22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (2532)

79. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Fjvn. hefur leitað umsagnar vitamálastjóra um till., og mælir hann með samþykkt hennar. Umsögnin er stutt, og ég vil því leyfa mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér hafa borizt til umsagnar frá hv. fjárveitinganefnd tvær till. til þál., á þskj. 32 og 88, báðar þess efnis, að ríkisstj. sé falið að láta fara fram rannsókn á hafnarskilyrðum á tilteknum stöðum. Leyfi ég mér að mæla með því, að tillögur þessar verði samþykktar, þar sem mjög væri gott að fá nánari athuganir á hafnarstæðum á þessum svæðum, þótt þær lauslegu athuganir, sem þegar hafa verið gerðar, bendi ekki í þá átt, að hagkvæmt muni að leggja í hafnarbyggingar á stöðum þeim, sem um getur í tillögunum. Þar sem ekki kemur í ljós í nefndum tillögum eða grg., hvert gæti orðið hlutverk þessara hafna eða hversu mikil mannvirki eru nauðsynleg, teldi ég rétt, að rannsóknunum verði skipt í tvo þætti: frumrannsóknir, er leitt gætu í ljós þarfir fyrir hafnir á stöðum þeim, sem greindir eru, og líklegt flutningsmagn um þær, ásamt mjög lauslegri kostnaðaráætlun. Ætti af þeirri athugun að mega ráða nokkuð um fjárhagsgrundvöll mannvirkjanna og þá, hvort ástæða sé til að gera víðtækar tæknilegar athuganir, sem á öllum þessum stöðum mundu verða allumfangsmiklar og eru mjög, tímafrekar og nokkuð kostnaðarsamar. Kostnaður við slíkar rannsóknir yrði nokkur, sérstaklega ef frumathuganir benda til þess, að ástæða sé til frekari rannsókna. Er því nauðsynlegt að heimila ríkisstj. að verja nokkru fé til þeirra. Frumrannsóknum er hægt að ljúka á tiltölulega stuttum tíma, en lokarannsókn og áætlanir munu taka nokkur ár, ef í verður ráðizt.“

Meiri hl. fjvn. mælir með því einróma, að till. verði samþykkt.