22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (2498)

137. mál, endurskoðun á lögum um vegi

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 510, nál. frá fjvn., stendur fjvn. öll að þeirri till., sem hv. form. hennar hefur gert hér grein fyrir. Þó er aðild okkar fulltrúa Framsfl. og Alþb. með þeim hætti, að við lögðum til í n., að kosin yrði mþn. til þess að gera þá athugun, er hér er lagt til að gera. Við höfum því á sérstöku þskj. borið fram brtt., sem gengur í þá átt. Vil ég segja. það, að við teljum eðlilegt, að sá háttur verði á hafður, að það verði Alþingi sjálft, sem velur sér fulltrúa til þess að gera þá heildarendurskoðun, sem hér á að fara að gera, — miklu eðlilegra en að ríkisstj. velji þá. En þrátt fyrir það, þó að nefndin yrði ekki sammála um, að slík framkvæmd yrði viðhöfð, þá skar það ekki úr um fylgi okkar við meginmálið.

Í sambandi við þetta mál vil ég geta. þess, að snemma á þessu þingi. eða hinn 25. okt. s.l., lögðum við nokkrir þm. Framsfl. fram frv. til laga um vega- og brúasjóð. Þegar ég gerði grein fyrir þessu máli við 1. umr. þess, benti ég m.a. á nokkur verkefni, sem ég vil nú minna á á nýjan leik í sambandi við afgreiðslu málsins í dag.

Í fyrsta lagi benti ég á það, að 357 bæir væru enn án vegasambands eða hefðu verið það í lok ársins 1958, en það var það ár, er ég hafði skýrslur um. Þessum bæjum yrði að koma í vegasamband, því að óhugsandi væri nú á tímum hraðans, að fólk gæti búið án þess að eiga aðgang að vegum.

Í öðru lagi benti ég á það, að um helmingur af þjóðvegum landsins, eins og þeir eru nú, væru lagðir vegir, hitt væru ýmist óruddir vegir eða ruddir. Nokkrir af þeim vegum, sem eru í þjóðvegatölu, eru algerlega ófærir enn þá.

Í þriðja lagi benti ég á það, að nauðsyn bæri til að endurbyggja vegakerfið, þar sem fyrst og fremst á því svæði. þar sem umferðin er mest, voru vegirnir fyrst gerðir og þeir vegir voru gerðir á þann frumstæða hátt, að þeir þjóna nú ekki lengur þeirri umferð, sem um þá þarf að fara. Í stórum landshlutum, svo sem á Suðvesturlandi, eru ruddir vegir á aðalvegi. eins og t.d. í Hvalfirði, og sjá allir, að þetta getur ekki staðið lengi.

Í fjórða lagi bentum við á, að nauðsyn bæri til að stefna meira að því en verið hefur að gera vegi úr varanlegu efni. Það hefur sýnt sig, að það eru orðnir þeir kaflar í vegum okkar, þar sem umferðin er svo mikil, að það er óhugsandi að halda þeim við sem malarvegum. Enn fremur hefur komið í ljós, að við höfum ekki tök á því að halda þeim við sem slíkum, vegna þess að ofaníburð skortir. Einnig er þetta svo mikið slit á farartækjunum, sem um vegina fara, að það er orðið mikið fjárhagsatriði, sem við verðum að taka tillit til, þegar farartækin eru orðin jafndýr og nú er orðið. kosta svo að hundruðum þúsunda skiptir og jafnvel upp í milljón króna.

Í fimmta lagi benti ég á það, að við hefðum hér, framsóknarmenn, flutt till. til þál. á þinginu í fyrra um aðstoð við kaupstaði og kauptún til gatnagerðar, og .hefur sú tillaga verið endurflutt nú á þessu þingi. Það væri líka verkefni framtíðarinnar, að ríkið aðstoðaði við þessa gatnagerð í kaupstöðunum og þorpunum, ef vel ætti að vera og það ætti einhverjum árangri að ná í varanlegri gatnagerð.

Þessi verkefni eru svo veigamikil og svo mikils virði fyrir okkar þjóðfélag, að við getum ekki horft á það, að þau verði óleyst. Ég benti einnig á í því sambandi, að nauðsyn bæri til að sinna þessum málum betur en gert hefur verið nú allra síðustu árin. Á um 20 ára tímabili hefur því verið þannig varið, að 10–12% af fjárlögum eða heildarútgjöldum fjárlaga hefur verið varið til samgöngubóta á landi. 1940 voru það rétt 10%, 1950 voru það 10.4%, en 1960 er aðeins gert ráð fyrir, að 6.9% af heildarútgjöldum fjárlaga fari til framkvæmda í samgöngubótum. Þessi þróun er í alla staði óæskileg, og við getum ekki við slíkt unað. Ekki sízt er hún fráleit, þegar á það er litið, að á þessum árum, sem ég vitnaði til, eins og 1940 og 1950, hafði ríkissjóður mun minni tekjur af umferðinni en til hennar var lagt. En á síðustu árum hefur þetta breytzt allverulega, því að á árinu 1959 var 87.3 millj. kr. varið til samgöngubóta á landi, en þá var talið, að tekjur ríkissjóðs af umferðinni. benzínskattur, þungaskattur, innflutningsgjald af bifreiðum og varahlutum þeirra og allar tekjur, sem að bifreiðum og notkun þeirra lytu, væru um 270 millj. kr. Þess vegna hlýtur það að verða takmark okkar nú að breyta þessari þróun þannig, að það verði umferðin sjálf, sem beri uppi kostnaðinn við vega- og gatnagerðina.

Frv. okkar stefndi einmitt í þá átt, að farið yrði inn á þá braut að ákveða vissa tekjustofna, sem gengju til þess að byggja vegina upp með.

Hér kom fram síðar á þessu þingi till. til þál. um endurskoðun á lögum um þjóðvegi, sem vegamálastjóra var send til umsagnar. Frv. okkar, sem ég hef hér getið, var til umsagnar hjá vegamálastjóra um svipað leyti. Hann hefur nú gert tillögu til fjvn. um þessi mál öll í heild, að endurskoðun á lögum um þjóðvegi og alla aðra opinbera vegi verði gerð og jafnframt verði þá stefnt að því að ákveða vegunum ákveðna tekjustofna.

Þegar ég mælti fyrir frv. okkar í vetur, sagði ég það sem lokaorð í minni ræðu, að ég væri sannfærður um það, að þó að hv. Alþ. að þessu sinni afgreiddi ekki þetta frv. á jákvæðan hátt, og miðaði ég við þá staðreynd, sem við í stjórnarandstöðu verðum að sætta okkur við, að lítið er gert að því að afgreiða mál okkar á jákvæðan hátt og það án tillits til þess, hversu góð þau eru, þá væri ég þrátt fyrir það sannfærður um, að þetta mál næði fram að ganga fyrr en seinna, og því fyrr, því betra. Nú þykist ég sjá það, að sú trú mín hefur nokkuð náð að rætast, þar sem ég þykist vera fullviss um það, að Alþ. muni nú afgreiða þessa tillögu, sem vegamálastjóri hefur gert um endurskoðun á opinberum vegum, svo og um tekjustofna til þeirra. Ég geri mér von um, að sú endurskoðun muni leiða til þess, að vegunum verði ákveðnir tekjustofnar, til Þess að endurbygging þeirra fari fram og áframhald verði á gerð þeirra og svo á varanlegum vegum. — að þetta geti allt átt sér stað með meiri hraða en verið hefur og stefni ekki í þá átt, sem hefur gert nú síðustu árin, að fjárveitingum hefur raunverulega verið breytt. Þess vegna er fylgi okkar við þessa tillögu það, að við þykjumst sjá, að hér sé þó þá beztu lausn að fá á því máli okkar, að að þessu verði stefnt. Það er von okkar, að hv. Alþ. geti fallizt á það, að kosin verði nefnd hér á þinginu í málið, en þrátt fyrir það, þó að svo færi, að það verði ekki gert, þá mælum við með samþykkt till. og treystum því, að með henni náist sá árangur, sem við stefndum að með frumvarpi okkar í haust.