07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (2422)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. gat þess í útvarpsumr. um þetta mál, að hann hefði með höndum bréf frá Bretum, sem tryggði það, að þeir færu ekki fram á framlengingu þess að mega veiða í íslenzkri landhelgi. Fyrir áskoranir, sem fram komu við umr. hér á Alþingi, las hann upp kafla úr bréfi áðan til þess að færa sönnur á, að hann hefði ekki farið með staðlausa stafl. En það er augljóst, að bréf þetta var mun lengra en það, sem hæstv. ráðh. las. Nú getur ekki verið um það að ræða, að nokkur hluti þessa bréfs sé einkabréf. Stjórn hennar hátignar Englandsdrottningar skrifar varla þvílík bréf. Og það er nú krafa mín fyrir hönd Framsfl., að hæstv. ráðh. láti prenta nú þegar þetta bréf sem þskj., vegna þess að efni þess getur haft áhrif á afstöðu í þessu máli. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. telji sjálfsagt að verða við þessari kröfu. Ég tel vafalaust, að hann eigi ekki þetta bréf, heldur Alþingi eða Íslendingar.

Þegar verið var að undirbúa útfærslu landhelginnar 1957 og 1958, fékk vinstri stjórnin, sem kölluð var, nefnd sér til ráðuneytis í undirbúningi málsins. Sú nefnd var skipuð fulltrúum allra flokka. Þá var réttilega þannig á litið af þeim, sem fóru með völd, að nauðsynlegt væri að skapa þjóðareiningu um þetta þýðingarmikla lífsbjargarmál Íslendinga, sem er sannarlega vandmeðfarið. Fulltrúi Sjálfstfl., sem þá var einn í stjórnarandstöðu sem flokkur, var þögull, að mér er sagt, í þessari nefnd og forðaðist að taka afstöðu. Þegar kom að sjálfri framkvæmdinni, voru Sjálfstfl. og Alþfl. á móti því að hrófla við grunnlínum, eins og margupplýst hefur verið í þessum umr., og til þess að stofna ekki til sundrungar um það var frestað útfærslu grunnlínanna og reglugerð um 12 mílur gefin út án grunnlínubreytinga, enda hafði þá hafréttarráðstefna skapað grundvöll fyrir grunnlínubreytingum sérstaklega, þegar henta þætti. Með þessu var því enginn réttur úr hendi sleginn.

Eftir að reglugerðin kom út, gaf Morgunblaðið í skyn, að rangt væri að farið, og lagði Bretum til nóg efni í þá skoðun, að þjóðareining væri alls ekki um málið. Sú afstaða blaðs stærsta stjórnmálaflokksins má segja, að boðið hafi Bretum upp á samvinnu við stærsta stjórnmálaflokkinn í landinu um að hnekkja útfærslu landhelginnar, eins og hún hafði verið gerð. Þessi afstaða, sem vitanlega var lesin af Bretum, hlaut að hvetja þá til mótmæla í verki. Sennilega hefur þetta verið óviljaverk hjá Sjálfstfl., — sennilega, — en afleiðingar þess, þótt óviljaverk væri, eru hinar sömu og viljandi hefði verið gert. Afleiðingarnar eru auðvitað fyrst og fremst þær, að Bretar komu til veiða undir herskipavernd innan landhelginnar, og seinna, að það samningsuppkast, sem hér liggur fyrir, niðurlægjandi og svikum blandið, er fram komið.

Þeir flokkar, sem frá upphafi voru deigir og tregir í landhelgismálinu, fengu það hlutverk að taka við framkvæmd í landhelgismálinu, þegar aðeins var herzlumunur eftir í skiptunum við Breta, ef nokkuð var í raun og veru eftir nema sýna sjálfstæði nokkur augnablik. Auðvitað fóru Bretar að sækja á mennina um viðræður og afsláttarsamninga, — mennina, sem höfðu gefið í skyn, að þeir væru ekki ánægðir með útfærslu landhelginnar, eins og hún hafði verið gerð. Þetta var mjög eðlilegt. Og þá var það, að reyndi á veikustu þolrifin í varðsveitum stjórnmálanna á Íslandi. Viðbrögðin hafa líka verið í samræmi við það. Nú var ekki leitað samstarfs við aðra flokka, eins og gert hafði verið 1957 og 1958, til þess að skapa þjóðareiningu. Nú voru hafin myrkraverk í málinu. Allt, sem gerðist, var falið fyrir nálega hálfu Alþingi og þjóðinni, og ef spurt var um, hvað væri að gerast, var beitt vífilengjum í svörum og blekkingum. Sannarlega sýnir þó þessi samningur, sem hér liggur fyrir, að þessum aðilum, sem voru svo linir í leggjum sem þeir hafa reynzt, hefði ekki veitt af að hafa stuðning frá þeim, sem ákveðnari voru í málinu og upphaflega höfðu hafið þá sókn, sem sigur veitti.

Ég tel við eiga að benda á eina af mörgum sönnunum þess, að blekkingar hafa verið hafðar í frammi. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í upphafi þessa þings, að samráð yrði haft við Alþingi. Hinn 6. febr. s.l. svaraði hæstv. utanrrh. fsp. um þetta mál. Og á sunnudaginn var kom svo nokkurs konar skýrsla um gang málsins í blaði hæstv. utanrrh., Alþýðublaðinu. Mér finnst við eiga til hægðarauka fyrir þá, sem athuga kunna sögu þessa máls með því að lesa Alþingistíðindi síðar meir, að lesa hér upp aðalatriði úr svörum hæstv. utanrrh., sem voru grg. hans til Alþ., og einnig þá að lesa upp skýrslu blaðs hans, Alþýðublaðsins. Þá standa þó þessar merkilegu heimildir hlið við hlið í Alþt. Það var hv. 4. þm. Austf., sem spurði ráðh. 6. febr. um þetta mál, og ráðh, svaraði:

„Út af öllum þessum fyrirspurnum þykir mér rétt að skýra frá því, að í sambandi við fund Atlantshafsbandalagsins í París í desembermánuði átti ég nokkrar viðræður við utanrrh. Breta um málið, bæði í París og eins á heimleiðinni í London. Þessar viðræður fóru fram í því skyni að reyna að glöggva sig sem bezt á því, með hvaða hætti tök kynnu að vera á því að leysa málið, og sérstaklega leita eftir því, hvort hægt væri að finna einhvern þann flöt, sem við gætum talið aðgengilegan fyrir okkur. Í þessum viðræðum kom ekki fram nein till. eða neitt tilboð af Íslands hálfu um lausn málsins, og við höfum ekki heldur síðan sett fram neina slíka till. Strax eftir heimkomu mína gaf ég ríkisstj. skýrslu um málið. Jólafrí var þá að byrja og þingið ekki saman komið, og varð því lítið úr framhaldsumr. innan ríkisstj. En síðan hefur málið verið þar til athugunar og engin ákvörðun verið tekin og ekki gengið frá neinni tillögu eða neinu tilboði“.

Þetta er aðalatriðið úr svarræðu hæstv. utanrrh. 6. febr. s.l.

Svo er það, að á sunnudaginn var eða 5. marz ritar einn af ritstjórum Alþýðublaðsins, hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Grönda, venjulegan þátt „Um helgina“ í Alþýðublaðið. Að þessu sinni var þátturinn skýrsla um gang þessa máls, landhelgismálsins. Þessi skýrsla er dálítið skemmtileg. Hann, rithöfundurinn, hefur erfðarétt á sérstökum stíl, sem kalla mætti, þegar svona ber undir, að líkist Heljarslóðarorrustustílnum hjá Benedikt skáldi. En auðvitað er sá stíll, eins og hann kemur þarna fram, lagaður eftir nútíðinni, og gamli maðurinn mundi náttúrlega á sumum stöðum hafa komizt talsvert mikið öðruvísi að orði, þykist ég vita. Greinin, að því leyti sem ég ætla að lesa hana, en ég les hana samfellt fram að síðasta kafla, hljóðar — með leyfi hæstv. forseta — á þessa leið:

„Fimm mánaða starf á bak við luktar dyr liggur að baki þeirri lausn landhelgismálsins, sem nú er fengin. Síðan í byrjun október í haust hafa farið fram viðræður í Reykjavík, London og París. Orðsendingar hafa gengið á milli og fundir verið haldnir. Aðeins ríkisstj. og sárafáir embættismenn og þm. stjórnarflokkanna vissu, hvað var að gerast. Þannig varð þetta að vera hjá okkur ekki síður en öllum öðrum þjóðum, sem reyna að leysa deilumál sín.“

Ég vil skjóta því inn í, að ritstjórinn er vitanlega mjög fróður, hvernig svona mál eru leyst hjá öðrum þjóðum, a.m.k. fullyrðir hann sem fróður maður. Það er kannske nóg á þeim bæ að fullyrða.

„Hagsmunir þjóðarinnar lögðu þá skyldu á herðar ráðh. að fara hljótt með málið, unz yfir lyki og þeir gætu skýrt frá, hvort árangur hefði náðst eða ekki. Þá kom röðin að Alþ. að fjalla um málið og taka endanlega ákvörðun.

Þegar brezka sendinefndin kom hingað til lands, hófust í ráðherrabústaðnum gamla við Tjarnargötu viðræður um málið. Var farið vandlega yfir allar hliðar þess, og báðir aðilar skýrðu sjónarmið sín. Síðan héldu Bretar heim og gáfu stjórninni í London skýrslu. Nokkru síðar voru þeir Hans G. Andersen og Davíð Ólafsson sendir til London til framhaldsviðræðna. Þeir fengu að heyra viðhorf brezku stjórnarinnar og hugmyndir hennar um hugsanlega lausn deilunnar. Hans og Davíð fluttu boðin heim til Reykjavíkur. Ríkisstj. settist á rökstóla og komst fljótlega að þeirri niðurstöðu, að viðhorf Breta á þessu stigi skapaði ekki grundvöll til samkomulags, sem Íslendingar gætu sætt sig við. Nú gengu orðsendingar á milli eftir diplómatískum leiðum um sinn, og leið fram á jólaföstu. Var skipzt á skoðunum um þau atriði, sem á milli bar.

Hinn 16. des. átti að hefjast í París utanríkisráðherrafundur Atlantshafsríkjanna, og var Guðmundur Í. Guðmundsson helzt að hugsa um að láta ambassador mæta þar fyrir sig, þar eð fjárlagaafgreiðsla stóð yfir og mikið var að gera á heimavígstöðvum stjórnmálanna. Landhelgisviðræðurnar virtust ætla að verða árangurslausar. Þá var von á skýrslu frá London fimmtudaginn 15. des., sem sennilega mundi leiða í ljós, hvort þýddi að halda áfram viðræðunum. Skeytin komu seint um kvöldið. Var þegar byrjað að þýða þau með dulmálslyklum.“ — (Þetta er hvorki undirstrikað né tvítekið í greininni þótt undarlegt sé!) — „Og beið Guðmundur eftir þeim fram eftir nóttu. Er skeytin voru fullþýdd um miðja nótt, sýndist Guðmundi sem líkur á viðunandi lausn hefðu vaxið, og hann ákvað að fara í skyndi til Parísar. Snemma morguninn eftir steig hann upp í flugvél og kom til Parísar undir kvöld, en ráðherrafundurinn hafði verið settur fyrr um daginn.“ Ég skýt því inn í, þó að auðvitað þurfi ekki fyrir áheyrendur, að skýrslan er mjög nákvæm.

Þá er fyrirsögn, sem er á þessa leið: „Guðmundur hittir Home lávarð.“

„Í hinni nýju byggingu Atlantshafsbandalagsins S Boulogne-skógi í París hitti Guðmundur Home lávarð, utanrrh. Breta. Þar hittust tveir hávaxnir og grannir kollegar, annars vegar enski aðalsmaðurinn, sem Macmillan hafði tekið nær óþekktan og gert að utanrrh., og hins vegar íslenzki lögfræðingurinn, sem hafði lyft sér upp í stjórnmálum með því að vinna flókið kjaramál fyrir sjómenn á Suðurnesjum fyrir 20 árum og orðið einn snjallasti samningamaður sinnar þjóðar. Guðmundur hafði margsinnis rætt landhelgismálið við fyrirrennara Homes, Selwyn Lloyd, en aldrei við Home.

Macmillan er sjálfur nákunnugur landhelgismálinu. Þegar deilan reis vorið 1958, greip hann um skeið inn í málið í London til að reyna að leysa það, og síðan hafði hann rætt ýtarlega við Ólaf Thors á Keflavíkurflugvelli. Hann hefur vafalaust sett hinn nýja utanrrh. sinn inn í málið, auk þess sem brezku ráðuneytin hafa fjölda sérfræðinga á þessu sviði.

Milli NATO-fundanna í París ræddust þeir Guðmundur og Home þrisvar sinnum við og fóru enn yfir þau atriði, sem íslenzka ríkisstj. lagði mesta áherzlu á. Urðu þeir ásáttir um að hittast aftur í London strax eftir helgina.

Á mánudag hittust þeir ráðherrarnir í þinghúsbyggingunni á Thames-bökkum í London og snæddu saman hádegisverð í húsakynnum lávarðadeildarinnar. Tveir síðari fundir voru haldnir í utanríkisráðuneytinu í Downing Street, og á þessum fundum varð til sú lausn deilunnar, sem nú er fjallað um.

Enda þótt kjarni málsins væri leystur, var allmikil vinna eftir við frágang málsins, auk þess var þingið farið í jólafrí, þegar Guðmundur kom heim, og því ekki unnt að ræða endanlega við þm. stjórnarflokkanna fyrr en eftir miðjan janúar. Þannig dróst málið, enda ærin ástæða til að skoða hvert smáatriði undir smásjá, áður en yfir lyki.“ Ekki þarf að efast um það, að þessi skýrsla hlýtur að vera gerð í samráði við hæstv. utanrrh. Ekki mundi blaðið flytja skýrslu um þetta mikilsverða mál nema hafa borið hana undir ráðh. áður. Og sízt mundi hv. 5. þm. Vesturl. vera líklegur til að vilja fara rangt með um þessi efni.

Af þessari glöggu skýrslu, — ég segi glöggu, þó að það gæti verið, að Benedikt skáld hinn forni hefði farið dálítið nákvæmar út í sum atriði, t.d. þætti mér líklegt, eftir því sem hann skrifar Heljarslóðarorrustu og um Þórð í Hattardal, að hann hefði sagt frá því, hvað á borðum var þarna í London í húsakynnum lávarðadeildarinnar, en nútímamenn eru orðnir svo veizluvanir, að þeir geta gizkað á það, og það veit höfundurinn vitanlega, — af þessari glöggu skýrslu er ljóst, að lausn deilunnar fæddist ekki á Íslandi, heldur í Downing Street. Hún er nefnilega ekki fæddur Íslendingur. Og annað er líka ljóst, sem er mjög mikilsvert í þessu sambandi, að hún á fæðingardag í vikunni fyrir jólin. Og þegar menn svo bera þessa skýrslu saman við svör hæstv. ráðh. frá 6. febr., þar sem segir, að þá hafi ekki neitt boð komið fram af hálfu Íslands um lausn málsins og að Íslendingar hafi ekki heldur sett fram neina till. um málið, þá er augljóst, þá er fullsannað, að hæstv. ríkisstj. hefur í þessu máli gengið um á Alþingi á refaklóm og sagt ósatt. (Forseti: Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?) Já. (Forseti: Ef svo er, þá verður fundi frestað. og hefst hann á ný kl. hálfníu). — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar ég lauk máli mínu, áður en matarhlé var tekið, hafði ég sannað með tilvitnun í opinskáa og sannferðuga skýrslu Alþýðublaðsins um gang undirbúnings þeirrar till., sem hér liggur fyrir, að hún hafi orðið til fyrir jólin í Downing Street í Englandi og að hæstv. utanrrh. hafi komið með hana heim fyrir jólin, en af því að þm. voru þá farnir í jólafrí, hafi ekki verið hægt að sýna hana þingflokksmönnum stjórnarflokkanna, fyrr en þeir komu úr jólafríinu 15. jan., en þá höfðu þeir farið að athuga hana, og vitanlega hafði þá hæstv. ríkisstj. farið að umþófta þá í málinu. Með þessu hafði ég sannað það líka, að þegar hæstv. utanrrh. gaf þinginu svör við fsp. hv. 4. þm. Austf. 6. febr. og sagði, að ekkert frásagnarvert hefði gerzt, engar till. komið fram, þá var það ekki sannleikanum samkvæmt. Tel ég svo, að meira þurfi ekki um þetta að tala.

Hæstv. dómsmrh. sagði í Ed. í vetur, í nóvember, þegar landhelgismálið var þar rætt út af till., sem stjórnarandstæðingar í deildinni fluttu þar um að lögfesta reglugerðina frá 1958, þar sem landhelgin var færð út í 12 mílur: „Landhelgismálið er leyst,“ sagði hæstv. dómsmrh., „landhelgismálið er leyst, 12 mílurnar er búið að vinna.“ Þetta var laukrétt hjá hæstv. dómsmrh. Hvað var þá eftir? Hæstv. dómsmrh. sagði: „Deilan við Breta er enn fyrir hendi.“ Undarleg skilgreining þetta: Deilan við Breta er enn fyrir hendi. Bretar, sem höfðu farið að veiðum inn fyrir 12 mílurnar, inn fyrir 4 mílurnar, og verið verndaðir af herskipum Bretlands, þeir voru farnir heim, þeir voru hættir slíkum veiðum, þeir höfðu ekkert haft upp úr þeim veiðum fjárhagslega nema tjón, og þeir höfðu haft upp úr þeim ámæli umheimsins fyrir að beita vopnlausa, fámenna þjóð vopnavaldi. En hæstv. dómsmrh. leit svo á, að deilan væri enn fyrir hendi, og það spratt vitanlega af því, sem ég sagði í kvöld, að Bretarnir vissu um bilbuginn, sem hafði komið fram í skrifum Morgunblaðsins 1958 og ýmsum ummælum flokksforustunnar um það leyti, og þeir vissu líka, að Alþfl. var deigur í málinu, og þeir sóttu á. Þeir sóttu á þá eftir diplómatískum leiðum. Hæstv. dómsmrh, sagði í þessu sambandi: Það er hægt að slá sigurinn úr hendi sér. — Hvernig var það hægt? Það var varla hægt, eins og komið var, með því að standa áfram fast á réttinum og gefa í engu eftir við Breta, ljá ekki máls á neinum undanslætti, ekki einu sinni að ljá máls á umræðum um samninga. Og Bretar verðskulduðu ekki annað af Íslendinga hálfu, — eina þjóðin, sem hafði beitt ofbeldi vopnavalds við vopnlausa þjóð.

Með geðlinku er auðvitað alltaf hægt að slá sigur úr hendi sér. Geðlinkan, hugleysið, finnur sér alltaf einhverjar afsakanir til undanhalds, sem það kallar hyggindi.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. stofnað til þess með þeirri till., sem hér liggur fyrir og er afsprengi viðræðna og samningagerðar við Breta, að Íslendingar slái að mjög miklu leyti sigri úr hendi sér. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. gert. Enn eru ekki hv. alþm. í stjórnarliðinu búnir að gera það opinberlega, og ég minnist þess, að við síðustu alþingiskosningar töldu frambjóðendur stjórnarflokkanna ganga glæpi næst af okkur hinum, ef við létum orð falla um það, að við treystum ríkisstj. ekki til að halda á rétti Íslands í landhelgismálinu, — teldum, að verið gæti, að hún semdi við Breta um réttindi fyrir þá innan 12 mílna lögsögunnar. Liðsmenn ríkisstj. úti um land töldu slíkar getsakir í garð forustuliðs Alþfl. og Sjálfstfl. fordæmanlega ósvífnar. Ég er viss um það, að ef kjósendur hefðu þá séð, hvað nú er fram komið, þá hefðu hæstv. ráðh. ekki setið í ráðherrastólunum nú, þá hefðu stjórnarflokkarnir ekki fengið meiri hluta, því að frambjóðendur þeirra hefðu hrunið fyrir þeirri skörpu andúð, sem almenningur hafði á öllum undanslætti við Breta, — almenningur í öllum flokkum.

Það er því óyggjandi sannleikur, sem menn hafa sagt hér, að lið stjórnarinnar og þar með stjórnin sjálf hefur ekkert umboð frá þjóðinni til þess að semja við Breta, eins og stjórnin hefur lagt grundvöll að með till. þeirri, sem hér liggur fyrir. Þessir menn hafa raunverulega ekkert umboð til þess. Það er hægt með orðhengilshætti að vitna í stjórnarskrá um það, en það má líka segja á móti því, sem hæstv. dómsmrh. hefur t.d. sagt, þegar hann hefur vitnað í stjórnarskrána í þessu sambandi, að alþm. eru skyldugir að fara eftir sannfæringu sinni, og það væri undarlegt, ef á þeim tíma, síðan þeir buðu sig fram, væri búið að umþófta svo sannfæringu þeirra, að þeir vildu nú í hennar nafni greiða atkvæði með þeirri till., sem hér liggur fyrir.

Það hefur glöggt komið í ljós hér í ræðum hæstv. ráðh., að þeim segir, hvað Bretar eru voldug og stór þjóð og mikils megandi samanborið við okkur. En þetta er missýning, Bretar eru ekki stórir í þessu máli. Framkoma þeirra í þessu máli hefur ekki verið á þann veg, að þeir séu stórir í því. Stærð þjóðar fer nefnilega ekki alltaf, sem betur fer, eftir því, hver mannfjöldinn er eða ríkidæmið. Stærðin fer eftir drengskap og vali málstaðar og eftir því, hvernig á málstað er haldið. Íslenzka þjóðin óx af landhelgismálinu í augum heimsins. Íslendingum tókst að halda þannig á því máli fram undir þetta, að þeir hlutu virðingu af. Meira að segja þeir hafa gegnt forustuhlutverki á alþjóðavettvangi í þessu máli. Ég hygg, að það sé óhætt að álykta það, að Norðmenn hafi náð samningum við Breta í skjóli þess, sem Íslendingar voru búnir að gera. Þeir sigldu í vök, sem Íslendingar höfðu brotið. Íslendingar héldu nefnilega á þessu máli með einurð, með þolgæði og festu og drengskap og hófsemi. Þetta gerðu þeir, sem stóðu fyrir málum hjá þjóðinni, þegar landhelgin var víkkuð, og þetta gerðu þeir, sem vernduðu landhelgina á miðunum, landhelgislið þjóðarinnar.

Bretar hafa aftur á móti minnkað af málinu, minnkað af þessum viðskiptum við Íslendinga. Með samningi þessum, sem hér liggur fyrir í ályktunarformi og varð til úti í Englandi, er hæstv. ríkisstj. að lítillækka þjóð sína, smækka hana. Það er ljótur leikur, sem óprýðir sögu Íslands um aldur og ævi, ef ekki tekst að eyða þeim leik. Þessir atburðir minna um margt á það, sem gerðist á Sturlungaöld, þegar Gissur Þorvaldsson sat veizlu hjá Hákoni Noregskonungi og taldi sér og þjóð sinni með því sóma sýndan. Þar voru gerðir samningar, sem Gissur fór með heim. Hver varð svo sómi Gissurar í sögunni? Það er sagt, að sagan endurtaki sig. Hvers vegna ætli hún endurtaki sig? Hún endurtekur sig af því, að fram kemur svipaður hugsunarháttur, sem leiðir af sér svipaða atburði. Gissur Þorvaldsson var svo sem ekki að öllu leyti fús að reka erindi Hákonar á Íslandi, og hann dró það, en Hákon sendi menn til að líta eftir honum og reka eftir honum. Hann sendi Sigurð silkiauga til að gefa honum auga, og hann sendi Hallvarð gullskó. Ég held því alls ekki fram, að hæstv. ríkisstj. hafi verið fús til að fallast á þessa samninga, sem hér er verið að ræða. Ég veit þvert á móti, að hún hlýtur að hafa gert það nauðug. Við höfum svo sem orðið þess vör, að Bretar hafa sent hingað sína fulltrúa, sinn Sigurð silkiauga og sinn Hallvarð gullskó. Þeir komu, ráku eftir.

Hvað felst þá í þessum samningi? Eins og fram hefur komið, liggur það alls ekki í augum uppi. Samningurinn var því tilvalinn til þess að útvarpa honum með áróðri í fyrstu lotu. Það vantar mikið á, að talað sé berum orðum í þessum samningi, eins og þó á í hverjum samningi að gera, eftir því sem hægt er. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi það í útvarpsræðu sinni, að það væri ekki talað berum orðum. Hæstv. ríkisstj. útleggur samninginn í fjórum liðum á 1. síðu þskj. Þessi útlegging er vitanlega bjarta hliðin á tunglinu, því að sól áróðursins skín á þennan annars dimma hnött, skín á þessa hlið hans.

Fyrsti liðurinn hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Bretar viðurkenna nú þegar 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands.“ Við teljum, að þessarar viðurkenningar, sérstöku viðurkenningar, hafi alls ekki þurft við. 31 þjóð hefur tekið sér 12 mílna landhelgi. Allar þjóðir aðrar en Bretar höfðu viðurkennt landhelgina í verki, og Bretar höfðu gefizt upp á sinni verklegu mótstöðu. Þar að auki er svo viðurkenningin ekki með berum orðum, þegar til kemur og farið er að athuga samninginn sjálfan, en að því kem ég síðar.

Annar liðurinn er: „Bretar viðurkenna þýðingarmiklar breytingar á grunnlínum á fjórum stöðum umhverfis landið, en af því leiðir aukningu fiskveiðilögsögunnar um 5065 km2.“ Þessa viðurkenningu þurftum við ekki sérstaklega að sækja til Breta. Við gátum fært út grunnlínurnar, þegar okkur þótti hentugt, samkvæmt okkar eigin lögum og samkvæmt reglum, sem viðurkenndar hafa verið á alþjóðavettvangi, en það er látið heita svo í túlkun hæstv. ríkisstj., að Bretar séu með þessu móti að borga fyrir aðra undanlátssemi. Áttu Bretar sérstaklega þessar sneiðar, sem þarna er um að ræða? Að sjálfsögðu ekki. Þessi túlkun er eina og túlkun væri á því, að maður borgaði öðrum manni fyrir sig með peningi, sem hann tæki úr vasa hans sjálfs.

Þriðja: „Brezkum skipum verður heimilað að stunda veiðar á takmörkuðum svæðum á milli 8 og 12 mílna og takmarkaðan tíma á ári næstu þrjú árin.“ Með þessu móti eru Bretar aftur leiddir inn í íslenzka landhelgi, og Bretar einir fá samkvæmt þessum samningi réttinn. Hins vegar liggur það ljóst fyrir, að ef Bretum verður leyft að fara inn í landhelgina með slíkum samningi, þá er ekki hægt að standa á móti því, að þær þjóðir, sem veiddu áður á þessum miðum, en viku heiðarlega, þegar Ísland færði út sína landhelgi, fái sama rétt, og mér fyndist alveg nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. upplýsti, á hvern hátt hún ætlar að framkvæma samninginn, að því er þetta snertir, þannig að heiðarlegt sé gagnvart þessum þjóðum, þessum fiskveiðiþjóðum, sem hér höfðu veitt, en tóku tillit til útfærslu Íslendinga á landhelginni. Hún er skyldug að segja frá því, því að eins og bent hefur verið á hér í umr., þá er hér um að ræða spursmál, sem getur komið til framkvæmda með mörgu móti og valdið miklum vandræðum. Svo er það í þessu sambandi að athuga, að eins og samningurinn hljóðar, þá er hugmyndin að láta Breta hafa veiðiréttinn á þeim tímum á hverjum stað, sem fengsælastir eru og um leið bagalegast fyrir Íslendinga, að útlendingar séu þar að veiðum. Og ég vildi spyrja um það í þessu sambandi, hvort ekki hafi komið til mála og verið af Íslands hálfu leitað eftir samningi á þá leið, að takmarkaður væri sá skipafjöldi, sem mætti veiða hverju sinni á þessum svæðum.

Fjórða: „Ríkisstjórn Íslands lýsir yfir því, að hún mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland og að ágreiningi um hugsanlegar aðgerðir skuli vísað til alþjóðadómstólsins.“ Já, sú er nú líkleg, hæstv. núv. ríkisstj., til þess að halda áfram að vinna, svo að um munar, að útfærslu íslenzkrar landhelgi! Mikið er það fyrirheit, sem hún gefur í þessu sambandi! En jafnhliða því, að hún gefur þetta fyrirheit, sem maður hlýtur að meta mjög lítils eftir reynslunni, vill hún, að Ísland afsali sér rétti til þess að færa út einhliða, — þeim rétti, sem einn hefur dugað hingað til við útfærsluna.

Svo er þá líka samningurinn sjálfur, eins og hann er settur upp á þskj.. á bls. 8. Samkvæmt fyrsta lið á ríkisstj. Bretlands að lýsa yfir, að hún „falli frá mótmælum“ sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, sem mæld er frá grunnlínum o.s.frv. Hún á að lýsa því yfir, að hún „falli frá.“ Um þetta orðalag hefur mikið verið rætt, og það er í raun og veru furðulegt, að það skuli þurfa að orka tvímælis, það orðalag, sem Íslendingar setja í slíkan samning, því að samningurinn virðist að forminu til, þó að hann sé útlendingur að ætt, vera settur upp sem út gefinn af Íslandsstjórn. Hæstv. dómsmrh. sá, er athugasemdirnar komu fram við þetta orðalag, að við svo búið mátti ekki standa, og sneri sér til lagadeildar háskólans til þess að fá úr því skorið, hvað þetta þýddi eiginlega. Hann las hér upp í nótt sem leið álit þeirra manna í lagadeild, sem tóku þátt í því að gefa út álit, og taldi það vera á þá leið, að þarna væri um það að ræða að falla endanlega frá mótmælum gegn útfærslu landhelginnar, gegn 12 mílna landhelgi Íslands, þótt ekki væri talað um, að það væri endanlega. En þegar hann var spurður að því, hvort hann teldi ekki heppilegra, að þar væri skýrara orðalag og óumdeilanlegt, svaraði hann því ekki með öðru en lesa aftur upp álitsgerð lögfræðinganna í lagadeildinni, og hæstv. utanrrh. las svo upp þessa álitsgerð í þriðja sinn í dag. Maður gæti ætlað, að það verði haldið áfram að lesa þessa álitsgerð upp um aldur og ævi, eins og samningurinn á að gilda. Hún var líka lesin upp í útvarpi í kvöld, heyrði ég.

Þórbergur Þórðarson, einn allra snjallasti rithöfundur okkar, ritaði einu sinni mjög skemmtilega, skilmerkilega og fróðlega grein, þar sem hann sagði, að flokka mætti í þrjá flokka höfuðágalla á framsetningu á íslenzku. Hann taldi, að það mætti flokka ágallana í þrjá höfuðflokka, og nefndi þessa flokka: lágkúru, ruglandi og uppskafningu. Ég sé ekki betur en samningurinn sé mjög hlaðinn bæði lágkúru og ruglandi, en aftur á móti áróðurinn fyrir honum, blaðaskrifin og ræður hæstv. ráðh. fullar af uppskafningu. Þetta atriði, sem hér um ræðir, „að falla frá mótmælum“, það flokkast áreiðanlega undir lágkúru. Lágkúra er, þegar ekki er sagt skilmerkilega það, sem segja á, og þetta er tvenns konar lágkúra, sem þarna kemur. Það er lágkúra málsins og lágkúra höfundanna, því að sýnilegt er, að þeir hafa ekki þrek til gagnvart Bretum að ætlast til, eð þeir viðurkenni landhelgina berum orðum, að þeir falli að minnsta kosti endanlega frá mótmælum gegn 12 mílunum.

2. liður orðsendingarinnar er svo um það, að Íslendingar færi út grunnlínur á nokkrum stöðum. En áður en ég sný mér að þeim, finnst mér rétt að segja það, að mér finnst sanngjarnt að viðurkenna það, að hæstv. utanrrh. las hér upp ummæli eftir enskum þm., sem bentu til þess, að þeir teldu, að með 1. liðnum féllu Bretar endanlega frá mótmælum gegn 12 mílna landhelginni. Hitt verð ég þó að segja, að það hefði verið miklu viðkunnanlegra, að þetta stæði beint í samningnum eða a.m.k. í því bréfi, sem hæstv. ráðh. hefur frá stjórn hennar hátignar, drottningarinnar í Englandi, og vera má, að eitthvað sé um þetta þar.

Við skulum vona, að þetta komi í ljós, þegar bréfið verður birt sem þskj. eða fylgiskjal með þessum samningi, því að það hlýtur að verða gert. Ég flutti kröfu um það í upphafi máls míns, og mér dettur nú í hug að leyfa mér að beina því til hv. 1. þm. Vestf., sem er formaður utanrmn., ekki aðeins fyrir flokk sinn, heldur fyrir okkur alla, að leggja lið sitt til þess, að þetta bréf verði birt. Ég tel, að hann vegna stöðu sinnar eigi að gera það, eða það sé rétt að snúa sér til hans með það, og ég þekki hann að þeirri röggsemi, að ég treysti honum vel til að gefa ekki eftir, þar sem hann leggst á. (Gripið fram í.) — Það var bara brot úr bréfinu, sem birt var, og af því óx náttúrlega enn meira áhugi manna fyrir að sjá allt bréfið.

Um grunnlínuútfærsluna vildi ég segja þetta til viðbótar því, sem ég sagði áðan um, að við hefðum rétt til útfærslunnar, að það er raunverulega hörmulegt, að þegar hæstv. ríkisstjórn fer að beita sér fyrir grunnlínuútfærslum, þá gerir hún upp á milli landshluta. Það var sýnt mjög rækilega fram á það í nótt sem leið, að Austurland og Norðausturland og Suðurland að nokkru leyti bera þar mjög skarðan hlut í aðgerðunum. Ég t.d. sem maður frá Skjálfanda harma það mjög, að ekki skyldi vera færð út grunnlínan í Grímsey, af því að það lá afar beint fyrir og af því að það er ákaflega þýðingarmikil aðgerð vegna sjósóknarinnar á þessum stöðum. Nú hafa verið settar fram till. til lagfæringar á þessu, sem ég vildi vona, að hæstv. ríkisstj. beitti áhrifum sínum til að samþykktar yrðu. Mér er það eiginlega furða, hvers vegna hæstv. ríkisstj. tók ekki upp grunnlínur til Grímseyjar. Grímsey átti þó sérstaklega að geta minnt hana á það, að hún átti að vera mikill fulltrúi landsins, vegna þess að við Grímsey er bundin saga um einn þann mann, sem staðið hefur bezt og skynsamlegast fyrir rétti Íslands, sem sé Einar Þveræing. Þetta minnir á það, hvaða reginmunur er á þeim hugsunarhætti, sem stendur á bak við þennan samning, og þeim hugsunarhætti, sem sagan geymir í orðum Einars Þveræings.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða hér um þennan samning miklu meira í einstökum liðum, að öðru leyti en því, að ég vil minnast á ákvæðið, þar sem stendur, að ríkisstjórn Íslands muni halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþ. frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland og tilkynna ríkisstjórn Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara, og „rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins.“

Fyrir utan það, að þessi málsgr. inniheldur það, sem er voðalegast við þennan samning, sem sé afsal réttarins til einhliða útfærslu, þá er þessi málsgr. full af því, sem Þórbergur kallaði ruglandi. Það er ómögulegt að lesa út úr henni það, sem hv. frsm. meiri hl. utanrmn. taldi að í henni fælist, og ekki heldur þó að til viðbótar kæmu skýringar hæstv. utanrrh. í dag um það, hvernig bæri að skilja hana. Ég held, að það veitti ekki af því að athuga, hvort ekki væri í bréfinu eitthvað, sem eyddi þessari ruglandi, sem þarna er.

Að lokum vil ég vekja athygli á síðustu málsgr. Það er 1. málsgr. á bls. 9 í þskj. Þessi málsgr. hljóðar þannig: „Ég leyfi mér að leggja til, að þessi orðsending og svar yðar við henni, er staðfesti, að efni hennar sé aðgengilegt ríkisstjórn Bretlands, verði skrásett hjá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna samkvæmt 102. gr. í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og að samkomulag á þessum grundvelli gangi þegar í gildi.“

Ég vil vekja athygli á þeim undirlægjuhætti. sem kemur fram í þessum orðum, að Bretar eiga að staðfesta, að efni hennar „sé aðgengilegt“ fyrir sig. Fyrr má nú vera!

Það er eins og ég heyri eitthvað á þessa leið: Dear Sir Home, ertu ekki ánægður? Ef þér finnst þetta ekki aðgengilegt, þá verðum við að taka það til athugunar og bæta úr því.

Með þessum samningi, sem ég hygg að sé einsdæmi, samningi sem er óuppsegjanlegur, samningi um afsal réttinda, sem snerta lífsafkomu þjóðarinnar eins mikið og fiskveiðarnar Ísland, er spurt: Eruð þið Bretar ekki ánægðir? Ég hugsa, að slíkt sé einsdæmi í samningum þjóða á milli, og óska, að upplýst sé, ef það er rangt hjá mér.

Bretar eru nú óðum að tapa nýlendum sínum, eins og aðrar herraþjóðir, sem kallaðar hafa verið í því sambandi. Þessar þjóðir eru að tapa nýlendunum, vegna þess að breytt lífsskoðun, jafnréttis og frelsis, fer sigrandi um heiminn. Fyrir Íslendinga er það hörmulegt og í raun og veru algerlega í mótsögn við þá menningu og þá frelsisást, sem við teljum að þjóðin ali með sér, að einmitt nú eiga Bretar að ná nokkurs konar nýlendutaki á Íslandi. Með þessum samningi er afhentur réttur til herraþjóðar óafturkallanlega. Það er að vísu ekki búið að gera þetta, en það er búið að leggja grundvöli að því. Það er eftir að samþ. þennan samning. En það verður ekki annað heyrt af ræðum hæstv. ráðh. en þeir gangi út frá því, að stuðningsmenn stjórnarinnar samþ. samninginn. Ég veit ekki, hvort það er rétt ályktað hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég vildi vona, að svo væri ekki. Það hefur enginn úr hinu svonefnda stjórnarliði enn þá talað í þessu máli nema hv. frsm. utanrmn. Þess vegna er ekkert í ljós komið frá hverjum einstökum um þetta. Ég þykist þess fullviss, að margir menn stjórnarliðsins hljóti að taka nærri sér að greiða þessum samningi atkv. Ég veit um mann, sem hefur sérstaklega verið beðinn af ýmsum stuðningsmönnum sínum að standa á móti öllum undanslætti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. minnti hér í dag á kvæði eftir Guðmund Friðjónsson frá Sandi og las upp erindi úr því, og hann spurði á þessa leið: Hvað mundi Guðmundur á Sandi hafa sagt og gert, ef hann hefði verið staddur hér á meðal vor? — Nú er Guðmundur því miður ekki staddur hér á meðal vor beinlínis, en sonur hans er staddur hér. Hvað gerir sonur hans? Og svo mætti spyrja um marga aðra.

Það var í upphafi umr. þessa máls talað töluvert um það, sem vitað væri um afstöðu þjóðarinnar til málsins, og ég verð að lýsa því yfir, að mig tekur það sárt, að til skuli vera menn, sem hafa í flimtingum, þegar þegnar þjóðfélagsins, hverjir sem þeir eru, taka afstöðu gegn þessu máli, — máli, sem snertir alla þegna þjóðfélagsins. Mér finnst skammarlegt fyrir blað hæstv. utanrrh. að fara með flimt um þessa menn, en það hefur verið hægt að lesa í Alþýðublaðinu. Þar var háðulega frá því sagt, að stúlkur í mjólkurbúðum hafi þegar mótmælt samningnum við Breta, og frétt sé, að félag skattstjóra og bændafundur á Tjörnesi muni gera hið sama. Þeir vita það kannske ekki, þessir menn, að bændur á Tjörnesi sækja sjó. Þeir vita það kannske ekki, að bændur á Tjörnesi sjá til Grímseyjar. Þeir vita það máske ekki, að Tjörnes er sveit, sem hefur mikla samvinnu við Húsavík, og á Húsavík búa á fimmtánda hundrað manns og Húsavík hefur sem aðalatvinnuveg sjávarútveg og Húsvíkingar eru þekktir sjómenn, ötulir, aflasælir og áhugamiklir sjómenn, sem verstöðvar sækjast mjög eftir að fá.

Að gefnu þessu tilefni vil ég lesa hér upp skeyti, sem mér barst frá Húsavík í gærkvöld. Það er á þessa leið: „Samvinnufélag útgerðarmanna og sjómanna, Húsavík, mótmælir því harðlega, að skert verði í nokkru 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands, og krefst þess, að Alþingi haldi fast við fyrri einróma samþykktir í þessu máli.“ Undirskrift: Helgi Kristjánsson, en hann er formaður þessa félags. Í þessu félagi er maðurinn, sem Morgunblaðið birti frásögnina eftir og sagði aðeins frá því, hvað aflinn hefði glæðzt, eftir að landhelgin var færð út, og hann hefði aldrei aflað betur en á þessum vetri. Ég sé í huganum, hvað hann hefur haft gaman af því að upplýsa fréttaritara Morgunblaðsins um þetta, þegar hann var spurður um afstöðuna til landhelgismálsins, og ég er sannfærður um það, að þessi maður, Þórarinn Vigfússon, hefur tekið þátt í að samþ. þessa ákveðnu áskorun, sem ég nú var að lesa upp, frá sjómönnum og útgerðarmönnum í Húsavík eða samtökum þeirra.

Það var frétt í hádegisútvarpinu í dag, sem vakti athygli mína. Það var einkaskeyti frá Lundúnum, sem hljóðaði þannig: „Félag yfirmanna á togurum frá Hull hefur samþykkt með miklum meiri hluta að krefjast tryggingar brezku stjórnarinnar fyrir því, að Íslendingar færi ekki út landhelgina eftir 3 ár. Fáist ekki trygging Soames fiskimálaráðherra, munu yfirmennirnir berjast gegn öllum íslenzkum fisklöndunum í Bretlandi. Félag yfirmanna á togurum frá Grímsby ákvað á fundi að athuga betur samkomulag Breta og Íslendinga næstu viku, meðan málin væru að skýrast.“

Hvað upplýsir svona skeyti? Út úr því má lesa, að sömu menn, sem hófu löndunarbann gegn aðgerðum íslendinga í landhelgismálinu 1952, hóta nú hinu sama. Þá reis ekki Bretastjórn gegn, taldi sig ekki geta gert það. Ætli hún geti það enn? Mér sýnist þess vegna ekki víst, að landhelgisdeilan sé að fullu leyst, þó að þessi samningur komist á, — eða er máske eitthvað í bréfinu frá stjórn hennar hátignar, sem tryggir þetta?

Bretar eru óánægðir með þessa útfærslu, og það hafa hæstv. ráðh. talið vott þess, að þeir hafi sigrað Bretann. Þessu hefur verið rækilega svarað og sýnt fram á, að hér er ekki um neina slíka sönnun að ræða, ekki slíkan vott að ræða. Það er ekkert óeðlilegt, þó að Bretar séu óánægðir yfir því að mega ekki veiða upp að 3 mílum áfram, því birtist óánægjan yfir því í heild. En þeir vita samt, hvað þeir hafa unnið, og þeir segja, að „raunverulegt inntak samningsins sé afsal réttindanna til frekari útfærslu“. Þeir segja það alveg eins og við. Það er inntak samninganna, 3 ár líða, fiskimiðin yrjast, það getur tekið langan tíma, að fyrir það bætist. En sá tími líður, en afsal réttindanna á að vera eilíft, svo að ég noti orð þau, sem hæstv. dómsmrh. hafði í útvarpinu um það, að útfærsla grunnlínanna ætti að vara um alla eilífð.

Þetta afsal er satt að segja eitt af mestu furðum veraldar á sínu sviði. Fyrir fram hefði ég aldrei getað látið mér detta í hug, að íslenzkir menn gætu fallizt á að gefa slíkt afsal. Íslendingar hafa, eins og hefur verið margtekið fram, með einhliða útfærslu aflað sér viðurkenningar á 12 mílna fiskveiðilandhelginni, og ég fullyrði, að í samþykktinni frá 5. maí 1959 fólst ekki annað en að Íslendingar héldu áfram að afla sér viðurkenningar á útfærslu með þeim sterkasta hætti, sem þeir áttu, og ég hygg, að a.m.k. flestir alþm. hafi lagt þann skilning í ályktunina, og enginn mundi þá hafa a.m.k. þorað að opinbera þann skilning, að í henni ætti að felast það, að Íslendingar semdu við Breta á þann hátt, sem nú hefur gert verið.

Ef Íslendingar hefðu ekki haft einhliða aðferðina, þá hefðu þeir enn aðeins þriggja mílna landhelgi. Sú aðferð hefur verið eina vopn þeirra, sem bitið hefur gagnvart Golíötunum, sem þeir hafa átt í höggi við. Nú eiga þeir að afhenda þetta vopn um alla framtíð. Afsal réttarins til einhliða útfærslu er svo sem ekki til þriggja ára og ekki til 10 ára, afsalið er um alla eilífð. Íslendingar eiga hér eftir að tilkynna Bretum með 6 mánaða fyrirvara, hvort sem verður á 20. eða 40. eða 100. öldinni, ef þeir ætla að færa fiskveiðilögsögu sína út. Þannig er tillagan, hvort sem einhverjir atburðir kunna að gerast, sem beri þá giftu með sér, að Íslendingar geti losnað við þennan samning, ef þeir undirgangast hann.

Menn gæti þess, að með því að skuldbinda sig til málskotsins til alþjóðadómstólsins er ekki um sambærilega gagnkvæma hagsmuni að ræða, af því að skuldbindingin til að leggja málið fyrir alþjóðadómstól felur ekki annað í sér en það, sem Íslendingar gætu gert, hvenær sem þeim þætti henta, því að Bretar mundu að sjálfsögðu verða því mjög fegnir hverju sinni, ef Íslendingar vildu skjóta málinu til dómstólsins. Íslendingar buðu upp á þetta að vísu 1952. En þá stóð svo sérstaklega á, að þeir höfðu framkvæmt sína útfærslu nákvæmlega í þeim stíl, sem féll undir úrskurð alþjóðadómstólsins, Haagdómstólsins, í máli Norðmanna. Þeir höfðu þrætt nákvæmlega þá línu, sem dómurinn úrskurðaði Norðmönnum. Þeir höfðu meira að segja haft aðallögfræðinginn, sem Norðmenn höfðu fyrir sig í þessu máli í Haag, til ráðgjafar. Það var þess vegna, sem Bretar vildu þá ekki undirgangast það að skjóta deilunni til Haagdómstólsins, af því að vitað var fyrir fram, að hann hlaut að dæma Íslendingum í vil, því að hann þurfti ekki annað en kveða upp sama dóm og hann hafði kveðið upp í deilu Norðmanna.

Að skuldbindingunni er allur ávinningurinn Breta megin, enda telja þeir hana, eins og ég sagði, inntak samningsins fyrir sig.

Ég hafði gert mér grein fyrir því, að hæstv. ríkisstj. lítur stórt á sig. En aldrei datt mér í hug, að hún teldi sér leyfilegt að gera samning sem þennan um eilíft afsal einhliða útfærsluréttarins. Mér hugkvæmdist ekki, að hún teldi sig svo forvitra, að hún vissi, hvað hentar um alla framtíð, eða hún væri svo purkunarlaus glanni að gera bindandi samning um aldur og ævi fyrir hönd þjóðarinnar. Manni dettur helzt í hug, að hún sé farin að líta á hugtakið „eilífð“ sem umþóttunartíma fyrir sig.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að mér þætti fróðlegt að heyra, hvort hægt væri að benda á nokkra þjóð, sem samið hefur um fiskveiðirétt á þennan hátt. Það hefur verið vitnað í, að Norðmenn hafi samið við Breta. Er nokkurt slíkt ákvæði í þeim samningi? Það hefur verið vitnað í, að Danir sömdu vegna Færeyinga við Breta. Er nokkurt ákvæði sambærilegt í þeim samningi? Það hefur jafnvel verið gengið svo langt að vitna til Rússa. Dettur nokkrum í hug, að slíkt ákvæði sé í þeim samningi?

Auðvitað er hæstv. ríkisstjórn í kröggum og hefur verið, síðan hún tók við framkvæmdum í þessu máli. Hún hefur komið sér í þær kröggur. Bretar hafa tekið hana á því, sem þeir höfðu lesið í Morgunblaðinu 1958 og heyrt eftir forustumönnum Sjálfstfl. og Alþfl. Hana hefur skort þol og þrek í taflínu við Breta, sem buðu til veizluhalda, eins og upplýst hefur verið, af mikilli rausn og með vinmælum, en hótuðu á hinu leitinu hernaði á Íslandsmiðum og vafalaust hörðum kostum í öðrum viðskiptum líka og vinslitum. Enn fremur hefur hæstv. ríkisstj. komið þjóð sinni í mikla efnahagslega erfiðleika á stjórnartíð sinni og þarf á því að halda, að einhver gefi henni „gull í tá“ og það meira en lítið, því að Grímur er víst kominn að því að taka þær flestar eða allar, eins og segir í hinu kunna kvæði. Stjórninni hefur vitanlega verið áhugamál að koma sér ekki út úr húsi hjá þeim veldum, sem vilja, að Ísland hliðri til við Breta.

Segja má, að eins og nú er komið, þegar hæstv. ríkisstj. hefur samið um afslátt fyrir sitt leyti og lagt samninginn fyrir Alþ., þá hafi verið gengið svo langt, að erfitt sé fyrir hana gagnvart Bretum að snúa aftur af sjálfsdáðum. Hún er búin að koma brezka ljóninu aftur í vígahug og hefur gefið því blóð á tönn með þessu samningsuppkasti. En það er skylda Alþ. að leysa hæstv. ríkisstj. úr kröggunum. Það er skylda Alþ. vegna Íslands. Og Alþ. getur gert þetta. Það getur gert þetta með því að fella samningstillöguna, og það er einfaldast. En Alþ. getur líka gert það með því að láta till. ganga undir þjóðaratkvgr. Sú afgreiðsla málsins væri í fullu samræmi við það, sem allir vita, að samþykkt samningsins væri gagnstæð því umboði, sem alþm. fengu í landhelgismálinu í síðustu kosningum. Þá vorum við allir, sem nú sitjum á Alþ., kosnir að því er þetta mál snertir út á yfirlýsingar okkar um að slaka í engu til við Breta. Undarlegt er, ef liðsmenn hæstv. ríkisstj. vilja ekki fallast á þá till. að láta þjóðaratkvgr. skera úr. Sú afstaða sannar það, að tal þeirra um ánægju þjóðarinnar með samningana er tal sem þeir vita að stenzt ekki. Allt er þetta raunar mjög undarlegt: efnisatriði samningsins, orðalag hans, óljóst og tvírætt, og óuppsegjanleiki hans, enn fremur ósveigjanleiki hæstv. ríkisstj. og fylgismanna hennar í því að vilja engar lagfæringar leyfa. Alls engu virðist mega hagga. Það er eins og ófrjálsir menn haldi á þessum málum. Þeir þora ekki vegna Breta að breyta. Þó þykist ég vita, að þeim líður illa sem Íslendingum. Annað getur ekki verið. Hér hefur ógæfusamlega til tekizt. Hér er sem sé um nauðungarsamning að ræða. Ef meiri hl. Alþ. samþykkir þann samning, gera þeir menn það án þess í raun og veru að hafa umboð til þess.

Að lokum vil ég lýsa yfir því fyrir hönd Framsfl., að hann lítur á samning þennan við Breta um lífsbjargarmál íslenzku þjóðarinnar sem nauðungarsamning, ef hann kemst á, og telur, að meta beri samninginn í framtíðinni samkvæmt þeim skilningi, að hann sé nauðungarsamningur, og mun flokkurinn nota fyrsta tækifæri, sem getast kann, til að leysa þjóðina undan oki samningsins.