08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (2431)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Í ræðu þeirri, sem hæstv. fjmrh. flutti í útvarp við fyrri umr. þessarar till., tók hann m.a. þetta fram: Að landgrunnið sé jarðfræðilega og jarðsögulega óaðskiljanlegur hluti af Íslandi sjálfu, að þetta fiskauðga landgrunn vildum við Íslendingar eiga, að við teldum okkur eiga til þess sögulegan rétt, þjóðlegan rétt og landfræðilegan auk þess helga réttar, sem lífsnauðsyn heillar þjóðar skapar henni. Þetta tel ég vel mælt og skilmerkilega. En gallinn er sá, að niðurstaðan, dómurinn, sem felst í þskj. því, sem hér liggur fyrir til umr., er í fullkominni andstöðu eða ósamræmi við þessar forsendur, sem ég hef nefnt.

Sumar þjóðir, — þær eru margar, — eru þannig settar, að þær búa við breytileg eða hreyfanleg landamæri. Það er sorgleg saga sumra slíkra þjóða um áhrif þess, þegar landamærum hefur verið breytt og ríkjum skipt. Má í því efni nefna sögu Póllands og fleiri ríkja. Ísland er þannig sett, að það er ekki undirorpið þessari hættu. Ísland er „ægi girt yzt á Ránarslóðum“, svo að mælt sé máli, sem þjóðin skilur, þó að það sé með öðrum blæ heldur en málið á orðsendingu þeirri, sem hér er til umr. Landgrunnið er jarðfræðilega hluti af Íslandi sjálfu. Lögun þess er að ýmsu leyti svipuð. Það er vogskorið eins og landið sjálft.

Við eigum einnig þjóðlegan rétt. Forfeður okkar, frumbyggar þessa lands, komu hingað að óbyggðu landi. Þeir þurftu ekki að taka landið herskildi, heldur helguðu það með eldi, eins og gert var á þeirri tíð, og að öðru leyti með vinnu sinni, með því að yrkja landið og nytja það, og þær 30–40 kynslóðir, sem lifað hafa og starfað í landinu samfleytt síðan, hafa helgað þennan þjóðlega rétt með lífi sínu og starfi, saga landsins er „saga vor, sómi þess vor æra“. Þessi þjóðlegi réttur er helgaður einnig og sérstaklega með því, að þjóðin hefur byggt landið allt, dali þess og strendur, nytjað landið og fiskimiðin í kringum strendurnar. Enn kemur hér til hinn helgi réttur, sem er lífsnauðsyn heillar þjóðar til að lifa, og á þennan rétt hefur ekki sízt verið treyst nú á síðari árum og hann verið túlkaður af forustumönnum þjóðarinnar, m.a. í þeim hvítu bókum, sem gefnar hafa verið út um landhelgismálið og dreift á meðal flestra þjóða heims. Og í þeim hvítu bókum er m.a. lögð sérstök áherzla á það, að engin þjóð — eða til þess að taka ekki of djúpt í árinni skal ég segja — nær engin þjóð í heimi á jafnmikilla hagsmuna að gæta í sambandi við fiskveiðar sínar og íslenzka þjóðin. En sá rétturinn, sem þó hefur ávallt dugað íslenzku þjóðinni best í sjálfstæðisbaráttu hennar og einnig hefur ríkulegt gildi í sambandi við landhelgismálið, er hinn sögulegi réttur þjóðarinnar. Það er því ekki að ófyrirsynju í þeim umr., sem hér fara fram, að með örfáum orðum sé á það drepið, á hvaða grundvelli hinn sögulegi réttur í landhelgismálinu hvílir.

Frá upphafi þjóðveldisins og langt fram eftir öldum er ekki um Landhelgi að ræða við Ísland í nútímaskilningi þess orðs. Íslendingar höfðu á þjóðveldistímanum einir aðgang að fiskimiðunum umhverfis landið og gátu notfært sér þau eftir því, sem hin frumstæða tækni þeirra leyfði. Síðan komst Ísland undir yfirráð Noregskonungs og síðar Danakonungs, en þessir þjóðhöfðingjar gerðu tilkall til forræðis yfir norðurhöfum, allt frá Noregi til Grænlands.

Það mun ekki hafa verið fyrr en á 16. eða jafnvel 17. öld, með vaxandi þörf þjóðanna á að hagnýta fiskimiðin, að það tóku að skapast reglur um víðáttu landhelgi, og þær reglur voru settar samkvæmt fyrirmælum þjóðhöfðingjanna, sem hlut áttu að máli. Fyrst mun regla um víðáttu fiskveiðilandhelgi gagnvart Íslandi hafa verið miðuð við 48 sjómílur, síðar við 36 sjómílur, en árið 1682 er landhelgin bundið við 16 sjómílur, og þannig stóð þar til árið 1859. En 1859 er gerð breyting á dönsku landhelgisgæzlunni við Ísland af hálfu danskra stjórnarvalda, þannig að þá og eftirleiðis er gæzlan aðeins látin taka til 4 sjómílna þrátt fyrir áskoranir Alþingis um, að landhelgisgæzlan yrði sem fyrr látin ná til 16 sjómílna svæðis. Enn líða 10 ár, til ársins 1869. Þá ber Alþingi Íslendinga fram bænaskrá til konungs út af landhelgismálinu, og í þeirri bænaskrá segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingið verður að álíta, að hið eina ráð til að verja landið gegn því tjóni, sem yfir vofir í þessu efnu, sé það, að hinum útlendu fiskimönnum verði haldið til að hegða sér eftir lögum þeim, sem gilda um þetta efni, þannig verði samkvæmt opnu bréfi frá 13. maí 1682 stranglega bannað að fiska nær landi en 4 danskar mílur, þ.e. 16 sjómílur.“

Ég verð að segja, að í orðalagi þessarar bænaskrár og því frumkvæði af hálfu Alþingis að senda hana felst furðumikil reisn, þegar miðað er við alla aðstöðu þess tíma. Þá hafði Alþ. Íslendinga ekki löggjafarvald, heldur var einungis ráðgefandi samkoma. Þá þurftu Íslendingar að stríða við mikla erfiðleika á atvinnusviðinu, m.a. af völdum fjárkláðans, sem geisaði í landinu, og þá áttu þeir við að búa hjá herraþjóðinni, Dönum, það hugarfar, sem leiddi til setningar stöðulaganna, sem alkunnugt er. Ég endurtek það, að þegar á þessa aðstöðu er litið, þá virðist mér, að á þessum tíma hafi Alþ. Íslendinga haft jafnvel ótrúlega opin augu fyrir nauðsyn landhelgismálsins og að í störfum þess hafi komið fram furðumikil reisn fyrir þjóðarinnar hönd.

Næsta skrefið er það, að árið 1901, eins og oft hefur verið vitnað til í þessum umr., er gerður samningur, sem undirritaður var í London 24. júní það ár, um fiskveiðilandhelgi Íslands. Fyrirsögn þessa samnings er nokkuð eftirtektarverð. Hún sýnir, að fyrirsagnir samninga, jafnvel fyrr og síðar, segja ekki allt innihald þeirra og ekki alla sögu þeirra. Fyrirsögn þessa fiskveiðisamnings er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Samningur milli hans hátignar konungsins í Danmörku og hans hátignar konungsins í hinu sameinaða konungsríki Bretlandi hinu mikla um tilhögun á fiskveiðum þegna hvors þeirra um sig fyrir utan landhelgi í hafinu umhverfis Færeyjar og Ísland.“ Allt svæðið utan við 3 mílur, sem þessi samningur hljóðaði um að binda landhelgina við, er beinlínis í fyrirsögn samningsins kallað „hafið fyrir utan landhelgi“.

En þessi samningur var uppsegjanlegur, eins og oft hefur verið bent á í þessum umræðum. Og nú mun það álit fróðra manna á sviði laga og réttar, að uppsegjanlegur samningur skapi ekki hefð og að við brottfall hans ætti að skapast sama réttarástand og var fyrir gildistöku samningsins. Samkvæmt því virðist mér, að þegar samningnum var sagt upp, þá hefði það verið eðilleg afstaða af Breta hálfu að fallast á, að um leið og samningurinn félli úr gildi, skapaðist sama réttarástand, þ.e.a.s. að Íslendingar fengju aftur sama rétt og þeir höfðu, þegar samningsgerðin fór fram. En það er nú öllum kunnugt, að skoðanir Breta þá og síðar hafa verið aðrar en þessar, er ég greindi, um réttarstöðu Íslands.

Fyrsta hreyfing, að því er mér er kunnugt, meðal stjórnmálaflokkanna, sem nú starfa, um að segja samningnum upp, sem gerður var á milli Dana og Íslendinga, hygg ég að hafi komið fram á flokksþingi framsóknarmanna 1946, en það flokksþing gerði ákveðna samþykkt í málinu og kröfu um það til Framsfl. að beita sér fyrir uppsögn samningsins. Í samræmi við það fluttu tveir þm. Framsfl. þann sama vetur, eða á því Alþ., sem þá sat að störfum, till. til þál., sem er að meginmáli þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstjórninni að segja upp samningi þeim, er gerður var 24. júní 1901 milli Danmerkur og Stóra-Bretlands um landhelgi Íslands, sbr. auglýsingu frá 28. marz 1903.“

Við þessa till. til þál. kom fram brtt., sem flutt var af frsm. meiri hl. utanrmn. í þessu máli, þ.e. Jóhanni Hafstein alþingismanni. Hann lagði til, að meginmál till. yrði orðað þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að stækkun landhelgi Íslands.“

Þessi till. til þál. hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu hér á Alþingi, hvorki í þeim búningi, eins og hún var flutt af hálfu Framsfl., né í þeim búningi, sem hv. þm. Jóhann Hafstein lagði til. Hygg ég, að sú ríkisstjórn, sem þá sat, hafi ekki talið sig við því búna að mæla með eða beita sér fyrir samþykkt till. í þessu efni. En sú hreyfing, sem komst á landhelgismálið hér á hv. Alþingi í sambandi við flutning þessara tillagna, átti áreiðanlega sinn þátt í því, ásamt ef til vill öðru, sem ég tel líklegt að hafi komið þar til, að undirbúin voru landgrunnslögin, sem mjög hafa verið gerð að umtalsefni í þessum umr. og marka mjög merk tímamót í sögu landhelgismáls þjóðarinnar.

Landgrunnslögin voru sett á þingi 1948 og landgrunnslögunum er ótvírætt ætlað að hafa að grundvelli þann ferns konar rétt, sem ég gat um í upphafi máls míns og fylgdi í því efni skilgreiningu hæstv. fjmrh. Landgrunnslögunum er ótvírætt ætlað að hafa að réttargrundvelli þann ferns konar rétt, og um landgrunnslögin varð ekki ágreiningur hér á hv. Alþ. Ég átti sæti hér á þingi, þegar þau voru sett, og man það í megindráttum. En það er aldrei öruggt að treysta á minni sitt, svo að ég hef, síðan umr. hófust um þetta mál, sem hér liggur fyrir, kannað í umræðuparti Alþingis það, sem þá var sagt og þá kom fram hér á hv. Alþingi. Um landgrunnslögin var ekki ágreiningur á milli flokka og aðeins lítilvægar breytingar gerðar á frv. frá því, sem það var lagt fram af hálfu þeirrar ríkisstj., sem þá sat.

En þó að mikið hafi verið rætt um landgrunnslögin í þessum umr., sem mjög er að vonum, þá vil ég leyfa mér, af því að það hefur ekki komið fram hjá öðrum ræðumönnum, að minna á kafla í grg., sem fylgdi frv., og sá kafli er mjög góð leiðbeining um það, hvernig Alþingi hugsaði sér framkvæmd landgrunnslaganna á þeim tíma, þegar þau voru sett. Sá hæstv. ráðh., þáverandi sjútvmrh., Jóhann Jósefsson, sem mælti fyrir frv. í Ed. Alþingis af hálfu þeirrar ríkisstjórnar, sem þá sat, byggði mál sitt mjög á ákvæðum þess kafla í grg., sem ég ætla nú að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Flestum strandríkjum, sem fiskveiðar stunda, hefur um langt skeið verið ljóst, að gera þurfi virkar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja gereyðingu fiskimiðanna vegna rányrkju. Ekki hefur þó verið samkomulag um það, með hverjum hætti slíkar ráðstafanir skyldu gerðar. Skiptast ríki þar að meginstefnu til í tvo flokka. Annars vegar eru þær þjóðir, sem meiri hagsmuna hafa að gæta af fiskveiðum sínum við erlendar strendur en sínar eigin. Þau ríki eru því yfirleitt fylgjandi að hefta sem mest hendur strandríkja til einhliða ráðstafana á þessu sviði. Þau ríki hafa þó viðurkennt, að eigi yrði hjá því komizt að gera einhverjar ráðstafanir til að koma í veg fyrir gereyðingu miðanna, en þá jafnframt fylgt fast eftir þeirri stefnu, að slíkar ráðstafanir yrðu einungis gerðar með milliríkjasamningum. Hins vegar eru þjóðir, sem eingöngu eða aðallega stunda veiðar við sínar eigin strendur. Þeim þjóðum hefur í vaxandi mæli skilizt, að strandríkið verður að bera aðalábyrgðina á því, að strandmiðin séu vernduð í ljósi vísindalegra staðreynda. Ýmsar slíkar þjóðir hafa því lögleitt hjá sér mismunandi víðtækar reglur í þessu skyni, enda ljóst, að samningaleiðin hefur hvergi nærri leitt til viðunanlegrar niðurstöðu, nema í tiltölulega fáum tilvikum, þar sem samhentar landamæraþjóðir áttu hlut að máli og sameiginlegra hagsmuna að gæta. Hitt er svo annað mál, að á höfum úti, hinu eiginlega úthafi, verður friðunarráðstöfunum eðlilegast og bezt fyrir komið með alþjóðasamningum. En varðandi hafið næst ströndum gegnir öðru máli.“

Hér lýkur þeim kafla í grg., sem ég ætla mér að lesa. En þegar á þetta er litið, þá sjáum við, að í fyrsta lagi er málið lagt þannig fyrir Alþingi og hugsað þannig, að það er algerlega skipt í tvennt, annars vegar hafinu, hinu eiginlega úthafi, þ.e.a.s. ráðstöfunum á höfum úti, og hins vegar ráðstöfunum varðandi hafið með ströndinni. Varðandi ráðstafanir á úthafinu er talið eðlilegt og miðað við, að þær fari eftir milliríkjasamningum. En um ráðstafanir á hafinu kringum ströndina er bent á, að í því efni séu uppi tvær stefnur. Voldug ríki, sem stundi fiskveiðar meira við strendur annarra ríkja en sínar eigin, vilji koma slíkum ráðstöfunum yfir á samningsgrundvöll, en á móti því sé staðið af þeim ríkjum, sem hafi sínar fiskveiðar aðallega við sínar eigin strendur, eins og Ísland. Lögin eru grundvölluð á því, að Ísland hagaði framkvæmd laganna á þá lund að skipa sér í flokk þeirra ríkja, sem hafa sett hjá sér eigin lög og lögleitt hjá sér mismunandi víðtækar reglur í þessu skyni. Ég ætla enn fremur, að barátta fulltrúa Íslands á alþjóðaráðstefnum hafi verið grundvölluð á sama sjónarmiði og hér kemur fram í grg. fyrir landgrunnslögunum. Ég hygg, að þetta hafi, a.m.k. frá því, að landgrunnslögin voru sett, og jafnvel að það eigi rætur lengra aftur í löggjafarstarfinu, verið sú grundvallarskoðun, sem Íslendingar hafa ætlað sér að fylgja í framkvæmd friðunarráðstafana við strendur landsins.

Eftir að landgrunnslögin voru sett, næst samkomulag um það. a.m.k. innan þeirrar ríkisstjórnar og á milli þeirra stjórnarflokka, sem þá fóru með völd, að segja fiskveiðisamningnum frá 1901 upp, og féll hann úr gildi árið 1951. Um það leyti er farið að hefjast handa um útfærslu landhelginnar og fyrstu framkvæmd laganna um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins með setningu reglugerðar, fyrst 1950 á takmörkuðu svæði og síðar allsherjarreglugerðar eða reglugerðar, sem tók til svæðisins allt í kringum landið, 1952. Og það er fullkomlega ástæða til að gera sér grein fyrir í sambandi við þetta mál, hvernig á því hefur verið haldið, síðan til framkvæmda kom, bæði í kenningu og framkvæmd.

Reglugerðin um útfærslu í 4 mílur og mikla breytingu á grunnlínum var sett 19, marz 1952. Þá sat að völdum stjórn, sem studd var af Framsfl. og Sjálfstfl. Ég held, að það sé ótvirætt, að a.m.k. þessir flokkar báðir náðu samkomulagi um þá reglugerð, sem þá var sett, og ég vil ætla, að það samkomulag hafi náð til allra þingflokkanna. Það munu a.m.k. ekki nein pólitísk öfl hér innanlands hafa beitt sér gegn framkvæmd þeirrar reglugerðar. Hér var vissulega unnið gott verk og þarft, sem ekki var ágreiningur um milli stjórnmálaflokkanna, og núv. hæstv. forsrh. mun áreiðanlega hafa átt góðan hlut að því máli, og ég hygg meira að segja, að hann hafi á þeim tíma gegnt embætti sjútvmrh. En með setningu þeirrar reglugerðar var að vissu marki brotinn ísinn í þessu efni um framkvæmd laganna um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Og það var rakið allýtarlega af þeim ræðumanni, sem talaði hér á undan mér, hvernig viðbrögð Breta urðu þá og hver afstaða Íslendinga og þá sérstaklega þeirrar ríkisstjórnar, sem þá sat, var til þess ágreinings, þeirrar deilu, sem reis út af því máli. Ég hef satt að segja enga löngun til þess að vera að teygja hér umr. um skör fram, þó að ég ætli mér að segja hér nokkur orð til viðbótar, og skal því alveg sleppa því að vera að lesa hér upp sömu tilvitnanirnar sem fram komu hjá síðasta ræðumanni, þó að mér væru þær flestar eða allar kunnar, áður en hann flutti þær hér í sínu máli. En þar kom svo glögglega fram sem verið getur, hvernig núv. hæstv. forsrh. markaði stefnuna þá og hvaða aðferðum hann taldi þá eðlilegt og sjálfsagt að beita af hálfu íslenzku þjóðarinnar í sambandi við deiluna við Breta, að ótvíræðara verður naumast frá því greint heldur en sjálfur hæstv. núv. forsrh. gerði á þeim tíma. En til viðbótar því, sem hæstv. forsrh. núverandi sagði þá, bæði á sjómannadaginn 1953 og við fleiri tækifæri, þá leyfi ég mér að benda á það, að hinn 5. maí 1953 er birt í Morgunblaðinu stefnuyfirlýsing landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem þá var nýlega um garð genginn, um landhelgismál, og þar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stefnuyfirlýsing landsfundarins.“ Það er fyrirsögn. „Þá færir landsfundurinn ráðherrum Sjálfstfl. sérstakar þakkir fyrir röggsamlega meðferð landhelgismálsins og treystir á samhug þjóðarinnar í því mikla máli. Heitir landsfundurinn eindregnum stuðningi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hvika í engu frá teknum ákvörðunum.“

En þessar ákvarðanir þáv. ríkisstj., sem hér er vitnað til, voru breyting á grunnlínum og einhliða útfærsla í 4 mílur. — Útfærsla, sem var ekki gerð með milliríkjasamningi og deila hlauzt af. Sú deila mun nú raunar hafa staðið yfir eða verið komin upp, þegar þessi samþykkt var gerð.

Nú líða tímar fram, og vorið 1956 heldur Sjálfstfl. aftur landsfund, þar sem bæði í landhelgismálinu og fjöldamörgum öðrum þjóðmálum er mörkuð stefna flokksins og hún birt þjóðinni í aðalmálgagni flokksins, Morgunblaðinu. Þá gerði landsfundur Sjálfstfl, samþykkt, sem birt er í Morgunblaðinu 28. apríl 1956, um landhelgismálið, og í þeirri samþykkt segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Landsfundurinn lýsir sig samþykkan þeirri stefnu ríkisstj. og þingflokks sjálfstæðismanna að halda óhagganlega á rétti Íslendinga í landhelgismálinu, hvika, hvergi frá gerðum samþykktum og leita jafnskjótt og fært er lags um frekari friðun fiskimiðanna.“

Það er ekki hægt að skilja þessa stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl., sem gerð var 1956, öðruvísi en svo, að stefna flokksins sé óbreytt — ja, raunar frá því að landgrunnslögin voru gett og frá árinu 1952, þegar reis upp deila við Breta, og a.m.k. til þess tíma 1956, og hér er sagt, að það beri að leita lags um frekari útfærslu landhelginnar. En næst kemur að því, að hafinn er undirbúningur að nýjum framkvæmdum í málinu, þ.e. setningu reglugerðarinnar 1958 um útfærslu í 12 mílur. Þá er háttað þannig á stjórnmálasviðinu, að þá situr að völdum stjórn þriggja flokka, en Sjálfstfl. var þá í bili í stjórnarandstöðu. Það hefur verið skoðun Framsfl. frá öndverðu, að hann fór að hafa áhrif á framkvæmdir í landhelgismálinu, að þetta mál væri mál allra Íslendinga. Þetta mál ætti að vera hafið yfir opinber átök eða opinberar deilur milli stjórnmálaflokkanna í landinu, þau mismunandi sjónarmið, sem eðlilega eru til staðar, þurfi að ræða og ná samkomulagi um í samvinnu milli flokkanna, án þess að til átaka komi út af þeim á opinberum vettvangi. Í samræmi við þetta álit Framsfl. beitti hann sér fyrir því, þar sem hann hafði forsæti í ríkisstj. 1958, að nefnd manna, þar sem fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkunum áttu sæti, fylgdist með því, sem í undirbúningi var að gera í landhelgismálinu. En það hefur verið rakið hér af öðrum, sem ég ítreka, en ætla ekki að öðru leyti að endursegja, að því miður gætti þess um of, að erfitt reyndist að ná samstöðu innan þessarar nefndar, fullkominnar samstöðu um aðgerðir í málinu, og að fulltrúi Sjálfstfl., sem þá var í stjórnarandstöðu, eins og ég hef áður sagt, reyndist vera mjög tregur til þess að taka bindandi ákvarðanir fyrir fram, þótt áhugi væri fyrir lausn málsins í einhverri mynd þess. Og eins og aðrir ræðumenn hafa rakið, þá leiddi þetta af sér það, að niðurstaðan varð sú, að grunnlínum var þá ekki breytt, heldur stigið það þýðingarmikla skref að færa út í 12 sjómílur umhverfis landið allt. En svo var ákveðið af hálfu þeirrar ríkisstj., sem þá sat, að gefa reglugerðina út, en láta hana ekki taka gildi fyrr en eftir alllangan biðtíma og nota þann biðtíma til þess að kynna öðrum þjóðum þá ákvörðun, sem íslenzk stjórnarvöld höfðu tekið. Og það er að mínum dómi, sá sorglegi þáttur í þessu máli, að höfuðmálgagn stjórnarandstöðunnar notaði þennan biðtíma til þess ýmist að láta undir höfuð leggjast að draga fram á skýran og skilmerkilegan hátt rök Íslendinga í málinu og á hinn bóginn til þess að gera lítið úr og tortryggilegar þær ráðstafanir, sem ákveðið var að gera og taka skyldu gildi 1. sept. 1958. Þetta hafa ýmsir ræðumenn bent á, en það má segja, að ákveðnar tilvitnanir og ákveðin dæmi skýri mál oft fyllilega eins vel og almenn orð, og ég er við því búinn að nefna dæmi um þetta máli mínu til sönnunar. En ég skal nú stilla því mjög í hóf til þess að lengja ekki mál mitt að óþörfu.

Um það leyti sem reglugerðin var gefin út, valt á miklu fyrir íslenzku þjóðina, að allir legðust á eitt um að kynna fyrir útlendingum rök Íslendinga í málinu. En það er ekki hægt að segja, að Morgunblaðið hafi á þeim tíma lagt sig fram um það. Hinn 30. júní 1958 mun reglugerðin hafa verið gefin út, og blöð stjórnarflokkanna, sem þá voru, — það voru blöð þáverandi stjórnarflokka, — kynntu málið á mjög áberandi hátt næsta dag og næstu daga, eftir því sem við varð komið. En daginn eftir að reglugerðin er gefin út nægir Morgunblaðinu veigaminni fyrirsögn undir þessa fregn heldur en frá einum sjálfstæðisfundi austur á Hellu. Reglugerðin var þá ekki birt í heild í Morgunblaðinu, heldur aðeins í lauslegum útdrætti, og í fréttinni ekki laust við hnútur og aðkast til þeirra, sem reglugerðina höfðu gefið út eða báru stjórnarfarslega ábyrgð á útgáfu hennar.

Næsta dag, 2. júlí, er vikið að málinu í forustugrein Morgunblaðsins. Og nú skyldu menn þó halda, að málstaður Íslands yrði rösklega varinn. En það er öðru nær. Þar er lögð sérstök áherzla á það, að þessi stækkun fiskveiðilandhelginnar sé „ekkert nýmæli“. Þessi tvö orð standa beinlínis þarna: „ekkert nýmæli“. Þar er sagt, að þetta sé beint framhald af reglugerð frá 1950 og 1952, en eins og menn muna, var gerð á þeim árum viss breyting á landhelginni, eins og áður hefur verið rakið. Og svo þar næstu daga ver þetta áhrifamikla málgagn stærsta stjórnmálaflokks í landinu meira rúmi undri myndir og frásagnir af Rússlandsför íslenzkra alþingismanna heldur en til þess að skýra landhelgismálið bæði fyrir Íslendingum og erlendum aðilum. Það má þó segja, að gagnvart Íslendingum hafi þetta minna gert til, því að heilbrigðir þurfa ekki læknis við, en gagnvart erlendum aðilum var það að mínum dómi mjög miður farið, að svona skyldi vera á málum haldið.

Þeir, sem lesa blöðin að staðaldri, vita það, að í sunnudagspistlum blaðanna, sunnudagspistlum, sem bera í Morgunblaðinu fyrirsögnina Reykjavíkurbréf, er að jafnaði á hverjum tíma drepið á þau helztu mál, sem afgreidd hafa verið og efst eru á baugi á hverjum tíma, jafnvel eins konar vikuyfirlit, og í þeim pistlum er oft tekin skörp afstaða og vel haldið á penna. Í Morgunblaðinu 8. júlí, sem var fyrsti sunnudagurinn, eftir að reglugerðin var gefin út, hefði mátt vænta þess, að rösklega hefði verið tekið á málinu í Reykjavíkurbréfi, sem margir munu hafa ætlað, a.m.k. á þeim tíma, að sjálfur hæstv. dómsmrh. núv. hafi skrifað, — þar hefði verið rösklega og vel haldið á penna um stækkun landhelginnar í 12 mílur. En það ber svo við, þótt leitað sé, þá finnast þar engin rök fyrir málstað Íslands og ekkert um landhelgismálið í þessu tölublaði Morgunblaðsins.

Ég satt að segja hirði ekki um og vil ekki tefja umr. með því að hafa þennan lista lengri, en svona er hægt að rekja allan þennan biðtíma, sem leið, frá því að reglugerðin var gefin út og þangað til hún átti að taka gildi.

En það gat auðvitað ekki hjá því farið, að þessi málsmeðferð hjá stóru og áhrifamiklu íslenzku blaði vekti eftirtekt á erlendum vettvangi og að það mótaði þá skoðun eða a.m.k. styrkti þá skoðun af hálfu brezkra stjórnarvalda, að ekki væri svo mikill einhugur meðal íslenzku þjóðarinnar í landhelgismálinu sem raunverulega var, því að ég vil hiklaust halda því fram, að það hafi verið einhugur meðal þjóðarinnar í landhelgismálinu 1958, og þá dreg ég ekkert undan sjálfstæðismenn yfirleitt, það fólk í landinu, sem styður Sjálfstfl., — enda sáust þess merki í brezkum blöðum á þessum tíma, að þannig var litið á af brezkum aðilum, að Íslendingar væru ekki jafnsamhuga og landhelgismálið væri þeim ekki eins mikið kappsmál og raunverulega var, og þetta jafnvel talið augljóst merki þess, að hér væri samstaða þjóðarinnar ekki órofin.

En næst skal ég víkja að því, að þetta viðhorf blaðsins, sem ég hef nú gert að umtalsefni, gerbreyttist um mánaðamótin ágúst og september 1958, þegar ljóst var, að Ísland hafði orðið fyrir ofbeldisaðgerðum af Breta hálfu. Þá reis upp slík alda með þjóðinni um gervallt land, að jafnvel þótt ekki hefði komið annað til, þá hlaut þetta stóra málgagn stærsta stjórnmálaflokksins að knýjast til þess að taka hreina afstöðu með þeirri öldu, sem þá reis upp með þjóðinni.

Á þinginu næst á eftir, að þessir atburðir gerðust, var landhelgismálið mjög til athugunar á milli stjórnmálaflokkanna, og þær athuganir og sú vinna, sem lögð var þá fram af hálfu flokkanna og ekki sízt af þeim, sem áttu sæti í utanrmn., leiddi til þess, að samstaða náðist um ályktun Alþ. frá 5. maí 1959. Þessarar ályktunar hefur oft verið getið í þessum umr., og er ástæðulaust, að ég lesi hana upp. En þá stóðu málefni þjóðarinnar þannig, að þá var augljóst, að fyrir dyrum stóðu tvennar kosningar vegna breytinga á stjórnskipunarlögum ríkisins. Skömmu áður en kosningabaráttan við fyrri kosningarnar 1959 hófst, var þessi ályktun gerð hér á hv. Alþ., og þá ber svo við gagnstætt því, sem var sumarið 1958, að það er — og ekki síður af hálfu núv. stjórnarflokka en annarra — haft hátt um þessa ályktun í kosningabaráttunni. Þá var jafnvel gripið til aðgerða eins og þeirra að kalla heim ambassador Íslands í London fyrir kosningar. Þá fór enginn Íslendingur á NATO-fund sumarið 1959. Þá var við því amazt, að meira að segja kennarar, fulltrúar úr íslenzkri kennarastétt, fengju að sitja kennaraþing í Bretlandi. En eftir kosningar fer ambassador Íslands aftur til embættis síns í London. Það slaknaði á, þegar fyrri kosningarnar voru um garð gengnar, slaknaði á framkvæmdinni gagnvart Bretum. Og þau ummæli hæstv. utanrrh., sem lesin voru upp við fyrri umr. þessa máls í útvarp af einum ræðumanni og þjóðinni er vel kunnugt um og hún hefur í minni, þau ummæli, sem eru á þá leið, að við berjumst gegn öllu, sem skerðir rétt Íslendinga innan 12 mílna fiskveiðilögsögu, gegn tímatakmörkunum og öðru, hverju nafni sem það nefnist, — þau voru áreiðanlega til þess fallin að gefa þjóðinni allt aðra hugmynd um afstöðu og framkvæmdir núv. ríkisstj. á sviði landhelgismálsins heldur en það, sem fyrir liggur í því þskj., sem nú er hér til umræðu.

Núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda í nóvembermánuði 1959. Við það tækifæri, á fyrsta fundi Alþingis þá um haustið, gaf núv. hæstv. ríkisstj. yfirlýsingu um það, að stefna hennar í landhelgismálinu væri óbreytt frá því, sem hún hefði verið mörkuð með ályktun Alþingis frá 5. maí 1959. En það liðu ekki nema 8–9 mánuðir, frá því að núv. hæstv. ríkisstj. settist að völdum, þangað til þjóðin komst að raun um af fregnum í blöðum og í útvarpi, að mig minnir, að ríkisstj. hefði léð máls á því að taka upp viðræður við Breta um landhelgismálið. Þá mun orðalagið hafa verið þannig, að það væru teknar upp viðræður — ekki samningar. Þegar ríkisstj. er spurð um það hér á hv. Alþ. í haust, þann dag, sem við þingfulltrúar hófum störf að því sinni, hvort það stæðu yfir samningar við brezku ríkisstj. eða aðila í umboði hennar út af landhelgismálinu, þá varð hæstv. forsrh. fyrir svörum og skýrði frá því, að það hefði aðeins verið skipzt á skoðunum, þannig að hvor aðili um sig hefði skýrt sjónarmið sín, en um samninga væri ekki að ræða. En hvort sem þetta hefur verið nákvæmlega rétt túlkað eða ekki, — á það legg ég ekki dóm, — þá er það víst, að ekki liðu margir dagar, þangað til hæstv. dómsmrh, hafði einurð og drengskap — vil ég segja — til þess að skýra frá því í ræðu í hv. Ed., að verið sé að kanna, hvort hægt sé að semja um skemmri tíma en áður var búið að gera grein fyrir, með því að tryggja Íslendingum fiskveiðar á samningstímanum jafnvel eða betur en gert er með 12 mílna lögsögunni. Þetta er viðfangsefnið. sagði hæstv. dómsmrh. í hv. Ed. En svo hefur verið vikið að því hér af öðrum, og þann þátt skal ég ekki endurtaka, hvað skrifað stendur í hinni nýju Heljarslóðarorrustu, og í beinu framhaldi af því, hver svör hæstv. utanrrh. gaf hér á hv. Alþ. um þetta mál, á hvaða stigi það væri þá, 6. febrúar nú í vetur, 6. febrúar 1961, þar sem helzt mátti ráða af þeim ummælum, að málið væri ekki þá komið á samningastig, engin tillaga lægi fyrir eða hefði verið gerð af hálfu Íslands né ákveðin tilboð af hálfu Breta, sem yrði að játa eða neita. Ummælin eru svo ótvíræð, að þau verða ekki skilin á annan veg en þann, að þá væri þetta mál ekki komið enn á samningastig, þrátt fyrir það, þó að hæstv. dómsmrh. segði þeim, sem sæti eiga í Ed., í október í haust, að „viðfangsefnið er þetta, að verið er að kanna að semja við Breta um skemmri undanþágutíma“ en hafði verið rætt um og áður er greint í ræðunni. Ég drep á þetta einungis til þess að minna á, að yfirlýsingar hæstv. ráðherra í sambandi við þetta mál eru ekki allar á einn veg, og það m.a. er til þess fallið að skapa öllu meiri tortryggni meðal stjórnarandstöðunnar og meðal þjóðarinnar um þetta mál heldur en ella mundi. Og nú höfum við hér í höndum þetta þskj., sem hefur að geyma þáltill. hæstv. ríkisstj. og þá orðsendingu, sem á að gilda sem milliríkjasamningur um þetta mál, ef þáltill. verður samþykkt.

Það hafa ýmsir bent á það í þessum umr., að formið á samningnum sjálfum, þ.e.a.s. orðsendingunni, væri með óvenjulegum hætti og orðalagið ekki ótvírætt. Ég tek eindregið undir þessa skoðun. Allir könnumst við við það, sem sæti eigum hér á Alþ., að í þingsköpum er það beinlínis tekið fram, að lagafrumvörp skuli samin með lagasniði. Þetta er í framkvæmdinni a.m.k. þannig, að efni máls er skipt í afmarkaðar greinar, og ég hygg, að það sé ekki sízt gert í því skyni að afmarka efnisatriðin sem gleggst og hafa formið að öllu leyti sem ótvíræðast á skilríkjum, sem hafa svo mikið gildi, að dómar grundvallast á skýringum á orðalagi þeirra. Nú eru milliríkjasamningar ekki í sjálfu sér lög íslenzka ríkisins. En þeir hafa þó ekki minni þýðingu og að form þeirra og orðalag sé svo ótvírætt í túlkun sem nokkur kostur er á. Og venja er sú, það fullyrði ég, að milliríkjasamningar, sem samþykktir hafa verið hér á hv. Alþ., eru prentaðir með lagasniði, eins og það er kallað í þingsköpum. Þannig er örugglega samningurinn um t.d. aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, herverndarsamningurinn og yfirleitt þeir samningar og alþjóðasáttmálar, sem lagðir hafa verið hér til fullgildingar fyrir hv. Alþingi. Ég skal ekki fullyrða, hvort það er hægt að finna fordæmi fyrir formi á milliríkjasamningi sambærilegt við það, sem hér er. Ég skal ekki fullyrða það. En sjálfur man ég ekki til þess. að það hafi verið lagt fyrir Alþingi í svona formi, síðan ég kom hér, og ef einhver hv. þm. man það eða er svo fróður, að hann geti bent mér á hliðstætt dæmi að formi til, þá skal ég með ánægju taka það til greina.

Það hefur einnig verið mikið rætt um það hér í þessum umr., að orðalagið á samningnum eða orðsendingunni sé alls ekki ótvírætt. Ég skal nú ekki lengja mál mitt með því að endurtaka neitt að ráði það, sem aðrir hafa sagt um þetta. En ég verð að láta í ljós þá skoðun, að mér finnst við að hafa hlýtt á þær athugasemdir, sem fram hafa komið að þessu leyti, að þær séu yfirleitt réttmætar. Og ég vil sérstaklega þó minna á eitt atriði. Það hefur verið frá því skýrt af hálfu stuðningsmanna þessa máls, bæði hæstv. ráðherrum og frsm. meiri hl. utanrmn., að framkvæmdin sé hugsuð þannig, að Íslendingar eigi að tilkynna Bretum reglugerðina, sem sett yrði hverju sinni um meiri útfærslu, en ekki ákvörðunina sjálfa, um leið og hún er tekin af íslenzkum stjórnvöldum, að slík reglugerð skuli sett. En þessi skýring fer alls ekki saman við það, sem sagt er í athugasemdum við þáltill. á 1. bls. þskj., þar sem talað er um ágreining um hugsanlegar aðgerðir og að honum skuli vísað til alþjóðadómstólsins. Það er ekki á því stigi, þegar búið er að gefa út reglugerð og ákveða orðalag hennar. Þá er málið ekki lengur á því stigi, að það sé aðeins um hugsanlegar aðgerðir að ræða, það sé hugmyndin, sem íslenzk stjórnvöld séu að íhuga og vilji gera grein fyrir.

En þá kem ég næst að því, að hæstv. utanrrh. dró fram rök í þremur liðum í framsöguræðu sinni við fyrri umr. þessa máls, sem eiga að vera því til sönnunar, að orðalag þessarar orðsendingar sé ótvírætt og á engan hátt þurfi að vefengja það. Og þessi rök hæstv. utanrrh. eru þessi, með leyfi hæstv. forseta, — ráðh. sagði:

„Vil ég biðja þjóðina að hafa þrennt í huga, þegar hún hlustar á þessi rök andmælenda samkomulagsins:

1) Að orðalag orðsendingarinnar er ótvírætt.

2) Þeir, sem fylgzt hafa með frásögnum af umræðum í brezkum blöðum undanfarna daga, hafa áreiðanlega veitt því eftirtekt öðru fremur, að Bretar gera sér glögga grein fyrir því, að veiðum þeirra á milli 6 og 12 mílna lýkur að fullu eftir 3 ár.

3) Ríkisstj. Íslands hefur í höndum yfirlýsingu ríkisstjórnar Bretlands um, að ekki verði farið fram á framlengingu heimildarinnar til að veiða innan 12 mílna í lok þriggja ára tímabilsins.“

Þá er að líta á þessi þrenns konar rök. Um fyrsta liðinn, þ.e. að orðalag orðsendingarinnar sé ótvírætt, hefur verið mikið rætt í þessum umr., og hefur verið sýnt fram á það og það enn betur af ýmsum öðrum ræðumönnum heldur en ég hef varið tíma til að endurtaka, að orðalagið er í ýmsum greinum ekki ótvírætt. Um það stendur a.m.k. staðhæfing á móti staðhæfingu, svo að þau almennu orð hæstv. utanrrh., að þetta sé svona, eru naumast úrslitadómur í þessu efni. (Forseti: Á ekki hv. ræðumaður enn ólokið töluverðu af ræðu sinni?) Ég á nokkuð ósagt enn þá, herra forseti. En ég er alveg að komast hér að þáttaskilum og vildi mega segja örfá orð til viðbótar, eina eða tvær mínútur, ef hæstv. forseti vill gera svo vel. (Forseti: Já, já.)

Þá er að líta á annan lið í röksemdafærslunni. Hann er sá, að þeir, sem lesi brezk blöð, sjái það, að Bretar muni álíta þetta ótvírætt. Dómar, hvort sem þeir eru byggðir á lögum eða milliríkjasamningum, geta aldrei grundvallazt á blaðaskrifum. Þessi röksemd um tilvitnunina í brezku blöðin er því heldur léttvæg. Hún yrði skoðuð léttvæg réttarheimild Íslandi til handa.

Og þá er þriðja röksemdin, bréfið, sem hæstv. utanrrh. segist hafa í fórum sínum og þar séu fullgild rök í þessu máli. Það hafa ýmsir ræðumenn hér gert kröfu til þess, að þingmönnum yrði kynnt efni þessa bréfs, sem búið er að skýra þjóðinni frá í ríkisútvarpinu héðan frá þessum stað, að hæstv. utanrrh. hafi í fórum sínum. Ég vil nú í fyrsta lagi taka, undir þessar óskir þingmanna, og meðan bréfið liggur ekki fyrir, treysti ég mér ekki til að gera efni þess neitt sérstaklega að umtalsefni. En ég vil þó leyfa mér að bera fram þá ákveðnu spurningu til hæstv. utanrrh., hvort ég hafi heyrt það eða skilið það rétt við fljótan upplestur bréfsins héðan úr ræðustól, að orðalag á þeirri yfirlýsingu, sem þar er skráð, sé efnislega á þá leið, að stjórn Bretlands hefur ekki í huga að fara fram á framlengingu á veiðiréttinum, eftir að þriggja ára tímabilinu lýkur. Ég leyfi mér að bera fram þessa ákveðnu fyrirspurn nú þegar til hæstv. utanrrh., hvort orðalagið, sem hér var lesið upp, sé efnislega þannig, „að stjórn Bretlands hafi ekki í huga“. Ég fullyrði ekki um það að svo stöddu, að þetta sé rétt, en sé það svo, vil ég þegar vekja eftirtekt á því, að það er a.m.k. ekki sterkt orðalag, þó að núv. ríkisstj. Bretlands, sem gerir úr garði þetta bréf, hafi eitthvað ekki í huga. Það koma nýir tímar og nýjar ríkisstjórnir, og hvað öðrum kann að koma til hugar, er ekki hægt að fullyrða nú í dag.

Ég er kominn hér að þáttaskilum, á nokkur orð ósögð og skal gjarnan gera hlé á ræðu minni. — [Fundarhlé.]

Ég vil nú leyfa mér að vekja athygli hæstv. forsetra á því, að það er enn þá mjög fámennt í fundarsalnum, enda klukkan aðeins á mínútunni 8, og ég hefði viljað þessu næst, að hv. frsm. meiri hl. utanrmn. heyrði þau orð, sem ég ætla nú að víkja að, og e.t.v. er hann hér í húsinu. (Forseti: Ég skal reyna að hringja betur. — Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. ræðumanns á því, að frsm. meiri hl. utanrmn. er nú mættur í salnum, og ég tel, að hann geti byrjað sína ræðu, því að það eru margir á mælendaskrá, sem eiga eftir að komast hér að.) Ég tek þessa ósk forseta, til greina og skal hefja mál mitt.

Hv. frsm. meiri hl. utanrmn. vék að því í ræðu sinni nú í dag, að með því að andstæðingar þessa máls vefengdu það, að orðalag orðsendingarinnar væri skýrt og ótvírætt, þá væru þeir að leggja Bretum vopn í hendur síðar í sambandi við túlkun þessa máls. Út af þessu vil ég taka þetta fram:

Það hafa verið færð fyrir því gild rök, bæði af mér og öðrum ræðumönnum, í þessum umr., að orðalag orðsendingarinnar, sem á að gera að milliríkjasamningi, er ekki ótvírætt. M.a. vegna þess, að svo er, hafa komið fram brtt., og ef sú skoðun hv. frsm. utanrmn. er rétt, að með því að benda á þá annmarka, sem í orðalaginu felast, sé verið að leggja Bretum vopn í hendur, hvað má þá segja, ef það á eftir að henda hv. meiri hl. þings að fella þær brtt., sem fyrir liggja? En þeir, sem standa að þessu máli og hafa farið með það sem sitt mál frá öndverðu án þess að kynna það þingmönnum yfirleitt fyrir fram, þeir bera vitanlega ábyrgð á því, að málið er í þeim búningi, að óhjákvæmilegt hefur reynzt að bera fram við það brtt.

Það er allmikið talað um það í þessum umr., að nú gegni mjög sama máli og gerði 1958, þegar ráðizt var í að færa fiskveiðilandhelgina, út í 12 mílur, og þá hafi það boð verið gert af hálfu íslenzkra stjórnvalda, að útfærslan tæki ekki gildi öll í einu, heldur yrði fært út í áföngum, ef vissum skilyrðum yrði fullnægt. Ég get ekki látið hjá líða að minna á, þó að það hafi raunar verið fullkomlega skýrt af öðrum ræðumönnum, að hér er ólíku saman að jafna. 1958 var verið að ráðast í að færa landhelgina út í 12 mílur. Þá höfðum við enga reynslu við að styðjast, en áttum undir högg að sækja við allar aðrar þjóðir, hvort þessi útfærsla yrði viðurkennd, og þá var það vitanlega eðlilegt og sjálfsagt að kynna málið fyrir öðrum þjóðum, áður en ákvörðunin var látin taka gildi. Nú er allt öðru máli að gegna. Nú höfum við notið friðunar á fiskimiðunum um tveggja ára skeið, þannig að allar þjóðir hafa viðurkennt hana í verki nema Bretar, og vitað er, að aflabrögð Breta undir herskipavernd voru bæði kostnaðarsöm fyrir þá og gáfu ekki mikinn arð. Nú höfum við reynslu við að styðjast. Nú er einnig um það að ræða að færa inn landhelgina um vissan tíma frá því, sem verið hefur. 1958 var um það eitt að ræða að færa landhelgina út og aðeins talið álitamál, hvort það skref skyldi stíga allt í einu eða í áföngum. Það hefur einnig verið bent á það í þessum umr., að sá árangur, sem náðst hefur til þessa við framkvæmd laganna um verndun fiskimiða landgrunnsins, hefur náðst með því að beita einhliða rétti Íslands til útfærslunnar.

Nú er á það bent og það fært fram sem rök af forsvarsmönnum þessa máls, að vegna þess að áður hafi það boð verið gert af hálfu íslenzkra stjórnvalda að leggja visst atriði málsins eða löndunarbann — deilu þá, sem stóð yfir við Breta eftir 1952 — undir alþjóðadómstól, þá séu það rök fyrir því, að sú leið, sem fara, á samkv. þeim samningi, sem hér liggur fyrir, sé eðlileg og réttmæt. En það vill nú svo vel til, að grg. sjálf frá hæstv. ríkisstj., sem fylgir þáltill., tekur af tvímæli í þessu efni, að hér er ekki um sambærilegt atvik að ræða. Í grg. er þetta tekið fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar hinn 19. marz 1952 gaf ríkisstj. Íslands út reglugerð er náði til alls landsins, þar sem beinar grunnlínur voru dregnar og fiskveiðilögsaga ákveðin 4 sjómílur frá þeim. Brezka ríkisstj. og ríkisstjórnir þriggja annarra landa mótmæltu þessum aðgerðum Íslendinga, en létu þar við sitja. Hins vegar beittu samtök brezkra togaramanna sér fyrir löndunarbanni á íslenzkum ísvörðum fiski í brezkum höfnum. Ítrekaðar viðræður fóru fram milli íslenzkra og brezkra stjórnvalda, þar sem báðir aðilar settu fram sjónarmið sín varðandi stækkun fiskveiðilögsögunnar og löndunarbannið. Fyrri hluta árs 1953 var t.d. rætt um þann möguleika að leggja deiluna um reglugerðina frá 19. marz 1952 fyrir alþjóðadómstólinn, og hinn 24, apríl 1953 tjáði sendiherra Íslands í London brezka utanríkisráðuneytinu, að íslenzka ríkisstj. væri reiðubúin að skjóta þessum ágreiningi til alþjóðadómstólsins og væri reiðubúin að taka upp viðræður við brezku stjórnina um, á hvern hátt það skyldi gert, að því tilskildu, að löndunarbanninu skyldi strax aflétt að fengnu samkomulagi um málsmeðferð.“

Það er augljóst af þessu, sem hér er tekið fram, að reglugerðin var gefin út 19. marz 1952. Þá kom hún til framkvæmda sem ákvörðun, einhliða ákvörðun íslenzkra stjórnvalda. Það er ekki fyrr en löngu síðar, eftir að ágreiningur hafði risið og staðið um meira en eitt ár, að það er tekið að ræða um það innbyrðis hjá íslenzkum stjórnvöldum að skjóta málinu undir alþjóðadómstól. Þá hafði reglugerðin verið framkvæmd, eins og ég tók fram, um marga mánuði, og Bretar höfðu þá enga aðstöðu til þess að eiga frumkvæði að því eða krefjast þess, að Íslendingar skyldu leggja þá deilu fyrir alþjóðadómstól. Frumkvæðið var í höndum íslenzkra stjórnvalda, og tímaákvörðunin, hvenær þetta skyldi gert, var líka algerlega háð samþykki eða ákvörðun íslenzkra stjórnvalda. Nú á á hinn bóginn að búa svo um hnútana samkv. þeim samningi, sem hér liggur fyrir, að Bretar eiga að fá jafnmikinn rétt og Íslendingar til þess að eiga frumkvæði að því, að deila, sem kynni að spretta af frekari útfærslu, verði lögð undir alþjóðadómstól. Hér er réttur Bretum til handa, sem þeir hafa ekki áður haft, og tímaákvörðunin um það, hvenær það skuli gert, á einnig að vera bundin. En áður var það háð einungis frjálsri ákvörðun íslenzkra stjórnvalda eftir því, hvað þeim þótti bezt henta í þessu efni.

Þá spyrja formælendur þessa máls, m.a. hæstv. dómsmrh., hvort stjórnarandstæðingar vilji hika við það að leggja deilu, sem sprettur út af stækkun landhelginnar, undir alþjóðadóm. Og rökin, sem færð eru fyrir því, að allt slíkt sé óeðillegt, óeðlileg afstaða, eru bara upphrópanir í spurnarformi á þessa lund: Vill þá stjórnarandstaðan, að íslenzka ríkið beiti ofbeldi? — Þetta eru vægast sagt léttvæg rök.

Það hefur verið rakið hér, að alþjóðadómstólnum hefur verið komið á fót á vegum hinna Sameinuðu þjóða og fyrir atbeina þeirra. Hann er stofnun, sem er í raun og vera þáttur af starfsemi hinna Sameinuðu þjóða. Við Íslendingar erum aðilar að hinum Sameinuðu þjóðum, eins og líklega 90–100 önnur ríki í heiminum. En nú er á það að líta, að hér er til umr. milliríkjasamningur, einhliða milliríkjasamningur milli Íslands og Bretlands, en ekki alþjóðalög eða sáttmáli, sem öll ríki hinna Sameinuðu þjóða væru aðilar að og þar með Ísland. Hér er alls ekki um að ræða neinn sáttmála milli ríkjasambands, sem sjálfsagt sé og eðlilegt, að Ísland sé aðill að. Ef svo væri, mætti spyrja: Vilja stjórnarandstæðingar ekki, að íslenzka ríkið hlíti sömu reglum og aðrir aðilar innan alþjóðasamtakanna? Það væri réttmætt að spyrja um það. En hér er því alls ekki til að dreifa, eins og ég hef þegar bent á. Og þá vil ég svara þessum rökum með gagnspurningu og spyrja forsvarsmenn þessa máls um það, hvers vegna þeir vilji, að Ísland hlíti þeim ákvæðum að skuldbinda sig til að gera einhliða milliríkjasamning við Breta og leggja sín landhelgismál undir alþjóðadómstól, jafnframt því að önnur ríki, sem eru aðilar ásamt Íslandi í ríkjasambandi hinna Sameinuðu þjóða, hafi lausar hendur í þessu efni og sjálfsákvörðunarrétt um það, hvort þau leggja sín mál undir alþjóðadómstólinn eða ekki.

Það er nú augljóst, að verði þessi samningur samþykktur og í gildi þann tíma a.m.k., sem tilskilinn er, þá leiðir af því mjög alvarlega breytingu um aðstöðu til fiskveiða hér við land. Það hlýtur að verða afleiðing samningsins, þegar hann kemur til framkvæmda, að stórkostlega verði þrengt að fiskimiðum íslenzkra báta og að fiskmagnið dragist saman frá því, sem nú er. Tekjur þjóðarbúsins rýrna af þessum sökum. Öll þjóðin tapar. En það leynir sér þó ekki, þegar lesin er grg. með þáltill. og athugaður sá uppdráttur, sem henni fylgir, að aðstaða landshlutanna verður mjög misjöfn, þegar þessi samningur hefur komið til framkvæmda. Ég vil þó láta þá skoðun koma hér fram, að í lengstu lög hefði ég viljað vona, að svo yrði á málum haldið, að í þessu efni yrði ekki gert upp á milli landshluta, heldur gengið eins skammt bæði fyrir landið í heild og hvern landshluta og nokkur kostur er frá sjónarmiði þeirra, sem að þessu máli standa og hafa reynt að beita sér fyrir því á annað borð. Og það hafði komið fram í umr. um þetta mál í hv. Ed. í haust af hálfu eins ráðherra, að það kæmi ekki til greina að halda þannig á málum í þessu sambandi, þótt til samninga kæmi, að misrétti ætti sér stað milli landshluta. M.a. af þeim ástæðum hafði ég viljað vona í lengstu lög, að þannig yrði á þessu máli haldið. En það er alveg augljóst mál, að Austurland og Suðausturland — einnig hluti af Norðurlandi — verður alveg sérstaklega fyrir barðinu á þeim ráðstöfunum, sem gera á samkv. þessum samningi. Erlendir togarar eiga að fá að veiða úti fyrir Suðaustur- og Austurlandi alla mánuði ársins, en þeir eiga að færa sig um set í viss hólf eða vissa reiti á beltinu á hinum ýmsu tímum hvers árs. Nú er það hverjum þeim, sem til þekkir og lítur á þessa reiti, sem afmarkaðir hafa verið, augljóst, að veiðitíminn fyrir Breta eða hin erlendu skip er valinn nákvæmlega, þegar fiskigöngurnar eru mestar á hverjum stað, þannig að hinum erlendu skipum er ætlað að fleyta rjómann ofan af á hverjum árstíma. Þessu til sönnunar þarf ekki aðeins að minna á skoðanir fræðimanna eða fiskifræðinga, heldur veit þetta hvert mannsbarn, sem þekkir atvinnulífið í þessum landsfjórðungi og þróun þess á undanförnum áratugum. Það var t. d. um langt skeið föst venja, að bátafloti Austfirðinga úr Múlasýslum kom á vetrarvertíð suður til Hornafjarðar og stundaði róðra þaðan á vetrarvertíðinni, frá því í febrúar og fram í maí. Þetta var fastur þáttur í atvinnulífi þessa landsfjórðungs um langt skeið. Hvers vegna var þetta gert? Vitanlega ekki af því, að bátaútvegsmenn í Múlasýslu hefðu sérstakan hug á því að fjarlægjast sín heimamið og sín byggðarlög yfir háveturinn, heldur var þetta gert af ríkri nauðsyn, vegna þess að fiskigöngurnar eru á þeim árstíma við Hornafjörð og Suðausturlandið, en aflabrögð mjög rýr á þeim árstíma fyrir Austfjörðum norðanverðum. En svo þegar vetrarvertíðinni er lokið í maí, tóku Austfjarðarbátarnir til við fiskveiðar úti á sínum heimamiðum.

Hvernig á sú aðstaða að vera, sem Bretum er veitt á þessum slóðum samkvæmt þessum samningi? Frá því í marzbyrjun og þangað til í júlí á að vera opið inn að 6 mílum svæðið frá Reyðarfirði og allt vestur í Meðallandsbugt með tveimur örlitlum undantekningum, nákvæmlega á vetrarvertíðinni, þá mánuði, sem bjargræðið er sérstaklega fyrir hendi þarna úti fyrir ströndinni á þessum slóðum. En þegar fiskigöngurnar fara að koma norður með Austfjörðum í júlí og ágúst og þeir fiska þar á sínum heimamiðum, þá á að bjóða erlendu togurunum: Gerið þið svo vel, færið ykkur um set norður fyrir Reyðarfjörð og yrjið upp miðin þar. — Það lítur út fyrir, að þetta sé alveg sérstaklega gerhugsað til þess að veita hinum erlendu skipum forgangsrétt til þess að elta fiskigöngurnar á þessum slóðum. Það er ekki aðeins þekking þeirra, sem stunda atvinnurekstur og heyja sína lífsbaráttu í þessum landsfjórðungi, sem staðfestir, að þetta, sem ég hef sagt, á við full rök að styðjast, heldur kemur fleira til, sem fer alveg í sömu átt.

Hér í þessum umr. lagði fram einn hv. þm., hv. 4. þm. Reykn., eða tók upp í ræðu sína álitsgerð frá mjög þekktum skipstjóra, sem nýtur mikils álits í stétt sinni og hefur starfað lengi sem skipstjóri á fiskiskipi hér við land. Ég ætla að leyfa mér að minna á álit þessa skipstjóra aðeins að því er snertir þann landshluta, sem ég var nú að minnast á. Í álitsgerðinni segir svo:

„Það er svæðið frá Glettinganesi til Hornafjarðar. Þarna er eins ástatt og á svæðinu, sem áður er rætt um, nr. 2.“ þ.e.a.s. að því er snertir fiskigöngurnar. „Það hefur verið róið frá Austfjörðum á haustin, og hefur verið góður afli á línu, síðan landhelgin var færð út. Þetta svæði er opið á þeim tíma, sem fiskurinn er að ganga. Þá má segja, að þetta svæði hafi sérstöðu vegna þess, að í kringum Hvalbak er uppeldisstöð fyrir smáfisk, og þyrfti því að rétta þarna af grunnlínuna, svo að það svæði, sem smáfiskurinn er á, kæmi inn fyrir 12 mílna línuna, og ætti að vera algerlega lokað fyrir togveiðum. Á þessu svæði gengur fiskur eftir áramót, og sjá allir, hvaða áhrif það hefur á fiskigöngurnar að hleypa fjölda togara inn á þetta svæði. Þarna kemur fiskurinn fyrst upp að landinu og gengur svo vestur með landi allt vestur að Snæfellsnesi, og má því geta nærri, að það hafi mjög mikil áhrif á veiði þeirra báta, sem eru gerðir út á svæðinu frá Hornafirði og allt vestur að Látrabjargi, en þessar verstöðvar eru á þessu svæði: Hornafjörður, Vestmannaeyjar, Þorlákshöfn, Eyrarbakki, Stokkseyri, Grindavík, Sandgerði, Keflavík, Njarðvík, Vogar, Hafnarfjörður, Reykjavík, Akranes, Rif, Ólafsvík, Grundarfjörður, Stykkishólmur.“

Þetta álit er algerlega í samræmi við það, sem fólk á þessum slóðum þekkir og þó sérstaklega fiskimenn. Aflabrögðin glæðast oft fyrr á vetrarvertíð á Hornafjarðarmiðum heldur en á Vestmannaeyjamiðum. En í aprílmánuði er oft mikill uppgripaafli á Vestmannaeyjamiðum, en þá er farið að draga úr afla á Hornafirði, af því að þá er fiskigangan þar að mestu gengin fram hjá. Það er því alveg augljóst, að það er ekki aðeins þessi landshluti, sem hlýtur að tapa, heldur hefur þetta áhrif á fiskigöngurnar og hlýtur að koma fram á miðum annarra verstöðva hér vestur með Suðurlandi.

Það hefur verið um það rætt í þessum umr., að þm. Framsfl. og Alþb., sem sæti eiga í hv. Ed., hafi á þessu þingi lagt fram frv. um að lögfesta þá reglugerð, sem gefin var út 1958 og enn er í gildi um fiskveiðilandhelgina. Og í því sambandi hefur verið að því vikið og um það spurt, hvort í því felist það, að við, sem að því frv. stöndum, höfum ekki hugsað okkur að fá breytingar á grunnlínum, út af þessu vil ég láta það koma hér fram, að þetta frv. var flutt á öndverðu þessu þingi fyrst og fremst og raunar einungis í því skyni að lögbinda ákvæðin um fiskveiðilandhelgina, láta þau ákvæði vera bundin í löggjöf og breytingar á þeim háðar samþykki Alþingis, en ekki ríkisstj., sem getur breytt reglugerð. Í þessu frv. fólst engin önnur breyt. frá þeirri skipan, sem gilt hefur, heldur en sú formsbreyting, að ákvörðunin skyldi bundin í lögum, en ekki vera, sett með reglugerð. Nú liggur það í augum uppi, að það væri jafnopin leið til þess að færa út grunnlínur, þótt þessi ákvæði væru sett með lögum. Það þyrfti aðeins að breyta löggjöfinni til þess, og væri það auðvelt verk, ef efnislega væri samkomulag um það eða efnislega væri fyrir því meirihlutafylgi á Alþingi að gera þá breytingu.

Nú höfum við nokkrir þm. úr Alþb. og Framsfl. lagt fram sérstaka brtt. við það mál, sem hér liggur fyrir, um að gera grunnlínubreytingar á tilteknum stöðum fyrir Norðurlandi og Suðausturlandi og úti fyrir strönd Vestur-Skaftafellssýslu, sem talið er að eigi eins mikinn rétt á sér og þær grunnlínubreytingar, sem ákveðnar eru samkv. þeim samningi, sem hér liggur fyrir.

Það kom fram hjá hæstv. utanrrh. í ræðu hans, að um þetta mál hefði verið ágreiningur milli hæstv. utanrrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, og 4. þm. Austf., Lúðvíks Jósefssonar, á sinni tíð, og utanrrh. spurðist fyrir um það, hvað kæmi til, að Lúðvík Jósefsson beitti sér ekki fyrir grunnlínubreytingum á þessum slóðum. Út af þessu vil ég segja það, að þessir tveir hv. þm., eða hæstv. ráðh. og hv. 4. þm. Austf., gera upp vitanlega sín ágreiningsmál, án þess að ég leggi hönd að þeim reikningsskilum. Það er þeirra mál. En það vil ég segja hæstv. utanrrh., að ef hann lítur þannig á, að grunnlínubreytingar á þessum slóðum séu áhugamál einungis Lúðvíks Jósefssonar, þ.e.a.s. það hafi engir aðrir landsmenn áhuga á þessum breytingum en Lúðvík Jósefsson, þá er það hinn mesti misskilningur, og það ber einungis vott um, að hæstv. ráðh. stendur ekki í svo nánu sambandi við fólkið, sem stundar atvinnulífið á þessum slóðum, sem æskilegt væri og hann ætti að gera. Og nú vil ég sérstaklega beina því til hæstv. utanrrh., hvort hann líti ekki þannig á, að þessar tilteknu grunnlínubreytingar, sem við leggjum til að verði teknar upp, hafi eins mikinn rétt á sér, eða að þau sé eins sterkur grundvöllur fyrir því að koma þeim fram, eins og þær grunnlínubreytingar, sem ákveðið er samkv. þessu þskj. að gerðar verði. Og ef svo er, sem ég vænti að sé álit hæstv. utanrrh., þá vil ég enn fremur bera fram þá fsp. til hans og þeirra manna annarra, sem að þessu máli standa: Hvað veldur því, að þessi svæði við Suðausturlandið hafa verið undanskilin í þeim samningum, sem hafa átt sér stað og staðfesta á með þessu þskj.? Ég óska þess, að í þessum umr. verði af hálfu formælenda þessa máls gerð grein fyrir, hvað veldur því, að látið hefur verið undir höfuð leggjast af hálfu ríkisstj. að gera þær grunnlínubreytingar við Suðausturland og úti fyrir strönd Vestur-Skaftafellssýslu, sem lagt er til að gerðar verði samkv. till. okkar.

Það hefur komið fram í sambandi við þetta mál. að hæstv. ríkisstj. býst við því, að ýmsar aðrar þjóðir, sem á undanförnum áratugum hafa fiskað hér uppi við strendur landsins, fari þess á leit að njóta sams konar hlunninda um tiltekinn tíma og veita á Bretum með samningi þeim, sem hér er til umr. Hv. 4. þm. Reykn., Jón Skaftason, beindi í ræðu sinni hér fyrir nokkru ákveðinni spurningu til hæstv. utanrrh. út af þessu. Fsp. Jóns Skaftasonar, hv. 1. þm. Reykn., var um það, ef samningar verða gerðir við aðrar þjóðir en Breta um sams konar hlunnindi tiltekinn tíma, eins og veita á Bretum með þessum samningi, við hvaða tímatakmörk eigi þá að miða samkomulag og gildistíma gagnvart öðrum þjóðum í þessu sambandi. Ég veitti því eftirtekt, að í ræðu, sem hæstv. utanrrh. flutti hér, eftir að þessi fsp. kom fram, svaraði hann henni ekki, annaðhvort vegna þess. að það hafi liðið honum úr minni, eða hann af ásettu ráði hefur sniðgengið að svara þessari fsp. Að gefnu þessu tilefni leyfi ég mér að endurtaka þessa fsp.: Hvernig hugsar ríkisstj. sér að framkvæma þá samninga eða þau ákvæði um tilslökun eða hlunnindi, sem öðrum þjóðum kunna að verða veitt til að veiða í fiskveiðilandhelgi innan 12 mílna markanna, við hvaða tímamörk á að miða slíkar undanþágur? Og í öðru lagi leyfi ég mér að spyrja: Ef til þess kemur, að slík skipti eiga sér stað við aðrar þjóðir en Breta, ber þá að skilja þennan samning þannig, að þá fylgi þar með tilkynningarskylda af Íslands hálfu til þeirra þjóða líka eins og Breta, ef til frekari útfærslu á að koma af Íslands hálfu? Á að fylgja því tilkynningarskylda af Íslands hálfu til fleiri þjóða en Breta, og ef svo er, eiga þá aðrar þjóðir líka, sem svipaðra hlunninda njóta, að fá þann rétt að geta átt frumkvæði að því, að Íslendingar verði að leggja sín deilumál út af landhelginni undir alþjóðadóm? Eiga fleiri þjóðir en Bretar að fá þann rétt að geta átt frumkvæði að því, að Íslendingar verði að leggja sín deilumál um landhelgina undir alþjóðadóm? Ég óska þess, að svör við þessum atriðum verði gefin hér í umr. afdráttarlaust.

Ég hef vikið að því, sem augljóst er, að verði þessi samningur samþykktur og komi til framkvæmda, hlýtur afleiðingin að verða minnkandi afli og rýrnandi þjóðartekjur. En þetta stóra mál, sem hér liggur fyrir, snertir þó jafnvel alveg sérstaklega einn þátt þjóðarbúskaparins, eitt hugtak, sem mjög hefur verið á orði haft, bæði hér á hv. Alþ. og í umr. og blöðum. Það er þetta hugtak: „jafnvægi í byggð landsins“. Sjálfstfl., sem beitir sér nú fyrir samþykkt þessarar till., hefur gert um það samþykktir og skrifað um það í blöð sín og látið það uppi hér á hv. Alþ., að hann vildi stuðla að og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Hafi það verið alvara, sem ég taldi mig hafa ástæðu til að ætla, þá er augljóst, að þetta, mál er svo fullkomlega gagnstætt þeirri stefnu sem verið getur. Það er sterkasta vopnið, sem hægt er að finna til þess að auka ójafnvægið í byggð landsins, að skerða eða rýra þau atvinnukjör eða þau skilyrði til atvinnurekstrar, sem fyrir eru úti á landsbyggðinni, bæði til lands og sjávar. Nú leynir það sér ekki, að með þessu máli er alveg sérstaklega harkalega vegið í þennan knérunn. Það væri því mjög æskilegt að fá það fram í þessum umr., einkum af hálfu sjálfstæðismanna, hvernig þeir skoða þetta mál í því ljósi að efla eða stuðla að og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Kynni það þá að geta orðið nýr þáttur til umhugsunar, áður en þessum umr. lýkur.

Það hefur verið bent á það, að þjóðin hefur hrokkið við, eftir að þetta mál komst á dagskrá. Til Alþingis hafa borizt áskoranir og ályktanir hvaðanæva. Það hefur af öðrum ræðumanni hér í kvöld verið gerð rækileg grein fyrir þessu, og skal ég ekkert endurtaka af því eða lengja mál mitt með því að lesa upp, hvaða aðilar hafa sent þessi mótmæli. En það eru líka nokkur erindi, sem Alþingi hafa borizt frá ýmsum aðilum, sem eru meðmæli með þessu máli, og af öðrum ræðumönnum, sem talað hafa á undan mér, hefur líka verið rækilega á það bent, og skal ég ekki heldur rifja það upp. En það hefur sérstaklega í öðru stjórnarblaðinu, e.t.v. í málgögnum beggja stjórnarflokkanna, en ég hef sérstaklega veitt því eftirtekt í Alþýðublaðinu, að það hefur sérstaklega verið gert að umræðuefni afstaða í einum hreppi á Austurlandi að þessu leyti. Um afstöðu manna á Austurlandi almennt er það að segja, að listinn, sem hér hefur verið lesinn upp í umr. um mótmæli, sýnir, að annaðhvort fundarályktanir fjölmennra funda eða langir undirskriftalistar með hundruðum kjósenda hafa borizt hingað úr nær öllum byggðarlögum með strandlengjunni frá Langanesi til Hornafjarðar. Og þessar samþykktir allar eru einróma áskoranir til þingmanna Austurlandskjördæmis um að greiða atkv. gegn því máli, sem hér liggur fyrir. Frá þessu er þó ein einasta undantekning, og hennar hefur sérstaklega verið getið í Alþýðublaðinu, og vegna þess kemst ég ekki hjá að skýra frá því, hvernig sú undantekning er. Í Alþýðublaðinu segir: „Landhelgin rædd í hreppsnefnd Eskifjarðar“. Ekki er nú fyrirsögnin sterkari en þetta: Landhelgin rædd í hreppsnefnd Eskifjarðar. Og þetta er þó það innlegg, sem þetta málgagn ríkisstj. telur þörf á og eðlilegt að gera þá undantekningu um að birta. Og þá kemur það í ljós, að í 7 manna hreppsnefnd í kauptúninu hefur orðið skoðanamunur um afstöðu til þessa máls, þannig að 4 nm. greiða atkv. og fá samþykkta svofellda ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefnd Eskifjarðar vísar til fyrri mótmæla sinna gegn undanlátssemi í deilunni við Breta um fiskveiðilögsögu Íslands. Því skorar hreppsnefndin á Alþingi að fella fram komna till. ríkisstj. í málinu eða ella að skjóta því undir dóm þjóðarinnar. Telur hreppsnefndin eigi annað sýnt en heimaútgerð frá Austfjörðum leggist niður, nái till. samþykki.“

Sem fyrr segir, þarna í blaðagreininni var þessi till. samþ. með 4:3 atkv., en fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl. greiddu atkv. gegn till. og gerðu þó svofellda grein fyrir atkv. sínu. Og svo er greinargerð þessara þriggja manna birt. Hún er óþarflega löng að lesa hana alla, en það leynir sér ekki, að jafnvel samviska þessara hinna réttlátu slær þó dálítið órólega, því að í greininni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að vísu kann nokkur óþægindi og aflarýrnun að leiða af því, að Bretum verða heimilaðar veiðar að sex sjómílna mörkum á vissum svæðum fyrir Austurlandi og Suðausturlandi í þrjú ár. En þegar litið er til útfærslu landhelginnar sunnan Langaness, hin friðlýstu svæði við Hornafjörð og Ingólfshöfða og að ekki eru nema tæp þrjú ár síðan öllum þjóðum voru heimilaðar fiskveiðar að 4 mílna mörkum, þá ber að fagna þeim áfanga, sem nú hefur náðst, enda treystum við því, að stjórnarvöldin bæti Austfirðingum það tjón, sem fiskveiðar þeirra kunna að bíða af veiðum útlendinga á sex sjómílna beiti landhelginnar, t.d. með því að beina auknu fjármagni í atvinnuvegi Austfirðinga. Við fögnum úrslitum þessa máls sem sigri Íslendinga á réttargrundvelli og greiðum því atkv. gegn till.

Þessi grg. hinna þriggja heiðursmanna, sem hér standa að, talar sínu máli. Og það má nú segja, að litlu verður Vöggur feginn, þegar málgögn hæstv. ríkisstj. gera sérstaklega þá undantekningu að birta þessa till. sem stuðning við það mál, sem ríkisstj. flytur og þingmeirihlutinn stendur að, að því er virðist, og nú er til umr. Og ég vék að því áðan, að hugtakið um jafnvægi í byggð landsins, þegar það er skoðað í ljósi þessa máls og í samhengi við það, gæti orðið nýr þáttur til nokkurrar athugunar hér í þessum umr. Og það vill nú svo vel til, að jafnvel þessir þrír heiðursmenn, sem er sérstaklega tekið fram að séu sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn, gefa fullt tilefni til þess að íhuga málið út frá þessu sjónarmiði. Þar sem þeir blanda hér inn í þetta ósk eða jafnvel kröfu á stjórnvöldin um fjárhagslegar bætur og a.m.k. láta í ljós þá skoðun, að bæta þurfi Austfirðingum það tjón, sem af samþykkt þessarar tillögu leiðir.

Það er alveg augljóst mál, að með þessu þskj., sem hér liggur fyrir, undirbúningi þess og afgreiðslu, eru mörkuð tímamót í landhelgismáli Íslendinga. Það eru mörkuð tímamót á þann hátt, að nú í fyrsta sinn, að ég ætla, hefur ekki verið leitað eftir því að ná samstöðu milli allra stjórnmálaflokkanna um aðgerðir í landhelgismálinu. Þvert á móti hefur fram á síðustu stund verið forðazt að láta stjórnarandstöðuna fylgjast með því, sem gera á, og meira að segja gengið svo langt, að sumir hæstv. ráðh. eru berir að því að hafa skýrt rangt frá gangi málsins hér á Alþ. Þetta markar tímamót. En þetta mál markar tímamót að öðru leyti líka. Með þessu er gengið í berhögg við þær yfirlýsingar, sem sjálfir stjórnarflokkarnir hafa gefið, bæði með samþykkt Alþ. 5. maí 1959 og með yfirlýsingum á ýmsum tímum, þar sem þeir hafa markað stefnu sína um framkvæmdir í landhelgismálinu. Það er því full ástæða til þess að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, að þjóðaratkvgr. verði látin fara fram um þetta mál. Og ef málið er svo gott og svo vinsælt og því fylgir svo mikil sigurvissa sem stjórnarliðar segja og stjórnarblöðin skrifa um, þá ætti ríkisstj. og meiri hl. þings að vera það kærkomið tilefni að fá þann sigur staðfestan með þjóðaratkvgr. En til viðbótar þessu ber að líta á það, að landhelgismálið er ekki mál einstakra flokka. Það hefur verið, er og á að vera mál allra Íslendinga, og ábyrgð þeirra, manna, sem taka málið út af þeim grundvelli og gera það að flokksbaráttumáli, er þung. Það er rétt, að fylgismenn hæstv. ríkisstj. hér á Alþingi eru 33 af 60, en þm. stjórnarandstöðunnar 27. En þess ber að gæta, að í síðustu kosningum fengu stjórnarflokkarnir samanlagt 54.9% allra greiddra atkv. í landinu, en stjórnarandstæðingar fengu samtals 45.1%, svo að hér er ekki svo afar mikill munur á. Þó að hér sé tiltölulega naumur þingmeirihluti, þá má hann gæta þess og á að gæta þess í sambandi við afgreiðslu landhelgismálsins, að áhrif hans eða fylgi meðal þjóðarinnar er ekki svo mikið, að það sé neinn stórkostlegur munur á því annars vegar og fylgi stjórnarandstöðunnar hins vegar. Og þetta m.a. á hæstv. ríkisstj. og liðsmenn hennar hér á þingi að hugleiða, og það er alveg ástæðulaust fyrir þá, hvort heldur er utan þings eða innan, að taka ekki tillit til þessa og láta svo sem þeir eigi allan heiminn skuldlaust.

Það hefur verið sagt hér á þingi, bæði fyrr í vetur og nú, að 12 mílurnar séu í raun og veru fengnar, það sé unninn fullur sigur í því máli, en eftir standi einungis deilan við Breta, það sé lausnin á þeirri deilu, sem hér sé um að ræða. En þetta mál er ekki einungis, jafnvel ekki fyrst og fremst um lausn deilunnar við Breta, heldur um framkvæmd laganna um vísindalega verndun landgrunnsins, að því leyti sem ný útfærsla á sér stað héðan í frá. Það er meginefni málsins.

Þessi þjóð hefur um langan aldur átt í sjálfstæðisbaráttu, og öll þjóðin lítur upp til hins mikla foringja í sjálfstæðisbaráttunni, Jóns Sigurðssonar. Allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, geta sótt fyrirmyndir þangað, og það mun vera óskipt mál meðal forustumanna þjóðarinnar að líta til hins mikla foringja með virðingu og þökk. En hver var aðferð Jóns Sigurðssonar í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar? Það var aðferð hans að láta aldrei af hendi rétt, sem Íslendingar áttu, og sækja heldur fram, þar sem hinn sögulegi réttur var sá allra sterkasti grundvöllur, sem hann byggði baráttu sína á. Það er ekki tilviljun, að hjá þessum mikla foringja fór saman stjórnmálamaðurinn og vísindamaðurinn. Vopn hans í stjórnmálabaráttunni voru röksemdir vísindamannsins. Og þessi foringi kostaði kapps um og lagði á það áherzlu, að samræmi væri milli orða og gerða. Dettur nokkrum í hug, að Ísland stæði nú þar, sem það stendur stjórnarfarslega séð, ef Jón Sigurðsson hefði barizt fyrir málstað þjóðar vorrar með ósköpum rökum, ýkjum og öfgum? Dettur nokkrum í hug, að hann hefði orðið sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, ef hann hefði ekki sjálfur haft hreinan skjöld? Það var hans mikla lán og það aðalsmerki, sem kannske lyftir minningu hans einna hæst, að hann var tungunni trúr. Þeir menn, sem forustu hafa á sviði stjórnmála, hvar í flokki sem þeir standa, mega gjarnan líta til þessarar fyrirmyndar og gæta þess betur en verið hefur um skeið og hér hafa verið færð rök að, að samræmi sé milli mikilsverðra yfirlýsinga og þeirra framkvæmda, sem teknar eru fyrir þjóðarinnar hönd.

Og ég vil að allra síðustu minna á eina forna sögu. Í einum fornsöguþætti okkar segir frá Íslendingi, sem fór um langa vegu og hafði gersemi með höndum, sem hann ætlaði að færa erlendum konungi. Á leið sinni varð hann gestur annars konungs, annars þjóðhöfðingja, en milli þeirra tveggja, þess, sem veitti honum gistingu, og hins, sem átti að njóta gersemarinnar, var ekki vinátta, og það var örðug aðstaða að vera gestur annars, en velgerðamaður hins. En þegar þessi forni Íslendingur stóð á þeirri örlagastund að þurfa að taka ákvörðun um það, hvorum höfðingjanum hann ætti að þjóna, þá sagði hann þessi eftirtektarverðu orð: „Engu játa ég öðru en ég hef áður ætlað.“

Þetta eru íslenzk orð, og í þeim anda hafa margir forustumenn þjóðarinnar á liðnum öldum starfað. Og ég vil segja það að lokum, að það er full ástæða fyrir hv. Alþingi að haga afstöðu sinni nú í samræmi við þessi fornu, íslenzku orð: „Engu játa ég öðru en hef áður ætlað.“

Að allra síðustu leyfi ég mér að endurtaka þá fsp., sem ég bar fram fyrr í ræðu minni til hæstv. utanrrh., og vænti þess, að hann síðar í umr. gefi greinileg svör við henni, en hún var efnislega á þá leið, hvort orðalagið í bréfinu margumtalaða frá Elísabetu drottningu til Guðmundar sé efnislega þannig: „Stjórn Bretlands hefur ekki í huga að fara fram á framlengingu á veiðiréttinum“ o.s.frv.