, báðir hafa jafnan rétt til málskots til alþjóðadómstólsins, báðir sama rétt. Hvað þýðir það, ef Alþingi samþykkir þetta? Mér skilst, að það þýði staðfestingu á óuppsegjanlegum samningum um, að Bretar skuli hafa sama rétt og Íslendingar á miklum hluta landgrunnsins við Ísland. Eins og bent er á í nál. 1. minni hl. utanrmn. á þskj. 448, er með þessum samningi þrengdur og skertur réttur Íslendinga til grunnlínubreytinga, og verði samningurinn staðfestur, geta Íslendingar ekki fært fiskveiðilandhelgina út um einn þumlung, nema Bretar samþykki eða alþjóðadómstóll úrskurði, að það sé leyfilegt.

Hæstv. dómsmrh. flutti ræðu við útvarpsumræðuna 2. marz s.l. um þetta mál. Það var síðasta ræðan, sem flutt var við þá umræðu. Hæstv. ráðh. las upp þennan kafla úr orðsendingu utanrrh., þennan kafla, sem ég var nú að lesa, — og síðan sagði hæstv. ráðherra, samkvæmt því, sem birt er í Morgunblaðinu. — ræða hans var birt þar. Ég vil gera ráð fyrir, að hún sé þar rétt flutt, hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þessu bindur Ísland sig hvorki við viðurkenningu, sem fást kynni með málaleitan eða samningum við einstök ríki, Bretland eða önnur, né við alþjóðasamninga, heldur áskiljum við okkur rétt til þess að gera einhliða ákvarðanir um stækkun, jafnskjótt og við teljum, að einhver sú réttarheimild sé fyrir hendi, sem alþjóðadómstóllinn viðurkennir.“ — Það virtist vera allhátt ris á hæstv. ráðherra í þessari útvarpsræðu. Hann sagði, að Ísland byndi sig hvorki við viðurkenningu, sem fást kynni með málaleitan eða samningum við einstök ríki, Bretland eða önnur, né heldur við alþjóðasamninga. Við bindum okkur ekki við neitt af þessu, sagði hæstv. ráðherra, heldur áskiljum við okkur rétt til að gera einhliða ákvarðanir um stækkun, jafnskjótt og við teljum, að einhver sú réttarheimild sé fyrir hendi, sem alþjóðadómstóllinn viðurkennir. En er þá þessi réttur okkar tryggður í orðsendingunni til Breta? Nei, það er eitthvað annað. Það er tilkynningarskylda við Breta, og þeir geta skotið málinu til alþjóðadómstóls. Það er ekki nóg, að við teljum, að réttarheimild sé fyrir hendi, eins og hæstv. ráðherra sagði í útvarpsræðunni, — það er ekki nóg. Þarf ekki dómur alþjóðadómstólsins að hafa fallið okkur í vil, áður en útfærslan tekur gildi? Hvað segja Bretar um það, og hvað segir íslenzka ríkisstj. um það? Hæstv. dómsmrh. vék að þessu í ræðu sinni hér í gær. Hann sagði, að þjóðinni væri með þessu tryggður mikilsverður réttur. Hann sagði, að við gætum tekið einhliða ákvörðun, sem tæki gildi að sex mánuðum liðnum, ef þá væri ekki búið að hnekkja útfærslunni með úrskurði alþjóðadómstólsins. Hann sagði, að þetta væri alveg ljóst. — Um þetta er ekkert sagt í orðsendingunni, ekkert sagt um það þar. Gera mætti ráð fyrir því, að Bretar þurfi einhvern umhugsunarfrest, þegar þeim berst orðsendingin. Þó má ætla, að hann verði ekki langur, því að að fenginni reynslu af þeim góðu mönnum má ætla, að þeir mundu umsvifalaust skjóta máli til alþjóðadómstólsins, ef orðsending væri komin og ef hún fæli það í sér, að um einhverja útfærslu væri að ræða eða Íslendingar óskuðu eftir slíku. En hvað eru miklar líkur fyrir því, að alþjóðadómstóllinn verði búinn að kveða upp fullnaðardóm í slíku máli, að sex mánuðum liðnum eða jafnvel tæpum sex mánuðum liðnum, frá því að málinu var til hans skotið? Ég efast satt að segja mjög um það, að hæstv. dómsmrh. vor hér á Íslandi geti gefið dómstólnum nokkrar fyrirskipanir um það, að hann skuli hraða svo störfum, að fullnaðarúrskurður verði kominn eftir sex mánuði.

Hæstv. utanrrh. talaði nokkuð um þetta áðan í sinni ræðu einnig. Hann sagði þar: Bretar geta skotið máli til dómsins, ekki ákvörðun um útfærslu, sagði hæstv. ráðherra, — ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, — heldur framkvæmd útfærslunnar. Og hann sagði: Ef dómurinn er ekki búinn að kveða upp sinn úrskurð innan sex mánaða, þá kemur útfærslan til framkvæmda. — Eins og ég sagði er ekkert um þetta í orðsendingunni, það vantar algerlega í samninginn, — og hvað segja Bretar um þetta atriði? Það er ekki ákvörðun um útfærslu, sem Bretar geta skotið til dómsins, heldur framkvæmd útfærslunnar, segir hæstv. utanrrh. En hvað segir hann eða ríkisstj. hér á fyrstu síðu á því þskj., sem fyrir liggur? Þar er í aths. sagt: „Þessi lausn felur í sér fjögur meginatriði.“ Og fjórða atriðið er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. Íslands lýsir yfir því, að hún muni halda áfram að vinna að framkvæmd áætlunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland og að ágreiningi um hugsanlegar aðgerðir skuli visað til alþjóðadómstólsins.“ — Þarna er talað um, að það eigi að skjóta til alþjóðadómstólsins ágreiningi um hugsanlegar aðgerðir. En nú segir hæstv. utanrrh., að það sé aðeins framkvæmd útfærslunnar, sem Bretar geti skotið til alþjóðadómstólsins. Hvað er nú rétt í þessu? Ég fæ ekki satt að segja gott samhengi í þetta.

Hæstv. dómsmrh. kom hér í gær með bréf frá lagadeild háskólans, las það tvisvar yfir þingheimi, og hæstv. utanrrh. las væna glefsu úr því hér á fundi í dag. Það er síður en svo, að ég geri lítið úr því, sem þeir segja, þeir vísu menn við háskólann, í lagadeild háskólans. Það eru merkir menn þar, og það er sjálfsagt að hlýða á það, sem þeir segja, taka tillit til þess. En ég er ákaflega hræddur um, að Bretastjórn muni ekki telja sér skylt að fara eftir því, sem þessir ágætu lagamenn okkar hér segja um skilning á einstökum atriðum í orðsendingunni. Ég óttast það mjög, að hún telji sig ekki bundna af slíku. Þrátt fyrir það væri fróðlegt að fá að heyra álit þeirra í lagadeildinni um fleira viðvíkjandi þessu, eins og t.d. því atriði, sem ég var að tala um hér áðan, um hugsanlegar aðgerðir og framkvæmd, það væri eiginlega þrennt: þær hugsanlegu aðgerðir, þ.e. þegar ráðherrum dettur eitthvað í hug um þetta, það er ákvörðun um aðgerðir, og það er framkvæmd útfærslunnar. Þetta þrennt er hér allt saman á ferð í þingskjalinu og ræðum hæstv. ráðherra. Óneitanlega finnst mér, að það kæmi til álita og umhugsunar fyrir þá að skrifa nú nýtt bréf til lagadeildar háskólans og fá frá henni álit um það, hvað þetta þýði allt saman. En eins og ég sagði, það er vafasamt, að það hafi nokkurt úrslitagildi í samningum við Bretastjórn, þegar til framkvæmdanna kemur.

Ég var áðan að tala um alþjóðadómstólinn í tilefni af því, sem fram hafði komið í ræðum hæstv. ráðherra. Mér sýnast eiginlega ákaflega litlar líkur fyrir því, að þeir verði það viðbragðsfljótir þar, þegar ágreiningsmáli samkvæmt þessum samningi verður til þeirra skotið, að þeir verði búnir að kveða upp fullnaðardóm í málinu að liðnum sex mánuðum. Trúlegra þætti mér, að það yrði mörgum sinnum sex mánuðir, sem þyrfti að bíða eftir þeirra úrskurði. En hitt er líka líklegt, að þeir mundu innan sex mánaða tímatakmarkanna kveða upp úrskurð um það, að allt skyldi óbreytt standa, meðan þeir væru að íhuga málið, þar til fullnaðardómur frá þeim væri kveðinn upp. Þetta þykir mér langlíklegast, og þess vegna eru það blekkingar, þegar hæstv. ráðherrar eru að gefa í skyn í ræðum sínum, að það sé trúlegt, að þannig fari, að Íslendingar geti framkvæmt útfærsluna eða hún geti komið í gildi innan sex mánaða. Það eru allar líkur til þess, að yfirleitt, — ég skal ekki segja hvað yrði í undantekningartilfellum, — en yfirleitt yrði það þannig, að Íslendingar yrðu að bíða mörgum sinnum sex mánuði eftir úrskurði frá þeim dómstóli og gætu enga breytingu fengið á fiskveiðilandhelginni þann tíma, meðan beðið væri eftir þessum úrskurði. (Gripið fram í.)

Ég teldi það nokkuð gott, ef allir flokksbræður hv. 1. þm. Vestf. tækju hann til fyrirmyndar í því að sækja fundi — því að hann lætur sig sjaldan vanta hér á fundum.

Hæstv. dómsmrh. talaði í útvarpsræðu sinni 2. marz um samþykkt þá um landhelgismálið, sem Alþingi gerði 5. maí 1959, og hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórða meginatriði samþykktar Alþingis hinn 5. maí 1959 var, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948.“

Hæstv. dómsmrh. hélt því fram í þessari útvarpsræðu sinni, að með samningnum við Breta væri ríkisstj. að framkvæma þessa yfirlýstu stefnu Alþingis, að afla viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Þetta er einmitt þveröfugt. Með því að semja um sérstakan rétt Breta yfir miklum hluta landgrunnsins er stigið stórt spor aftur á bak, en ekki áfram, í þessu mikla réttinda- og hagsmunamáli íslenzku þjóðarinnar. Með samningnum er stigið spor aftur á bak, landhelgin er færð inn um þriggja ára skeið. Það er hörfað til baka.

Hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni í dag, að það hefði ekki verið talið afsal á landsréttindum 1952 að bjóðast til að vísa málinu til alþjóðadómstólsins. Við þetta er það að athuga, þennan samanburð hæstv. ráðh., að þá höfðu Íslendingar sjálfir úrskurðarvald um það, hvort mál færi til dómsúrskurðar hjá alþjóðadómstólnum eða ekki. Það var alveg á þeirra valdi. En verði þessi tillaga samþykkt, þá afsala þeir sér því valdi.

Hæstv. utanrrh. fór líka að ræða um þær athuganir, sem fram fóru á vegum NATO árið 1958 um möguleika til að fá fyrir fram viðurkenningu, ekki aðeins Breta, heldur einnig annarra þjóða, á útfærslu landhelginnar, og hann vill enn sem fyrr reyna að halda því fram, að þetta sé eitthvað sambærilegt við þann kúgunarsamning, sem Íslandsstjórn er nú að gera við Breta. Ég er ekki að hafa um þetta mörg orð. Það er búið svo margsinnis að reka þetta ofan í hæstv. ráðh., að það er ekki þörf á því að gera það oftar.

Það er alveg nýtt í okkar sögu að semja af þjóðinni rétt, sem hún hefur. Það sjá menn glöggt, ef þeir virða fyrir sér sjálfstæðisbaráttuna á liðnum tíma. Það er alveg rétt, sem bent er á í nál. hv. 1. minni hl. utanrmn. á þskj. 448, að allt síðan Jón Sigurðsson hóf merki hinnar stjórnarfarslegu sjálfstæðisbaráttu fyrir meira en öld, hefur þjóðin fylgt þeirri grundvallarreglu hans að afsala sér aldrei neinum rétti til frambúðar, heldur búa fremur við ofríki og valdbeitingu um stund. Með afsali hins einhliða útfærsluréttar er þessi höfuðregla Jóns Sigurðssonar þverbrotin, ef þetta verður samþykkt. Það hefur aldrei verið stigið spor aftur á bak í sjálfstæðisbaráttunni, eins og þarna er vikið að, Íslendingar hafa aldrei afsalað sér neinum rétti, ekki skilað aftur neinu af því, sem unnizt hafði, aldrei stigið skref til baka. Það eru óteljandi dæmi, sem færa má um þetta allt frá dögum Jóns Sigurðssonar.

Ég skal ekki eyða löngum tíma í að nefna slík dæmi, en ég get þó ekki stillt mig um að nefna aðeins þá miklu baráttu, sem hér fór fram fyrir rúmlega hálfri öld, árið 1908. Það er lærdómsríkt fyrir okkur nú að íhuga þá sögu. Þá gerðist það snemma á því ári, að send var 7 manna nefnd af Íslandi suður til Kaupmannahafnar til þess að leita samninga við Dani um okkar sjálfstæðismál. Menn vita, hvernig þeir samningar gengu. Sex af Íslendingunum gerðu samning eða uppkast að frv. um þessi mál í félagi við dönsku nefndarmennina. Einn Íslendingur reis á móti, gerði ágreining, og í kosningunum sumarið 1908, sem eru einhverjar sögulegustu alþingiskosningar, sem hér hafa farið fram, gerðist það, að málstaður stjórnarinnar varð í mjög miklum minni hluta. Þær tillögur, sem þessi eini íslenzki nm. hafði borið fram, fengu slíkan hljómgrunn hjá þjóðinni, að þeir frambjóðendur og þeir flokkar, sem stóðu þeim megin í baráttunni, unnu glæsilegan sigur. Það voru ýmsir merkir menn, sem áttust við hér 1908. Margir menn, sem tóku þátt í þessari baráttu, þá ungir að árum, komu síðar mjög við sögu í okkar stjórnmálum. Þeir gáfu út blöð til styrktar sínum málstað. Auðvitað voru líka gefin út blöð, sem fluttu málstrað stjórnarinnar og meðmæli með því, að uppkastið svokallaða yrði samþykkt. Eitt af þeim blöðum, sem gefið var út hér um þessar mundir, hét Ingólfur. Þeir, sem þar að stóðu, börðust ákaflega hart á móti uppkastinu. Ritstjórar og eigendur þessa blaðs voru Ari Jónsson og Benedikt Sveinsson. Ég geri ráð fyrir því, að flestir þm. kannist við þessa menn, a.m.k. allir þeir eldri, og ég tel það alveg öruggt, að a.m.k. sumir ráðherrarnir kannist við þá, einkum við Benedikt Sveinsson. Í blaðinu Ingólfi, sem út kom árið 1908, er grein, sem ber yfirskriftina „Horfur“. Þar er verið að fjalla um þetta nefndarstarf, sem þá átti sér stað suður í Kaupmannahöfn, og upphaf greinarinnar er þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin situr og vinnur, að því er menn þykjast bezt vita, og hún situr þegjandi að vinnu sinni.“

Það bárust líka litlar fregnir af samningum núv. Íslandsstjórnar við Bretastjórn. Þeir sátu og unnu, að því er menn bezt vissu. Þeir sátu þegjandi við vinnu sína, eins og nefndin í Kaupmannahöfn 1908. Það bárust engar fregnir af þessu fyrr en fyrir einni viku, þegar við sáum vinnuna hér á Alþingi.

10. maí 1908 kom frétt frá Danmörku í Ingólfi um, að nefndin hefði klofnað. 17. maí birti blaðið uppkastið, þ.e.a.s. till. meiri hl., og 24. maí brtt. Skúla Thoroddsens. Í Ingólfi 24. maí 1908 birtist grein um sambandslagamálið, sem ber fyrirsögnina „Vonbrigði“. Þar eru látin í ljós mikil vonbrigði yfir nefndarstarfinu, útkomunni af nefndarstarfinu. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Gamla verzlunin að selja oss nokkurn hluta þess, er vér einir áttum, fyrir þann hlutann, er vér sízt máttum án vera.“ — Gamla verzlunin að selja oss nokkurn hluta þess, er vér einir áttum, fyrir þann hlutann, er vér sízt máttum án vera.

Þjóðin hafnaði þessari verzlun 1908.

Það er verzlað líka núna. Bretar eru snjallir verzlunarmenn. Þeir hafa haft mikli viðskipti bæði við nýlendur og aðra á liðnum tímum. Þeir hafa haft af því mikinn ágóða. Og nú hafa þeir verzlað við Íslandsstjórn. Nú voru menn hér, sem vildu verzla. Og Bretar bjóðast til að selja Íslendingum dálítinn hluta af flóum hér við ströndina, og Íslandsstjórn guðsfegin að fá að kaupa þetta og lætur þá hafa mikilsverð réttindi í staðinn. Hvernig skyldi verða litið á það í Bretlandi núna, ef samningurinn hefði m.a. hljóðað upp á það, að Íslendingar seldu Bretum einhvern hluta af einhverjum flóa við Englandsströnd? Hvað ætli væri sagt um það úti í Bretlandi? Þeir hafa líklega aldrei hugsað svo hátt, okkar hæstv. ráðh., að bjóða Bretum að borga þeim í sömu mynt, þegar Bretar buðust til að selja þeim flóana hér við Ísland eða hluta af þeim.

Mig langar að vitna svolítið meira í Ingólf, það var gott blað á sinni tíð. (Gripið fram í: Og er enn.) Já, það er enn, það er rétt, gott blað enn. 7. júní 1908 birtist í Ingólfi kafli úr ræðu, er Einar Hjörleifsson flutti á borgarafundi 2. júní 1908, og auðvitað snýst hún mest um þetta mikla hitamál, sem þá var efst í hugum allra hér, sambandsmálið. Einar Hjörleifsson segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir (þ.e.a.s. meðmælendur samningsins) segja, að tækifærið sé svo mikið til að þroskast undir þessu fyrirkomulagi, það verði okkur enginn þrándur í götu fyrst um sinn.“ — Heyrum við ekki þetta núna líka? Það er svo mikill sigur að fá þetta samkomulag. Þjóðin mun þroskast undir þessu fyrirkomulagi.

Og Einar Hjörleifsson hélt áfram: „Þessu halda fram ýmsir góðir og þjóðræknir Íslendingar. Samt tel ég engan vafa á því, að innst í sálum þeirra sé slæðingur af þessari hugsun: Þetta hafa Íslendingar aldrei gert áður“. — Og hann heldur áfram: „Þeir hafa aldrei gefið nokkurri annarri þjóð óafturkallanlegt vald á nokkru íslenzku máli.“ — Og síðan segir hann: „Við gerum það ekki, við gerum það aldrei.“

En hvernig skyldi það vera núna? Skyldi nokkur slæðingur af þeirri hugsun komast inn í sálir þeirra, sem ríkisstj. ætlast til að samþykki þessa till., að þetta hafi Íslendingar aldrei gert áður og þetta eigi ekki að gera? Ég spyr.

Í Ingólfi 14. júní 1908 segir svo um sambandslagafrv., sem þá var nú komið hingað og menn höfðu fengið tíma til að athuga nokkuð, í grein í blaðinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndarmennirnir sex létu svo gífurlega af ágæti þess, þegar þeir flutu á land, að ýmsum var í fyrstu erfitt að átta sig á því, að sú umsögn væri alger uppspuni og blekkingar.“

Nú fljóta menn ekki yfirleitt á land, nú fljúga menn í land, — svona hafa framfarirnar orðið miklar í samgöngumálunum, — en er þetta ekki eitthvað svipað, sem er að gerast núna? Þeir létu svo gífurlega af ágæti þess. Ætli þeir hafi getað látið nokkuð meira af því en núv. ríkisstj. af ágæti þessa samnings? Og ýmsum var í fyrstu erfitt að átta sig á því, að sú umsögn væri alger uppspuni og blekkingar. Þetta hefur rætzt hér. Í fyrstu var ýmsum erfitt að átta sig á þessu, og þess vegna gat hæstv. ríkisstj., af því að hún hafði betri aðstöðu en aðrir, af því að hún vissi allt um þetta fyrir fram, fengið stöku menn, eins og hér er vikið að í umr., til þess að lýsa blessun sinni yfir þessu. En ljóminn fer allur af því, þegar farið er að skoða málið betur, alveg eins og fór með uppkastið gamla 1908.

Í Ingólfi er birt ræða fyrir minni Jóns Sigurðssonar, sem Benedikt Sveinsson flutti á samkomu 18. júní 1908. Af einhverjum ástæðum hefur samkoman ekki verið haldin 17. júní, heldur 18. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — vitna hér í fáein orð úr ræðu Benedikts Sveinssonar. Hann er þar að tala um Jón Sigurðsson og jafnframt það, sem þá er að gerast með þjóð vorri. Hann segir:

„Sumir menn hafa viljað kveða niður frjálsmannlegar kröfur þjóðarinnar, af því að þessu hefði Jón Sigurðsson ekki haldið fram, eða ef eitthvert tilboðið hefur komið handan um haf með þeim skilaboðum, að meira fengist ekki, þá hafa þeir þotið upp og sagt, að þessu hefði Jón Sigurðsson efalaust fylgt.“ Benedikt heldur áfram: „En þessar fullyrðingar bera vitni um hið lúalegasta skilningsleysi, bæði á Jóni Sigurðssyni, stefnu hans og skaplyndi, og ekki síður þjóðarandanum og framþróun hans.“ Síðar í ræðunni segir Benedikt Sveinsson: „En enn þá fjarstæðara og heimildarlausara, væri þó að staðhæfa, að Jón Sigurðsson mundi nú eða nokkurn tíma í framtíð vilja fá erlendri þjóð vald yfir ýmsum vorum málum um aldur og ævi. Slíkar kenningar eru harla ósamboðnar hans minningu.“

Í Ingólfi 5. júlí 1908 er birt ræða Skúla Thoroddsens, er hann flutti 27, júní það ár í samsæti, er honum var haldið. Um sambandsmálið sagði hann m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Og um það eigum vér að hugsa samviskusamlegast í þessu máli að gera niðjum vorum ekki örðugt fyrir. Betra að allt sé samningslaust en að vér semjum af oss þau hin miklu réttindi, sem vér höfum til að verða fullveðja þjóð.“ — Betra að allt sé samningslaust en að vér semjum af oss þau hin miklu réttindi, sem vér höfum til að verða fullveðja þjóð.

Það er lærdómsríkt að kynna sér sögu fyrri tíma, sögu sjálfstæðisbaráttunnar hér á landi, og það er þess vert að hyggja að henni, þegar svo stórt sjálfstæðismál liggur fyrir sem hér er á ferð. Það er lærdómsríkt og það er jafnframt ánægjulegt að kynna sér framgöngu margra ágætra manna, sem áður voru í fararbroddi í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Sé starf þeirra borið saman við aðfarir og aðgerðir sumra íslenzkra stjórnmálamanna nú á tímum, t.d. ístöðuleysi sumra nútíðarmanna gegn erlendri ásælni, þá er ekkert undarlegt, þótt að ýmsum sæki sú hugsun, að hvað stjórnmálaþroska snertir sé þjóðin ekki á framfarabraut.

Yfirgangur Breta og ofbeldi er ekkert nýtt í mannkynssögunni. Þess má finna ákaflega mörg dæmi. Ég vil aðeins nefna eitt af mörgum, það er árás þeirra á Búa um síðustu aldamót. Þá var mörgum heitt í hamsi hér á landi eins og annars staðar. Þetta varð yrkisefni sumum íslenzkum skáldum. Í einu kvæði Guðmundar skálds Friðjónssonar er að þessu vikið. Það er eitt af beztu kvæðum Guðmundar á Sandi, hann nefnir það „Bréf til vinar míns“. Upphaf þess er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ertu á förum, elsku vinur, út í heiminn, vestur í bláinn.“ Hann heldur áfram að spyrja vin sinn. Síðar í kvæðinu segir hann: „Ætlarðu að .... kasta í enskinn börnum þínum:

Níðinginn, sem Búa bítur,

Búdda lýð til heljar sveitir,

hundingjann, sem hausi veltir,

hvar sem bráð á jörðu lítur.“

Þetta eru nokkuð stór orð. Þau sýna skaphita skáldsins út af óhæfuverkum Breta. Hvað hefði Guðmundur á Sandi sagt um þessar mundir, ef hann hefði enn verið á meðal vor og horft á ofbeldisaðgerðir Breta hér fyrir skömmu? Er hann ekki líklegur til þess að hafa kveðið um þeirra aðfarir enn á ný í líkum tón og áður? Hvernig hefði því verið tekið? Og hvernig hefði því verið tekið, ef gömlu baráttumennirnir í sjálfstæðismálinu frá 1908 hefðu nú verið hér enn og haldið uppi jafneinörðum málflutningi gegn útlendi yfirgangsstefnu og þeir gerðu 1908? Mér sýnist nokkuð auðveit að segja um þetta, hvernig því hefði verið tekið í sumum blöðum hér. Blöð núv. stjórnarflokka hefðu sjálfsagt nefnt þessa menn alla kommúnista eða taglhnýtinga þeirra. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Guðmundur skáld á Sandi, kommúnisti eða taglhnýtingur þeirra, það hljómar reyndar dálítið einkennilega í eyrum þeirra, sem þekktu skáldið eitthvað og hafa kynnzt verkum hans. Já, þeir hefðu verið kallaðar kommúnistar eða taglhnýtingar þeirra, Ari og Benedikt, Björn Jónsson og Skúli, Einar Hjörleifsson og allir hinir, sem börðust móti uppkastinu 1908, og Guðmundur skáld á Sandi líka. En allir hefðu þeir áreiðanlega staðið jafnréttir eftir þrátt fyrir þá dóma í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu, eins og þeir, sem fá slíka dóma nú á dögum.

Það var útbýtt hér á fundi í dag till. til þál. um verndun fiskstofna við strendur Íslands. Það er einn af hv. þm. stjórnarflokkanna, sem flytur þessa till. Það bezta, sem sá hv. þm. gæti gert til þess að stuðla að verndun fiskstofnanna, væri að greiða atkv. gegn þeirri till. ríkisstj., sem hér er til umr. Flutningur þessarar till gæti líka bent til þess, að hann ætlaði að gera það, væri á móti þessum samningi við Breta. Það kemur í ljós vitanlega við atkvgr. En ef hann hins vegar greiðir nú atkv. með till. ríkisstj., þá er ég ósköp hræddur um það, að tillöguflutningur hans um verndun fiskstofnanna verði ekki haldgóð friðun samvizkunnar, þegar stundir líða fram, og ég tel líka ákaflega hæpið, að tillöguflutningurinn verði fullgild syndakvittun í augum kjósendanna.

Það er alveg glöggt, hvað hæstv. ríkisstj. vill gera í því máli, sem hér liggur fyrir. En hvað gera hinir 26 alþm. stjórnarflokkanna, sem yfirleitt mega ekki vera að því að sitja á fundi. Ég hefði viljað mælast til þess við kunningja minn, hv. 1. þm. Vestf., að hann talaði til sinna manna, þegar hann kemst í færi við þá, og reyndi að fá þá til að fylgja því góða fordæmi, sem hann gefur, að mæta hér á þingfundum samkv. þeirri skyldu, sem þm. er lögð á herðar. (Gripið fram í.) Já, ekki efast ég um það. Hv. þm. var um skeið forseti í Ed., og ég tel, að hann gæti nú vel reynt að hrinda einhverju fram til umbóta í þessu efni, þó að hann sitji ekki í forsetastól sem stendur. (Gripið fram í.) Já, hvað er um þessa 26? Ætlið þið allir að veita þeim, „sem hausi veltir, hvar sem bráð á jörðu lítur“, eins og Guðmundur á Sandi kvað, sérstakan rétt með óuppsegjanlegum samningi í einu af okkar stærstu málum? Ætlið þið að gera það? Þetta er alvarlegt mál. Það er full ástæða til að aðvara þm. stjórnarflokkanna, áður en þeir samþykkja þessa till. Ætlið þið að vinna það fyrir vinskap sjö ráðherra að fylgja þeim inn á þessa stórhættulegu braut? Viljið þið ekki renna huganum að því, hvaða afleiðingar verða af veiðum mikils fjölda útlendra skipa á bátamiðunum hér við land næstu árin, hvaða afleiðingar verða af því, þegar þeir fara að skafa miðin, sópa burt fiskinum og veiðarfærum bátanna með? Ég vildi ekki, þegar að því kemur, standa í sporum þeirra, sem ljá þessu máli atkv. sitt. Og þar að auki á skv. þessum samningi, eins og ég hef vikið að, að afsala réttindum frá okkur varanlega. Eruð þið menn til þess að taka afleiðingunum af samþykkt till.? Varið þið ykkur, hv. þm. stjórnarflokkanna. Staldrið þið við og hugsið þið málið, áður en það er orðið of seint.