08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (2429)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. 2. umr. þessa máls hefur nú staðið í nærri heilan sólarhring eða samfellt í 23 klukkustundir. Af þessum langa umræðutíma hafa stjórnarandstæðingar notað nærri 201/2 klukkustund. Ég hef furðað mig nokkuð á framkomu þeirra. Það er eins og ræðuflutningur þeirra sé eins konar Maraþonhlaup milli þm. kommúnista og Framsóknar. Til þess að lengja ræðurnar sem mest hafa þessir þm. gripið til þess að lesa langa kafla úr eldri og yngri ræðum og greinum annarra manna, svo að oft og iðulega hefur engu verið líkara en búið væri að taka allt annað mál á dagskrá en hér liggur fyrir og er til umr. Ég held, að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafi á vissan hátt metið í upplestrinum, þar sem hann fór mjög samvizkusamlega í gegnum allmörg eintök af blaðinu Ingólfi frá 1908. Hins vegar hefur hv. 4. þm. Austf. glæsilegt met í Maraþonkeppninni með 31/2 stunda ræðu. Svo var það hv. 4. landsk. þm., sem sló öll met, eins og hans var von og vísa, þegar hann í nótt sem leið tók sér varðstöðu hér í ræðustólnum, en neitaði þó að tala og neitaði að öðru leyti að hlýða hæstv. forseta Sþ., með þeim afleiðingum, að Alþingi var ekki lengur starfhæft og varð að slíta fundi. (Gripið fram í.) Ég vona, að hv. þm. reyni að hafa hemil á skapi sínu í dag, þó að það hafi verið farið svolítið að hitna í nótt. En annars er það ekki mitt að hafa áhyggjur af skapi þessa hv. þm.

Þó að hv. stjórnarandstæðingar hafi talið sig þurfa að nota þennan ótrúlega langa ræðutíma, er þó mála sannast, að það er auðvelt í stuttu máli að hrekja þær efnislegu mótbárur, sem gegn þessu máli hafa verið fluttar. Hafa þeir allir endurtekið þær hver á fætur öðrum, stundum með nákvæmlega sama orðalagi, stundum einhver lítils háttar munur. Allt aðfengna efnið og stundum guðsþakkarverð gamansemi hjá einstökum stjórnarandstæðingum er í raun og veru hið eina, sem aðgreint hefur þessar Maraþonræður, og mér er nær að ætla, ef þessar 20 tíma ræður væru spilaðar í belg og biðu af segulbandinu, að menn mundu halda, að þetta væri allt ein ræða, ein og sama langlokan, aðeins eins og gömul grammófónplata, sem er orðin svo skemmd, að hún hjakkar áfram, spilar aftur og aftur sömu orðin og sömu setningarnar.

Ég vil leyfa mér fyrst í stað að fara nokkrum almennum orðum um veigamikil atriði þessa máls, sem blandazt hafa inn í umr., án þess nokkuð sérstaklega að víkja að einstökum þm. í því sambandi.

Það hefur verið mikið talað í þessum umr. um réttindaafsal og alþjóðalög og alþjóðarétt. Nú vildi ég leyfa mér að spyrja: Getur það verið réttindaafsal að afsala sér því, sem ekki á stoð í lögum eða rétti? Hygg ég tæpast, að það geti verið afsal, en þá afsal einhvers annars en réttinda. T.d. getur hinn sterkari gagnvart hinum veikari afsalað sér möguleikanum og aðstöðunni til valdbeitingar, ólöglegrar valdbeitingar, eins og Bretar gera með því samkomulagi, sem hér er um að ræða. Íslendingar hafa ekki fallið frá rétti sínum um einhliða aðgerðir til breytinga á fiskveiðilandhelgt sinni um aldur og ævi, eins og segir orðrétt í nál. hv. 2. minni hl. utanrmn., en þetta orðalag hefur svo verið tekið upp næstum því orðrétt af flest öllum, ef ekki öllum þeim mörgu ræðumönnum stjórnarandstöðunnar, sem hafa talað. Hv. 3. þm. Reykv. má hafa ánægjuna af því að hafa gefið þarna tóninn.

Það er svo fjarri því, að rétti okkar til einhliða útfærslu hafi verið afsalað hér, að rétturinn er þvert á móti áréttaður, sbr. niðurlag orðsendingar hæstv. utanrrh. á þskj. 428, þar sem því er slegið föstu, að Íslendingar muni halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþ. frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar. En hitt er rétt, að við afsölum okkur að færa út fiskveiðilögsöguna með þeim hætti, sem ekki á stoð í lögum og rétti, þ.e. alþjóðarétti og íslenzkum lögum. Það er rétt. Að þessu vék ég í framsöguræðu minni og sagði m.a. um það þá, að það væri aðeins eitt atriði, sem við Íslendingar skuldbyndum okkur til um alla framtíð með því samkomulagi, sem ráðgert er til lausnar fiskveiðideilunni við Breta, að gera ekki ráðstafanir, sem samkvæmt dómi alþjóðadómstólsins brjóti í bága við alþjóðalög og rétt. Og ég spurði þá og ég spyr enn, hvort einhver hv. þm. mundi óska, að slíkar skuldbindingar væru teknar eða gerðar tímabundnar af okkar Íslendinga hálfu.

Þetta er hið eina svokallaða hop, eins og það heitir á máli stjórnarandstöðunnar, sem við stuðningsmenn þessa máls viljum leggja á íslenzku þjóðina með þessu máli. Við teljum það ekki aðeins sóma fyrir hina litlu íslenzku þjóð, heldur fordæmi öðrum þjóðum, sem Íslendingar geta verið stoltir af, að vera þess reiðubúnir að leggja ágreining okkar við aðrar þjóðir undir dómsúrskurð alþjóðadómstólsins, þess hlutlausa dómstóls, sem er ein af meginstoðum og aðalstofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Það hefur verið rætt nokkuð um alþjóðadómstólinn í þessum umr. En mér hefur fundizt á því, sem fram hefur komið, að mörgum hv. þm. veiti ekki af nokkurri fræðslu fram yfir það, sem þeir virðast hafa haft um þennan dámstól. Það er talað um, að dómstóllinn hljóti að vera mjög íhaldssamur, dómstóllinn sé meira og minna undir áhrifavaldi stórveldanna, það sé í raun og veru stórveldadómstóll, sem hér sé um að ræða. Þessu fer alls fjarri. Ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að vitna hér í nokkur atriði úr samþykktum alþjóðadómstólsins, til þess að menn geri sér grein fyrir, hvers kyns dómstól hér er verið að tala um að vísað verði til úrskurðar væntanlegu ágreiningsmáli á milli þjóða. Það er sagt svo, að dómstóllinn skuli skipaður óháðum dómendum. Eigi skiptir þjóðerni þeirra máli, enda skulu þeir vera vammlausir menn og búnir þeim kostum, sem heimtað er í landi hvers þeirra um sig til skipunar í æðstu lögfræðiembætti, eða vera viðurkenndir sérfræðingar í þjóðarétti. Í þessum dómi sitja 15 dómendur, enda mega engir tveir þeirra vera þegnar sama ríkis. Það er þing eða allsherjarþing hinna Sameinuðu þjóða og öryggisráðið, sem velur dómendurna úr mönnum, sem dómaranefndir hvers ríkis í fasta gerðardómnum í Haag hafa tilnefnt. Og samkv. 6., gr. er mælzt til þess, að sérhver dómaranefnd ráðfæri sig við æðsta dómstól sinn, lagadeildir sínar og lagaskóla, háskóla sína og deildir alþjóðaháskóla, þar sem laganám er stundað, áður en hún tilnefni dómaraefnin. Allsherjarþing hinna Sameinuðu þjóða og öryggisráðið skulu hvort öðru óháð vinna að kjöri dómendanna, en samkv. 9. gr. segir svo, að þegar velja skal dómendur, skuli kjósendur jafnan bæði gæta þess, að dómaraefnin séu hvert um sig búin þeim kostum, sem krafizt er, og einnig, að tryggt sé, að í dóminum í heild sinni verði málsvarar höfuðmenningartegunda og höfuðlögskipana heimsins. Dómaraefni, sem algeran meiri hluta atkv. hafa hlotið á þingi Sameinuðu þjóðanna og í öryggisráðinu, skal telja kjörin, en um atkvgr. — og því bið ég hv. þm. um að taka eftir — um atkvgr. í öryggisráðinu er svo mælt, að engan mun skal gera á atkv. fastra eða lausra félaga þess, þannig að stórveldin hafa í þessu sambandi enga sérstöðu fram yfir önnur ríki, þegar velja á dómendurna. Þessir dómendur eru valdir til 9 ára, og enginn þeirra má gegna nokkru starfi í þágu framkvæmdavalds eða stjórnmála né heldur taka þátt í nokkurri atvinnusýslun. Þessi dómur skal stöðugt vera starfsskyldur nema í dómleyfum, enda kveður dómurinn á um það, hvenær leyfi skuli vera og hversu löng.

Um það, eftir hverju þessi dómur eigi að dæma, segir svo í 38. gr., að þá er leysa skal úr ágreiningsmálunum, er til dómstólsins eru lögð, skuli hann fara eftir í fyrsta lagi milliríkjasamningum, hvort sem þeir eru almenns eða sérstaks eðils, enda geymi þeir fyrirmæli berum orðum viðurkennd af sakaraðilum. Í öðru lagi milliríkjavenjum, sem vegna almennrar og sannaðrar notkunar eru viðurkenndar eins og lög. Í þriðja lagi almennum grundvallarreglum laga, viðurkenndum af siðuðum þjóðum. Í fjórða lagi dómsúrlausnum, enda sé gætt fyrirmæla 59. gr., og kennisetningum beztu sérfræðinga ýmissa þjóða, er veita mega, er annað þrýtur, leiðbeiningar um tilvist og efni réttarreglna. Loks segir, að þessi ákvæði skuli ekki skerða heimild dómstólsins til þess að úrskurða mál ex aequo et bono, með sanngirni og réttsýni, ef aðilar eru því samþykkir.

Það er eitt ákvæði enn, sem ég vil vekja athygli á vegna nál. hv. fyrri minni hl. utanrmn., þar sem er nú, eins og oft hefur annars staðar komið fram, mjög mikið talað um það, að dómurinn hljóti að verða mjög afturhaldssamur og fylgjast illa með þróuninni. Má t.d. í þessu sambandi benda á, að Bretar buðu að láta alþjóðadómstólinn dæma um rétt Kýpurbúa til sjálfstæðis, en forvígismenn Kýpurbúa höfnuðu því, þar sem fullvíst var talið, að dómstóllinn teldi sig bundinn af gamalli hefð og reglum, sem hefðu gert dómsúrskurðinn hagstæðan Bretum. Það er ekki lengi verið að slá því föstu, að ef þessi dómur ætti að dæma, þá mundi næstum því verða fyrir fram vitað, hvernig dómsniðurstaðan mundi verða. Í 34. gr. segir, að ríki ein megi vera aðilar mála fyrir dómstólnum, svo að ég veit ekki, hvaða ríki hefði átt að vera gagnaðili í þessu sambandi. (Gripið fram í.) Það er kannske dálítið annað mál. En svo er um Kýpurbúa, eins og stendur í nál., sem tóku ákvörðun um það, að málið skyldi ekki fara fyrir dóminn.

Ég held, að það sé fullljóst og dyljist ekki, að það er þannig um hnútana búið í sambandi við þennan alþjóðadómstól, að í einu og öllu á að mega vænta þess af hverjum aðila sem er, að þar geti fengizt hlutlaus dómsniðurstaða, og það er auðvitað ekki sæmandi á Alþ. Íslendinga að gera ráð fyrir því fyrir fram, að það sé nokkurn veginn gefið, hvernig dómsniðurstöður fari, stórveldin hafi svo og svo mikil áhrif o.s.frv. Mörg ríki hafa áður farið eftir því ákvæði þessarar stofnsamþykktar, þar sem þau fyrir fram í eitt skipti fyrir öll skuldbinda sig til þess að leggja öll sín deilumál, sem upp kunna að koma við aðrar þjóðir, undir úrskurð alþjóðadómstólsins, og auðvitað væri þjóðasamfélagið miklu betur á vegi statt, ef fleiri ríki væru í þeim hópi. En samkv. 36. gr. segir í 2. málslið, að ríki, sem aðilar eru að samþykktum þessum, geti hvenær sem er lýst yfir því, að þau skuldbindi sig in facto og án sérstaks samkomulags gagnvart hverju öðru ríki, er gengst undir sömu skuldbindingar, til þess að hlíta lögsögu dómsins um allan lagalegan ágreining varðandi túlkun samninga, hvert vandamál um milliríkjarétt, hvort staðreynd hafi gerzt, sem, ef sönnuð væri, mundi fela í sér brot á skyldu í skiptum ríkja, hvers konar og hve miklar bætur skuli gjalda fyrir brot á skyldu í skiptum ríkja.

Að vera reiðubúinn til þess að leggja ágreining við annað ríki undir úrskurð dóms er kallað hér í sölum hv. Alþ. réttindaafsal um aldur og ævi. Þannig hafa stjórnarandstæðingar tjáð sig hver af öðrum, og hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) komst m.a. svo undarlega að orði í gær, að með samkomulagi við Breta um skuldbindingar af beggja hálfu til þess að leggja ágreining ríkjanna um áframhaldandi útfærslu fiskveiðilögsögu við Ísland undir úrskurð þessa dóms hefðu Bretar náð nýlendutaki á Íslendingum. (KK: Nokkurs konar.) Nokkurs konar nýlendutaki, jæja. — þetta var stórum betra, og ég er þakklátur hv. þm. fyrir að draga úr þessu. Ég skal viðurkenna, að það er stigmunur á því, en að mínu áliti enginn eðlismunur að taka á sig skuldbindingu í eitt skipti fyrir öll að hlíta dómsúrskurði alþjóðadómsins eða taka aðeins ákvörðun um það hverju sinni, þegar ágreiningur er rísinn. Ríkisstj. Íslands undir forsæti Framsfl. hafði frumkvæði um það eða forustu 1953 að vilja leggja ágreining okkar við Breta þá um 4 mílna landhelgina undir úrskurð alþjóðadómsins. Það er enginn eðlismunur á þessari skuldbindingu og þeirri, sem hér er um að ræða samkv. samkomulaginu, aðeins stigmunur, eins og ég vék að áðan.

Það var töluvert talað um það í gær, að þau væru lágkúruleg, sjónarmið okkar, sem fylgjum þessu samkomulagi, og því vil ég aðeins segja það, að það þarf meiri trú á málstað Íslands, meiri manndóm og kjark og minni tækifærissinna til þess í eitt skipti fyrir öll að þora og vilja skjóta máli sínu til alþjóðadómsins, en meta það hverju sinni, þegar ágreiningur er risinn.

Ég skal nú með nokkrum orðum víkja að ýmsum einstökum atriðum og fullyrðingum, sem fram hafa komið um efni þessa máls í ræðum stjórnarandstæðinga, þó að það geti aldrei tæmandi orðið eftir allar þessar löngu ræður. En það skiptir ekki heldur máli, heldur aðallega að binda sig við það, sem veigamest er.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði: Ef þetta samkomulag verður staðfest, fá Bretar sama rétt og Íslendingar til landgrunnsins umhverfis Ísland. Eftir staðfestingu þessa samkomulags höfum við ekki meiri rétt til fiskveiða a landgrunninu heldur en Bretar. — En hvað kemur til, að menn segja þetta? Er það vegna þess, að hv. stjórnarandstaða sé algerlega trúlaus á málstað Íslands, á árangur þeirrar þrautseigu baráttu, sem Íslendingar hafa háð á alþjóðavettvangi allt frá setningu landgrunnslaganna frá 1948 á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, á tveimur Genfarráðstefnum, í Evrópuráði, innan Efnahagsstofnunar Evrópu (OEEC), í Norðurlandaráði og við margs konar einstök tækifæri á alþjóðavettvangi fyrir því að öðlast og ná viðurkenningu annarra á rétti strandríkis til landgrunnsins og alveg sérstaklega Íslands á sökkilnum, sem landið hvílir á? Hefur alveg farið fram hjá hv. stjórnarandstæðingum hin öra þróun síðari ára á alþjóðavettvangi, sem öll stefnir að því, að þessi réttur strandríkis öðlist viðurkenningu? Sá, sem í dag segir, að með því að vilja skjóta ágreiningi um frekari útfærslu en nú er til alþjóðadómstóls, — sá, sem segir í dag, að með því sé verið að gefa Bretum sama rétt og Íslendingum til landgrunnsins, hann hefur ekki trú á málstað Íslands. En Íslendingar hafa sótt mikið áleiðis á undanförnum áratug til þess að skapa sér viðurkenningu og öðlast rétt á þessu sviði. Það var vitnað í það hér í umr., að alþjóðalaganefndin hefði á sínum tíma viljað gera eða gert tillögur um staðfestingu þeirra alþjóðareglna, að strandríki ætti landgrunnið, botninn og það, sem undir botninum væri, en ekki hafið yfir landgrunninu, og þetta sýndi, hvað við værum skammt á veg komnir, það væri vegna þess, að stórveldin og ýmsir aðrir hefðu olíuturna margar mílur á hafi úti til þess að vinna olíu úr botninum og önnur verðmæti þar, en af því að þau hirtu ekkert um eða hefðu ekki aðstöðu til að hagnast á fiskigöngunum í hafinu yfir landgrunninu. þá ætti að undanskilja það. Á árinu 1953 voru uppi tillögur um þetta í alþjóðalaganefndinni. Íslendingar börðust ásamt öðrum þjóðum mjög hart gegn þessum skilningi, og þessi skilningur alþjóðlegu laganefndarinnar hefur verið lagður til hliðar. En þvert á móti hafa komið alþjóðlegar samþykktir, sem lengra og lengra ganga í því að viðurkenna rétt — sérstakan rétt — strandríkisins yfir landgrunninu og hafinu yfir landgrunninu. Á Gefnarráðstefnunum 1958 og 1959 voru gerðar mjög merkar ályktanir í þessu sambandi. Á báðum þessum ráðstefnum lögðu Íslendingar til, að þar sem þjóð byggi afkomu sína á fiskveiðum meðfram ströndum, bæri strandríkinu sérstaða umfram hin almennu fiskveiðitakmörk, enda skyldi ágreiningur borinn undir gerðardóm. Þessar tillögur hafa fram að þessu verið felldar. Þær hafa hins vegar notið mikils og vaxandi stuðnings og þetta er það, sem koma skal og kemur fyrr en varir, a.m.k. að áliti þeirra manna, sem hafa trú á málstað okkar Íslendinga og okkar fullkomnu sérstöðu í sambandi við fiskveiðarnar. Á Genfarráðstefnu 1958 var samþykktur samningur um verndun fiskimiða úthafsins, og Ísland undirritaði hann. En þar er gert ráð fyrir því, að þegar sérstaklega stendur á og samningaviðræður við hlutaðeigandi ríki hafa ekki borið árangur, geti strandríki ákveðið einhliða verndarráðstafanir. Þetta var samþykkt og hlaut gildi sem alþjóðalagaregla samkv. þeirri samþykkt. Og á þessari ráðstefnu var einnig samþ. ályktun, þar sem mælt var með því, að hlutaðeigandi þjóðir hefðu samvinnu um að tryggja forgangsrétt strandríkis, þegar nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir gegn ofveiði. Í báðum þessum tilfellum er gert ráð fyrir því, að gerðardómur fjalli um mál, sem út af þessum samþykktum kynnu að rísa.

Það er sjaldan að herforingi, enda þótt hann stýri fræknu liði, hafi sterka vígstöðu, vinni sigur, ef hann skortir sigurvissuna, trúna á málstaðinn fyrir fram. Og það er óþarfi fyrir okkur Íslendinga að skorta trúna á okkar málstað í þessu máli.

Hv. 4. þm. Austf. sagði margt í sinni löngu ræðu, sem sannast sagna að mínum dómi væri betur ósagt um málstað Íslands og réttarstöðu í landhelgismálinu, því að ég álít, að hv. þm. beri að varast að hafa uppi hér í þingsölunum skoðanir um réttarstöðu Íslands, sem síðar meir gætu veikt málstað Íslands í baráttu þess við aðrar þjóðir. Þess hefur ekki verið gætt í þeim umr., sem hér hafa farið fram. En ég vil víkja að einu atriði, sem fram kom hjá hv. 4. þm. Austf. Hann sagði í fyrsta lagi, að það væri alveg ótvíræður réttur samkv. alþjóðlegri samþykkt og alþjóðalögum frá Gefnarráðstefnunni fyrir okkur að færa út grunnlínurnar með tilteknum hætti, — alveg ótvíræður lagaréttur. Þessi hæstv. ráðh, setur reglugerð um grunnlínurnar 1958. Það var ótvíræður réttur að lagfæra grunnlínurnar. Sá réttur var ekki notaður. Á hinn bóginn segir hv. þm. og staðhæfir, sem mig furðaði á, að það mundi vera algerlega vonlaust, eins og nú er komið, að fá neinn úrskurð alþjóðadómstólsins til þess að viðurkenna 12 mílur. Þegar slíkar skoðanir eru fyrir hendi hjá hv. þm., hverjar voru þá afleiðingarnar af því? Jú, þá var alveg sjálfsagt að taka ákvörðun um að fara út í 12 mílur, þar sem rétturinn var vafasamur, en þar sem rétturinn var óvefengjanlegur, mátti það liggja á milli hluta. Ég álít, að framkvæmdir af þessu tagi séu ekki vænlegar í máli eins og þessu og gefi því miður grun um, að það sé meira hugsað um annað en öryggi og málstað okkar Íslendinga í máli eins og þessu, og ég skal koma að því síðar.

Ég vil leiðrétta eitt, sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Austf. og hv. 6. þm. Sunnl. og kannske fleiri, þar sem þeir sögðu, að Bretar hefðu fallið frá mótmælum gegn 4 mílunum, en tekið mótmælin upp aftur. Þetta var sagt í sambandi við það, að nú væri talað um það að falla frá mótmælum gegn 12 mílum, — auðvitað væri alltaf hægt að taka upp mótmælin aftur, Bretar féllu aldrei frá mótmælum gegn 4 mílunum, og þegar löndunarbanninu var aflétt á sínum tíma, þá voru meira að segja áréttuð mótmælin gegn 4 mílunum.

Ég veit ekki, hversu margir af ræðumönnunum viðhöfðu þá sömu staðhæfingu, að hæstv. dómsmrh. hefði viðurkennt í útvarpsumr. að viðurkenning Breta á 12 mílunum hefði alls ekki fengizt. Þeir hafa lesið með mikilli kostgæfni nál. frá 2. minni hl. utanrmn., en þar er þessu sama slegið föstu, og það er einmitt margt af því, sem þar kemur fram, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum fullyrðingar í ræðum þingmannanna síðar. Nú hefur dómsmrh. leiðrétt þetta sjálfur. En eftir að hann leiðrétti þetta, kemur hver ræðumaður á fætur öðrum og þylur upp þetta sama, að hæstv. ráðh. hafi viðurkennt og sagt, að það sé rétt, að formleg viðurkenning hafi ekki fengizt fyrir 12 mílunum hjá Bretum. Af hverju stafar þetta? Þetta stafar einfaldlega af því, að þessir ágætu þm. voru búnir að skrifa ræðuna, áður en þessi leiðrétting var gerð, og það var of mikið áfall fyrir Maraþonkappana að strika út úr ræðunum það, sem leiðrétt hafði verið og ósatt var. Þá urðu þessar ræður allt of stuttar.

Ég ætla að leyfa mér aðeins að taka upp það, sem hæstv. ráðh. vitnaði til í sinni ræðu, ef vera kynni, að einhver kæmi á eftir mér með sömu staðhæfingar, en þar kemst hæstv. ráðh. þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fyrsta lið orðsendingar utanrrh. Íslands til utanrrh. Bretlands, sem hér liggur fyrir, segir: „Ríkisstjórn Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland.“ Með staðfestingu brezku ríkisstj. á þessu frumskilyrði okkar er tryggt, að ofbeldisaðgerðir af hennar hálfu innan fiskveiðilandhelgi okkar hverfa úr sögunni. Mótmæli Alþ. gegn þeim hafa þess vegna borið tilætlaðan árangur, en áður hafði ríkisstjórn Íslands með sakaruppgjöfinni síðastliðið vor og ákvörðuninni um viðræður við Breta á síðastliðnu sumri tekizt að hindra þær að mestu um sinn. Ákvörðun brezku ríkisstj. að falla frá mótmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögunni tryggir ekki einungis, að hún taki ekki upp ofbeldisaðgerðir að nýju, heldur felur ákvörðunin einnig í sér, að héðan í frá mun brezka stjórnin ekki bera brigður á hinn ótvíræða rétt, sem Alþ. Íslendinga hinn 5. maí 1959 lýsti yfir, að Ísland hefði til 12 mílna fiskveiðilögsögu. Þetta heitorð er helgað með skrásetningu eða þinglýsingu hjá sjálfum Sameinuðu þjóðunum til tryggingar því, að við það verði staðið. Héðan í frá verður ekki um það deilt, að Íslandi einu ber þessi réttur og getur þar af leiðandi án samráðs við aðra ráðstafað honum eins og það telur sér henta. Hv. þm. Lúðvík Jósefsson og Hermann Jónasson héldu því að vísu fram, að með þessu sé ekki fengin viðurkenning Breta á 12 mílna lögsögunni. Þetta segja þeir í sömu andránni og Hermann Jónasson fjölyrðir um þá viðurkenningu í verki, er við höfum hlotið frá ríkjum, sem létu ekki skip sín fiska hér undir herskipavernd og mótmæltu þó stækkuninni 1958 berum orðum. Nú falla Bretar ekki einungis frá valdbeitingu, heldur berum orðum frá mótmælum sínum.“

Þetta er svo skýr viðurkenning, sem á verður kosið, en samt skal það heita, að ráðh. hafi sagt í sinni ræðu, að viðurkenningin hafi ekki verið gefin af hálfu Breta.

Ég ætla að minnast hér örfáum orðum á drottningarbréfið. Það var ekki lítill þáttur í ræðunum hér í gær, eftir að hv. alþm. höfðu haldið því fram, að það fælist ekkert í þessu samkomulagi um það, að Bretar mundu ekki strax að 3 árum liðnum heimta endurnýjun á takmörkuðum veiðiréttindum innan 12 mílna landhelginnar, — eftir að þeir höfðu haldið þessu fram og eftir að hæstv. utanrrh. færði sönnur á það með tilvitnunum í bréf brezku ríkisstj. að hún hafi engar ráðagerðir um framlengingu á þessum takmörkuðu réttindum. Þegar þessu er lokið, rjúka menn upp og fjargviðrast yfir því, hvað maðurinn sé að gera, hvað hæstv. utanrrh. sé að gera, þetta sé hneyksli. honum beri skylda til að birta allt bréfið. Þegar birt eru úr bréfi frá brezkri ríkisstjórn til íslenzku ríkisstj. ótviræð ummæli, sem taka af skarið um efnisatriði þessa máls, sem þm. höfðu vefengt og maður skyldi ætla að þeir væru ákaflega fegnir að úr fengist skorið efnislega, þá eru þeir ekki fegnir, þegar úrskurðurinn fæst. Nei, þá fyrst eru þeir óánægðir og tala um. að það sé hneyksli að birta ekki allt bréfið.

Hvað eiga svona látalæti að þýða? Hvaða máli kemur það við, hvort bréf frá ríkisstj. til ríkisstj. er birt að meira eða minna leyti, þegar beinlínis er óskað eftir vitneskju um það, hver afstaða brezku ríkisstj. sé til tiltekins atriðis, og sú afstaða hennar er gerð heyrinkunn á Alþ. af hæstv. utanrrh. úr bréfi brezku ríkisstj. til íslenzku ríkisstj.? Þetta eru óskiljanleg barnalæti, allur þessi gauragangur í sambandi við birtingu bréfsins, og það er gert í morgun í blöðunum að stórmáli, og vinur minn, hv. 6. þm. Sunnl., það var einmitt hann, sem var að tala um það í gær, að þetta væri alveg einstæður atburður, að slíkt skyldi hafa komið fyrir. Það er lesið úr bréfi það, sem óskað er eftir að fá úrskurð um, en ekki bréfið allt. Og hvert var svo framhaldið? Auðvitað getsakir um, að það væru einhverjir leynisamningar í þessu bréfi, sem þjóðin mætti ekki sjá. Menn geta fundið sér allt til foráttu í sambandi við mál eins og þetta og hvert annað mál, ef menn vilja gera veður út af hlutum eins og þessum.

Ég skal svo fara nokkrum orðum um grunnlínupunktana, sem eru veigamikið atriði og um hefur verið rætt mikið í þessu sambandi, en í nál. hv. 2. minni hl. utanrmn. standa þessi orð: „Eftir að grunnlínupunktarnir eru með þessu samningsuppkasti gerðir að óbreytanlegum samningi við brezku ríkisstj.“ — grunnlínupunktarnir eru gerðir að óbreytanlegum samningi við brezku ríkisstj. Það stendur, með leyfi hæstv. forseta, í niðurlagi orðsendingarinnar til Breta: „Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþ, frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland“ — mun halda áfram að vinna að útfærslunni. Þar undir eru grunnlínupunktar. Hvernig er svo hægt að segja, að með slíku samkomulagi sé verið að gera grunnlínupunktana að óbreytanlegum samningi við brezku ríkisstj.? Það er enn fremur sagt, með leyfi hæstv. forseta: „En grunnlínupunktana höfum við enn samkvæmt íslenzkum lögum rétt til að draga að vild, og til þess sama höfum við ótvíræðan rétt bæði að alþjóðalögum og samkvæmt ákvörðunum sjöréttarráðstefnunnar í Genf.“ Þessum réttindum öllum er verið að afsala þjóðinni með því að semja við Breta um nokkra punkta og gera það síðan háð samþykki þeirra eða alþjóðadómstólsins í Haag, hvort breyta megi. Fyrst er sagt: við eigum ótvíræðan rétt samkvæmt alþjóðalögum til tiltekinna punkta, hagnýtingar á þeim, öðrum en hér eru, og svo er sagt, að það sé verið að afsala þessum rétti með því að ætla að láta alþjóðadómstól kveða upp úr um það, hvort þetta séu lög eða ekki lög. Þegar jafngreindir þm. og hér eiga hlut að máli fara út í svona rökvillur eins og að segja: fyrst höfum við réttinn að alþjóðalögum, svo ætlum við að skuldbinda okkur, ef ágreiningur verður um réttinn, til að skjóta ágreiningnum til alþjóðadóms, — með því atriði sé verið að afsala sér réttindum, það er með öðrum orðum, að í hvert skipti sem borgari færi til dómstólanna með mál sitt, þá væri hann með því eftir þessu að afsala sér þeim réttindum, sem hann hyggur sig hafa, bara með því að fara til dómsins. Það er eins og það sé verið að leita með logandi ljósi að einhverjum atriðum í þessu samkomulagi, sem hægt sé að vefengja, skýra á annan hátt en liggur í augum uppi, hæstv. ríkisstj. hefur skýrt og upplýst hefur verið að Bretar skilja.

Út af fyrir sig er ekkert við þessu að segja, ef þetta væri gert í þeim tilgangi að taka af öll tvímæli í þessu sambandi. En það er ekki gert til þess. Það er gert til þess að reyna að sjá einhverja veilu í aðstöðu Íslendinga. Það er verið að búa til veilur í réttarstöðu landsins. Það er í þeim skilningi gert. Og þegar hægt er að leggja fram málsgögn frá Háskóla Íslands, sem veigamikla þýðingu hafa, og um afstöðu sjálfra Breta um skilninginn á þessum tilteknu atriðum og þegar það virðist óþarfi lengur að vera um það að þrátta, þá er ævinlega brugðizt verst við. Þetta er vegna þess, að það er því miður einlægur vilji og ásetningur sumra manna hér í þinginu að koma með öllum ráðum í veg fyrir, að samkomulag eða sætt geti tekizt í landhelgisdeilunni við Breta, og það er meira áhugamál fyrir þeim, að sú deila haldi áfram, heldur en hitt, að Íslendingar geti farið út úr þeirri deilu og endað hana með sóma frammi fyrir öllum þjóðum, eins og fram hefur komið, bæði í afstöðu Breta og annarra þjóða, sem tjáð hafa sig um afstöðu Íslendinga í sambandi við það samkomulag, sem hér er til umr.

Ég sagði, að það kæmi fram í afstöðu Breta. En þá höfum við skýringar frá hv. frsm. 1. minni hl. utanrmn., hv. 8. þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni. Hann sagði, að Bretar væru bara að gera það að gamni sínu að vera óánægðir, þeir væru nefnilega svo drenglyndir og miklir sportmenn, að þeir vildu ekki vera að sparka í aumingja Íslendingana, sem lægju svona hundflatir. Að þessari skýringu hefur verið brosað, og við skulum ekki eyða tíma í að gera hana frekar að umtalsefni. Það kom önnur miklu alvarlegri skýring að mínum dómi fram hér í umr. í gær. Hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði að umtalsefni útvarpsfrétt, sem barst í gær, að togaramenn í Hull mundu taka til löndunarbanns á íslenzkum fiski, ef Bretastjórn tryggði þeim ekki fyrir fram, að Íslendingar færðu ekki frekar út fiskveiðilögsögu sína síðar, og hv. ræðumaður komst efnislega þannig að orði, að þetta væri hið raunverulega mat þeirra, að Íslendingar hefðu afsalað sér rétti til frekari útfærslu. Mér finnst mjög alvarlegt og hryggilegt, þegar íslenzkir alþm. gera sig með slíkum hætti bera að því að telja ótvíræð réttindi eigin þjóðar einskis virði og afsöluð og reyna þannig að smíða vopn í hendur andstæðinga þjóðarinnar, af því að þeir halda, að með því geti þeir komið einhverju klámhöggi á pólitíska andstæðinga. Ég benti í minni framsöguræðu á og vitnaði til ummæla brezkra blaða, þingmanna og forustumanna, að það, sem Bretar óttuðust mest við þetta samkomulag, væri framhaldið, frekari útfærsla Íslendinga á fiskveiðilögsögunni, sem þeir áskilja sér í samkomulaginu að vinna að, og það er augljóslega einmitt þessi sami ótti, sem lýsir sér í afstöðu útvegsmannanna í Hull, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði að umtalsefni.

Ég skal þá koma að sjálfri orðsendingunni og fara með fáum orðum yfir þær brtt. eða ræða þær brtt., sem fram hafa komið í sambandi við orðsendinguna. Ég kem þar fyrst að 1. liðnum, að ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögunni umhverfis Ísland. Þetta er ekki talið sama og viðurkenning. Það hefur verið margrætt hérna. Lagadeild háskólans hefur tjáð sig um það, og hæstv. utanrrh. hefur vitnað í ummæli brezkra ráðh. í þinginu um það, að þeir hafi með þessu ótvírætt óafturkallanlega viðurkennt 12 mílna landhelgina. Ég hitti ungan dreng um daginn, sem sagði við mig: Bretar hafa ekki viðurkennt landhelgina, þeir hafa ekki viðurkennt 12 mílurnar, þeir hafa bara fallið frá mótmælum. — Er það ekki sama og viðurkenna? sagði ég. Nei, ekki segja strákarnir það, sagði hann. Segja strákarnir það ekki, sagði ég. Nú, ef þú ert að deila við einhvern af félögum þínum, við skulum segja t.d. um vasahnífinn þinn, sem þú telur þig eiga, en hann segir: Ónei, ég á helminginn í þessum hníf með þér, og ég mótmæli því, að þú eigir hnífinn, — svo rifizt þið um þetta, og félagi þinn mótmælir, að þú eigir hnífinn, en svo segir hann allt í einu: Nei, ég ætla nú að falla frá þessum mótmælum, — finnst þér hann ekki hafa viðurkennt, að þú eigir hnífinn? Ójú, sagði strákurinn, þó að hann væri ekki nema 14 ára gamall. En um þetta er búið að deila hér í marga klukkutíma í þinginu, um atriði eins og þetta. Og eftir að búið er að vitna í, hvernig Bretar líta á þetta, ummæli, sem viðhöfð hafa verið í brezka þinginu og eru alveg ótvíræð og leggja nákvæmlega sama skilning í þetta og hæstv. ríkisstj., þá segja andstæðingar: Því ekki taka af skarið, bera fram brtt.? Við því er að svara: Það þarf ekki að breyta því, sem er ákveðið, hvernig á að vera, og brtt. segir ekkert meira en sjálfur málsliðurinn. Það er óþarfi að breyta því. Orðsendingar á milli ríkja eru yfirleitt þannig gerðar, að í flestum tilfellum verður að velja þær eða hafna, og ef engar efnisbreytingar eru fram bornar, þá þarf auðvitað ekki að vera að deila um það, hvort eigi að breyta til orðalagi á einn eða annan hátt, þegar það er jafnótvírætt og hér um ræðir, að það orðalag, sem lagt er til, segir ekkert nýtt frá því, sem er í sjálfri orðsendingunni eða í 1. lið tillögunnar.

Um 2. lið þarf ekki að fjölyrða. Það er enginn vafi á því, að þær eru mjög mikilvægar, þær grunnlínubreytingar, sem þarna hafa átt sér stað. Það hefur verið vikið að því hér og margsinnis um það talað, og hv. stjórnarandstæðingar hafa flutt í efri deild frv. um það að lögfesta gömlu grunnlínurnar án nokkurra lagfæringa, og í síðastliðnum mánuði skiluðu fulltrúar stjórnarandstæðinga í nefndinni, sem fór með málið, till. um það, að svona skyldi þetta vera óbreytt. En þegar hins vegar kemur fram í orðsendingunni hér, að stórkostlegar breytingar geti átt sér stað og sé ætlunin að framkvæma, þá segja auðvitað stjórnarandstæðingar: Þetta er ekki neitt nema það, sem við höfum rétt til. 1958, þegar sjútvmrh. þá, hv. 4. þm. Austf., gaf út reglugerðina, þá voru engar útfærslur á grunnlínunum. Fyrir Alþingi liggja núna till. um staðfestingu eða lögfestingu á gömlu till. Og svo loksins þegar hér koma breytingar fram, þá eru þær taldar einskis virði. Látum það liggja á milli hluta. Þegar búið er að píska þessa menn, sem hafa staðið þannig á rétti okkar í grunnlínuréttingunum hér kvöld eftir kvöld, í útvarpsumr. og framhaldi 2. umr. um þetta mál, þá tóku þeir sig til í gær og fluttu brtt. um nokkrar grunnlínuréttingar. Ég verð að segja, að mér finnst málstaður þessara manna og afstaða í sambandi við þetta mál hafa verið léleg fyrr, en í raun og veru kannske enn þá aumari, eftir að þeir læðast nú fram með þessar brtt. eftir allt það, sem á undan er gengið frá þeirra hálfu, og eftir það, hvað mikið er búið að inna þá eftir því, hvort þeir ætli ekki að hafa manndóm í sér til þess að koma fram með brtt. En hvernig er það, er þá búið að taka aftur frv. í Ed. eða leggja fram brtt. þar? Það er dálítið einstakt, að sömu mennirnir skuli vera með sitt hvora till. í sama máli, aðra í Sþ. og hina í Ed.

Í 3. lið orðsendingarinnar er dregið upp, á hvaða svæðum Bretar fái takmörkuð veiðiréttindi til þriggja ára. Um þetta geta auðvitað verið skiptar skoðanir, og sumum finnst þetta veita Bretum of mikil réttindi, að þeir megi veiða inn að 6 mílunum á tilteknum svæðum um tiltekinn tíma á ári um þriggja ára bil. Öðrum finnst ekki mikið látið á móts við það, sem annars vegar er fengið, að geta fengið lausn þessarar deilu.

Um 4. tölulið hefur verið gerð töluverð athugasemd, og þar er flutt fram brtt., og því vík ég að henni, að í stað orðanna: „á áðurgreindu þriggja ára tímabili“, eins og það er orðað, megi skip Breta þó ekki veiða á tilteknum svæðum, — það hefur verið flutt brtt. um það, að í stað þess komi: „framvegis“ megi þeir ekki veiða á þessum tilteknu svæðum, sem þarna eru tilgreind. Og orðunin „á áðurgreindu þriggja ára tímabili“ hefur verið túlkuð þannig, að fyrst það sé meiningin, þá hljóti í því að felast, að það sé aðeins um þetta tiltekna tímabil, en algerlega óráðið og óvisst um framtíðina. Nú hefur að vísu hæstv. utanrrh. bent á misskilninginn, sem fram hefur komið í þessu, og eftir að hann benti á það, þá held ég, að ekki hafi komið fram hjá neinum ræðumanni nein athugasemd við þetta. En 3. liðurinn ber að skoðast og skiljast sem takmörkun á 4. lið og skilst mjög auðveldlega, þegar tekin er landhelgin fyrir Norðurlandi, að þar er Bretum heimilað samkv. 3. liðnum réttur til þess að veiða inn að 6 mílna svæðinu frá Horni til Langaness á tilteknum tíma, en í 4. lið segir: þó ekki á vissu tilteknu svæði, sem dregið er frá Grímsey og í 6. og 8. grunnlínupunkt. Þegar þetta liggur þannig fyrir, þá verður að ætla, að mönnum skiljist til fulls, að þessi brtt., sem er c-liður 2. brtt. á þskj. 450, er af misskilningi fram borin.

Þá er loksins niðurlag orðsendingarinnar, og um það hafa verið skiptar skoðanir. Stjórnarandstæðingar vilja umfram allt geta lesið út úr þessu eitthvert afsal réttinda okkur til handa og þyngri og aðrar skuldbindingar séu lagðar á herðar okkar með þessu en felst í sjálfu orðalaginu. Ríkisstj. sjálf hefur skýrt og ótvírætt lýst yfir, að enginn ágreiningur hafi verið í samningaviðræðunum og undir meðferð málsins um þetta atriði við samningsfulltrúa Breta. Það er efni þessa máls, að ríkisstj. muni halda áfram að vinna að útfærslu. og samkvæmt orðun þessa niðurlags mun hún tilkynna ríkisstjórn Bretlands þessa útfærslu, sem yrði þá í framkvæmd þannig, að ný reglugerð um útfærslu yrði gefin út og gildistaka hennar miðuð við 6 mánuði,. en það á að tilkynna Bretum útfærsluna með 6 mánaða fyrirvara, miðað við 6 mánuði, frá því að hún yrði kunngerð Bretum. Það olli nokkrum umr. hér í gær. Það er ekki ákvörðunin um útfærsluna, sem hér er um að ræða, heldur að útfærslan sjálf er tilkynnt, og það er þess vegna, sem það er ótvírætt, að sjálf útfærslan kæmi síðan til framkvæmda að 6 mánuðum liðnum, ef Bretar hefðu ekki haft það við hana að athuga, að þeir teldu ástæðu til þess að láta alþjóðadómstólinn um hana fjalla. Þeir hafa því 6 mánuði til þess að vísa ágreiningi um þetta til alþjóðadómstólsins. Ef alþjóðadómstóllinn hefur ekki tjáð sig um málið að 6 mánuðum liðnum, þá tekur útfærslan gildi.

Það er að vísu rétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að alþjóðadómstóllinn getur tjáð sig um þetta mál vafalaust án þess að taka endanlegar niðurstöður um málið. Það verður að ætla það. En hitt er jafnvíst og jafnótvírætt eftir hljóðun orðanna í þessu niðurlagi, að hafi alþjóðadómstóllinn ekki tjáð sig um málið að 6 mánuðum liðnum, þá tekur þessi tiltekna útfærsla gildi og gildir áfram, hvort sem Bretum líkar vel eða miður, og verður þá ekki hnekkt úr því gagnvart þeim, nema alþjóðadómstóllinn síðar felli úrskurð um það, að þessi útfærsla hafi ekki stoð í alþjóðalögum og rétti. Og þá er rétt að viðurkenna það, að á þessu niðurlagi orðsendingarinnar er sá efnismunur og brtt. 2, b-lið, á þskj. 450 frá hv. stjórnarandstæðingum, að með þessu taka Íslendingar á herðar sér strax og fyrir fram skuldbindinguna um að leggja ágreininginn undir dóm. Hv. stjórnarandstæðingar vilja aðeins orða það svo, að Íslendingar munt fara í þessum efnum við útfærsluna samkv. íslenzkum lögum og alþjóðarétti. Þeir ætla að vísu að fara að alþjóðarétti, en ég skil það svo, að í því þurfi ekki að felast skuldbinding um það, að þeir ætli að leggja málið fyrir dóm hverju sinni, heldur taka hverju sinni ákvörðun um það, hvort fyrir dómstólinn skuli fara eða ekki. En hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar,. sem stendur að þessu máli, vill undirgangast þá skuldbindingu og gera það með glöðu geði í eitt skipti fyrir öll að vísa ágreiningi um málið til úrskurðar alþjóðadómstólsins.

Það má þess vegna segja, að fyrir utan þessa brtt. og svo hina síðbornu grunnlínupunktabrtt. séu engar efnisbreytingar í þeim brtt., sem fram eru komnar og fluttar eru af stjórnarandstæðingum á þskj. 450.

Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) flytur brtt. á þskj. 459, af því að hann vill ekki fallast á þann skilning, að málskotið til alþjóðadómstólsins fresti ekki útfærslunni, og vill orða það jákvætt, telur, að um það gæti verið einhver vafi. Frá sjónarmiði okkar og miðað við skilning okkar á niðurlagi orðsendingar ríkisstj. felst engin breyt. í brtt. á þskj. 459.

Ég hef nú viljað freista þess við þessa umr. að árétta nokkuð sitthvað af því, sem fram hefur komið við 2. umr. þessa máls. Því miður er það mjög áberandi, eins og ég hef áður vikið að, hversu stjórnarandstæðingar gera sér far um það í einu og öllu að veikja málstað okkar Íslendinga svo sem mest má verða í þessu máli. Ég held hins vegar, að það verði framtíð Íslands ekki að neinu fótakefli. Ég get efnislega haft þau sömu ummæli, sem ég hafði við lok fyrri ræðu mínnar um þetta mál, að ég tel það Íslendingum til sóma að leysa fiskveiðideiluna við Breta á þann hátt, sem hér er lagt til, og ég tel, að það sé lagður öruggur grundvöllur undir framtíðargang þessara mála í viðskiptum við Breta, sem hafa mundi áhrif einnig til góðs í viðskiptum við aðrar þjóðir, með því samkomulagi, sem hér er lagt til að staðfesta. Meginatriðið er það, að við Íslendingar höfum það mikla trú á málstað íslenzku þjóðarinnar, að við erum reiðubúnir til þess að leggja ágreining um réttindi okkar undir úrskurð alþjóðadómstóls.