18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (2469)

98. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Við höfum, þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra og hv. 10. landsk. þm., leyft okkur að flytja á þskj. 109 till. til þál. um að undirbúa virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju. Ég tel mig geta lýst yfir, að hv. 5. landsk. standi einnig að þessu máli.

Hann sat ekki á þingi, þegar till. var flutt, en við höfum síðan ræðzt við um þetta mál. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvörum og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi.“

Till. sama efnis var flutt á síðasta Alþ., en varð þá ekki útrædd. Í framsöguræðu, sem ég flutti um þá till., gerði ég grein fyrir þessu máli. eftir því sem ég taldi þá ástæðu til og á mínu færi vera, og þar sem nú sitja, yfirleitt á Alþingi sömu menn, tel ég ekki rétt að endurtaka nema að, litlu leyti það, sem ég sagði þá.

Ég lýsti þá nokkuð hinu mikla fallvatni, sem hér er um að ræða, Jökulsá á Fjöllum, öðru nafni Jökulsá í Öxarfirði. vatnasvæði hennar, mælingum, sem gerðar hafa verið á vatnsmagni árinnar, en þær hófust fyrir meira en 50 árum, fallhæð hennar á fyrirhuguðu virkjunarsvæði. hinum sérstöku athugunum og rannsóknum á Jökulsá og umhverfl hennar, sem fram hafa farið í seinni tíð. Einnig sagði ég þá frá virkjunaráætlunum þeim, sem gerðar hafa verið nú nýlega, og aðalniðurstöðum þeirra áætlana, að því leyti sem okkur flm. voru þær niðurstöður kunnar, svo og hugmyndum verkfræðinga um að auka mjög virkjunarmöguleika með uppistöðu fyrir ofan fossa í Jökulsá.

Jökulsá er, eins og kunnugt er, önnur lengsta á landsins, 206 km. Vatnasvæði hennar er 7800 km2, þar af 1700 km2 undir jökli, og hefur ekkert annað íslenzkt fljót svo stórt vatnasvæði. Minnsta rennsli árinnar er nálægt 100 m3 á sek. og allt upp í 1500–1600 m3, þegar það er mest. Meðalrennsli mun vera um 200 m3 á sek. Samanlögð fallhæð á fyrirhuguðu virkjunarsvæði mun vera um 300 m.

Á síðasta. þingi var í framsöguræðu einnig nokkuð rætt um hugsanlega nýtingu orkunnar og hvað helzt hefði verið um talað, að til greina kæmi í því sambandi.

Ég minnti þá líka á hugsjónir þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og annarra aldamótamanna í sambandi við virkjun Dettifoss og varpaði fram þeirri spurningu, hvort Alþingi þætti ekki hæfa að taka til athugunar, hvort tími væri til þess kominn að láta draum skáldsins í þessu efni rætast.

En við það, sem þá var sagt, þ.e.a.s. á síðasta Alþingi. má nú bæta því, að þetta mál hefur verið allmikið rætt fyrir norðan á s.l. ári. Borizt hafa ályktanir um það til Alþingis, sem liggja frammi hér í lestrarsal. m. a, frá sýslunefnd Norður-Þingeyjarsýslu og fjórðungsþingi Norðlendinga, og hafa raunar fleiri slíkar ályktanir verið gerðar. Í þessum erindum til Alþingis kemur það fram, sem kunnugt er, að á Norðurlandi er nú mikill og vaxandi áhugi fyrir því, að virkjun Jökulsár verði næsta stórvirkjun, sem ráðizt verður í hér á landi. enda mun það nú liggja nokkuð í augum uppi, að ekki sé völ á annarri virkjun hagkvæmari. Í því sambandi leyfi ég mér að vitna til bréfs raforkumálastjóra til fjvn. Alþingis, sem dags. er 6. maí s.l., en þar segir raforkumálastjóri, að rannsókn hafi leitt í ljós, að úr Jökulsá megi vinna raforku á svipuðu kostnaðarverði og stóriðjuver, svo sem alúminíumverksmiðjur, greiða fyrir orkuna víða erlendis. Að þessu athuguðu og ýmsu öðru teljum við flm. þessarar till., eins og segir í grg. till., rétt, að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum, að ríkisstj. leggi allt kapp á að hraða sem mest fullnaðarathugun málsins. þannig að fullnaðaráætlun geti legið fyrir, og að jafnframt fari fram þær athuganir aðrar, sem tillagan fjallar um.

Hér á landi eru, sem kunnugt er, nokkur stór, virkjanleg fallvötn. Sum þeirra er hægt að virkja á mörgum stöðum, að því er virðist. Raforkumálastjóri skýrir svo frá í fyrrnefndu bréfi sínu s.l. vor til fvn., að í þrem af þessum fallvötnum megi, eins og hann kemst að orði, jafnan vinna orku. sem nemur 13500 millj. kwst. á ári, eða sem svarar rúmlega, að mér skilst, 11/2 millj. kw. virkjun, og er þá gert ráð fyrir 20 orkuverum, þar af 2 orkuverum í Jökulsá. Þar hygg ég þó, að ekki sé gert ráð fyrir öllum möguleikum í sambandi við þessi vötn. Meðal fjögurra stærstu orkuveranna, sem þarna er gert ráð fyrir, eru Jökulsárvirkjanirnar báðar og tvær í Þjórsá, og skal ég ekki rekja það nánar.

En þó að ekki sé um annað rætt en þessi þrjú fallvötn, sem greint er frá í bréfi raforkumálastjóra, sýnist mér næsta ólíklegt, að fært þyki eða hagkvæmt fyrir íslenzkt atvinnulíf að ráðast í fullvirkjun þeirra allra samtímis, jafnvel þótt fyrir lægju fullnægjandi áætlanir um virkjunarframkvæmdir og hagnýtingu orkunnar til iðnaðar. Hins vegar virðist nú vera þannig að þessum málum staðið, að unnið sé að misjafnlega langt komnum athugunum allra þessara fallvatna og líklega fleiri jöfnum höndum og þá e.t.v. með það fyrir augum, að öllum athugunum, rannsóknum og áætlunum ljúki um svipað leyti, en þær munu, eftir því sem fram hefur komið, taka langan tíma og kosta mikið fé. Mér skildist á umr. um þetta mál hér á Alþ. 26. okt. s.l., að undirbúningsrannsóknir og frumáætlanir, sem eftir er að gera við Þjórsá og Hvítá út af fyrir sig, mundu kosta a.m.k. 40 millj. kr. Þó má vera, að þetta hafi átt að skiljast svo, að í þessari upphæð væru einhverjar fleiri athuganir. Hitt er jafnframt kunnugt, og á það leyfi ég mér að benda, að þegar fyrir ári var undirbúningsvinnan við Jökulsá lengst á veg komin, og kom það reyndar glöggt fram í ræðu hæstv. raforkumálaráðherra hér á Alþ. 26. okt. s.l. Það virðist því einsætt, að leggja beri á það megináherzlu að ljúka því verki, sem þar hefur verið unnið, eins og farið er fram á í till. á þskj. 109. Ég held, að engum geti orðið mein að því, að sú vinnuaðferð sé viðhöfð. Öðrum rannsóknum og áætlunum er svo sjálfsagt að halda áfram, eftir því sem tök eru á, enda verður að gera ráð fyrir, að þær komi að notum á sínum tíma. En í fyrsta virkjunaráfangja með tilliti til stóriðju mun Jökulsá nægja og ekki trúlegt, að hægt sé að ráða við meira í bili. Það er ekki ráðlegt að vinna að öllu í einu og á einhverju þarf að byrja. Ég held meira að segja — það er mín skoðun — að skynsamlegt sé að taka til athugunar, hvort ekki sé hægt að koma á fót stóriðju með því að virkja hluta af Jökulsá, þ.e.a.s. Dettifoss einan, í 137 m falli, ca. 100–150 þús. kw. Ég tel mig hafa sterkar líkur fyrir því, að þessi Dettifossvirkjun, sem ég nú nefndi, mundi án efa verða hin ódýrasta, sem völ er á hér á landi. Þá þyrfti að athuga gaumgæfilega, hvort virkjun með þeirri orku gæti ekki orðið nægilega traust undirstaða þess, sem nefna mætti stóriðju, í smáum stíl þó, miðað við það, sem tíðkast með stórum þjóðum, og hvort iðja af því tagi gæti ekki orðið fyllilega samkeppnisfær, þegar á það er litið, að orkan yrði ódýr. Þetta er auðvitað rannsóknarefni. En af ýmsum ástæðum væri hér um æskilega niðurstöðu að ræða, æskilega byrjun, meðan þjóðin er að fikra sig áfram á þessu sviði. Slík byrjunarframkvæmd þyrfti auðvitað að vera þannig, að hún gæti án teljandi aukakostnaðar fallið inn í meiri virkjun árinnar síðar, og mér sýnist í fljótu bragði, að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu. Spurningin er þá aðallega sú, hvort hægt er að stofna til samkeppnisfærs stóriðnaðar með því orkumagni, sem hér er um að ræða, og úr því þarf að skera. Auðvitað er ekki ástæða til að einskorða sig við alúminíumframleiðslu í því sambandi, þótt mest hafi verið um hana rætt. Fleira kann að geta komið til greina. En í sambandi við virkjun Jökulsár vil ég leyfa mér að benda á það, að fjarlægðin til sjávar og hafnargerðarskilyrði á Norðurlandi mundu ekki geta talizt óhagstæð, þegar samanburður er gerður í þeim efnum.

Í sambandi við afgreiðslu þessarar till. vil ég svo aðeins að lokum drepa á eitt mikilvægt atriði í þessu máli, enda verður ekki hjá því komizt að taka afstöðu til þessa máls m.a. með það atriði í huga. Hér á Suðvesturlandi hefur skapazt elns konar miðstöð í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar, og jafnframt hefur jafnvægið í byggð landsins raskazt svo mjög, að margir hafa áhyggjur af, ekki aðeins í öðrum landshlutum, heldur einnig hér, Í sambandi við virkjun Jökulsár á Fjöllum er hægt að skapa nýja atvinnulífsmiðstöð, að vísu í smærri stíl, hinum megin á landinu. Möguleikarnir eru til staðar. Sú framkvæmd mundi alveg ótvírætt stefna í jafnvægisátt, eins og vikið er að í lok grg. fyrir þessari till. á þskj. 109.

Því mun verða veitt athygli í Þingeyjarsýslum og við Eyjafjörð, um Norðurland allt og miklu víðar, þar sem slík mál eru efst á baugi, hvort ráðamenn gefa gaum að þessu atriði málsins eða hvort menn í þess stað óska eftir fresti til að undirbúa ný reikningsdæmi nær höfuðborginni. Ég endurtek það, og ég vona, að ég megi gera það fyrir hönd okkar allra flm. þessarar till., að jafnvægið í byggð landsins á a.m.k. ekki að gleymast, þegar við Íslendingar ákveðum, að ráðizt verði í næstu stórvirkjun fallvatns hér á landi.

Ég legg svo til, um leið og þessari umr. er nú frestað, sem væntanlega verður, aðmálinu verði vísað til hv. fjvn.