15.02.1961
Sameinað þing: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (2480)

110. mál, vitar og leiðarmerki

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Till. þessi á þskj. 125 fjallar um það að endurskoða löggjöf um leiðarmerki og vitamál og ákveða stefnuna í þeim málum á næstunni.

Eins og vikið er að í grg., hafa orðið mjög miklar tæknilegar framfarir á búnaði skipa, á undanförnum árum. Þessar framfarir valda því, að nauðsyn og gagnsemi venjulegra vita, eins og þeir hafa verið byggðir til skamms tíma, er allt önnur en áður var. Þá þekktu menn ekki annað ráð til þess að ná til skipa undan landi og leiðbeina þeim en ljós, hvít, rauð eða græn, og hljóðmerki, ef dimmviðri var, svo að ljós sáust ekki nema skamman veg. Nú er hægt að ná til skipa um óravegu með tiltölulega einföldum sendi- og móttökutækjum. Það er hægt að ákveða með mikilli nákvæmni stefnu frá skipi til tiltekinnar stöðvar á landi og það er unnt að setja upp stöðvar í landi, svo að áhöfn skips eða flugvélar geti vitað, hvar skipið eða vélin er stödd, svo að ekki skeiki nema nokkur hundruð metrum, þó að dimmt sé og hvorki sjáist til lands né stjarna. Þá geta skip og flugvélar beinlínis séð land, ef þau eru búin ratsjá. þó að ekkert sjáist með venjulegum hætti. Einnig er hægt að sjá skip eða flugvél í ratsjárstöð í landi, þótt það sé í allmikilli fjarlægð, og þá um leið leiðbeina skipi til lands eða flugvél til lendingar frá ratsjárstöð á landi, þótt dimmviðri sé. Einnig er tiltölulega ódýrt að setja upp í landi eða á eyjum eða skerjum svokölluð ratsjármerki til að auðvelda áhöfnum skipa, sem búin eru ratsjám, að átta sig og vita, hvar þau eru stödd. Eitt slíkt merki var nýlega sett upp á Hvalbak fyrir Austurlandi, og mér er sagt, að það hafi gefið góða raun. Það mun að vísu hafa spillzt í óveðri nú í vetur, en mér er tjáð, að sett verði upp þar nýtt og öflugra merki. strax og tækifæri verður til. Að setja upp slík merki er nauðsynlegt, vegna þess að Landslagi er sums staðar svo háttað, að erfitt er að átta sig á því frá skipum, sem búin eru ratsjá, það er t.d. láglendi og lítið um kennileiti. en úr því má bæta með því að setja upp slík merki sem þessi, sem ég nefndi. og það er tiltölulega ódýrt.

Um hin tækin, er ég áðan drap á, sem notuð eru til að gera, nákvæma staðarákvörðun, jafnvel um langan veg, er það að segja, að þar eru kunnust nokkur kerfi. Það eru t.d. svokallað lórankerfi, sem notað er einkum á löngum leiðum, og dekkakerfi, sem hentar betur, ef um skemmri veg er að ræða og nær landi. Það er nú þegar til ein lóranstöð hér á landi, á Reynisfjalli í Mýrdal, sem er liður í slíku kerfi. Dekka eða svipað kerfi er notað víða um heim, en enn ekki hér við land. Ég hygg þó, að brýna nauðsyn beri til að koma upp einhverju slíku kerfi hér, bæði til að auka öryggi sjófarenda og flugvéla við landið og einnig til að auðvelda nákvæma staðsetningu skipa í kringum landið vegna útfærslu landhelginnar. Ég held, að kunnáttumenn séu sammála um, að eins og veðurfari er háttað hér við land, þá sé þetta eina ráðið til, að yfirmenn skipanna geti jafnan vitað örugglega, hvar landhelgislínan er, og jafnframt mundi það að sjálfsögðu auðvelda starf landhelgisgæzlunnar að miklum mun.

Þótt ekki sé getið um það í till. okkar, þá hlyti sú athugun, sem till. fjallar um. að leiða til þess, að athugað yrði, á hvern hátt hagkvæmast væri að haga rekstri vitanna, miðað við þær aðstæður, sem nú eru, og þá m.a. það, hvort halda á áfram að byggja vita með líkum hætti og nú hafa verið byggðir undanfarið, eða taka upp annan hátt þar á.

Það vakna óhjákvæmilega spurningar í sambandi við þetta um rekstur vitanna og vitakerfisins, sem nú þegar hefur verið byggt, eins og t.d. það, hvort hagkvæmt sé eða nauðsynlegt að hafa sérstakt vitaskip. Ég hygg, að það geti komið fyrir, að vitaskip sé sent með tiltölulega lítið vörumagn á stað, sem strandferðaskip eða flóabátur, eitthvert af björgunar- eða. varðskipum ríkisins eða jafnvel bifreið hefði getað flutt þangað án verulegs kostnaðar.

En rekstur vitaskips hlýtur óhjákvæmilega að kosta mjög, mikið fé árlega. Það hefur verið í undirbúningi nú að byggja nýtt vitaskip fyrir vitaþjónustuna, sem vafalaust kostar ekki undir 10–15 millj., og rekstur slíks skips mundi eftir þeirri reynslu, sem við höfum fengið bæði hjá Skipaútgerðinni og varðskipum ríkisins, varla kosta undir 1/2 millj. á mánuði í beinan rekstrarkostnað, en allur kostnaður sjálfsagt vera einhvers staðar á annarri milljóninni á mánuði, svo að það er ekki svo litið, sem mætti spara, ef það kæmi í ljós, að unnt væri að vera án sérstaks vitaskips. Það, sem gerir vitaskipið mjög dýrt í rekstri, er, að það kemur stundum fyrir, að vitaskipið þarf stundum að bíða, jafnvel dögum saman, eftir að veður leyfi, að það geti losnað við vörur til vitanna, þótt flóabátur, sem styrktur er af ríkisfé, geti gripið tækifærið, þegar veður leyfði, og flutt vöruna., án þess að það kostaði sérstakan biðtíma, og að skipið hefur ekki næg verkefni nema skamman tíma á ári hverju.

Ég skal að svo stöddu ekki fjölyrða um þetta mikilsverða mál. en leyfi mér að leggja til að umr. um það verði frestað og því visað til hv. allshn.