07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (2427)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þannig hagar til, að ég hugðist ræða nokkuð í minni ræðu um gerðir og orð hæstv. forsrh. í landhelgismálinu fyrr og síðar og einnig koma nokkuð við villukenningar, sem hæstv. fjmrh. hefur haft hér í frammi í umr. um þetta mál, og er það því eindregin ósk mín til hæstv. forseta, að hann sjái svo um, að þessir virðulegu hæstv. ráðh. komi hér og gegni þingskyldu sinni í nótt. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á, að það er að vísu skylda þm. að sitja þingfundi, en það varðar ekki öðru en vítum, og það er ekki hægt að knýja þá gegn vilja þeirra til þess að koma.) Er nokkuð vitað um vilja þeirra? (Forseti: Þeir sýna hann í verki.) Ég óska þess, að hæstv. forseti sýni það réttlæti að heimta ekki, að ég og þeir þm., sem hér eru, gegni okkar þingskyldum, en sleppi öðrum frá því. Ég þarf að tala við þessa menn og á rétt á því. (Forseti: Ef hv. þm. vill geyma ræðu sína til morguns, — það eru margir aðrir á mælendaskrá, — þá er það innan handar, ef hann óskar eftir því.) Ég er reiðubúinn til að halda mína ræðu. (Forseti: Gott og vel.) En ég vil hafa þá menn hér, svo að ég sé ekki neyddur til að baktala þá. Ég bíð hér í ræðustóli, — mér hefur verið gefið orðið, — ég bíð hér í ræðustóli, þangað til þeir herrar koma, sem ég þarf að tala við, þó að það verði til morguns, þó að það verði til hádegis. Ég hef orðið. (Forseti: Ég skal hringja, þannig að þeir, sem hér eru viðstaddir í húsinu —) Ég krefst þess, að fundi sé frestað og umr. látnar bíða, þangað til þessir menn geta brugðið blundi. (Gripið fram í: Það er ekki ? þingmanna í húsinu.) Og hvar er stjórnarliðið, það voru hér fjórir í dag. Það sefur, sefur undir umræðum um landhelgismálið. (Forseti: Ef hv. þm. treystir sér ekki til að halda áfram ræðu sinni, þá geri hann svo vel og víki úr ræðustóli. Hér eru margir á mælendaskrá.) Forseti hefur ekkert fyrir sér í því, að ég treysti mér ekki til þess að flytja ræðu mína. Ég treysti mér mætavel til þess. Það er misskilningur hans. Ég er að bíða hér eftir þeim mönnum, þingmönnum, þingbræðrum mínum, sem hér eru skyldugir til að vera og ég þarf að tala við. (Gripið fram í: Er ekki hægt að fresta þessum fundi núna. — Forseti: Hv. þm. veit, að honum ber einnig skylda til að hlýða forseta, og ég vænti þess, að hann geri það.) Vissulega er það skylda þm. að hlýða forseta, en það er frumskylda forseta að heimta sömu réttindi og skyldur af þingmönnum, gera ekki sumum þeirra að vaka til morguns við þingstörf, en leyfi öðrum að sofa. Réttlátum forseta á að hlýða. En ég legg réttlæti þessa forseta nú undir dóm þingmanna, hvort ég er að brjóta hér rétt eða hann. (Gripið fram í: Það er eindregið óskað eftir því, að fundi verði frestað. — Forseti: Ég spyr hv. þm.: Er það alvara hans að óhlýðnast skipun forseta að víkja úr ræðustóli eða byrja ræðu sína ella?) Það er alvara fyrir mér að fá að ræða hér við þá menn, sem ég hef ætlað að beina orðum mínum til. (Forseti: Ég bið um svar við því, sem ég spurði um.) Ég er hér í ræðustóli reiðubúinn til að flytja mín:a ræðu, þegar ég fæ aðstöðu til þess. Ég vil ekki láta, bjóða mér það, að ég þurfi að baktala tvo hæstv. ráðh., sem eru nú fjarverandi. Ég hef ekki óskað annars af forseta en hann kalli þá hingað til þess að gegna þingskyldu sinni. (Forseti: Það verður 10 mínútna hlé.) Ég vænti þess, að tíminn verði notaður til þess að nálgast þessa menn. Ég vænti þess. — [Fundarhlé].