22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (2533)

79. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, var samhljóða tillaga flutt á síðasta Alþingi, en varð þá ekki afgreidd. Við umr. um hana skýrði ég frá skoðun minni á málinu. Mitt álit er óbreytt, að umrædd hafnargerð við Héraðsflóa sé nú algerlega óraunhæf og nær sé þeim, sem vilja í raun og veru stuðla að samgöngubótum við hinar víðlendu byggðir Fljótsdalshéraðs og þar með velgengni þeirra, að beita sér fyrir og styðja að auknum fjárveitingum til vega og brúargerða innan héraðsins. Á allra síðustu árum er orðin brennandi þörf fyrir slíkt, sérstaklega vegna aukinnar mjólkurframleiðslu víðs vegar um héraðið, og þar af leiðandi aðkallandi nauðsyn að bæta vegakerfið vegna mjólkurflutninga til mjólkurbúsins að Egilsstöðum. Það er hægt að hugsa sér, að einhvern tíma í fjarlægri framtíð verði byggð höfn við Héraðsflóa og þá helzt við Unaós, en ekki við svokallaða Múlahöfn, sem fyrri flm. hefur gert að umtalsefni í þessu sambandi. En spá mín er sú, að slík framkvæmd eigi sér ekki stað fyrr en þjóðin er orðin margfalt fjölmennari og getumeiri en hún er nú og hefur lokið við alhliða uppbyggingu í landinu við sjó og í sveit, sem henni er lífsnauðsyn að gerð verði á eins stuttum tíma og mögulegt er. Það er verkefni dagsins og næstu framtíðar. Að slíku verða menn að einbeita sér og horfast í augu við þau verkefni, en ekki horfa fram hjá þeim og glepja sjálfum sér og öðrum sýn með skýjaborgum, sem óraunhæfar verða að teljast eins og sakir standa og mega því ekki dreifa huganum frá því, sem mest um varðar nú á stundinni.

Hitt er svo annað mál. að eins og ég gat um við umr. málsins á siðasta Alþ., tel ég rétt, að till.samþ., fyrst hún er fram komin. Athugun getur verið fróðleg fyrir þá, sem lítt eru kunnugir á þessum stað. Hún ætti ekki að verða mjög dýr, því að vitamálaskrifstofan mun þegar eiga í fórum sínum ýmiss konar fróðleik um aðstöðu við Héraðsflóa eins og raunar flesta aðra staði við strönd landsins. Viðbótarathugun ætti því hvorki að verða mjög tímafrek né mjög dýr.