22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í D-deild Alþingistíðinda. (2458)

63. mál, rafmagnsmál á Snæfellsnesi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú óþarfi í sjálfu sér að svara nokkru í tilefni af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, vegna þess að eins og fram kom í ræðu hans, þá er honum kunnugt um það, að þessi athugun, sem hér um ræðir, er í fullum gangi hjá raforkumálaskrifstofunni og að henni verður hraðað eins og unnt er. Þetta kom fram í umr. á síðasta þingi, að raforkumálastjóra hefur verið falið að gera nýja áætlun um, hvernig hægt verði að leysa rafmagnsmál þeirra byggðarlaga, sem ekki falla undir 10 ára áætlunina, og þá vitanlega um leið, að gerð sé grein fyrir því. hvaða bæir það eru, sem geta fengið rafmagn frá samveitum, og hvaða bæir það eru og hversu margir, sem þurfa að leysa þessi mál með öðrum hætti, með dísilvélum. Að þessu er unnið með þeim hraða, sem unnt er. Hvort þeirri athugun verður lokið á næsta hausti, það get ég ekkert fullyrt um. En mér er kunnugt um, að raforkumálastjóri hefur hug á því að ljúka þessu sem fyrst, enda hefur verið áherzla á það lögð frá hendi ríkisstj.