08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (2438)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það hafa nú orðið um þetta mál allmiklar umræður, og er það ekki að undra, því að hér er mikið mál á ferð. Við þessar umr. hafa málin líka skýrzt æði mikið. Hv. þm. stjórnarflokkanna hafa þó ekki verið mjög langorðir, og það er raunar ýmsum skiljanlegt. Hæstv. ráðh., utanrrh. og dómsmrh., hafa þó, að því er mér virðist, verið öllu langorðari á stundum en málstað þeirra er hollt. Sá hóflausi áróður og dæmalausa blekkingamoldviðri, sem þyrlað hefur verið upp af talsmönnum þessa máls, hefur vakið mikla tortryggni hjá mörgum.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mikið, þær hafa þegar staðið í einar 35 klst., enda hafa flest efnisatriði málsins verið rakin og rædd svo ýtarlega, að ég geri mér litlar vonir um að geta þar miklu við bætt. Hv. 5. þm. Reykv. hefur líka kvartað yfir því, að hér væru þau vinnubrögð um hönd höfð, sem á öðrum vettvöngum eru kennd við grískan bæ fornan, og ég sé ekki ástæðu til þess að gefa honum tilefni til þess að ætla mér þátttöku í þeim leik. En hins vegar þykir mér rétt að leggja hér enn frekari áherzlu en gert hefur verið á nokkur atriði úr máli þeirra hæstv. ráðherra, sem hér hafa talað, sem mér virðist að sýni það svo, að ekki verður um villzt, hvers konar plagg hér er um að ræða, þó að það hafi kannske ekki verið tilgangur ráðh. að látra það koma svo glögglega í ljós.

Það hefur verið talað hér mikið um hið einkennilega orðalag, sem er í 1. málsl. orðsendingarinnar, um „að falla frá mótmælum“. Í útvarpsumræðu við 1. umr. þessa máls beitti hæstv. fjmrh. lærðum lagaskýringum til þess að sýna fram á það, að þetta þýddi í raun og veru viðurkenningu Breta á 12 mílna fiskveiðilögsögu okkar. Hæstv. dómsmrh. sótti umsögn lagaprófessora og taldi sig með því og í ræðu sinni að öðru leyti hafa sannað það að í þessu orðalagi væri fólgin ótvíræð, full og óvefengjanleg viðurkenning. En svo kom fram í bréfi háskólaprófessoranna þetta ólánsatriði með textamismuninn. Þeir vöktu athygli á því, að það mundi verða nokkur mismunur á íslenzka og enska textanum. Hæstv. dómsmrh. viðurkenndi þetta í ræðu sinni, en upplýsti um leið, að ríkisstjórninni hefði verið það áhugamál að þýða þetta orðalag varlega. Það vakti athygli, að ráðh. orðaði það þannig, að ríkisstj. hefði verið áhugamál, að þetta væri varlega þýtt. Ýmsir hefðu haldið, að ríkisstj. mundi nú láta löggilta skjalaþýðendur og aðra góða sérfræðinga um það að þýða þetta plagg, en svo virðist ekki hafa verið. En ríkisstj. var áhugamál að þýða það varlega, og þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort henni hafi ekki verið fyrst og fremst áhugamál að þýða það rétt. En nú var það þýtt varlega, og þess vegna varð niðurstaðan sú, að samkvæmt upplýsingum hæstv. dómsmrh. eigum við samkvæmt enska textanum meiri rétt en skv. þeim íslenzka. Sama kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. Nú gaf íslenzka orðalagið ótvíræða, fulla og óvefengjanlega viðurkenningu, og mér er þess vegna nokkur spurn: Hvað er í þessu sambandi meiri réttur en það? En auk þess fór hæstv. utanrrh. öðruvísi að í sambandi við þetta orðalag. Þegar hann hafði skýrt frá því, að enski textinn væri nokkuð á aðra lund og notaði ekki orðalag, sem nákvæmlega svaraði til „að falla frá mótmælum“, heldur annað, sem væri okkur öllu hagstæðara, þá notaði hann samt þessa ónákvæmu þýðingu til þess að segja okkur sögurnar af öllum þeim rökstuðningi, sem Bretar hefðu sett fram í sínum mótmælaorðsendingum, og sagði okkur frá því, að frá öllu þessu væri nú verið að falla.

Í enska textanum er hvergi talað um fyrri mótmæli Breta eða annað orðalag, sem vísi á nokkurn hátt til mótmælaorðsendinga þeirra, sem þeir hafa sent. Skyldi nú Home lávarður hafa varað sig á því, að íslenzka ríkisstj. skyldi þýða enska textann, sem ég geri ráð fyrir að lávarðurinn hafi fyrst og fremst haft fyrir framan sig, svo varlega, að með því einu að leggja meiri áherzlu á að þýða varlega en nákvæmlega gætu þeir látið hann éta ofan í sig allar þær röksemdafærslur, sem Bretar hafa borið fram fram að þessu. En Home lávarður er nýr af nálinni í sínu embætti. Hann hefur ekki verið þar nærri eins lengi og starfsbróðir hans á Íslandi, og hann er ekki búinn að átta sig, hann er ekki búinn að umþótta sig nægilega til þess að kunna að meta snilli hinna varfærinslegu þýðinga.

En hvernig stendur þá á því, að íslenzka ríkisstj. telur sér það fært að þýða svona varlega? Oft eru milliríkjasamningar á tveimur málum, og þá eru báðir textar jafnréttháir. Það vaknar í þessu sambandi sú spurning, hvort orðsendingin verði send á íslenzku eða hvort hún verði send á ensku eða hvort hún verður send á báðum málunum. Og þessi spurning er ekki þýðingarlaus, þegar það er viðurkennt af tveimur hæstv. ráðh., að það sé munur á þessum textum, a.m.k. blæmunur, eins og annar þeirra mun hafa orðað það, en ýmsir þykjast nú renna grun í, að það sé kannske meiri munur á þessum tveim textum en blærinn einn.

Nú er það í raun og veru ljóst, þegar um málið er hugsað, að á alþjóðavettvangi og fyrir alþjóðadómstóli hefur enski textinn einn þýðingu. Alþjóðadómarar og aðrir menn erlendis, sem um þessa hluti fjalla eða kynna sér þá eða skipta sér af þeim, munu ekki vera mjög leiknir í íslenzkri tungu. Og það skyldi nú ekki vera, að hér væri komin skýringin á því, hversu varfærinslega og kannske ónákvæmlega er þýtt? Það var nefnilega öllu óhætt. Enskir lögðu ekkert upp úr því, hvað stóð í íslenzka textanum, en hins vegar mátti nota þetta orðalag til þess að segja okkur Gróusögur af öllum þeim mótmælum, sem Home lávarður væri að kyngja ofan í sig. Þýðingin var þess vegna eingöngu gerð til innanlandsbrúks, og henni var þess vegna hagað í samræmi við það, sem hentugast væri fyrir það áróðursmoldveður, sem ákveðið var að þyrla upp. Auk þess hafði hún þann kost, að prófessorar við Háskóla Íslands gátu notað einmitt þetta orðalag til þess að taka samanburð úr lagamáli, sem tíðkast hér við innlendar réttarstofnanir.

En hvað sem nú er rétt eða rangt í lagaskýringum ráðherra og prófessora á þessu orðalagi, þá er þó eitt alveg ljóst af þessu, og það er það, að þetta hefði getað verið skýrara. Og samningur með óskýrum ákvæðum um það, sem við erum að leitast eftir að fá fram, er slæmur samningur fyrir okkur.

Það er mikið rætt um alþjóðalög, einkum af hálfu hæstv. ráðherra, í sambandi við þetta mál. Nú rétt áðan ítrekaði hæstv. dómsmrh. það, sem áður hefur verið sagt af honum sjálfum eða öðrum ráðherra, að þeir, sem vildu ekki sætta sig við alþjóðadóm, þau ríki væru ekki réttarríki. Hann minnti á það, að við höfum hér á Íslandi verið réttarríki hingað til og vildum vera það áfram. Hann taldi enn fremur, að alla sjálfstæðisbaráttu okkar hefðum við byggt á alþjóðarétti. Þetta gefur tilefni til þess að spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvort hann hefði talið það farsælt fyrir okkur Íslendinga, ef við hefðum átt úrslit sjálfstæðisbaráttu okkar undir alþjóðlegum dómstóli, — eða álítur hæstv. dómsmrh., að þau nýlenduríki, sem nú eru að fá sjálfstæði sitt í öðrum heimsálfum, mundu gleypa við því að eiga úrslit sinna mála undir alþjóðadómstólum? Mér er nær að halda, að svo sé ekki.

Það mun víst hafa verið hæstv. fjmrh., sem sló föstu þessu, sem hæstv. dómsmrh. var að endurtaka, að það ríki, sem gæti ekki sætt sig við alþjóðadómstól, væri ekki réttarríki. Og það er auðvitrað afleitt að vera ekki réttarríki. Slík ríki, sem eru það ekki, geta lítillar virðingar notið, og það má t.d. gera ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. teldi, að slíkum ríkjum væri í engu hægt að treysta og til lítils að gera við þau samninga. Samt er nú verið að gera samning um eitt þýðingarmesta mál Íslenzku þjóðarinnar við ríki, sem fyrir 7–8 árum neitaði að leggja deilu við okkur Íslendinga í alþjóðadóm og er því samkvæmt skilgreiningu hæstv. fjmrh. ekki réttarríki.

Það urðu hér í umr. nokkur orðaskipti milli manna í sambandi við þessi alþjóðalög. Hæstv. dómsmrh. varpaði þeirri spurningu að einum hv. þm., hvort hann teldi, að 12 mílna reglugerðin frá 1958 hefði ekki verið í samræmi við alþjóðalög. Hann fékk að vísu til baka aðra spurningu um það, hvort ráðh. teldi ekki, að landgrunnsreglan væri í samræmi við alþjóðalög. Svörin við þessum spurningum eru miklu einfaldari en menn vilja vera láta, enda hafa ýmsir á það bent. Þetta er ekki samkvæmt neinum lögum, og þetta er ekki brot á neinum lögum, því að það eru engin alþjóðalög til um viðáttu landhelgi, eins og tvær Genfarráðstefnur á undanförnum árum hafa tekið af öll tvímæli um.

Hæstv. fjmrh. greip líka fram í fyrir einum ræðumanni og spurði hann að því, hvort reglugerðin frá 1958 hefði verið lögleysa. Svarið var auðvitað neitandi. En það var ekki svarið, sem var athyglisvert í þessu sambandi, heldur spurningin.

Með lögleysu getur væntanlega aðeins verið átt við tvennt: annaðhvort lögbrot hreinlega eða verknað, sem styðst ekki við heimild í lögum. Í hvorugu tillitinu var reglugerðin frá 1958 lögleysa. Það var ekki brot á neinum lögum, hvorki alþjóðlegum né íslenzkum, að færa landhelgina út, því að það voru engin lög til, sem bönnuðu það. Og það var vissulega heimild fyrir því að færa landhelgina út. Þá heimild var að finna í lögum nr. 44 frá 5. apríl 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Og hér er auðvitað mergurinn málsins. Með því að ekki eru til alþjóðalög um víðáttu fiskveiðilögsögu eða landhelgi yfirleitt, þá bætum við sjálfir úr þeim skorti, að því er lýtur að svæðinu við strendur okkar lands, með setningu friðunarlaganna. Auðvitað verðum við að sætta okkur við alþjóðalög og gerum það með gleði, en meðan þau eru ekki til, gilda okkar lög við Íslandsstrendur, og við beitum öllu afli okkar og manndómi til þess að gæta þeirra laga.

Svona hefur það að minnsta kosti verið. En nú skal sú stefna yfirgefin og í staðinn fyrir þau lög skal nú á þessu svæði gilda sanngirni dómaranna í Haag. Hæstv. dómsmrh. sagði, að þeir dómarar dæmdu af sanngirnisástæðum, þegar lagagrundvöll þryti, og nú kemur sú sanngirni væntanlega í stað laga nr. 44/1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins.

En allt þetta tal um réttarríki og alþjóðalög er aðeins áframhald af þeirri starfsemi að þyrla upp moldviðri í sambandi við þetta mál, flækja það eins og frekast er mögulegt. Það þarf enginn að segja mér, að hæstv. ráðh. viti ekki betur um þessi atriði en þeir láta.

Því hefur yfirleitt ekki verið haldið fram af íslenzkum aðilum, að við höfum haft í frammi lögleysur í þessum málum, hvorki fyrr né síðar, og ég minnist ekki nema einnar undantekningar frá þessari reglu, þeirrar, að stjórnarblöðin hafa nú haldið því fram, að Íslendingar og Bretar hafi með þessum samningi komið sér saman um grunnlínur, sem liggi utar en alþjóðasamþykkt frá 1958 leyfir, og þar með hafi Íslendingar og Bretar gerzt sekir um lögleysu og brotið þær alþjóðasamþykktir, sem þeir báðir eru aðilar að. Auðvitað er þetta rangt. En þetta sýnir, hversu langt er gengið í áróðursmoldviðrinu, og þetta sýnir, að kapp er, jafnvel í áróðri, bezt með forsjá.

Versta ákvæðið í þessum samningi er þó, eins og svo margir ræðumenn hér hafa undirstrikað, ákvæðið um alþjóðadómstólinn. Þetta ákvæði er auðvitað algerlega óhafandi, meðan þessi dómstóll hefur ekki nein alþjóðalög til að fara eftir nema um einstök fáein atriði þessu viðvíkjandi og t.d. engin um víðáttu fiskveiðilögsögunnar.

Það komu hér fram í umr. þær sorglegu fréttir, hafðar eftir engum lakari manni en sjálfum Hammarskjöld, að hlutar þjóðanna innan vébanda Sameinuðu þjóðanna hefðu ekki viljað sætta sig við að vísa deilumálum sínum til Haag-dómstólsins. Þó var þarna um að ræða almenn deilumál af ýmsu tagi, sem í flestum tilfellum falla undir einhver gildandi alþjóðalög. Hvað halda menn, að það væru margar þjóðir og þá sérstaklega hvað margar af þeim framsæknu þjóðum, sem eru í sókn, — það er skiljanlegt með þær gömlu og íhaldssömu, — en hvað halda menn, að það séu margar þjóðir, sem hefðu viljað skuldbinda sig til þess að vísa málum, sem engin alþjóðalög eru til um, til dómstólsins í Haag, þegar svona illa gengur að fá þær til þess að fallast á að láta hann dæma í milliríkjamálum almennt? Það mætti hugsanlega sætta sig við atriði af þessu tagi, ef þau næðu t.d. aðeins til spursmála eða ágreiningsatriða í sambandi við grunnlínur eða slíka hluti, sem alþjóðareglur eru til um. En að vera fyrir fram bundinn við að sætta sig við alþjóðadóm um alla eilífð, einnig í þeim atriðum. þar sem dómstóllinn hefur, eins og það er orðað, sanngirni sína eina til að dæma eftir, er alveg ótækt. Og hvernig er sanngirni slíkra dómstóla? Sanngirni þeirra er, eins og hér hefur oft verið bent á, fyrst og fremst íhaldssöm. Dómstólar eru íhaldssamir, og í mörgum tilfellum eru þeir mörgum árum, kannske áratug, á eftir þeim praksís, sem einhliða aðgerðir þjóðanna eru að skapa á hverjum tíma. Þess vegna er umskiptunum, sem nú eru að verða eða eiga að verða, bezt lýst með orðum hv. 2. þm. Vestf. hér áðan, þegar hann sagði, að við værum að flytja okkur úr fararbroddi og aftast í röðina.

Hæstv. ráðh. hafa verið mjög margorðir um það, að við gætum farið öllu okkar fram í málinu, á meðan við biðum úrskurðar eða dóms. Um þetta hafa komið langar lagaskýringar, þó ekki frá háskólanum í þessu atriði. Og hér var ekki hægt að nota neinar varfærnislegar þýðingar, vegna þess að um þetta stóð ekki neitt. Um þetta atriði er samningurinn þögull eins og gröfin sjálf. Það er að vísu, eins og bent var á hér áðan, ákvæði í reglum alþjóðadómstólsins, sem heimila honum að úrskurða strax, hvernig haga skuli hinum umdeildu málum, meðan dóms er beðið, og það er enginn vafi á því, það liggur í hlutarins eðli, að dómstóllinn mundi nota sér slíkt ákvæði og úrskurða, að status quo skuli gilda. En þetta setja hæstv. ráðh. ekki fyrir sig, heldur beita þeir lagaskýringum sínum til þess að fá fram þann skilning á þessu atriði, sem þeir helzt vilja fá hv. þm. til þess að trúa.

Ég hef bent hér á fáein atriði af mörgum, þar sem það hefur komið skýrt fram í ræðum hæstv. ráðh. sjálfra, að samningurinn er mjög óljós og ógreinilegur, einkum í þeim atriðum, sem eru okkur hagsmunamál. Hann er ekki svo mjög óljós að því er snertir réttindi Breta. En af hverju er það nú ekki sagt skýrt, sem hæstv. ráðh. segja að sé meint? Þannig hafa margir hv. þm. spurt, og það er kannske von, að þannig sé spurt. En það er samt alveg óþarfi að spyrja svo, því að það getur hver maður sagt sér sjálfur. Halda menn kannske, að þetta sé af fljótfærni íslenzku aðilanna eða slóðaskap þeirra eða greindar- eða þekkingarskorti? Auðvitað ekki. Það var lesið upp úr hinni nýju Heljarslóðarorrustu Alþýðublaðsins í gær, að hæstv. utanrrh. væri einn bezti samningamaður þessarar þjóðar, og það hefur oft verið logið meira en því í Heljarslóðarorrustu. Ég þykist þekkja hæstv. ráðh. nógu vel til þess að trúa engri af fyrrgreindum ástæðum fyrir því, að samningurinn er svo illa úr garði gerður. Það er augljóst, að ástæðan til þess, að samningurinn er ekki betri, er sú, að það var ekki hægt að fá samkomulag við Breta um betri samning. Það var ekki hægt að fá samkomulag um skýrari ákvæði yfirleitt. Og góðir samningamenn gera það ekki að gamni sínu að gera samning, sem hefur inni að halda teygjuákvæði þeim í óhag um þýðingarmestu mál.

En af hverju er þá verið að gera nokkurn samning yfirleitt? Á því gaf hæstv. utanrrh. skýringu í ræðu sinni hér í umr. Hann sagði, að fyrir Íslendinga væri nú um tvennt að velja, að gera þennan samning eða fá á ný það ástand, sem hér var áður, þegar brezkir bryndrekar brunuðu um íslenzka landhelgi. Það hefur verið sýnt fram á það í þessum umr., að þetta er sennilega rangt. En það er þó rétt að spyrja hreinskilnislega: Hafa Bretar sett fram þessa kosti í þeim samningum, sem hér hafa farið fram? Hafa þeir sett þessa kosti fram? Er þá kannske að finna í margumtöluðu bréfi, sem talið er að byrji á orðunum „kæri Guðmundur“? Eða er þetta bara mat ráðh. sjálfs á aðstæðunum? Allt um það hver svörin verða við þessum spurningum, þá liggur það fyrir, að þetta er það val, sem ráðh. töldu sig hafa. Þeir töldu sig til neydda að gera samning til þess að forða lífi og limum íslenzkra sjómanna undan vígvélum brezkra. Þetta mat getur verið rétt eða rangt, en þetta er skv. því, sem fram hefur komið, það, sem þeir álitu vera valið, og þeir völdu að láta undan ofbeldinu. Þess vegna er þessi samningur nauðungarsamningur, og hann mun í framtíðinni verða skoðaður sem slíkur.