22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (2511)

132. mál, rannsókn á magni smásíldar

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Fjvn. leitaði umsagnar Fiskifélagsins um till. og fiskideildar atvinnudeildar háskólans. Mæla báðir þessir aðilar með samþykkt hennar. Þar sem báðar umsagnirnar eru mjög stuttar, vil ég lesa þær, með leyfi hæstv. forseta.

Það er álit Fiskifélags Íslands:

„Við höfum haft til athugunar bréf hv. fjvn., dags. 2. f.m., þar sem óskað er umsagnar um till. til þál. um rannsókn á magni smásíldar hér við land. Teljum við mikilvægt, að athuganir þær, sem till. gerir ráð fyrir, verði framkvæmdar, þar sem hér er um að ræða þýðingarmikið atriði, bæði að því er snertir síldveiðarnar og hagnýtingu smásíldarinnar.“

Undirritað af Davíð Ólafssyni.

Umsögn fiskideildarinnar:

„Fiskideildin hefur mótttekið bréf fjvn., dags. 2. febr. s.l., varðandi þáltill. um rannsókn á magni smásíldar hér við land. Ekki er vafamál, að hér er um þýðingarmiklar undirstöðurannsóknir að ræða. Má telja mjög hæpið að leggja út í stórfellda nýtingu smásíldar, án þess að könnuð sé til hlítar stærð smásíldarstofnsins, dánartala hans og hugsanleg áhrif þessara veiða á stórsíldarstofninn. Teljum því umrædda þáltill. hina æskilegustu. Er eðlilegt, að rannsóknir á smásíldinni komi sem hluti af hinni kerfisbundnu rannsókn fiskideildarinnar, og verður þessum rannsóknum bezt sinnt með aukningu á rannsóknarfé stofnunarinnar, svo og auknum mannafla. Nú sem stendur er aðeins einn sérfræðingur í síldarrannsóknum hérlendis. Er nauðsynlegt að bæta við a.m.k. einum sérfræðingi við rannsóknir þessar, og mun maður þá vera tiltækilegur innan tveggja ára.“

Undirritað af Jóni Jónssyni.

Fjvn. hefur orðið sammála um að mæla með því, að tillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.