08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í D-deild Alþingistíðinda. (2435)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera allt of langorður, það er búið að ræða mikið um þetta mál. Skal ég reyna að taka aðeins aðalatriðin, sem ég álít að séu í þessum samningi.

Hv. frsm., 5. þm. Reykv. (JóhH), fórust orð í ræðu, sem hann hélt, á þessa leið: Við höfum þá trú á málstað þjóðar okkar, að við þorum að vísa til alþjóðadómstóls. — Ég vil bara spyrja: Hvers vegna vísuðu þeir ekki ágreiningsatriðinu við Breta um landhelgismálið til alþjóðadómstóls nú? Hvers vegna gerðu þeir það ekki? Það var einfaldlega af því, að þeir vissu, að þeir mundu tapa fyrir þeim alþjóðadómstóli, vegna þess að hann hafði engin lög til þess að dæma eftir. Þora þeir það þá frekar síðar, ef á að færa landhelgina frekar út? Ég vil bara biðja ykkur að athuga það. Er aðstaðan þá betri? Hvaða tryggingu hafa Íslendingar fyrir því, að það verði sett einhver lög viðvíkjandi útfærslu landhelgi? Alls enga.

Ég gæti trúað, að þeir glottu, Bretarnir, þegar þeir eru að athuga þetta og þegar þeir eru að fá þýðingar á íslenzku blöðunum, þar sem þau tala um þann mikla sigur, sem við höfum unnið í samningunum við þá. Það er nefnilega dálítið barnalegt að lofa því að vísa ágreiningi um útfærslu landhelginnar til alþjóðadómstóls, þegar vitað er, að hann hefur engar lagasetningar til að dæma eftir viðvíkjandi útfærslu landhelgi. Þetta er ofur lítið barnalegt, að ætla að lofa þessu fyrir alla framtíð. Það væri fyrir sig, ef ríkisstj. hefði gert þann fyrirvara, að yrðu gerðar alþjóðasamþykktir um útfærslu landhelgi, þá skuldbyndi ríkisstj. sig til að hlýða þeim samþykktum, og ef ágreiningur yrði um framkvæmd þeirra, þá yrði honum vísað til alþjóðadómstóls, því að þá var tryggt, að alþjóðadómstóllinn hafði einhverjar samþykktir til að fara eftir. En það er fráleitt að lofa að vísa ágreiningsmálinu um útfærslu landhelginnar til alþjóðadómstóls, þegar vitað er, að hann getur ekki dæmt eftir neinum reglum eða samþykktum.

Af hverju var Gefnarráðstefnan haldin? Til að reyna að koma sér niður á einhverjar reglur. Og það náðist ekki samkomulag. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því, að það náist nokkurn tíma samkomulag? Það þurfti tvo þriðju atkvæða til þess að fá löglegt samkomulag á Genfarráðstefnunni, — það náðist ekki, — en það þurfti ekki nema einn þriðja til að stöðva málið. M.ö.o.: Bretar og aðrar fiskveiðiþjóðir, sem vilja ekki, að við stækkum landhelgina, þurfa á ráðstefnum með sömu reglum ekki nema einn þriðja af atkv. til að hindra, að nokkrar reglur verði settar, og þar með að hindra það um alla framtíð, að við getum nokkurn tíma fært frekar út landhelgina en orðið er. Þetta er alvarlegur hlutur. Þetta er þungi málsins.

Ég geri ekki mikið úr 1. liðnum. Það má vel vera, að Bretar geri þetta af klókskap. Ég gæti vel fallizt á það. En ég hef ekki trú á því, að þeir veiði með herskipavernd innan við 12 mílur framar, af því að þeir eru búnir að reyna til þrautar, að það er ekki gerlegt, það er ekki framkvæmanlegt. Það var verið að birta mynd af hv. 4. þm. Austf. í Morgunblaðinu og reyna að gera hann hlægilegan fyrir það, að hann hélt því fram, að þetta hefði bara verið til bóta fyrir okkur, að Bretar héldu sínum skipum í hópum. En þetta var bara dagsatt hjá 4. þm. Austf., — ég vil nú ekki segja: aldrei þessu vant, — en hann sagði satt þarna. Þetta var bara dagsatt. Þetta er alveg hliðstætt því t.d., ef nágranni okkar ætlaði að beita kúm í túnið okkar. Haldið þið það væri ekki betra fyrir okkur, að hann passaði kýrnar á einhverjum bletti á túninu, en hann léti þær valsa um allt túnið? Það er bara það, að áður en Bretar tóku upp á þessu, þá urðum við t.d. fyrir línutapi fyrir norðan. Eftir að þeir voru farnir að hópa saman skipunum, urðum við aldrei fyrir neinu veiðarfæratjóni. Hv. 4. þm. Austf. sagði alveg satt þarna, þó að Morgunblaðsmennirnir skili það ekki, því að þeir hafa aldrei verið neinir sjómenn og ekki lagt neina línu og hafa ekkert vit á þessu.

Það sér hver einasti maður, að það er hreinn fíflaháttur að ætla að lofa því skilyrðislaust að vísa máli til alþjóðadómstóls, þegar engar samþykktir og engin lög eru til fyrir því, hvernig á að dæma. Það er eins og einhverjir krakkar hefðu gert þetta.

Ég get lýst því yfir, að ég reyndi að gera mér grein fyrir þessu máli algerlega hlutlaust og hef ekki nokkra löngun til þess að halla á ríkisstj., ekki þá minnstu, og hefði feginn viljað vera með þessu, ef ég hefði getað. Ég hugsaði málið algerlega hlutlaust, því að það er sannarlega nóg, að þessir ráðh. vinni hér um bil kauplaust, þótt ekki þurfi að skamma þá fyrir alla skapaða hluti, sem þeir gera. Ég hef enga löngun til þess að deila á ríkisstj. En ég vildi benda þeim á þetta, ef nokkur leið væri að laga Þetta, að koma a.m.k. því skilyrði inn, að ágreiningi sé ekki vísað til alþjóðadómstóls, án þess að búið sé að gera samþykkt um fiskveiðilandhelgina. Það er sjálfsagt fyrir Íslendinga að hlýða lögum og reglum. En það þurfa bara að vera einhver lög og einhverjar reglur, einhverjar samþykktir til að fara eftir. En hitt er eins og hver önnur glópska, að lofa því að vísa ágreiningsatriði til dómstóls, þegar hann hefur enga möguleika til að dæma málið. Ef þeir treysta því, að þetta sé rétt og framkvæmanlegt, þegar á að færa landhelgina út fyrir 12 mílur, því gera þeir það þá ekki nú að fara í 72 mílur, þar sem um 30 þjóðir hafa gert það, og þar er þó hægt að styðjast við fordæmin, þó að það sé ekki annað? Hvaða ástæðu höfum við til þess einir allra þjóða að lofa svona löguðu? Hvaða þjóð hefur lofað þessu? Hvaða þjóð hefur lofað því, er hún ætlar að stækka landhelgi sína, að leggja það undir alþjóðadómstól? Engin. Þetta er auðmýking á frelsi okkar og sjálfstæði. Það er búið að samþ. hér landgrunnslög frá 1948. Hvað voru mennirnir að gera, ef þeir héldu ekki, að þeir réðu yfir landgrunninu? Hvað átti það að þýða að samþ. lög um þetta? Það er vitað, að þegar um málma og olíur og slíkt er að ræða, þá vilja þjóðirnar hafa rétt yfir landgrunninu, en það hafa ekki náðst enn samþykktir um veiðina. Má vera, að það verði, má vera að það verði ekki, en það er bara óviturlegt að lofa þessu alveg ótímabundið. Það væri fyrir sig, ef það væri í 10–20 ár. Þetta er ótímabundið. Hvað munu næstu kynslóðir segja um þetta? Hvernig munu þær dæma það, ef þær verða algerlega færðar í fjötra, ef afkomendur okkar óska eftir því eftir 30–60 úr, að breyta landhelgislínunni? Bretar segja: Jæja, við leggjum það fyrir alþjóðadómstól. — Þeir hafa séð um það, að engar reglur eða samþykktir eru til, sem gera okkur mögulegt að færa út landhelgina. Hvernig munu þær dæma þessa menn? Ég vil segja: Það á engin ríkisstj. að gera svona hlut, svona endileysu. Með einföldum orðsendingum milli ríkja ætla þeir að gera þetta: hlut, sem skerðir í raun og veru frelsi og sjálfstæði okkar. Það er alveg sjálfsagt fyrir okkur að hlýða lögum og reglum, en þær verða bara að vera til. Og ef þær eru til, þá þarf ekki neitt að vera að lofa því að vísa til alþjóðadómstóls, þá hafa allar þjóðir rétt til þess.

En viðvíkjandi því ofbeldi, sem Englendingar hafa verið að sýna okkur, þá er allt of mikið gert úr því, hvað okkur stafi mikil hætta af því. Þeir vita það ósköp vel sjálfir, að það er ekki hægt að láta skipin veiða sér til hagsbóta með herskipavernd. Það er ekki hægt. Þeir gerðu þetta aðeins af stífni og neyddu skipin til þess, þeim var miklu betra að vera frí og frjáls utan við 12 mílurnar en vera að þvinga þau að veiða á vissum svæðum innan við þær. Þetta, vissu Bretar sjálfir og voru komnir í algert öngþveiti. Við áttum bara að halda þetta út. Og ég get sagt ykkur það, að það var miklu betra fyrir okkur að ganga að því, sem um var talað á Genfar-ráðstefnunni, að lofa þeim að veiða hvar sem var í 5 eða 6 ár, heldur en ganga að þessu fyrir ótakmarkaðan tíma. Það var miklu hagkvæmara fyrir okkur, því að það skulum við gera okkur ljóst, að þeir fá að vera þar sem þeir vilja fyrir norðan á sumrin, fyrir sunnan að vetrinum, þeir fá nokkurn veginn að haga sér eins og þeir vilja.

Og það, sem Bretar veiða ríkisstj. á, er útfærsla grunnlínanna. Ég skal játa, að í bili er okkur þetta hagræði. Það má vel vera, að við hefðum getað náð þessu, en það hefði getað kostað okkur einhverja fyrirhöfn og deilur. Agnið, sem ríkisstj. Íslands er veidd á, er útfærsla grunnlínanna, en í því er falinn sá öngull, að bundnar eru hendur okkar um alla framtíð viðvíkjandi því, að við getum fært frekar út fiskveiðilandhelgina. Hverju skiptir Breta línan á milli 6 og 12 mílna, miðað við hinn hluta landgrunnsins? Hún er einskis virði fyrir þá. Það er það, sem þeir hafa alltaf óttazt, að við færum lengra en í 12 mílur. Það er það, sem þeir hafa alltaf verið að reyna að tryggja, að við gerðum það ekki.

Við vitum það í stjórnarandstöðunni, að það er sama, hvaða till. við komum með, þær eru allar drepnar. En ég vildi nú benda ríkisstj. á, hvort það væri ekki hægt að koma að þeim fyrirvara, að málinu væri ekki vísað til alþjóðadómstólsins, nema alþjóðadómstóllinn hefði einhverjar samþykktir til að dæma eftir. Ef það er ekki hægt, þá er betra fyrir okkur að semja ekki heldur en semja um þetta. Það er barnalegt að semja svona og furðulegt, að fullþroska menn skuli láta sér detta það í hug. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að þeir vísa ekki núna deilunni til alþjóðadómstóls? Það er af því, að það er ekki hægt. Þeir hafa ekkert til að dæma eftír. Svo þegar búið er að færa landhelgislínuna út í 12 mílur, þá á að vísa ágreiningsatriðinu fyrir alþjóðadómstólinn. Þetta er eins og hver önnur endileysa. Ef menn athuga þetta skynsamlega og rólega, þá sjá menn, að þarna er verið að teyma menn á asnaeyrunum.

Aðstaða Breta gagnvart okkur eftir þetta er ámóta og mannsins, sem er búinn að láta laxinn gleypa agnið, og það er ekki í munninum á honum, það er komið í magann á honum og hann getur alls ekki losað sig. Ef þetta agn væri ná aðeins í munninum á hæstv. ráðh., þá væri víst enginn fúsari en ég að losa þá við það.