08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (2433)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Till., sem hér er til umr., flutningur hennar og málatilbúnaður allur ber með sér ákveðin, sterk einkenni. Öll mannanna verk bera með sér meira eða minna ákveðið handbragð, og handbragðið vitnar um höfundinn. Oft má rekja listaverk af kunnugum mönnum til meistara síns á handbragðinu einu saman. Reyndir lögreglumenn geta oft fetað sig áfram beint til afbrotamannsins á handbragðinu einu. Þetta verk hæstv. ríkisstj., sem hér er til meðferðar, ber með sér mjög ákveðið og einkennandi handbragð. Það er hennar handbragð, ekki aðeins á þessu verki, heldur yfirleitt á öllum verkum, sem hún vinnur. Einkenni handbragðsins, eins og þau koma fram í þessu verki hæstv. ríkisstj., eru aðallega tvö. Í fyrsta lagi ber verkið vott um nærri takmarkalausa tillitssemi við útlent vald. Í öðru lagi ber handbragðið vott um nærri takmarkalaust tillitsleysi við íslenzku þjóðina og umfram allt takmarkalausa lítilsvirðingu fyrir henni. Þetta mál og þessi meðferð er ekki til orðin í dag hjá þeim mönnum, sem að þessari till. standa, sem við ræðum nú. Þetta er þeirra einkenni, þeirra stefna, og þetta er stimpillinn, sem þeir setja á flest sín opinberu störf.

Ég vil aðeins stuttlega benda á atriði í sambandi við það, sem ég nú hef sagt. Hér er nú í öllum aðalatriðum leikinn sami leikur og áður hefur verið leikinn. Ég skal nefna dæmi. Á NATO-fundi í Kaupmannahöfn vorið 1958 komst hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, svo að orði, að því er hann sjálfur sagði síðar:

„Ekki kemur til mála af Íslands hálfu neitt minna en 12 mílna fiskveiðilögsaga, og ekki er heldur hægt að fallast á það sjónarmið, að ráðstafanir í þessu máli skuli háðar samþykki þjóða, sem í grundvallaratriðum eru algerlega andvígar skoðunum Íslendinga á málinu.“

Frá þessum ummælum sínum sagði hæstv. ráðh. í eldhúsdagsumr. á Alþ. 2. júní 1958. Hvað gerir svo þessi hæstv. ráðh. nú? Hann slakar til á 12 mílna fiskveiðilögsögunni og gerir þá ráðstöfun og aðrar í landhelgismálum okkar háðar samþykki þjóðar, sem í grundvallaratriðum er algerlega andvíg skoðunum okkar í þessu máli. Hér fara sem sagt orð og gerðir í þveröfuga átt. Hér stangast á orð og gerðir.

Hæstv. fjmrh. sagði í útvarpsræðu hér á Alþ. 2. þ. m.. er hann ræddi um landgrunnið: „Þetta fiskauðga landgrunn kringum landsins vogskornu strendur viljum við Íslendingar einir eiga. Við teljum okkur eiga til þess sögulegan rétt, þjóðlegan rétt og landfræðilegan auk þess helga réttar, sem lífsnauðsyn heillar þjóðar skapar henni.“

En hvað gerir hæstv. fjmrh., um sömu mundir og hann talar þessi orð? Hann afhendir ráðstöfunarréttinn yfir þessu landgrunni erlendri þjóð í hendur. Hann afsalar íslenzku þjóðinni réttinum til landgrunnsins.

Þessi dæmi nægja til þess að sýna það, sem ég sagði í upphafi máls míns. Annars vegar er nærri takmarkalaus undirgefni undir vilja erlends valds, hins vegar tillitsleysi til þarfa íslenzku þjóðarinnar. Við þetta bætist eitt aukaeinkenni. Það er það, að þessir háu herrar tala digurbarkalega í fyrstu og gefa síðan eftir. En það er ekki nóg með það. Þeir láta aldrei málið á sig ganga, að þeir hafi gefið eftir. Um leið og þeir afhenda Bretum rétt til íslenzku landhelginnar, auglýsa þeir það út um allar jarðir, að þeir hafi sigrað Breta í deilunni.

Það mætti sannarlega ætla, að þessir menn gerðust gneypir nú. En svo er ekki. Þvert á móti, þeir stælast í hrokanum að sama skapi og þeir heykjast í siðferðinu. Þeir kalla undanhald sitt stórsigur og geipa um 12 mílur og baráttu sína fyrir 12 mílum og jafnvel landgrunninu öllu, um leið og þeir afsala þjóðinni réttinum um aldur og ævi. Það er óhætt að segja, að þessi hæstv. ríkisstj. steytir hnefann framan í allar staðreyndir og hikar ekki við. Um leið og hún hopar, segist hún vera að sækja á. Um leið og hún færir Bretum rétt okkar, segist hún vera að afla okkur réttar. Þetta má nú kalla að forstokkast og að forherðast í synd og spillingu, eins og mundi sagt vera á biblíumáli. Þetta gerist um þessar mundir hér. En könnumst við ekki eitthvað við þessi vinnubrögð, þessa óskammfeilni, þessa afneitun allra staðreynda? Hefur ekki áður verið leikinn svipaður skollaleikur og nú er leikinn og það meira að segja mikið til af sömu mönnum og nú leika hann?

Ég vil minna á, að árið 1949 og 1951 gerðist hráskinnaleikur í alvarlegu máli svipaður þeim, sem nú er verið að leika. Árið 1949 vorum við Íslendingar vélaðir inn í stríðsbandalagið NATO. Þá þreyttust forsprakkar Sjálfstfl. og Alþfl. aldrei á því að fullvissa þjóðina um, að hér yrði aldrei her né herstöðvar á friðartímum. Þá sagði núv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, er hann talaði um friðarbandalag lýðræðisþjóðanna í NATO — hann sagði orðrétt 1949:

„Við höfum ekki her, og við viljum ekki hafa her, og við ætlum okkur aldrei að hafa her.“ Og hann bætti við: „Og það er undirskilið, að við höfum aldrei herstöðvar eða hersetu á friðartímum eða hermenn á friðartímum.“

Þetta sagði þá núv. hæstv. forsrh. Og það voru fleiri ráðherrar árið 1949, sem sögðu svipað, lofuðu þjóðinni svipuðu. Í sérstakri skýrslu tóku ráðherrarnir þá fram, að ekki kæmi til mála, að útlendur her fengi að hafa aðsetur á Íslandi á friðartímum né yrðu þar leyfðar erlendar herstöðvar. Þetta sögðust þeir þá nýlega hafa sagt utanrrh. Bandaríkjanna og hann tjáð sig samþykkan. Ég vil líkja þessum yfirlýsingum ráðherranna 1949 að reisn og skörungsskap við ályktun Alþingis 5. maí 1949 í landhelgismálinu.

En hvað skeði? Hvað varð úr þessum skörulegu yfirlýsingum? Staðreynd er það, að tæpum tveim árum eftir að þessar yfirlýsingar voru gefnar var hér kominn her og herstöðvar. Hvort tveggja hefur staðið hér á landi síðan þrátt fyrir friðartíma. Þessir háu herrar glúpnuðu þá fyrir erlendu valdi. En játuðu þeir það fyrir þjóðinni? Komu þeir gneypir og skömmustulegir fram fyrir þjóðina og sögðu: Því miður, við neyddumst til að láta undan stórveldunum? — Nei, ekki aldeilis. Þeir gerðu það ekki þá, og þeir hafa ekki viðurkennt það enn. Ég skal aðeins þessu til sönnunar minna á, að árið 1956 rifjaði núv. hæstv. dómsmrh. það upp hér á þingi, í þessum sal, hverju hann og fleiri hefðu lýst yfir 1949, orðrétt, að á friðartímum vildum við íslendingar frekar taka á okkur áhættuna af því að hafa landið óvarið heldur en að hafa hér erlent herlið og erlendar herstöðvar. „Þetta endurtek ég enn í dag,“ sagði hæstv. ráðh. „Þetta er óhagganleg sannfæring mín.“ Þetta sagði þessi hæstv. ráðh. þjóðinni fimm árum eftir að her og herstöðvar voru komin hér á landi. Þetta kalla ég forstokkað. Þetta er máske heppilegt pólitískt herbragð, enda mikið notað í stórum málum og smáum af Sjálfstfl., — herbragð, sem hann vafalaust lærði af nazistum Þýzkalands á sínum tíma.

Ég get þessa og geri þennan samanburð til að sýna fram á haldleysi fullyrðinga og loforða þeirra manna, sem standa að till., sem við erum að ræða nú, og til þess að sýna fram á óskammfeilnina, hvernig þeir standa uppi í hárinu á þjóðinni, þegar þeir eru að tilkynna henni svikin.

Það er athyglisvert að hugleiða sögu landhelgismálsins á Íslandi. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni nú. En það er athyglisvert, að fyrr á öldum, meðan Íslendingar voru landbúnaðarþjóð fyrst og fremst, höfðu þeir mjög víðáttumikla landhelgi. Á 17. öld var landhelgin 24 sjómílur, og hún var aldrei minni á fyrri öldum en 16 sjómílur. Á þessum tímum lifði þjóðin mestmegnis á landbúnaði, og á þessum tímum var hún kúguð og arðrænd af erlendu valdi og átti einskis úrkosti gagnvart útlendu ofbeldi. Samt hafði hún aldrei minni en 16 sjómílna landhelgi. Á þeim árum var rányrkja fiskimiðanna ekki til í þeim skilningi, er síðar varð og nú er. Því ollu að sjálfsögðu ófullkomin skip og frumstæð veiðitæki. Þó var landhelgin þetta stór. Á síðari hluta seinustu aldar tók að syrta í álinn hvað snerti íslenzka landhelgi. Dönsk yfirvöld tóku að vanrækja eftirlitið með landhelginni, og mátti heita, að það eftirlit legðist alveg niður. Um síðustu aldamót kom svo að því, að við misstum formlega þessa víðáttumiklu landhelgi okkar. Árið 1901 gerði Danakonungur samning við Breta um íslenzka landhelgi og afhenti þeim hana svo til alla gegn því, að Bretar keyptu svínakjöt af Dönum í auknum mæli. Ef aldrei hefði verið samið við Breta um síðustu aldamót, ættum við enn í dag fiskveiðilandhelgi, sem væri mun stærri en 12 sjómílur.

Þessi er nú okkar reynsla, af samningagerðum við Breta. Sú reynsla ætti frekar að fæla menn frá að semja á nýjan leik við Breta um þessi mál, en ekki hvetja til þess. Ástæðan til þess, að við misstum meginhlutann af okkar landhelgi árið 1901, var sú sama og nú er upp á teningnum. Annars vegar var ágengni Breta, völd þeirra og hyggindi, en hins vegar hirðuleysi og skammsýni danskra yfirvalda á Íslandi. Þetta eru þannig sömu öflin, sem áttust við 1901 og eigast við í dag um íslenzka landhelgi. Bæði leggjast þessi öfl á sömu sveiflna, íslenzkri þjóð til tjóns. Enn er ágengni Breta sýnilega í fullu fjöri, og enn eru yfirvöld Íslendinga sýnilega hirðulaus og skammsýn, þótt ekki eigi þau lengur að heita dönsk.

Af samningnum við Breta árið 1901 leiddi rányrkju fiskimiðanna, og gengu útlendingar þar að sjálfsögðu rösklega fram. Það var auðsætt þegar á árunum fyrir 1914, að til vandræða horfði. Milli heimsstyrjaldanna fór fiskstofnunum stöðugt hnignandi, og upp úr 1950 var algert hrun í þessu efni talið yfirvofandi. Nokkur friðun fékkst á árum beggja heimsstyrjalda, þegar erlend fiskiskip gátu lítt haft sig í frammi við strendur Íslands, og var árangur þeirrar friðunar mjög greinilegur.

Samningur Danakonungs við Breta um íslenzka landhelgi var slæmur og þjóðinni hættulegur, en hann hafði þó þann kost, að það mátti segja honum upp. Að því leyti var sá samningur betri en þessi, sem nú á að fara að gera, því að hann er óuppsegjanlegur, hann er ævarandi.

Þegar að því kom, að danski samningurinn um landhelgina íslenzku skyldi falla úr gildi, sagði íslenzka ríkisstj. honum upp með hæfilegum fyrirvara, og úr gildi féll hann 1951. Árið eftir færðu íslenzk stjórnarvöld landhelgina út í 4 mílur. Hvað gerðu Bretar þá? Samningstíminn var útrunninn og samningnum löglega sagt upp. Þeir mótmæltu, þeir neituðu að viðurkenna rétt okkar til útfærslunnar. Þeir heimtuðu að fá að veiða áfram upp að þrem mílum, og þeir reyndu að svelta okkur til hlýðni við þessa kröfu. Samningurinn var útrunninn, við vildum ekki framlengja hann, og því höfðu Bretar þessa aðferð. Það er til nokkurs að gera samning við slíka þjóð.

Hættan á ofveiði í íslenzku landhelginni varð, eins og ég tók fram áðan, öllum ljós, löngu áður en ákvæði gamla samningsins gátu gengið úr gildi. Þess vegna höfðu íslenzk stjórnarvöld uppi ráðagerðir um að bæta úr, jafnskjótt og fært væri. Íslenzk stjórnarvöld gerðu ráðstafanir fyrir fram, áður en samningurinn rann út, og meðal þeirra ráðstafana var, að samþykkt voru sérstök lög á Alþ. 1948 um landgrunnið. Skyldu nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fiskstofnunum byggðar á ákvæðum þeirra laga og framkvæmd þeirra ráðstafana hefjast strax og samningur Dana og Breta frá 1901 rynni út. Lög um vísindalega verndun fiskimiða eða landgrunnslögin öðru nafni voru sett með samþykki allra flokka árið 1948, og á þessum lögum byggjast aðgerðir okkar Íslendinga í landhelgismálunum síðan, útfærslurnar 1952 og 1958. En með væntanlegum samningivið Breta nú eru þessi lög raunverulega úr gildi numin. Samkvæmt landgrunnslögunum ákveða Íslendingar einir takmörk fiskverndarsvæða innan endimarka landgrunnsins alls. Skal sjútvmrn. ákveða allar þær reglur, sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á þessu svæði.

Þegar við færðum út landhelgina 1952, urðu fjögur Evrópuríki til að mótmæla þeirri reglugerð, en aðeins eitt þeirra, Bretland, gerði sérstakar hefndar- og refslaðgerðir í sambandi við þessa útfærslu. Þeir settu löndunarbann á íslenzkan fisk. Útfærslan 1952 var vafalaust af öllum stjórnmálaflokkum skoðuð sem byrjun af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, sem fyrsta skrefið í ráðstöfununum til verndar fiskstofnunum á grunnsævinu umhverfis landið. Og fram að þeim tíma hafði ríkt fullkomin eining meðal stjórnmálaflokkanna og meðal landsmanna um þessi mál. Sjálfstfl. átti hlut að setningu landgrunnslaganna 1948 og útgáfu reglugerðarinnar um 4 mílna landhelgi 1952. Fram á það ár, árið 1952, var ekki annað að sjá en þessi flokkur, Sjálfstfl., hefði sama áhuga á fiskivernd og aðrir flokkar. En upp úr 1952 verður hér snögglega breyting á. Eftir að Bretar höfðu í mótmæla- og hefndarskyni sett löndunarbann á íslenzkan fisk, var sem allan mátt drægi úr Sjálfstfl. í þessu máli, engu líkara en nú væri Sjálfstfl. öllum lokið, og frá þeim tíma að telja hafa leiðtogar Sjálfstfl. vægast sagt gerzt býsna staðir í öllum málum, sem verndun fiskimiðanna við Ísland varða. Það var þó ekki af því, að ekki heyrðust fljótlega eftir 1952 raddir meðal landsins barna um það, að bráðlega þyrfti að auka útfærsluna á ný, stækka landhelgina. Það bar mikið á þessum kröfum víðs vegar í landinu 1954 og eftirleiðis. En forusta Sjálfstfl. lét allar slíkar kröfur sem vind um eyrun þjóta. Leiðtogarnir virtust einhverra hluta vegna hafa misst móðinn, einna helzt vegna mótmæla og refsiaðgerða Breta. Það má vera, að íslenzkir togaraeigendur, sem eru drjúgir hluthafar í Sjálfstfl., hafi átt hér hlut að máli. Þeir munu hafa talið sig missa spón úr askinum sínum við löndunarbannið, enda þótt þetta bann annars yrði til þess að auka á verðmæti íslenzkra útflutningsafurða, svo sem öllum er nú löngu kunnugt orðið. Löndunarbannið varð Íslendingum til góðs, þótt Bretar ætluðust til hins gagnstæða. Íslenzka þjóðin græddi beinlínis á refsiaðgerðum Breta. En það kunna að hafa verið nokkrir íslenzkir togaraeigendur, sem töldu sig tapa á því, og það mun hafa orðið með öðru þess valdandi, að Sjálfstfl. gerðist í meira lagi tómlátur um verndun fiskimiðanna við Íslandsstrendur.

Mér er það minnisstætt, að fyrir kosningarnar 1956 voru mjög háværar raddir uppi um það meðal kjósenda úti um land, að nauðsyn bæri til að stækka landhelgina. Það voru kröfur fjölmargra manna úr öllum flokkum. Og mér er það minnisstætt, að þó nokkrir Sjálfstæðisflokksmenn úti um landið lýstu þessu yfir á kosningafundum, að landhelgina yrði að færa út, og þeir gagnrýndu sinn flokk fyrir tómlæti í því efni.

Þegar vinstri stjórnin tók við völdum á árinu 1956, var það eitt í stefnuyfirlýsingu hennar, að hún vildi leggja áherzlu á stækkun landhelginnar og stækkun friðunarsvæðisins kringum landið og taldi brýna nauðsyn á þessu vegna atvinnuöryggis landsmanna. Lofaði ríkisstj. því þegar í upphafi að beita sér fyrir framgangi þessa mikilvæga máls. Aldrei hafði Sjálfstfl. uppi neinar yfirlýsingar í þessa átt. Reglugerðin um 12 mílna landhelgina var gefin út, eins og menn muna, 30. júní 1958. Þá var Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, og hann beitti sér af alefli gegn útfærslunni og naut þar verulegs stuðnings Alþfl., eins og kunnugt er.

Það má með réttu segja, að Sjálfstfl. ásamt hjáleigunni hafi frá fyrstu tíð barizt bæði leynt og ljóst gegn 12 mílna landhelginni og þannig skipað sér við hlið Breta gegn íslenzku þjóðinni í þessu mikla hagsmunamáli hennar. Það skal ég viðurkenna, að Sjálfstfl. hefur oft átt bágt í þessu efni. Aðstaða hans hefur oft verið erfið. Hann hefur alla tíð haft þjóðarviljann á móti sér í þessu máli, og þess vegna hefur hann orðið að fara krókavegu í baráttu sinni fyrir málstað Breta. En hann hefur verið þrautseigur og aldrei látið af andstöðu sinni við 12 mílurnar, þótt hann stundum hafi barizt úr launsátri og stundum, eins og t.d. fyrir kosningarnar 1959, jafnvel látizt vera hlynntur 12 mílunum. En nú telur þessi flokkur ásamt Alþfl. stund sigursins upp runna. Nú skal reglugerðin um 12 mílna landhelgi ógilt. Nú ætla þessir flokkar að ná sér niðri, þeir hafa barizt lengi og beðið lengi, en nú er þeirra tími kominn. Með þessari aðgerð, sem hér er um að ræða, hefur Sjálfstfl. vissulega unnið stórsigur.

Þetta mál er mjög stórt og víðtækt. Hér er um að ræða baráttuna fyrir landgrunninu, baráttuna fyrir að fá að halda 12 mílna landhelgi, og hér er um að ræða þessa svokölluðu deilu við Breta í sambandi við landhelgismál íslendinga. Flestum, ef ekki öllum Íslendingum ber saman um, að Íslendingar hafi þegar sigrað í landhelgismálinu, 12 mílna landhelgi sé staðreynd og að þar hafi Bretar beðið ósigur. Eftir stendur deilan við Breta, eftir er það að gera Breta ánægða, láta þá sætta sig við hlutskipti sitt, ósigurinn. Fyrr í vetur voru þessi mál mikið rædd í hv. Ed. Þar gengu þá fram fyrir skjöldu tveir hæstv. ráðh. og vörðu af kappi málstað Breta. Hæstv. dómsmrh. viðurkenndi fúslega og aftur og aftur, að við Íslendingar værum búnir að sigra í landhelgismálinu. En hann ræddi um deiluna við Breta og þörfina á að leysa þá deilu. Um það efni snerust umr. í hv. Ed. í vetur að verulegu leyti. Það var margt athyglisvert, sem fram kom í þessum umr. Sérstaklega var það áberandi, að brezka ríkisstj. átti tvo dugmikla málsvara á hinu háa Alþingi Íslendinga. Þessir málflutningsmenn fluttu málstað Breta af fullri einurð og miklum dugnaði. Áreiðanlega máttu Bretar þá vel við una túlkunina, sem þeirra sjónarmið hlaut í þessari hv. d. í byrjun vetrarins. Ég vil meina, að þar hafi þeirra málstaður, Bretanna, hlotið meira en hann verðskuldaði. Mér flaug það oft í hug undir ræðulestri hæstv, ráðherra þá dagana, að mikilsvert hefði það verið okkur Íslendingum að eiga ámóta talsmenn í brezka þinginu árið 1958. Ef við þá hefðum haft brezka íhaldsráðherra jafneindregið á okkar bandi og Bretar höfðu og hafa enn íslenzka á sínu, þá hefðum við vissulega orðið minna varir hrottaskapar Bretanna og minna varir ágengni þeirra í íslenzkri landhelgi. En þessu var ekki að heilsa, hvorki árið 1958 né síðar. Brezkir ráðherrar virðast kunna skil á hlutverki sínu. Þeir virðast hafa vit á að gæta hagsmuna sinnar þjóðar, þótt slíkt vefjist fyrir íslenzkum ráðh. öðru hvoru.

En hver voru svo rök þessara hæstv. ráðh. í vetur, rökin, sem þeir færðu fram fyrir málstað Breta? Við höfðum sigrað í landhelgismálinu, um það var ekki deilt. En það var einmitt þess vegna, vegna þess að við höfðum sigrað í landhelgismálinu, að viðeigandi var að áliti hæstv. ráðh. að hefja samningamakk við Breta um landhelgina. Í þessu sambandi minntist annar ráðh. á samlíkingu, sem hann hafði áður gert, hann líkti íslenzku fiskveiðilandhelginni við nýsmíðað hús með herbergjum, sem leigja þyrfti út í ábataskyni. Þetta var falleg samlíking og smekkleg — eða hitt þó heldur. Einhverjir mundu hafa talið, að þetta hús, fiskveiðilandhelgin, væri ekki nema rétt handa íslenzku þjóðarfjölskyldunni og illa það og því ætti ekki að koma til mála að leigja þar neitt út, hvorki brezkum ofbeldismönnum né öðrum. Flestir mundu telja, að vísindaleg friðun fiskimiðanna umhverfis landið væri gerð í allt öðrum tilgangi en þeim að selja friðunarsvæðin útlendingum á leigu. Ég hefði haldið, að tilgangurinn með stækkun landhelginnar væri allt annar en sá. En samlíkingin um húsið og leiguherbergin gæti bent til þess, að uppi séu fleiri skoðanir en ein á friðunartilganginum.

Þegar hæstv. ráðh. voru að gera grein fyrir málstað Breta í þessari svokölluðu landhelgisdeilu, nefndu þeir öðru hvoru Rússa sem fyrirmynd. Það var minnt á það æ ofan í æ, að Rússar hefðu leyft Bretum fiskveiðar á svæðum innan 12 mílna landhelgi sinnar og virtist ekki meira, þótt við Íslendingar gerðum það. Það væri óneitanlega og er óneitanlega Bretum hagkvæmt, að við tökum Rússa okkur til fyrirmyndar í þessu efni. En það mætti athuga, áður en að því yrði flanað, hvort ekki væri ástæða til að athuga þarfir Rússa í þessu efni og þarfir Íslendinga, hvort þar er um sambærilega hluti að ræða. Við byggjum tilveru okkar á fiskveiðunum einum, svo að segja, en það gera Rússar ekki og ekki nærri því. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þann reginmun, sem á þessu er. Hitt er líka athugandi, sú spurning, hvort Rússar hefðu leyft Bretum veiðar innan sinnar 12 mílna landhelgi, ef Bretar hefðu hafið málaleitan sína um það með vopnaðri árás inn í rússneska landhelgi. Ég tel það ekki vera að hallmæla Rússum, þótt ég láti í ljós efa um samningslipurð þeirra við Breta eftir slíkar aðfarir.

Þá var það eitt, sem átti að mæla með því, að við slökuðum til við Breta og leyfðum þeim veiðar innan 12 mílna landhelgi okkar, og það var dæmi Norðmanna. Norðmenn voru einmitt um þær mundir að semja um stærð sinnar landhelgi við Breta. Hvers vegna skyldum við ekki fara eins að? Það voru ekki höfð um það orð þá, að aðferðir Norðmanna í þessu efni eru engri þjóð til fyrirmyndar. Við stækkuðum okkar landhelgi af brýnni nauðsyn árið 1958. Við gerðum það óumdeilanlega af brýnni nauðsyn og nutum þó til þess einskis stuðnings frænda okkar Norðmanna, frekar var um að ræða það gagnstæða. Síðan komu þeir í kjölfarið og nutu góðs af frumkvæði Íslendinganna og þeirra sigri. Það var heldur enginn vegsauki Norðmönnum, að samningaviðræður þeirra við Breta voru látnar fara fram einmitt á þessum tíma í þeim tilgangi að veikja siðferðisþrótt Íslendinga í landhelgismáli þeirra. Það er ekki til fyrirmyndar að láta hafa sig til slíks. Bretar væntu sér mikils af þessu vopni, samningunum við Norðmenn í viðureigninni við okkur, enda hafa íslenzku ráðh. notað það vopn gegn íslenzka málstaðnum.

Hæstv. dómsmrh. viðurkenndi það skýrt og skilmerkilega í ræðum sínum í Ed. í vetur, að Bretar hefðu haft rangt fyrir sér og að þeir hefðu beitt okkur ofbeldi. Þann sannleika reyndi hæstv. ráðh. sannarlega ekki að draga í efa. En hann dró af þessu ákveðna ályktun, og sú ályktun er athyglisverð. Hún er á þessa leið: Þrátt fyrir ranglæti Breta og þrátt fyrir sigur okkar ber okkur að slaka til og semja, því að hér stendur smáþjóð andspænis stórþjóð, og þegar þannig vill til, er það smáþjóðarinnar að gleyma réttlætinu og ofbeldinu. — Á þessa leið virtist mér æðsti vörður réttar og laga á Íslandi álykta í vetur, og hann hafði fordæmið á takteinum. Hann sagði: Finnar hafa orðið að semja við Rússa, meira eða mínna nauðugir. Vegna nábýlisins varð smáþjóðin að beygja sig fyrir stórþjóðinni. Þarna höfum við eina fyrirmyndina enn. Við eigum ekki að standa upp í hárinu á Bretum frekar en Finnar Rússum. Það má segja, að allt sé hey í harðindum, þegar rökin þrýtur, og flest þá til tínt. Þetta voru aðalröksemdirnar fyrir því, að við ættum að semja við Breta, að við ættum að slaka til fyrir Bretum.

Það var ein röksemd í viðbót, og hún var mikil og nýtilkomin umhyggja þessara hæstv. ráðh. fyrir íslenzku sjómannastéttinni. Sú umhyggja var ekki fyrr til orðin í hjörtum þessara ágætu manna en hún var hagnýtt og notuð til framdráttar hagsmunum Breta. Vegna hættunnar, sem landhelgisdeilan skapar íslenzkum sjómönnum, vegna ofstopa Breta vildu þessir málflutningsmenn í hv. Ed. láta slaka til og fórna unnum sigri í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Í tvö ár samfleytt höfðu íslenzkir sjómenn lagt sig í hættu vegna þessa máls, og þeir höfðu ekki æðrazt. Þetta framlag sjómanna er að sjálfsögðu mikilsvert. En nú skal það að engu gert í samningamakkinu við Breta.

Til lítils hafa sjómenn lagt líf sitt í hættu fyrir þetta mál, ef þannig skal að farið. Þetta er mín skoðun. Ég geri ekki lítið úr þeirri hættu, sem sjómenn lögðu sig í vegna ofbeldisaðgerða brezkra skipa í landhelgi, en mér finnst það vera sjómannanna sjálfra að meta þá hættu og a.m.k. alveg fráleitt, að ráðh. séu að hagnýta hana málstað Breta til framdráttar. Það finnst mér vægast sagt ósmekklegt, í tveim styrjöldum höfðu íslenzkir sjómenn lagt líf sitt í hættu við þann starfa að færa Íslendingum og Bretum lífsbjörg í bú, og þráfaldlega hafa þeir lagt sig í hættu við björgun brezkra skipshafna hér við land. Hvort mundi nú þeim vera óljúfara að gæta lífshagsmuna þjóðar sinnar í landhelginni, og mundu þeir frekar í því starfi vila hættuna fyrir sér? Ég held ekki, og ég er viss um, að sjómenn frábiðja sér þau krókódílstár, sem felld voru í hv. Ed. í vetrarbyrjun af hæstv. ráðh.

Nú á að slaka til við Breta. Það á að hleypa þeim inn fyrir 12 mílna mörkin, allt inn að 6 mílna mörkum umhverfis landið. Þetta er talið nauðsynlegt til þess að fullnægja óskum brezku stjórnarinnar. Þetta ræðst hæstv. ríkisstjórn í og hyggst koma fram með aðstoð þingliðsins hér. Það er ekkert spurt um þarfir þjóðarinnar í þessu sambandi. Það er ekkert spurt um, hvernig fer með fiskveiðar við strendur Íslands á næstu árum. Hver verður afleiðing þeirra ráðstafana, sem nú skulu gerðar? Það er ekki leitað til sjómanna, fiskimanna, um þeirra álit. Er það forsvaranlegt að leyfa erlendum togurum, svo að hundruðum skiptir, að veiða upp að 6 mílna mörkum næstu 2 árin, jafnvel þótt ekki verði lengri tími? Tækni í fiskveiðum fleygir fram með ári hverju, skipin verða stærri og betur búin en áður, og þróunin er ör. Hefur þetta atriði verið rannsakað? Hefur hæstv. ríkisstj. látið athuga, afleiðingarnar, sem af þessum ráðstöfunum hljótast?

Ég les það í nál. 2. minni hl. utanrmn., að farið hafi verið fram á það í hv. n., að sérfróðir menn yrðu látnir gefa álitsgerð um afleiðingarnar af þessu verki, en að það hafi ekki fengizt. Ég verð að lýsa undrun minni á því, að hæstv. ríkisstj. fæst ekki til að birta álitsgerð sérfróðra manna um afleiðingar þessara tilslakana, sem fyrirhugaðar eru, afleiðingarnar að því er snertir fiskimiðin og fiskstofnana. Þetta er þó mikilsvert, ég vil segja mikilsverðast af öllu í þessu máli.

Hv. 4. þm. Vesturl., Jón Árnason, hefur lagt fram till. til þál. um verndun fiskstofna við strendur Íslands nú nýlega. Í grg., sem þessari till. fylgir, segir hann sitt álit, og fer þar ekki á milli mála, að hann ber kvíðboga fyrir framtíðinni, hann ber kvíðboga fyrir framtíð fiskstofnanna við strendur Íslands. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa örstutta klausu úr þessari grg. þessa hv. þm. Sjálfstæðisflokksins:

„Öllum fiskveiðiþjóðum er nú orðið ljóst, að gæta þarf varhuga við þeirri tækni, sem nú er í sívaxandi mæli farið að beita á sviði fiskveiðanna. Sérstaklega er það hér í norðurhöfum, þar sem menn eru lengst komnir með beitingu fiskveiðitækninnar, að þessi þróun er farin að vekja nokkurn ugg, því að ýmis fyrirbæri á þessu sviði gefa nú orðið nokkra bendingu um, að svo sé nú komið, að frjósemi fiskstofnanna fái eigi lengur rönd við reist veiðitækninni. Þá er það augljóst orðið, að þessi nýja tækni getur auðveldlega valdið miklum truflunum á fiskgöngum og á margan hátt haft hin skaðlegustu áhrif á eðlishætti fisksins.“

Enn fremur segir þessi hv. þm. í grg.:

„Það er því í alla staði óhyggilegt, eins og nú hagar til, að ganga að fiskveiðunum hér við land eins og sá brunnur verði aldrei tæmdur, hvaða rányrkju og bolabrögðum sem beitt er, slíkur hugsunarháttur er hættulegur. Og að því leyti sem rányrkja af þessu tagi ber skynsamleg og raunhæf viðhorf til málsins ofurliði, verður með opinberum ráðstöfunum að banna slíkan verknað og fylgja því banni svo eftir, að raunhæft reynist.“

Ég get tekið undir þessi orð hv. þm. Jóns Árnasonar. Mér er ekki grunlaust um, að hann vildi gjarnan standa hér nú og mæla nokkur varnaðarorð, en sennilega telur hann sig bundinn flokksviðjum. En hann hefur haft aðra leið. Hann hefur komið þessu á framfæri á annan hátt, og það er vel. Vill nú ekki hæstv. ríkisstj. manna sig upp í það að gefa hinu háa Alþ. tækifæri til að kynnast því, sem sérfræðilegir ráðunautar hæstv. stjórnar hafa að segja um þetta efni, hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir fiskstofninn á miðunum, að Bretum og öðrum þjóðum sé hleypt inn að 6 mílna mörkum?

Ég skal nú fara að stytta mál mitt. Till., sem hér liggur fyrir til umr., er í raun og veru mjög merkilegt plagg. Till. sjálf er mjög stutt, aðeins ein setning: „Alþ. ályktar að heimila ríkisstj. að leysa fiskveiðideiluna við Breta í samræmi við orðsendingu þá, sem prentuð er með ályktun þessari.“ Fyrirsögn till. er um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Ég hef það við þessa fyrirsögn að athuga, að ég tel hana rangnefni. Hér er ekki um að ræða lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Við eigum ekki í neinni fiskveiðideilu við Breta. Það er ekki rétt. Maður, sem verður fyrir ofbeldisárás í þeim tilgangi að ná af honum fé, á ekki í deilu, hvorki á undan né eftir, við árásarmanninn. Mistakist árásarmanninum að ná fénu, þá verður það ekkert samningsatriði á eftir, hvernig leysa skuli það vandamál, að árásarmaðurinn náði því ekki. Hér er því ekki um neina deilu í orðsins eiginlegu merkingu að ræða. Við færðum út landhelgina og nutum til þess réttar. Bretar mótmæltu og beittu okkur valdi. Þeir biðu ósigur, við sigruðum og héldum okkar hlut. Að þessu öllu loknu er ekki um deilu að ræða. Við deilum ekki við Breta um landhelgina. Við eigum landhelgina og höfum ekkert við þá að deila um. Þeir eru óánægðir að hafa ekki fengið sínu ofbeldi framgengt. Þannig er það ekki rétt að tala um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Ég hefði heldur kosið, að fyrirsögn till. hefði verið: Till. til þál. um að blíðka brezk stjórnarvöld. — Það nægði. Annars er það einna athyglisverðast við þetta plagg, sem till. er prentuð á, að þar er langur kafli um athugasemdir við till. og tekur meginmál þskj., kemur næst á eftir tillgr., en orðsendingin, sem allt byggist á og allt snýst um, kemur síðast á þessu þskj. og er aðeins ein blaðsíða.

Það er áberandi, að aths. og orðsendingin stangast á í flestum atriðum og raunar í öllum veigamiklum atriðum. Túlkunin er m.ö.o. allt önnur en efni orðsendingarinnar, væntanlega samkomulagið, gefur tilefni til. Þessar athugasemdir, þannig úr garði gerðar, voru birtar þjóðinni að kvöldi 27. febr. í útvarpinu, ekki einu sinni, heldur mörgum sinnum. Þessum athugasemdum var stungið að þjóðinni fyrirvaralaust og án þess að hún hefði haft nokkra möguleika til að kynna sér orðalag og efni sjálfrar orðsendingarinnar, sem athugasemdirnar eiga við. Þetta er mjög vítavert, þegar þess er gætt, að athugasemdirnar eru í öllum veigamestu atriðum röng túlkun á orðsendingrunni, sýnilega gerð til þess að blekkja, sýnilega gerð í þeim tilgangi að villa um fyrir þjóðinni. Það var ekki fyrr en næsta dag og síðan, að þjóðin átti þess kost að heyra, hvernig í málinu lá. Hæstv. ríkisstj. misbeitti þar valdi sínu, tók í þjónustu sína hið hlutlausa ríkisútvarp til einhliða, málflutnings í mjög mikilsverðu máli.

Í þessum athugasemdakafla eru margar gleiðletraðar undirfyrirsagnir, og nokkrar þeirra hljóða svo: Bretar viðurkenna 12 mílur og nýjar grunnlínur. Takmörkuð veiðiheimild til Breta í 3 ár. Frambúðaraukning fiskveiðilögsögunnar um 5085 ferkílómetra. Frekari útfærsla fiskveiðilögsögunnar. Hagkvæm lausn.

Það var um efni þessara fyrirsagna og í þessum dúr, sem fréttir og frásagnir íslenzka útvarpsins snerust kvöldið 27. febr. Það var fagnaðarboðskapur, sem hæstv. ríkisstj. flutti þjóðinni þetta kvöld á öldum ljósvakans, ekki einu sinni, heldur aftur og aftur. Þessi fagnaðarboðskapur var um það, að deilan við Breta væri úr sögunni og henni hefði lokið með glæstum sigri íslenzku ríkisstj. Þessi gleðifregn hinnar fagnandi ríkisstj. dundi í eyrum landslýðsins allt kvöldið, og þetta var það fyrsta, sem hann heyrði um úrslit þessarar deilu. Fréttin flaug um landið fyrsta kvöldið eins og söngur himneskra hersveita. Síðan var haldið áfram í málgögnum Sjálfstfl. og Alþfl. næsta dag og næstu daga, og það var básúnað fyrir þjóðinni, að nú væri unninn stórsigur í landhelgismálinu. Til þess að árétta þennan framburð og til þess að styrkja landsmenn í trúnni á þennan mikla sigur var fljótlega farið að birta blaðagreinar frá Bretlandi, þar sem talað var um ósigur Breta, fórn Breta og annað því um líkt.

Ég las þessar blaðafréttir Morgunblaðsins 1. marz. Þá vitnaði þetta blað Sjálfstfl. í brezka blaðið Daily Mail, og átti allur sá fréttaflutningur að sannfæra okkur Íslendinga um, að Bretar viðurkenndu ósigur sinn. En þegar betur var að gáð og farið var að lesa fréttirnar, sem Morgunblaðið hafði eftir Daily Mail, þá kom strax 1. marz í ljós, að sitt hvað var kyndugt við þessar fréttir Morgunblaðsins um viðurkenningu Breta á eigin ósigri. Forustumenn brezka fiskiðnaðarins urðu hvumsa við, þegar fyrstu fréttirnar bárust um væntanlegt samkomulag í þessari deilu, og þeir skunduðu þegar í stað á fund Soames ráðherra til þess að skýra honum frá vonbrigðum sínum vegna þessa samkomulags. Þannig skýrir Morgunblaðið frá. En eftir hálfa aðra klst. á fundi í ráðuneytinu samþ. þessir forustumenn brezka fiskiðnaðarins einum rómi að fallast á samkomulagið, þar sem í því fælist, að það mundi gilda um alllangt skeið. Þetta segir orðrétt í Morgunblaðinu 1. marz, og kveðst blaðið hafa þetta eftir Daily Mail. Bretar leggja áherzlu á nauðsyn þess, að komið verði í veg fyrir frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar, enda verða Íslendingar að skýra frá öllum frekari aðgerðum til útvíkkunar með 6 mánaða fyrirvara. Frá þessu segir Morgunblaðið og hefur eftir Daily Mail. Bretar leggja áherzlu á að koma í veg fyrir frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar og telja í því efni mikilsvert, að Íslendingar hafi skuldbundið sig til að skýra frá öllum frekari aðgerðum til útvíkkunar með 6 mánaða fyrirvara. Einhvern veginn telja þeir þetta mikilsvert atriði í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir frekari útfærslu landhelgi okkar.

Í ummælum brezkra blaða er lagt mikið upp úr tilkynningarskyldu Íslendinga og mikið öryggi í henni talið. Áður en farið var á fund Soames ráðh., var óánægjan mikil, að því er Morgunblaðið segir 1. marz. Cobley, varaformaður samtaka togaraeigenda, talaði um það, áður en hann fór á fundinn, að nú mætti brezka fiskiðnaðinum það, sem hann vildi nefna nærri fyrirvaralausan brottrekstur. Hvað átti hann við þá? Hann átti við 3 ár. En þegar hann og samherjar hans í fiskiðnaðinum brezka koma af fundi Soames ráðh. 28. febr., að ég hygg, þá koma þeir ánægðir, hafa gengizt inn á samkomulagið og tala um, að í því felist, að það muni gilda um alllangt skeið. Hvað felst í þessu? Hvað sagði ráðh. þessum fulltrúum fiskiðnaðarins brezka? Hvíslaði hann einhverjum leyndarmálum í eyru þeirra? Eru einhverjir leynisamningar á ferðinni? Einhvern veginn tókst Soames og veittist raunar ekki erfitt að sannfæra fulltrúa fiskiðnaðarins brezka. Það tók hann ekki nema hálfa aðra klst. að fá þá til að fallast á samkomulagið. Þetta hef ég allt frá Morgunblaðinu 1. marz 1961.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um efni orðsendingarinnar, en vil þó aðeins minnast á örfá atriði. Eins og ég tók fram, kemur það í ljós við lestur þskj., sem till. er á, að áberandi ósamræmi er á milli þess, sem segir í orðsendingu utanrrh. annars vegar og í athugasemdum ríkisstj. við þáltill. hins vegar. Orðsendingin er hinn væntanlegi bindandi samningur milli Íslendinga og Bretar, en aths. eru ætlaðar til notkunar innanlands og eiga að þjóna ríkisstj. í viðskiptum hennar við þjóðina. Þetta ósamræmi er djúptækt og snertir öll meginatriði samningsins.

Í aths. er fullyrt, að Bretar viðurkenni nú þegar 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Í orðsendingunni er hins vegar ekki eitt orð um þessa viðurkenningu Breta, ekki á hana minnzt þar. Það, sem þar segir, er aðeins, eins og er flestum kunnugt nú orðið, að ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, en það er allt annað en viðurkenning, hvað sem lagadeild háskólans segir. Bretastjórn fellur aðeins frá mótmælum, á meðan brezk fiskiskip fá að veiða innan þessarar 12 mílna landhelgi. Mótmælin getur hún hafið aftur, hvenær sem henni mislíkar við okkur, rétt eins og hún gerði í tilefni af útfærslu í 4 mílur. Þá mótmælti hún, lét síðan mótmælin niður falla að nokkrum árum liðnum, en tók þau upp aftur 1958. Bretar mótmæla ekki 12 mílna landhelgi Rússa, enda fá þeir að veiða þar á vissum svæðum fyrir innan, en þeir hafa marglýst því yfir á síðustu missirum, að þeir þrátt fyrir það viðurkenni ekki landhelgi Rússa. Það er þannig bert, að Bretar gera reginmun á því að viðurkenna og því að falla frá mótmælum, og þannig munu þeir sjálfir túlka þetta, hvenær sem þeim býður við að horfa og þeir telja sig sjálfir hafa hag af. Fullyrðing hæstv. ríkisstj. um viðurkenningu Breta er gripin algjörlega úr lausu lofti og aðeins ætluð til að friða íslenzku þjóðina. Ef brottfall frá mótmælum jafngilti viðurkenningu, ætti að vera auðvelt að fá Bretastjórn til þess að gangast inn á þá orðalagsbreytingu, að í stað orðanna „falla frá“ o.s.frv. komi: viðurkenna. En það er nokkurn veginn öruggt, að Bretar muni ekki fallast á slíka breytingu, og það veit hæstv. ríkisstj. Sú breyt. er nefnilega meira en orðalagsbreyt., hún er mjög róttæk efnisbreyt. okkur í hag. Þetta vita Bretar, og því mundu þeir aldrei ganga inn á þessa breyt. Þetta veit líka hæstv. ríkisstj., og þess vegna getur hún ekki fallizt á að styðja framkomna till. um slíka breytingu.

Í aths. segir enn fremur, að Bretar viðurkenni þýðingarmiklar breyt. á grunnlínum á fjórum stöðum umhverfis landið. Þetta er þar talið eitt af meginatriðum samningsins Íslendingum í vil. Sannleikurinn er þó sá, að þetta er aukaatriði, vegna þess að við þurftum ekki á þessari viðurkenningu Breta að halda. Alþjóðasamþykkt er til um það, hvernig draga megi grunnlínur, og samkvæmt ákvæðum þeirrar samþykktar gátum við því hvenær sem var framkvæmt lengingu þeirra grunnlína, sem í gildi hafa verið, og þurftum ekki að leita viðurkenningar Breta á því. Þetta atriði er því sýndarmennskan eintóm, til þess gerð að gylla fyrir landsmönnum lélegan samning. Það þurfti ekki og átti raunar ekki að semja við Breta um breyt. Þeir eru engir samningsaðilar í því efni, og þess vegna var það til bölvunar að blanda þeim inn í það mál. Enn eigum við eftir og eigum rétt til að leiðrétta grunnlínur, og það var unnt að gera og er unnt að gera að alþjóðalögum. En hamingjan má vita, hvort nú er ekki skapað fordæmi handa Bretum til að skipta sér af grunnlínuákvörðunum Íslendinga í framtíðinni.

Þá segir í aths., að brezkum skipum verði heimilað að stunda veiðar á takmörkuðum svæðum á milli 6 og 12 mílna takmarkaðan tíma á ári í næstu 3 ár. Í orðsendingunni er þetta þannig orðað, að ríkisstj. Íslands muni ekki hindra, að brezk skip stundi veiðar á svæði á milli 6 og 12 mílna næstu 3 ár, og eru staðar- og tímatakmarkanir nánar tilgreindar. Þá beisku staðreynd, að horfið er frá 12 mílna landhelgi, er reynt að bragðbæta með ýmsu móti. „Leyfið til handa Bretum á aðeins að gilda í 3 ár,“ segir í aths. Hvað á þá að taka við? Endurnýjun samkomulagsins eða nýtt ofbeldi Breta? Um það er ekkert í orðsendingunni, aðeins að íslenzka ríkisstj. ætli ekki að hindra Breta í fiskveiðum innan 12 mílna næstu 3 ár. Hún nærri því lofar að gera það ekki framar. Á móti þeirri skuldbindingu kemur engin skuldbinding af Breta hálfu, ekkert loforð um það t.d., að þeir skuli að 3 árum liðnum víkja út fyrir 12 mílna mörkin. Á slíkt er ekki minnzt í orðsendingunni.

Gyllingarnar í aths. um takmörkun veiðisvæða og veiðitíma fara sennilega fljótt af. Eftirlit með bannsvæðunum milli 12 og 6 mílna mun viðast hvar reynast óframkvæmanlegt, en sjálfur veiðitíminn, sem leyfður er á hverju ári, er miðaður við þarfir Breta, miðaður við þeirra vertíðir, svo að þar er ekki af miklu af státa.

Það má líklega segja með sanni, að Bretum séu með þessari orðsendingu leyfðar veiðar upp að 6 mílna mörkum á þeim árstímum, sem þeir óska, og að sú tilhögun muni standa eins lengi og Bretar hafa úthald til að þybbast við, annaðhvort með áframhaldandi nauðungarsamningum eða með hreinu ofbeldi.

Ekki er á það minnzt einu orði í aths., sem lesnar voru yfir þjóðinni að kvöldi 27. febr., að með þessari samningsgerð við Breta eru landgrunnslögin frá 1948 raunverulega numin úr gildi ásamt reglugerðinni frá 1958 um 12 mílna landhelgi og ásamt ályktun Alþ. 5. maí 1959, þar sem m.a. er ákveðið, að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið. Þetta má hins vegar greinilega lesa út úr orðsendingunni. Rétti landsmanna til landgrunnsins er afsalað og frekari útfærsla landhelginnar ekki á valdi Íslendinga, heldur Breta og alþjóðadómstólsins í Haag. En af þessu er ekki verið að guma í aths. ríkisstj., sem þjóðin fékk fyrst að kynnast, heldur er það sniðgengið.

Ef Bretum líka ekki framtíðarráðstafanir okkar í landhelgismálum, þá geta þeir mótmælt, og þeir geta áfrýjað deilumálinu til alþjóðadómstólsins í Haag. Ég hlustaði á útvarpsræðu hæstv. fjmrh. fyrir nokkrum dögum, þar sem hann ræddi um alþjóðadómstólinn í Haag. Hann talaði um þennan dómstól lotningarfullt og næstum með helgislepju, taldi hann nánast ofar öllu mannlegu að fullkomleika og hreinleika. Það hefur áður í dag verið á það bent, að slíkur er þessi alþjóðadómstóil ekki, því miður. Það var á það bent, að dómarar í þessum dómstóli hafa aldrei utan einu sinni dæmt öðruvísi en í samræmi við óskir og vilja sinna ríkisstj. Í dóminum eiga sæti 15 menn, og þannig stendur á nú, að 9 eða 10 af þessum mönnum eru tilnefndir af ríkisstj., sem eru andstæðingar okkar í landhelgismálum. Þannig er sannleikurinn um þennan dómstól, og það er engin ástæða til að falla í stafi af hrifningu yfir því að þurfa í framtíðinni að leita á náðir þessa dómstóls með lífshagsmunamál okkar.

Það þarf ekki að athuga orðsendingu þessa lengi til að sjá, að íslenzka ríkisstj. hefur beðið herfilegan ósigur fyrir þeirri brezku. Hér hefur brezki refurinn svo sannarlega leikið á íslenzka lambið. Ívilnanir Íslendinga eru markaðar skýrt og ótvírætt, en það, sem á móti kemur frá Bretum, er loðið og tvírætt. Þetta er ekki óeðlilegt. Við áttum réttinn allan, gefum nokkuð af honum. Bretar áttu réttinn engan og geta því ekkert gefið. En þessi ósigur íslenzku ráðh. magnar þá nú til að leita sér uppreisnar á öðrum vettvangi. Nú reyna þeir eftir ósigurinn við brezku ríkisstj. að sigra íslenzku þjóðina, vinna hana til liðs við sig og allan sinn hrakfallabálk. Þeir leitast við að snúa ósigri sínum fyrir Bretum í sigur yfir íslenzku þjóðinni með því að fá hana til að gerast samseka sér um afglöpin. Þetta er skýringin á öllu skrumi hæstv. ríkisstj., öllum áróðurshamförum hennar síðustu dagana og þeim skefjalausa umsnúningi staðreynda, sem hún hefur gert sig seka um í þessu máli öllu.