15.12.1960
Efri deild: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

125. mál, veð

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í fjarveru viðskmrh. vildi ég aðeins segja um þetta frv. eina eða tvær setningar, um leið og það er lagt fram í þessari hv. deild. Frv. hefur verið samþ., að ég ætla samhljóða, í Nd. Það er borið fram vegna tilmæla bankanna til þess að tryggja, að þeir, sem veðsetningar hafa haft um hönd eða orðið að veðsetja fjármuni sína, geti ekki farið í kringum núverandi veðlög. Það hefur nefnilega komið fyrir, að menn, sem hafa veðsett bönkunum ýmsa fjármuni, hafa getað selt þá án þess að sá, sem við vörunum tók, væri að nokkru leyti undir sök fyrir að hafa keypt þá án þess að greiða veðskuldina. Eitt kjarnaatriðið í þessu frv. er það, að sá, sem kaupir vöru, tryggi sér það fyrir fram, að hún sé ekki veðsett, þannig að hann geti greitt andvirði hennar til seljanda.

Að öðru leyti skal ég ekki fara út í frv. Ég hef ekki kynnt mér það svo rækilega, að ég vilji mæla fyrir því hér í einstökum atriðum. Ég þekki aðalefni þess og veit, að það er talið, af bönkunum aðallega, sem hafa vörur að veði, nauðsynlegt. Ég veit líka, að það hefur verið leitað til hinna færustu lögfræðinga um samningu þess og yfirlestur, og ætla, að það sé mjög nauðsynlegt, að það nái fram að ganga og helzt sem fyrst, áður en farið er að veðsetja bönkunum vertíðarafla skipanna.