22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (2499)

137. mál, endurskoðun á lögum um vegi

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég ásamt nokkrum öðrum hv. þm. till. til þál. um það, að fram færi endurskoðun á lögum um þjóðvegi, brúalögum og sýsluvegum. Þessi till. náði ekki fram að ganga þá, þ.e.a.s. hún varð ekki útrædd vegna þess, hve seint hún var á ferðinni í þinginu. Nú höfum við sömu menn og nokkrir fleiri endurflutt þessa till., breytta að orðalagi að vísu, þannig að aðeins er tekið fram, að endurskoða skuli lög um þjóðvegi. En í grg. er hins vegar vikið að því, að það hljóti að leiða af sjálfu sér, að endurskoða þurfi fleiri lög um vegi en þjóðvegina, ef lög um þá eru á annað borð endurskoðuð. Ég vil fyrir hönd okkar, þessara flm., þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu á þessu máli, og við erum að sjálfsögðu alveg ásáttir um það, að till. sé færð nokkuð út frá því, sem við gengum frá henni, og er það í raun og veru ekki nema til umbóta á till. Ég hafði hugsað mér fyrr í vetur að flytja brtt. við sýsluvegalög á þessu þingi, en þar sem ég vissi til þess fyrir alllöngu, að fjvn. mundi afgreiða þessa till. á þann hátt, sem hún hér gerir, að leggja til, að fram skuli fara endurskoðun á öllum opinberum vegum, þá taldi ég ekki ástæðu til að flytja það frv., vegna þess að það kemur þá að sjálfsögðu undir þessa endurskoðun. — Ég vil svo vænta þess, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþykkja þessa till., því að ég tel, að þar sé áreiðanlega aðkallandi mál á ferðum.