22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í D-deild Alþingistíðinda. (2457)

63. mál, rafmagnsmál á Snæfellsnesi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að mæla gegn því, að skorað verði á ríkisstj. að láta sem fyrst fara fram rækilega athugun á raforkumálum Snæfellinga. En hitt vildi ég segja, að ég hefði talið það á ýmsan hátt eðlilegra, að þessi till. hefði verið víðtækari en hún er. Það er vitanlega þörf að athuga víðar en á Snæfellsnesi. hvernig auðið sé að leysa raforkumál byggðanna á viðunandi hátt.

Nú er verið að vinna að — og hefur verið um allmörg ár — framkvæmd svonefndrar 10 ára áætlunar um dreifingu raforkunnar. Það mun mega gera ráð fyrir, að framkvæmdum samkv. þeirri áætlun verði lokið eftir 1–3 ár. Það mun vera nú í athugun hjá raforkumálastjórninni undirbúningur að nýrri áætlun um framkvæmdir á vegum héraðsrafmagnsveitna ríkisins, eftir að lokið er þeim verkum, sem 10 ára áætlunin gerir ráð fyrir. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, mun enn vera óunnið þar allmikið undirbúningsstarf, til þess að hægt sé að gera framhaldsáætlun.

Það var nokkuð rætt um þetta á síðasta þingi, m.a. borin fram till. þá um að fela ríkisstj. að láta vinna að slíkum undirbúningi, og mun ríkisstj. í fyrravetur, eftir því sem mér er bezt kunnugt, hafa lagt fyrir raforkumálaskrifstofuna að hefja þennan undirbúning. En eins og ég sagði, mun þar allmiklu rannsóknarstarfi ólokið og undirbúningsvinnu, til þess að hægt sé að ganga frá framhaldsáætlun um raforkuframkvæmdir í héruðunum. Og ég kvaddi mér einkum hljóðs til þess að beina þeirri áskorun til hæstv. ráðherra, sem fer með þessi mál, að hann hlutist til um það, að þessari undirbúningsvinnu á raforkumálaskrifstofunni verði hraðað svo sem föng eru á. Ég tel, að því starfi þyrfti að vera lokið á næsta hausti, þegar næsta þing væntanlega kemur saman.

Það er ákaflega þýðingarmikið fyrir menn, ekki eingöngu á Snæfellsnesi, heldur um land allt, að vita, áður en langt líður, hvers má vænta um áframhaldandi framkvæmdir í rafmagnsmálunum, Það verður sem fyrst að taka ákvörðun um það, að hve miklu leyti raforkuþörf sveitanna verður fullnægt með dreifilínum frá aðalorkuveitukerfinu og hvaða landshlutar þurfa að leysa sín raforkumál með öðrum hætti. Þó að enn sé nokkuð eftir að vinna við 10 ára áætlunina, þá líður nú senn að því, að því verði lokið, ef lagt verður fram svipað fjármagn til framkvæmdanna og verið hefur undanfarin ár. Og það er, eins og ég hef bent á, ákaflega þýðingarmikið fyrir menn að vita, hvað þá tekur við.

Ég vildi því beina því til ríkisstj., að hún láti hraða þessum undirbúningsrannsóknum, svo sem auðið er, svo að niðurstöðurnar geti legið fyrir nú síðar á þessu ári, um það leyti sem næsta þing kemur saman.