19.12.1960
Efri deild: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

125. mál, veð

Fram (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv. til l. um breyt. á veðlögum, sem hér liggur fyrir.

Með l. nr. 34 frá 1927 var sú breyt. gerð á veðlögunum frá 1887, að útgerðarmanni var heimilað að setja banka eða sparisjóði að sjálfsvörzluveði afla frá skipi sínu á einu útgerðartímabili í senn til tryggingar lánum, er hann tekur til útgerðarinnar hjá þessum stofnunum.

Með þessu frv., sem hér er til umr., er þessi heimild frá 1927 gerð miklu fyllri og víðtækari. Í 1. mgr. 1. gr. þessa frv. segir, að útgerðarmanni, framleiðanda sjávarafurða og landbúnaðarafurða og öðrum, sem vörur þessar hefur til sölumeðferðar, sé heimilt að setja banka eða sparisjóði að sjálfsvörzluveði o.s.frv., en þar með eru í stað útgerðarmanns áður komnir framleiðendur sjávarafurða og landbúnaðarafurða og aðrir, sem hafa þessar vörur til sölumeðferðar. Þá er enn fremur eldri heimild um, að það sé eingöngu leyfilegt að setja þetta veð yfir eitt útgerðartímabil í senn, breytt þannig í þessu lagafrv., að það sé heimilt allt að heilu ári í senn. Og þá er einnig hér í þessu lagafrv. tekið fram, að veðsetningin nái til afla og afurða án tillits til verkunaraðferðar eða framleiðslustyrks. Enn fremur er tekið fram nýtt atriði um, að veðrétturinn nái einnig til hvers konar verðbóta og gjaldeyrisfríðinda.

Í 2. mgr. 1. gr. þessa frv. er nýtt ákvæði til þess að tryggja rétt banka og lánsstofnana, ef svo kynni að fara, að veðsali léti hinar veðsettu vörur af hendi án þess að ganga frá greiðslu á þeim. Hér segir, að hafi eigandi veðsett afla eða afurðir eða afhent öðrum hinar veðsettu vörur, þá öðlast veðhafinn veðrétt, sams konar og hann átti í aflanum eða afurðunum, í kröfu fyrri eiganda á hendur þeim, sem við hinum veðsettu afurðum tók, um endurgjald af hans hálfu fyrir afla eða afurðir, sem af hendi voru látnar. Sá, sem við aflanum eða afurðunum tók, bakar sér gagnvart veðhafa ábyrgð á kröfu þessari, hafi hann greitt hana veðsala, áður en veðrétturinn í henni var niður fallinn. Hér hefur sem sagt verið sett inn ný regla og ekki að tilefnislausu, þar sem það mun oft hafa skeð, að þeir, sem hafa tekið sér fé að láni út á afla eða afurðir, hafa látið afurðirnar af hendi án þess að ganga frá greiðslu, og hafa þannig stofnað rétti veðhafans í hættu.

Þá er í 3. mgr. 1. gr. þessa frv. ákveðið, að fjmrn. sé heimilað að lækka þinglestrar- og stimpilgjöld af veðbréfum fyrir þessum lánum. Þetta er endurtekning á fyrra ákvæði, en þó að því leyti breytt, að þessi heimild náði áður aðeins til þinglestrargjalda, en hér er stimpilgjöldum bætt við, enda eru stimpilgjöldin yfirleitt hærri en þinglestrargjöldin og ekki síður ástæða að veita heimild til lækkunar á þeim.

Þá er enn fremur í 4. mgr. 1. gr. sett. inn nýtt ákvæði um, að víxlar til framlengingar á afurðavíxlum, sem Seðlabankinn endurkaupir, skuli undanþegnir stimpilgjaldi.

2. gr. frv. er endurtekning á eldri reglum úr veðlögum.

Það ætti að vera ljóst, að með því að lögfesta þetta frv. er réttur banka og lánsstofnana tryggður mun betur en áður. En þó að þetta frv. kunni kannske við fyrstu sýn að vera fyrst og fremst byggt á hagsmunum lánveitenda, þá er það auðvitað ljóst mál líka, að þeim mun víðtækari tryggingareglur og víðtækari veðheimildir sem veittar eru, þeim mun betri aðstaða skapast fyrir útvegsmenn og framleiðendur sjávarafurða og landbúnaðarafurða að skapa sér möguleika til að fá lán, og þess vegna er þetta frv. einnig til hagsbóta fyrir þá aðila.

Fjhn. hefur athugað þetta frv., og hún leggur einróma til, að það verði samþykkt.