22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í D-deild Alþingistíðinda. (2526)

66. mál, gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Eins og nál. hv. fjvn. á þskj. 536 ber með sér, leggur fjvn. til, að gerðar séu nokkrar breytingar á hinni upphaflegu till. Að dómi okkar flm. eru þessar breytingar ekki til bóta. Okkur sýnist, að með þeim sé heldur dregið úr þeirri áskorun, sem fólst í okkar till. En í hinni upphaflegu till. okkar fólst áskorun til ríkisstj. að láta rannsaka, hverjar ráðstafanir væri hægt að gera til þess að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar af ferðamannaþjónustu, svo og að gera viðeigandi ráðstafanir að rannsókn lokinni. En jafnframt var í till. okkar bent á alveg ákveðin atriði, sem sérstaklega þyrfti að rannsaka í þessu sambandi, eins og t.d. það, hvort hægt væri að bæta úr gistihúsaskorti þeim, sem hér hefur verið sumarmánuðina, með því að búa heimavistarskólana viðeigandi húsgögnum og nota þá sem gistihús yfir sumarið, og enn fremur það, hvernig stuðla mætti að því, að reist verði hér og starfrækt hressingar- og heilsuhæli við hverasvæðin. í hinni breyttu till., eins og hún liggur fyrir á þskj. 536, er ekki sérstaklega vikið að slíkum einstökum atriðum, heldur er gert ráð fyrir undirbúningi löggjafar um ferðamál almennt. En ég býst við því, að sum þessara atriða, sem bent er á í okkar till., verði út af fyrir sig ekki leyst með löggjöf eingöngu, eins og t.d. það, sem snýr að heimavistarskólunum. Ég ímynda mér, að þar þurfi ýmiss konar ráðstafanir aðrar til að koma og þá meðal annars samningar við forráðamenn þeirra skóla.

Samt sem áður getum við flm. þessarar till. eftir atvikum sætt okkur við hana í því formi, sem hún kemur frá hv. fjvn., og þá fyrst og fremst af því, að það er gert ráð fyrir því í tillgr., að við undirbúning þeirrar löggjafar, sem þar er gert ráð fyrir, verði tekið til alhliða athugunar, á hvern hátt sé af opinberri hálfu hægt að stuðla að auknum gjaldeyristekjum þjóðarinnar af ferðamannaþjónustu. Ég skil það svo og m.a. af framsöguræðu, sem hér var áðan flutt, að þegar þarna er talað um alhliða athugun, þá séu fyrst og fremst höfð í huga þau atriði, sem við flm. þessarar till. nefndum upphaflega, enda þótt þau séu ekki þar sérstaklega nefnd, og með tilliti til þess getum við flm. till. sætt okkur við þessa afgreiðslu hennar, enda var markmið þessarar till. fyrst og fremst það, eins og tekið er fram í grg. hennar, að reyna með henni að koma verulegri hreyfingu á þetta þýðingarmikla mál.