15.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í D-deild Alþingistíðinda. (2494)

137. mál, endurskoðun á lögum um vegi

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt sex öðrum hv. þm. að flytja hér þáltill. um endurskoðun laga um þjóðvegi á þskj. 203. Þáltill. svipaðs efnis var flutt hér á Alþingi í fyrra af mér og nokkrum fleiri þm., en náði þá ekki að verða útrædd.

Það er hv. alþm. vafalaust mjög vel kunnugt, að á undanförnum þingum hafa komið fram margar brtt. við lög um þjóðvegi, er flestar ganga í þá átt að lengja þjóðvegakerfið eða bæta við það frá því, sem verið hefur og er. Nú þegar málið hefur verið athugað og leitað hefur verið umsagnar vegamálastjóra, þá hefur hann talið, að þýðingarlítið væri að bæta við þjóðvegina, nema því aðeins að meiri fjárframlög væru fyrir hendi hverju sinni til þess að vinna fyrir, vegna þess, hvað enn væri mikið ógert af þeim vegum, sem þegar hafa verið samþykktir. Og það er sjálfsagt, að í þessari röksemdafærslu er mikill sannleikur og eins og á stendur sennilega rétt að taka álit hans til greina, enda hefur ekki þótt fært að verða við þessum óskum. sem fram hafa komið um aukningu á Þjóðvegakerfinu. Hins vegar er það öllum landslýð ljóst, að vegaþörf er geysilega mikil um allt land, og má segja, að það sé bæði þar, sem þéttbýli er og strjálbýli. Þó mun það víst, að vegaleysið er langtilfinnanlegast í strjálbýlinu víða hvar og það svo tilfinnanlegt, að það er ekki hægt að telja, að sum byggðarlög geti risið undir því öllu lengur, að ekki verði verulega bætt þar úr skák. Einnig þarf að endurbyggja marga eldri vegi. sem þegar eru orðnir úreltir vegna þess, hvað þeir hafa verið gerðir ófullkomnir í upphafi, sérstaklega þar, sem snjóar eru miklir, en vegaþörf á vetrum fer vaxandi. Það er líka talað um, að þurfi að steinsteypa eða endurbyggja á varanlegan hátt marga vegi, þar sem umferðin er mest. Sem sagt, hvar sem litið er, þá er vegaþörf mjög brýn, endurbygging og umbætur á vegum. Um þetta hygg ég, að ekki sé neinn ágreiningur í sjálfu sér. En það er skoðun mín, að það sé óumflýjanlegt að bæta við fjárframlög til vega á næstunni verulega frá því, sem verið hefur nú um langt skeið.

Ákvæði vegalaga eru frá ýmsum tímum og allmikið dreifð, og er þess vegna mikil ástæða til að endurskoða þau og færa saman í eina heild, þótt ekki væri annað. Í öðru lagi tel ég og við flm., að við endurskoðun þá, sem við leggjum til að fram fari á lögum um þessi mál, verði leitazt við að finna eða skapa eða fá vegunum fasta tekjustofna. svo að fjárframlög til þeirra geti aukizt verulega og vegagerðin fái um leið mun meiri fjárframlög árlega en hún hefur nú.

Ég ræddi nokkuð um þessi mál hér við flutning þeirrar till., sem ég nefndi áðan og var flutt hér á Alþingi í fyrra. og sé ekki ástæðu til að flytja hér langa ræðu um þetta mál. Það er augljóst öllum mönnum, að vegir, sæmilegir vegir, eins og nú er komið háttum manna, eru undirstaða þess, að menn geti haldizt við á þeim stöðum, þar sem þeir búa. Veglaus maður á veglausu heimili getur ekki lengur, eins og nú háttar samgöngum og viðskiptum manna á meðal, staðizt. Úr þessu er alveg óumflýjanlegt að bæta eins fljótt og verða má, og við höfum litið svo á, flm. þessarar tillögu, að fyrsta spor í þessa átt sé að endurskoða öll ákvæði um vegi, í fyrsta lagi með það fyrir augum að leiðrétta það misræmi, sem óneitanlega er milli ýmissa byggðarlaga um aðstöðu til vega, og í öðru lagi að finna leiðir til þess að auka fjárframlög og auka átök í þessu efni ð næstu árum til hagsbóta fyrir allan landslýð, því að það er sannleikur, að allur landslýður þarf á vegum að halda, hvar sem hann er búsettur, og meira að segja, það er hægt að rökstyðja það, að þéttbýlið þarf einnig á vegum að halda út um strjálbýlið, og þar mætast því hagsmunir beggja.

Ég vænti þess, að hv. Alþingi taki þessari till. vel, og sér í lagi vænti ég þess, að hæstv. ríkisstjórn taki þessari till. vel og láti þá endurskoðun, sem hér er fram á farið að gerð verði, fram fara fyrir þann tíma, sem til er skilið í till., þ.e.a.s. áður en næsta Alþingi kemur saman, svo að fyrir geti þar legið einhverjar raunhæfar tillögur í þessu vandasama máli til verulegra úrbóta eftirleiðis, þar sem vegaástandið í landinu er verst, og einnig náttúrlega þar, sem það er eitthvað betra, en segja má, að alls staðar sé þar mikilla umbóta þörf.

Ég legg svo til, að umræðu verði frestað og þessu máli skotið til hv. fjvn.