09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í D-deild Alþingistíðinda. (2530)

79. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, var flutt samhljóða á síðasta Alþingi, en í önnum þingsins náði hún ekki fullnaðarafgreiðslu. Þess vegna er hún hér flutt að nýju í von um það, að nú vinnist tími til þess að afgreiða hana frá þinginu. Ég mun ekki eyða mörgum orðum til að mæla fyrir henni nú. Ég gerði það í stuttu máli á siðasta þingi, og ég vænti þess, að flestir þeir hv. þm., sem þá voru viðstaddir, muni eftir því. Það urðu að vísu nokkrar frekari umr. um hana þá, en út í það skal ég ekki fara að þessu sinni.

Á það er bent í grg., að nokkrar athuganir muni hafa farið fram á hafnarskilyrðum við Héraðsflóann, og það er rétt að viðurkenna, að þau munu yfirleitt ekki vera sérlega hagstæð. En ég vil minna á það, að kannske má segja, að með hverju árinu sem líði breytist viðhorfið allmikið í þessum efnum vegna hinna öru tæknilegu framfara á öllum sviðum. Vegna þess tel ég fullkomlega réttmætt, að enn sé lagt til, að fram fari athugun á hafnarskilyrðum þarna eystra. Það er, eins og bent er á í grg., eitt af stærstu samfelldu byggðarlögum landsins, sem liggur inn af Héraðsflóanum, og mér þykir rétt, að það komi hér fram, sem menn að vísu skilja og vita að er eðlilegt að þeir, sem byggja þetta hérað, og sérstaklega þeir, sem búa á Úthéraði, hafa mikinn áhuga fyrir því, að þetta sé kannað eftir föngum. Þess vegna vænti ég, að þessi till. megi nú ná samþykki Alþingis. Vil ég svo að lokum aðeins leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn. til athugunar.