22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í D-deild Alþingistíðinda. (2471)

98. mál, virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. fjvn. á þskj. 482 ber með sér, mælir n. einróma með því, að till. þessi verði samþykkt óbreytt. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða, sem vissulega væri hægt að segja margt um. En þar sem mörg mál eru hér á dagskrá og mjög farið að styttast í þingtíma. þá ætla ég að láta mér nægja að segja aðeins örfá orð ummálið, enda voru því gerð rækileg skil af hv. 1. flm. þess, þegar fyrir því var talað við upphaf þessarar umr.

Jökulsá á Fjöllum var valin fyrir nokkru til þess að gera athugun í sambandi við það, hversu hugsanlegt væri að fá hér ódýra raforku til stóriðju. Var talið af sérfróðum mönnum, að þessi á einmitt uppfyllti þau skilyrði, sem ætla mætti líklegust til þess, að hægt væri að framleiða ódýra raforku í þessu skyni. Það er að sjálfsögðu höfuðatriði í sambandi við möguleika okkar til stóriðju, að við getum lagt til raforku, sem sé ekki óhagstæðari en sú orka, sem hliðstæð iðjuver búa við erlendis. Bráðabirgðaniðurstöður af rannsóknum á Jökulsá benda ótvírætt í þá átt, að þess megi vænta, að þar sé hægt að fá rafmagn. sem fyllilega sé samkeppnisfært við erlenda raforku, jafnvel þar sem hún er ódýrust. Hæstv. raforkumálaráðherra mælti svo fyrir við raforkumálastjórnina í fyrra, að haldið skyldi áfram athugunum á Jökulsá, jafnframt því sem gerðar yrðu athuganir á vatnasvæðum Hvítár og Þjórsár. Svo sem frá hefur verið greint hér á þingi og m.a. af hæstv. ráðh., þá er þar um mjög yfirgripsmiklar rannsóknir að ræða, sem munu kosta mikið fé. Það er að sjálfsögðu hin þýðingarmesta nauðsyn, að þeim rannsóknum sé haldið áfram, og hjá því verður ekki heldur komizt vegna þeirra brýnu þarfa, sem eru á aukinni raforku hér á stærsta orkuveitusvæði landsins. Þessi rannsókn er mjög kostnaðarsöm og er talin munu kosta um 40 millj, kr. Athugun á Jökulsá á Fjöllum er miklum mun ódýrari, og það ætti ekki að vera mjög kostnaðarsamt að ljúka rannsóknum á henni. Og það ætti af þeim sökum ekki á nokkurn hátt að þurfa að spilla fyrir því, að sú rannsókn, sem þarf að fara fram hér á vatnasvæðum Þjórsár og Hvítár, gæti gengið með fullum hraða, svo sem nauðsynlegt er, enda þótt nú yrði undinn að því bráður bugur að ljúka fullnaðarathugun á Jökulsá á Fjöllum. Þessi mál horfa einnig þannig við, að enda þótt hægt sé að uppfylla það skilyrði, að nægilegt fjármagn sé fyrir hendi, þá munu líða allmörg ár, þangað til fengin verður niðurstaða varðandi vatnasvæðið hér sunnanlands, og það er ljóst, að þörfin fyrir raforkuna hér er svo mikil og fjölþætt og svo mörg atriði, sem koma til greina við notkun hennar, sem mundu ekki koma til greina varðandi notkun Jökulsár, að það er síður en svo að óttast það, að enda þótt lögð yrði áherzla á virkjun Jökulsár með þann tilgang í huga, sem hér er um rætt í till., þá mundi það á nokkurn hátt verða til þess að minnka líkurnar fyrir því, að hér yrði fullkomlega hagnýtt sú raforka, sem hægt væri að beizla á vatnasvæðum Hvítár og Þjórsár, þegar þar að kemur. Það liggur hins vegar ljóst fyrir, að ef á nú að hefjast handa í náinni framtíð um að koma upp stóriðju í sambandi við vatnsorkuver hér, þá er Jökulsá eini möguleikinn, vegna þess að rannsókn hennar er það langt komin. Það er jafnframt ljóst, að virkjun Jökulsár verður ekki framkvæmd, a.m.k. ekki í náinni framtíð, nema beinlínis í sambandi við stóriðju, og því hlýtur það að verða undir því komið, hvort um slíka stóriðju er að ræða, hvort yfirleitt verður á næstu árum ráðizt í virkjun Jökulsár.

Ég skal ekki ræða sérstaklega það mál. það er mikið mál út af fyrir sig, hversu langt á að ganga í því að setja hér upp stóriðju. En það mun samt flestra skoðun, að það hljóti að verða veigamikið atriði í framfarasókn þjóðarinnar á næstu árum að hagnýta vatnsaflið til þess að koma upp nýjum stóriðjufyrirtækjum, og þá yrðu þau fyrirtæki vafalaust í miklu stærri stíl en áður hefur þekkzt hérlendis. Þau fyrirtæki. sem kæmu til greina í sambandi við virkjun Jökulsár, mundu kosta jafnvel þúsundir milljóna króna, þannig að svo sem vikið er að í tillgr. er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera sér um leið fulla grein fyrir því, hvernig hægt væri að afla fjár til slíkrar stóriðju. Þetta er því eðlilegt að tengja saman, svo sem í till. er gert, og það er skoðun fjvn. einróma, að málið allt sé svo mikilvægt fyrir þjóðfélagið, að það sé nauðsynlegt að halda þessum athugunum áfram af fullum krafti, og jafnframt, þar sem þegar liggja fyrir nokkrar niðurstöður, sem mega teljast nokkurn veginn óyggjandi um það, hvert mundi verða raforkuverð frá þessu orkuveri, þá verði einnig sem allra skjótast hafin athugun á því, hvaða framleiðsla hér kæmi til greina, og á þeim úrræðum, sem yrðu þá til þess að koma slíkum fyrirtækjum upp.

Ég skal, herra forseti, svo ekki orðlengja um þetta frekar, enda þótt margt væri um þetta mál hægt að segja, en leyfi mér að vænta þess, að hv. alþm. séu fjvn. sammála um Það, að æskilegt sé, að að þessu máli verði unnið af fullum krafti.