22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (2501)

137. mál, endurskoðun á lögum um vegi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hér er um stórmál að ræða, eins og sagt hefur verið, og hef ég hlustað á umræður manna. Ekki er að efast um það, að sumt af því, sem fram hefur komið, mætti telja til gagns. En aðalatriðið er það, sem till. fer fram á, að nú verði gerð gagngerð athugun á því, hvernig megi bæta úr okkar samgöngumálum, vegamálum.

Það er rétt, sem hv. tveir þm. úr stjórnarandstöðunni hafa sagt, að þessi mal þurfa að ganga með meiri hraða en verið hefur. En þó held ég, að ekki sé rétt að vanþakka það, sem gert hefur verið og áunnizt hefur á undanförnum árum, vegna þess að það má segja, að þjóðin, sem býr í svo miklu strjálbýli sem við gerum, hafi með undraverðum hætti lagt nothæfa vegi um þetta stóra land.

Ég tel, að með þessari tillögu sé stigið nýtt spor, sem geti markað tímamót í okkar vegamálum, og nauðsynlegt er og sjálfsagt, að þeir menn, sem valdir verða í þá nefnd, sem þessa athugun á að gera, verði starfi sínu vaxnir og leysi verkið þannig af hendi, að það megi verða raunhæft, styðjast við staðreyndir.

Hv. síðasti ræðumaður minntist hér á Keflavíkurveginn, nauðsynina á því að gera vegina, sem fjölfarnastir eru, úr varanlegu efni. Jú, þetta hefur oft verið sagt áður. En enginn hefur látið sér detta Það í hug. þótt ríkisstj. hafi ákveðið það á s.l. hausti að byrja á því að leggja nýjan Keflavíkurveg, sem skyldi verða með slitlagi. að þessi vegagerð gæti komizt langt á þeim fáu mánuðum, síðan ákvörðun var tekin, og enn færri mánuðum, síðan byrjað var á þessu verki. Mér fannst gegna annaðhvort misskilnings eða ótuktarskapar í því, sem þarna var sagt, sérstaklega í garð vegamálastjóra, því að lýsingin á vinnubrögðunum var alls ekki þannig, að sæmandi væri fyrir vegagerð ríkisins að fara þannig að, ef rétt reyndist. Vegagerð ríkisins vantar vitanlega margs konar vegavinnuvélar, og steypugerðarvélar til vegagerðar á hún vitanlega ekki enn þá. En vegagerðin á vélar til þess að ýta upp grjóthrygg, eins og hv. ræðumaður orðaði það, sem ekki verður komizt hjá að gera, áður en slitlagið verður steypt, það efast ég ekki um, að hv. ræðumaður hefur gert sér ljóst, þar sem hann er verkfræðingur. En einmitt vegna þess að hann er verkfræðilega menntaður, ætti hann að vanda sitt mál nokkuð betur en hann gerði áðan, þegar hann talar um verklega framkvæmd eins og hér er um að ræða. Enn hafa ekki verið útvegaðar nema 10 millj. kr. til Keflavíkurvegar, og ég held, að vegamálastjóri hafi fullan áhuga á því að standa þannig að þessari framkvæmd, að sem bezt not og sem mest fáist fyrir það fé, sem til vegarins er varið. Það var ákveðið að vinna nokkuð að því í vetur að ýta upp undirstöðum undir veginn. Hvort það verður einnig gert í sumar eða eftir því sem fjárhagurinn leyfir notað það fé til þess að steypa ofan á það, sem ýtt hefur verið upp í vetur, það skal ég ekkert fullyrða um, en ég hygg þó, að það verði haldið áfram að ýta upp og leggja undirstöðuna að steypta veginum. Ég hygg, að vegamálastjóri hafi haldið þannig á þessum málum, frá því að byrjað var á því að ýta þarna upp, að það sé ekki ásökunarefni. Keflavíkurvegurinn, þegar hann er kominn, verður mjög dýr, kostar marga tugi milljóna króna, og verður vitanlega til þess að vanda.

Vegagerðina vantar enn ýmiss konar nauðsynlegar vélar, sem þarf að hafa, þegar farið verður að leggja vegi úr varanlegu efni. En ég get upplýst hér, að það er líka til athugunar í ríkisstjórninni og hjá vegamálastjóra um öflun þessara nauðsynlegu tækja, og hér er um merkileg þáttaskil að ræða, hvað þetta snertir, að nú hefur verið tekin ákvörðun um að byggja einn fjölfarnasta veg, Keflavíkurveginn, úr varanlegu efni, og vegamálastjóri hefur látið fara fram athugun á því, hvaða vegir það eru, sem nauðsyn ber til að gera úr varanlegu efni vegna umferðarinnar, þar sem upplýst er, að þegar umferðin er komin að vissu marki, þá er varla mögulegt að halda vegunum við, ef þeir eru eingöngu gerðir úr möl og sandi. Þetta er ljóst, og ég hygg, að allir hv. alþm. séu sammála um, að það sé nauðsynlegt að hefjast handa með meiri festu og meiri hraða en áður, enda þótt flest hafi verið vel gert áður, það þurfi að afla mikilla fjárupphæða í þessu skyni, og till. sú, sem hér um ræðir og verður samþ., megi leiða til þess, að það verði nú gerð heildarathugun á þessu máli og sú athugun leiði nú í ljós, að okkur verði fært að hefjast handa á nýjum grundveili í vegagerð hér á landi.