26.10.1960
Sameinað þing: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (2541)

46. mál, verndun geitfjárstofnsins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Till., sem hér liggur fyrir á þskj. 46, er þess efnis, að hið opinbera hlutist til um, að komið verði í veg fyrir, að hinn forni íslenzki geitfjárstofn deyi með öllu út hér á landi. Tala þessa fjár var samkv. síðustu búnaðarskýrslum innan við 100 á öllu landinu. En um 1930 var geitfé samkv. búnaðarskýrslum þá nálægt þrem þúsundum talsins. Þessi mikla fækkun, sem nú nálgast útrýmingu, stendur að sjálfsögðu í nokkru sambandi við sauðfjársjúkdómana. Geitfé hefur verið fargað um leið og sauðfénu og ekki verið komið upp á ný. Það hafa verið gerðar ályktanir um verndun geitfjárstofnsins, t.d. á fjórðungsþingi Norðlendinga og a.m.k. í einni sýslunefnd, sem mér er kunnug;t um, og á síðasta búnaðarþingi og málinu beint til Alþingis. Okkur flm. hefur þótt rétt að taka það upp hér á hv. Alþ., en gerum ráð fyrir því, eins og í till. stendur, að málið yrði leyst í samráði við Búnaðarfélag Íslands.

Saga þessa litla geitfjárstofns, sem enn er eftir hér á landi. er orðin nokkuð löng. Í hinum fornu fjalla- og skógarbyggðum Noregs var geitfjáreignin bjargræði hins fátæka manns, sem hafði ekki ráð á meiru. „Þótt tvær geitur eigi ok taugreftan sal. þat er þó betra en bæn,“ segir í Hávamálum. Margir kannast við norska geitaostinn, sem enn þá er framleiddur þar í landi og þykir hin ágætasta vara og er úr geitamjólk. Landnámsmenn fluttu geitfé með sér út hingað, og það hefur verið víða, eins og örnefni bera vitni um víða um landið. Það var um tíma t.d. töluvert af þessum fjárstofni í sjávarþorpum hér á landi. En þetta fáa, sem nú er eftir af geitfénu, hygg; ég að sé í sveitum eingöngu eða nær eingöngu á Austur- og Norðausturlandi.

Það væri sennilega heppilegast til þess að koma í veg fyrir, að þessi stofn deyi út, að hið opinbera gerði samning við nokkra bændur, sem enn þá eiga geitfé, að farga ekki stofninum, heldur auka hann eitthvað. Ég hygg, að það mundi vera bezta leiðin í þessu efni. En sjálfsagt er að athuga þær leiðir aðrar, sem til mála kynnu að koma. En við teljum, að það sé hreinlega til vansa fyrir þjóðina, ef þessi forni búfjárstofn er látinn deyja út í landi voru. Hið fátæka dýraríki Íslands má ekki við því, að þessi merka tegund deyi út, og það er ekki heldur fyrir það að synja, að til þess gæti komið, að menn vildu auka geitfjárstofninn af praktískum ástæðum, t.d. í sambandi við sérstaka ostaframleiðslu. En eins og sakir standa, stendur þetta svo tæpt, að þessi búfjárstofn eyðist með öllu, að okkur finnst alls ekki vera á það hættandi, að einstaklingar taki sig fram um að varðveita stofninn.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en leyfi mér að vísa að öðru leyti til grg. á þskj. 46 og legg til fyrir hönd okkar flm., að málinu verði visað til hv. fjvn. Hér mun vera um einhvern kostnað að ræða, en vafalaust ekki mikinn.