02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (2515)

51. mál, skaðabótaábyrgð ríkis og sveitarfélaga

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Með till. þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 53, er lagt til, að Alþ. skori á ríkisstj. að láta undirbúa heildarlöggjöf um skaðabótaábyrgð ríkis og sveitarfélaga.

Í íslenzkum lögum eru til ýmis einstök lagaákvæði um skaðabótaábyrgð af hálfu hins opinbera, t.d. ákvæði um bætur fyrir gæzluvarðhald að ósekju, og ýmis önnur atriði slíks efnis er að finna í sérlögum. Hins vegar er það svo, að varðandi þessa bótaábyrgð hefur í meginefnum verið stuðzt bæði hér á landi og á öðrum Norðurlöndum við grundvallarreglur skaðabótaréttarins. og hefur myndazt í þessu efni ýmiss konar dómspraksís, sem stuðzt hefur verið við. Heildarlöggjöf um þetta mál hefur hins vegar skort, og með vaxandi afskiptum hins opinbera af margvíslegum málum í þjóðfélaginu verður meiri þörf á því, að til sé einhver slík löggjöf.

Það, sem hér er fyrst og fremst átt við með löggjöf um skaðabótaábyrgð ríkis og sveitarfélaga. er, að ákveðið verði, að hve miklu leyti ríkið skuli vera bótaskylt og sveitarfélög fyrir mistök opinberra starfsmanna í sambandi við þeirra störf, í þessu efni eru ýmis atriði, sem koma til greina, lögfræðilegs eðlis, sem ágreiningur hefur verið um, t.d. á Norðurlöndum, þar sem þetta mál hefur verið allmikið athugað, og hirði ég ekki að fara út í þau efni í einstökum atriðum, þar sem það er algerlega fræðilegs eðlis. Hins vegar er það viðurkennt af þeim, sem um þessi mál hafa fjallað í hinum Norðurlöndunum, að reglur um þetta efni er nauðsynlegt að setja, og hefur einkum verið ágreiningur um það, að hve miklu leyti skuli gera kröfu til þess, að þar sé um að ræða visvítandi mistök af hálfu hinna opinberu starfsmanna, eða hvort aðeins nægir að sanna, að þar hafi verið um gáleysisverk að ræða og að beint tjón hafi orðið af þessum sökum. Það eru einkum þessi atriði, sem enn er ekki orðið samkomulag um á hinum Norðurlöndunum í sambandi við slíka löggjöf.

En auk þess að setja reglur um það, hvenær bótaskylda sé fyrir hendi eða bótaréttur, þegar mistök verða hjá opinberum starfsmönnum í framkvæmd starfa þeirra, þá eru einnig ýmis önnur atriði. sem hér koma til greina og eru þess eðlis, að þau hafa mjög mikla fjárhagslega þýðingu að sjálfsögðu bæði fyrir einstaklingana og einnig hið opinbera, hvernig á er litið. Ég skal nefna aðeins sem dæmi atriði, sem hefur stundum borið á góma hérlendis, en það er, að hve miklu leyti t.d. vegamálastjórnin og þar af leiðandi ríkissjóður er ábyrgur fyrir því, að það séu skemmdir á þjóðvegum eða gallar í vegagerð, sem valdi þeim tjóni. sem um vegina fara.

Við þekkjum einnig dæmi, sem er nýlegt, um annað atriði, sem snertir skaðabótaskyldu ríkis og sveitarfélaga — í þessu tilfellí ríkisins. Menn muna gerla eftir gerðardómi, sem féll á s.l. ári út af því, að breytt hafði verið brúarstæði, sem ákveðið hafði verið í skipulagsuppdrætti. Um þetta féll dómur á þann veg, að það var talið, að ríkissjóði væri skylt að bæta það, sem þarna hefði gerzt. þessa breyt., sem gerð hafði verið. Hér er að sjálfsögðu um atriði að ræða, sem getur haft geysilega þýðingu og valdið ríkissjóði stórfelldri skaðabótaábyrgð, ef það er ekki gerð grein fyrir því, hverjar afleiðingarnar verða af slíkum breytingum. Vitanlega hefur þessi úrskurður verið felldur á grundvelli hins almenna skaðabótaréttar í þessu efni, og gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu, að hér væri um atriði að ræða, sem eðlilegt væri að viðkomandi aðila yrði bætt, þar sem hann hefði orðið fyrir tjóni vegna breytinga á þessari stjórnarathöfn.

Það var enn fremur umdeilt atriði annað mál, og vafalaust geta komið fyrir fleiri slík tilfelli, þegar um er að ræða breyt. á skipulagsuppdráttum í kaupstöðum. Að vísu hafa ekki risið mörg mál af slíkum sökum. Þó eru þess dæmi, og það er vel hægt að imynda sér, að slík bótakrafa kynni að koma fram og jafnvel af dómstólum vera talið eðlilegt, að einstaklingar kynnu að eiga skaðabótarétt, ef breytt væri áður staðfestum byggingarsamþykktum eða skipulagsuppdráttum, sem viðkomandi einstaklingur hefði byggt ákveðnar aðgerðir sínar á.

Það eru því margar hliðar á þessu máli. Ég skal ekki segja, að hve miklu leyti talið sé eðlilegt, að slík skaðabótalöggjöf nái til allra þessara atvika. Eins og ég áðan sagði, þá hefur verið fyrst og fremst á Norðurlöndunum talað um að setja reglur varðandi bætur í sambandi við mistök, sem verða af hálfu opinberra starfsmanna. En að sjálfsögðu koma einnig atriði sem þau, er ég áðan nefndi, til greina í þessu efni. Ég skal ekki heldur fella neinn dóm um það, að hve miklu leyti rétt er að veita slíkan skaðabótarétt eða ekki, það verður að sjálfsögðu að metast hverju sinni. En það er auðvitað nauðsynlegt, að bæði einstaklingarnir í þjóðfélaginu og einnig hið opinbera geri sér Þess fulla grein við hverja einstaka athöfn, hvaða þýðingu hún getur haft og hvaða dilk hún getur dregið á eftir sér í þessu efni.

Frumvörp um þetta mál, skaðabótaábyrgð ríkis og sveitarfélaga, hafa verið undirbúin á hinum Norðurlöndunum, og þetta mál hefur verið til meðferðar í Norðurlandaráði að undanförnu og verið athugað einnig í svokallaðri níu manna nefnd Norðurlandaráðs í löggjafarmálum. En niðurstaða er enn ekki fengin varðandi ýmis grundvallaratriði málsins, þó að frumvörp hafi verið um þetta samin í hinum Norðurlöndunum. Það sýnist vera fullkomlega tímabært, að Ísland undirbúi einnig að sínu leyti slíka löggjöf. Og þar sem margvíslegar rannsóknir og undirbúningsvinna hefur verið unnin í hinum Norðurlöndunum í þessu efni, þá er ekki að efa, að það muni vera auðvelt fyrir ríkisstj. að fá afnot af þeim athugunum, plöggum og skýrslum, sem um málið hafa verið gerðar þar. Það sýnist eðlilegt, miðað við það nána samstarf og aukin samskipti, sem eru á milli Norðurlandanna og hafa raunar lengi verið í löggjafarmálum, að slík löggjöf verði byggð á svipuðum grundvallaratriðum á öllum Norðurlöndunum, og því sé skynsamlegt, eins og gert er ráð fyrir í þessari till., að það verði höfð hliðsjón af þeirri löggjöf, sem þar hefur verið undirbúin og þar verður væntanlega sett um það efni. Það kann hins vegar vel að vera auðvitað, eins og í öllum slíkum greinum, að það geti verið einhverjar séraðstæður hér, sem þurfi að baka til greina, og þá verður það að sjálfsögðu að athugast, því að fyrst og fremst verður auðvitað að miða við íslenzkar aðstæður, þó að hliðsjón sé höfð af hinni norrænu löggjöf að öðru leyti.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. geti verið mér sammála um, að það sé eðlilegt, að löggjöf sem þessi verði undirbúin, og geti því fallizt á að samþykkja þá till., sem hér um ræðir. En ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að umr. verði frestað og till. verði vísað til hv. allshn.