08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (2437)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Páll Metúsalemsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir, er till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Þessi ályktun heimilar ríkisstj. að leysa fiskveiðideiluna við Breta í samræmi við orðsendingu, sem með fylgir. Orðsendingin sjálf efnislega leyfir Bretum veiði innan 12 mílna landhelgi Íslands næstu 3 árin á svæðinu milli 6 og 12 mílna kringum allt landið nema við Vestfirði. Víðast hvar og að mestu leyti er þessi heimild árið um kring eða allt að átta mánuðum, þó með friðuðum blettum, sem koma munu að óverulegu gagni. M.ö.o.: Það á að semja um það að hleypa Bretum og öðrum fiskveiðiþjóðum inn í 12 mílna landhelgi Íslendinga, í landhelgi, sem nær allar þjóðir voru búnar að viðurkenna, ýmist viðurkenna alveg eða þá viðurkenna í verki, og þar á meðal jafnvel Bretar sjálfir nú síðustu mánuðina. En nú er tekið eitt heljarstökk aftur á bak og það í þjónustu við þá þjóð, sem ein allra þjóða hefur beitt Íslendinga ofbeldi og ekki virt lög okkar og rétt, enda hafa þessir gömlu kúgarar ágæta æfingu í öllum slíkum þrælatökum, því að eftir að hafa öldum saman kúgað og féflett nýlendur sínar, sem þeir svo urðu að hörfa frá á síðustu áratugum, vegna þess að þeim var ekki stætt lengur vegna álits síns í heiminum, þá snúa þeir sér að minnstu grannþjóð sinni og beita hana yfirgangi í skjóli vopnavalds, á sama tíma og þeir sitja við hlið hennar í fjölmennu þjóðabandalagi, bandalagi, sem á að tryggja viðkomandi þjóðum öryggi, og nú á að veita þessum herrum samning og að nokkru leyti viðurkenna rétt þeirra til þess að ráða útfærslu landhelgi Íslendinga á komandi árum.

Í fyrsta lið orðsendingarinnar er sagt, að Bretar falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. En samningurinn er til þriggja ára, og fellur því þessi yfirlýsing vitanlega úr gildi þá líka. Þetta er því allt á sömu bókina lært. Í fjórða og fimmta lið orðsendingarinnar er ákvæði um undanþágu til handa Bretum um veiðar í landhelgi íslendinga í næstu þrjú ár. Í umr. hefur þetta atriði verið vefengt, enda óþekkt um slíka samninga, að ekki sé hægt að fá þá framlengda, sé vilji hlutaðeigandi aðila fyrir hendi.

En hver verða svo áhrifin á okkar sjávarútveg í skjóli þessa samnings næstu árin? Á síldveiðitímanum norðanlands og austan er síldarflotum allra þjóða sleppt inn fyrir sex mílna mörkin, og þar sem vitað er, að ýmsar þjáðir stunda nú þennan veiðiskap með móðurskipum og mjög nýtískulegum veiðiaðferðum, má nærri geta, að þetta verði hið mesta áfall fyrir þennan atvinnuveg Íslendinga.

Þá er eitt, sem vekur strax athygli, en það er, hvernig eftirgjöf landhelginnar er skipt á milli landshluta. Leynir sér ekki, að langharðast verður norðaustur- og suðausturhorn landsins úti, enda drífa að mótmæli frá því fólki, sem byggir þessi byggðarlög.

En hvað er þá að gerast? Hvað er það, sem við Íslendingar vorum búnir að vinna. Við vorum búnir að vinna deiluna við Breta. Rétturinn til útfærslunnar var fyrir hendi á grunnlínunum og hefur alltaf verið það. Það viðurkenndu fjölmargar þjóðir útfærslu okkar 1958 og aðrar gerðu það óbeinlínis með því að þegja, nema Bretar. Þeir einir hafa traðkað á rétti okkar og beitt okkur ofbeldi, og svo er þessari þjóð einni allra þjóða hleypt inn í landhelgina með samningum. Alveg sérstaklega hefur þetta alvarlegar afleiðingar fyrir síldveiði við Norður- og Norðausturland og sömuleiðis bátaútgerð austan- og suðaustanlands. En í þessum landshlutum er lífsafkoma fólksins í þorpum og kaupstöðum að langmestu leyti undir þessum atvinnuvegi komin.

Þegar litið er á það, sem hefur gerzt síðustu árin í landhelgismálum Íslendinga, vekur það mikla undrun, að hæstv. ríkisstj. skuli senda frá sér slíka orðsendingu. Allt frá árinu 1948, er landsgrunnslögin voru sett, hefur verið um sókn og þróun að ræða í landhelgismálunum, og raunar höfum við einlægt verið að vinna sigur, sem náði hámarki með útfærslunni 1958, sem þjóðin hefur staðið einhuga um. Hvað er það þá í þessum samningi, sem stjórnarliðið hér á Alþingi telur stórsigur? Það er að vísu rétt, að það verða grunnlínubreytingar á 4 stöðum, en að mestu leyti hverfa þær í innfærslu á landhelginni, meðan þessi samningur er í gildi. Þá er aðeins eitt, sem eftir er, og það er, að samið er við Breta til 3 ára, en það er skammgóður vermir og mun reynast þyngri þrautin að koma þeim út fyrir mörkin aftur heldur en er að hleypa þeim inn fyrir.

Þegar þessa er gætt, verður manni að spyrja: Hver er ástæðan fyrir því, að hæstv. ríkisstj. semur á þennan hátt, sem lýst er í orðsendingu þeirri, sem um er rætt hér á þessum fundi? Manni verður fyrst fyrir að líta aftur í tímann á sögulegar staðreyndir, hverjir og hvaða menn hafa áður reynt að selja og selt frelsi okkar og réttindi, því að vafalaust getur að því komið, að bæði efnalegu sjálfstæði okkar og jafnvel stjórnarfarslegu líka sé hætta búin út frá þessum samningum.

Fyrir um 700 árum hefur sennilega verið skráður þáttur, sem á að hafa gerzt fyrir 900 árum eða eitthvað þar um bil. Fyrir 700 árum voru hér miklar viðsjár og enduðu með því, að Íslendingar glötuðu frelsi sínu, svo að það er ekki ólíklegt, að höfundur þessa þáttar hafi haft ástandið, eins og það var þá, í huga, þegar hann samdi þennan þátt. En þá kemur fyrir Alþingi Íslendinga mál, sem er ekki óskylt því máli, sem nú er hér til umræðu. Maður er nefndur Þórarinn Nefjólfsson, og var hann íslenzkur að ætt, eftir því sem greint er. Maðurinn var hraustur og víðförull, og sjá má það og, að hann hefur verið höfðingjakær og þótt konungsveizlur góðar, því að hann hafði þjónað hjá mörgum konungum og verið hirðmaður að minnsta kosti til skiptis hjá tveimur. Hann tekur að sér það konungserindi í Noregi að fara til Alþingis Íslendinga og leita eftir því, að Íslendingar gefi Noregskonungi Grímsey. Hann kemur til Alþingis, heldur þar snjalla ræðu og sneri einkum máli sínu til ríkasta höfðingja Norðurlands, Guðmundar ríka Eyjólfssonar, um erindið. Guðmundur tók því vel og svaraði: Fús er ég til þess að vingast við Ólaf konung, og ætla ég mér það miklu meira gagn en útsker það, sem hann beiðist. — En Norðlendingar áttu fleiri menn þar stadda og m.a. bróður Guðmundar, er Einar hét. Og þegar umræður hófust um þetta atriði, sneru þeir sér einmitt til þessa manns og segjast víkja málinu til hans, því að hann muni gerla sjá, hvað rétt sé. En Einar svaraði með ræðu, sem lifa mun, meðan land byggist, og hluti af ræðunni er eitthvað nálægt þessu: Því er mér fátalaðra um þetta mál, að ég var ekki til kvaddur. En ef ég skal segja mína ætlan, þá gangið til og hyggið að, landsmenn, að ganga undir skattgjafir Ólafs konungs og allar álögur, og munu menn það ófrelsi eigi aðeins gera sér til handa, heldur og sonum sínum og þeirra sonum og allri ætt vorri og öllum, er þetta land byggja.

Í þetta sinn var frelsi og sjálfstæði Íslands borgið. En um 200 árum síðar, sennilega um svipað leyti og þátturinn er skráður, 1260, voru hinir höfðingjakæru auðmenn og valdhafar menn fyrir því að glata frelsinu. Og er hér ekki eitthvað svipað á ferðinni enn, það sjónarmið, að mikið sé tilvinnandi að ná hylli hinna voldugustu, hvort sem það eru einstaklingar eða heil ríki? Og enn mun það vera svo, að ekki mun vera lakara að sitja drottningarveizlur nútímans en konungsveizlur fyrir 100 árum. Og ef til vill kann það að vera eitthvað kitlandi og dálítið dularfullt að eiga einhvers staðar í fórum sínum drottningarbréf, sem eigandinn kærir sig ekki um að sýni öllum.

Ég mun nú ekki tefja tímann öllu lengur og vil aðeins bæta því við, að mitt álit er það, að engir alþm. hafi umboð til þess að gera þær aðgerðir, sem hér eru fyrirhugaðar. Þess vegna skora ég á hæstv. ríkisstj. og reyndar fylgdarlið hennar að skjóta þessu máli til þjóðaratkvgr.