09.12.1960
Efri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

130. mál, söluskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru ekki mörg orð höfð í framsögu fyrir þessu máli, enda má með vissum hætti segja, að þetta frv. sé óhreina barnið stjórnarflokkanna. Það verður að vísu ekki synjað fyrir faðernið, en glöggt má þó finna, að allir tiltækilegir tilburðir eru hafðir í frammi, til þess að komizt verði hjá því, að meira beri á því en ýtrasta nauðsyn krefur, svo tilgangslaust og raunar barnalegt sem slíkt þó er, þar sem eðli þessa afstyrmis er það að þrengja kosti almennings í landinu dag hvern árið um kring og minna menn þannig á tilvist sína, en þannig hefur þetta verið um þetta mál frá upphafi.

Þegar hæstv. núverandi fjmrh. lagði fram fjárlagafrv. sitt fyrir yfirstandandi ár í febrúar s.l., gat hann þess sérstaklega í grg. þess frv., að lagður yrði á almennur söluskattur, en hins vegar yrði ekki hróflað á nokkurn hátt við söluskatti af innflutningi; hann skyldi verða óbreyttur frá því, sem hann hafði verið á undanförnum árum. Þegar svo komið var að fjárlagaafgreiðslu, varð þó reyndin sú, að þetta loforð stóðst með þeim hætti, að söluskattur í tolli var hækkaður um ein lítil 114%, þ.e.a.s. úr 7.7% í 16.5%, og var það gert á þann hátt að setja „til bráðabirgða“, eins og það var kallað, nýjan skatt á tollverð vöru, — skatt, sem nam 8.8%. Loforðið í fjárlagafrv. fyrir árið 1960, í grg. með því, var þannig orðrétt:

„Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti á innflutningi, en hann er áætlaður 154 millj. kr. með hliðsjón af reynslu s.l. árs og áhrifum væntanlegra efnahagsaðgerða.“

Ég held, að naumast sé hægt að gefa fyrirheit með öllu augljósari hætti. En þetta var sem sagt efnt með þeim hætti, að í stað hins áætlaða 154 millj. kr. innflutningssöluskatts var nú ákveðið, að hann yrði hækkaður í kringum 330 millj. kr., miðað við ársinnheimtu. En með miklum þunga var lögð áherzlu á, að þetta ætti aðeins að gilda til bráðabirgða, þ.e.a.s. til ársloka þessa árs, þá skyldi þetta óhreina barn stjórnarflokkanna borið út, enda var þetta svonefnda bráðabirgðaákvæði fyrst og fremst rökstutt með því, að öll hin nýja og stórfellda skattheimta til ríkissjóðs gilti aðeins í 9 mánuði á árinu 1960 og gæfi því ekki nægar tekjur það ár, en hins vegar yrði allt annað upp á teningnum árið 1961, þegar skattarnir yrðu innheimtir allt árið.

Við stjórnarandstæðingar vorum að vísu svo óskammfeilnir, að halda því fram, að hæstv. ríkisstj. og fjmrh. hennar hefðu getað séð það fyrir, að till. um nýja skattheimtu, sem borin var fram í marzmánuði, mundi ekki geta gilt fyrir þrjá fyrstu mánuði ársins. En auðvitað var slíkri hótfyndni okkar ekki svarað. Hins vegar lásu menn stórar fyrirsagnir í Morgunblaðinu, eins og t.d. eftirfarandi þ. 15. marz s.l.:

„Söluskatturinn rýrir ekki kjör almennings.“ Og þessa fjórum dögum áður: „Söluskatturinn er ekki nýjar álögur, heldur tilflutningur á gjaldheimtu.“

Þessar stóru fyrirsagnir voru enginn venjulegur Morgunblaðssannleikur. Þær voru orðréttar tilvitnanir úr ræðum hæstv. fjmrh. og hv. formanns fjhn. þessarar hv. d. Allar fullyrðingar þessara hv. þm. voru, eins og áður segir, byggðar á því, að vísu ranglega, að bráðabirgðasöluskattur yrði aðeins í gildi 3/4 hluta ársins, eins og ég áður sagði. En sannleiksgildi þessara fullyrðinga má nú m.a. marka af samanþurði á skattheimtu árið 1959, þ.e. síðasta fjárlagaár, áður en núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og þeirri skattheimtu, sem fyrirhuguð er á árinu 1961, en þessi samanburður lítur þannig út, að árið 1959 var söluskattur til ríkissjóðs áætlaður 145 millj. og tekjuskattur 130 millj. eða samanlagður söluskattur og tekjuskattur 275 millj., en á árinu 1961 verður sambærileg skattheimta þessi. Söluskattur til ríkissjóðs 438,5 millj., og er sá hluti söluskattsins, sem rennur til bæjarfélaganna og kemur til með að vega á móti útsvarslækkunum, þá frá dreginn. En svo er tekjuskattur áætlaður 75 millj. Þetta verða samtals 513.5 millj. Mismunurinn, þ.e.a.s. viðreisnarhækkun. þessa hluta skattheimtunnar einnar, verður því 238 millj. eða að meðaltali nálægt 7 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Þannig hafa staðizt orð og gerðir þessara hv. þm. og stjórnarflokkanna. Við þessar tölur, sem ég nú nefndi, verður óhjákvæmilega að gera þá athugasemd, að þessi gífurlega aukna skattabyrði, að viðbættum öðrum ráðstöfunum stjórnarflokkanna í efnahagsmálum, þ. á m. gengisfellingunni, sem hækkaði verð allra neyzluvara almennings um nærri því 600 millj., er þegar farin, ef svo má segja, að éta sjálfa sig, og gefa þessar tölur því alls ekki rétta hugmynd um þær drápsbyrðar, sem raunverulega eru á landsmenn lagðar. Sem bein afleiðing efnahagsaðgerðanna og allrar hinnar nýju skattheimtu kemur sú staðreynd, sem ekki verður gengið fram hjá, að samdráttur er á öllum sviðum og m.a. í innflutningnum vegna hinnar skertu kaupgetu almennings og athafnagetu almennt í þjóðfélaginu, og hafa þá sjálfir skattstofnarnir rýrnað stórkostlega. Innflutningurinn hefur dregizt saman og mun gera það enn meira á næsta ári en nokkurn hefur órað fyrir, ef svo heldur fram sem horfir. Og sama er að segja um öll almenn viðskipti innanlands og einnig og ekki sízt atvinnuframkvæmdir.

Nýju skattarnir og verðhækkanirnar leggjast því á minni upphæðir en áður og þar af leiðandi á minnkandi getu almennings til þess að bera þær uppi og herða þess vegna sárar en áður að öllu eðlilegu athafnalífi og afkomu almennings. Hinar hækkandi tölur skattheimtunnar segja því ekki nær því alla sögu um þær þrengingar, — að maður ekki segi hörmungar, sem af stjórnarstefnunni leiðir, því að með fullri atvinnu og öru viðskiptalífi er að sjálfsögðu unnt að þola byrðar, sem menn kikna undir í því ástandi, sem nú er að skapast fyrir tilverknað stjórnarflokkanna.

Sú röksemdafærsla, sem nú gengur eins og rauður þráður í gegnum allar fjármálaræður hv. stjórnarsinna, er vissulega verð allrar athygli, og hygg ég, að sjaldan hafi heyrzt hér á hv. Alþ. öllu aumlegri málsvörn af hendi nokkurrar ríkisstj. né beinni viðurkenning á eigin afglöpum en. í henni felst. Röksemdafærslan er eitthvað á þessa leið, þegar umbúðunum er sleppt utan af henni. Með efnahagsaðgerðunum hafa ný viðhorf skapazt. Skert kaupgeta almennings dregur stórlega úr innflutningi og .öllum framkvæmdum í landinu. Af því leiðir, að tekjur ríkissjóðs minnka og þar með geta hans til þess að komast af án nýrra skatta.

Það lætur nærri, að þetta sé tekið orðrétt upp úr nál. meiri hl. fjvn. um fjárlagafrv. núna, og ég hygg, að fram hafi komið í ýmsum ræðum stjórnarsinna um frv. mjög keimlík röksemdafærsla. Eða m.ö.o. , hér hefur verið búinn til vítahringur, sem hæstv. ríkisstj. hvorki getur né vill rjúfa, því að þá væri öll stjórnarstefnan í raun og veru rokin út í veður og vind, — vítahringur, sem lítur þannig út: Afleiðingar kjaraskerðingar og samdráttar verða óhjákvæmilega rýrnandi ríkistekjur, en rýrnandi ríkistekjur leiða aftur af sér nýjar álögur og þar af leiðandi enn meiri kjararýrnun og síðan koll af kolli áfram, meðan ekki er höggvið á hnútinn.

Þannig er nú komið fyrir þeim mönnum, sem mest töluðu um sína glæsilegu leið til bættra lífskjara fyrir rúmu ári. Hún er nú varla nefnd án kinnroða. En hins vegar grípa stjórnarsinnar til þess örþrifaráðs að viðurkenna óbeint, að þeir hafi leitt efnahagslífið út í þá sjálfheldu, sem þeir séu ófærir um að losa það úr.

Flutningur þessa frv. um nýja skattheimtu upp á 170 millj. kr. umfram það, sem lög nú heimila, er ein hinna greinilegu staðfestinga hv. stjórnarflokka á þessari sjálfheldu. Það mætti segja kannske, að það væri einn áfanginn í vítahringnum, en áreiðanlega ekki sá síðasti, ef þing og þjóð hindra það ekki, að áfram verði haldið á svipaðri braut. Það má að vísu segja, að flutningur þessa frv. komi hvorki mér né öðrum , stjórnarandstæðingum á óvart. Við 2. umr. um söluskattsfrv. hér í hv. d. í marz s.l. sagði ég það fyrir, að hér væri ekki um nein bráðabirgðaákvæði að ræða, þó að svo væri látið heita þá til þess að blekkja auðtrúa fylgismenn hæstv. ríkisstj. og lægja óánægjuöldur í þeirri sveit yfir svikum hennar á kosningaloforðunum frá 1959.

Ég sagði þá frá því, að allir embættismenn hæstv. ríkisstj. hlægju að þeirri fjarstæðu, að þessi skattur mundi aðeins gilda árlangt, eins og lögfest var fyrir 9 mánuðum, og ég skoraði á hæstv. fjmrh. að gefa um það skýra yfirlýsingu, að skatturinn yrði afnuminn, eins og frv. þá gerði ráð fyrir, nú í árslokin. En hæstv. ráðh. varð ekki við þeirri áskorun, heldur tók þann kost að þegja þunnu hljóði. Hins vegar gerði hann allt annað en að svara hreinskilnislega til þess að láta menn bæði utan þings og innan halda, að hér væri aðeins um að ræða eina af þeim bráðabirgðaaðgerðum, sem innan tíðar mundu leiða þjóðina inn á hinn slétta veg bættrar afkomu, — byrði, sem menn yrðu aðeins að bera í bili. Kjaraskerðing í bili, það var kjörorðið, sem stjórnarflokkarnir notuðu, þegar þeir voru að leiða efnahagslífið og afkomu almennings út í þá ófæru, sem nú blasir hvarvetna við og nú er notuð sem skálkaskjól til þess að halda enn lengra áleiðis á sömu brautinni.

Bæði af framangreindum ástæðum og einnig vegna þess, að aukning óbeinna skatta, sem leggjast með jöfnum þunga á lífsnauðsynjar almennings og á óþarfa eyðslu, en hlífa hinum tekjuhærri aðilum í þjóðfélaginu, — vegna þess að þetta er eitt helzta undirstöðuatriði núverandi stjórnarstefnu, er ful lvíst, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. sérstaklega voru fyrir fram ákveðin í því að svíkja bæði bein og óbein fyrirheit um afnám þessa svokallaða bráðabirgðasöluskatts, sem hér er til umr. En enn skortir einurð eða kjark til þess að ganga hreint til verks og leggja til, að þetta skuli verða ein af þeim föstu skattabyrðum, sem þjóðin verður af þeirra völdum að þola.

Enn á það aðeins að heita svo, að leggja eigi þessa byrði á bök almennings í bili, í eitt ár. Hver skyldi nú ástæðan vera fyrir þessu? Ég held, að hún sé einfaldlega sú, að hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar eru hræddir, hræddir við dóm þess fólks, sem gaf þeim völdin í þeirri trú, að loforð þeirra um stöðvun verðbólgu, loforð þeirra um batnandi lífskjör og önnur falleg fyrirheit væru gefin af heiðarlegum ásetningi, en ekki kaldrifjaðri ákvörðun um að ráðast með öllum tiltækilegum aðgerðum að lífskjörum þess. Þessi ótti er höfuðorsök þess, að þetta frv. er nú fyrst borið fram, þegar aðeins örfáir dagar eru eftir af þinghaldi fyrir hátíðir, en fyrir jólaleyfi þm. verður hæstv. ríkisstj. að hafa þvingað það fram gegnum þingið, þ.e.a.s. ef ákvæði fjárlaga eiga að standast. Sá dráttur, sem orðið hefur á því, að frv. væri lagt fram, er þeim mun athyglisverðari sem kunnugt er, að hæstv. fjmrh. boðaði það strax á fyrsta degi yfirstandandi þings, þ.e.a.s. í grg. sinni með fjárlagafrv: fyrir árið 1961. Það er því engu líkara en a.m.k. einhverjir í liði hæstv. ríkisstj. hafi a.m.k. viljað fela óhreina barnið, sem bera átti út um áramótin, almenningssjónum svo lengi sem nokkur kostur var. Eða hefur það kannske verið svo, að jafnvel innan hæstv. ríkisstj. hafi sú almenna andúð, sem fyrir. hendi er á þessu afkvæmi stjórnarflokkanna, vakið verulegan beyg við þá ákvörðun hæstv. fjmrh. að magna þennan uppvakning enn á ný á hendur almenningi? Hafi svo verið, hefur það vissulega ekki verið að ófyrirsynju.

Á. fundi í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur, sem haldinn var fyrir ekki alllöngu, var samþykkt gerð á þá lund að fela þingmönnum og að sjálfsögðu þar með ráðherrum flokksins að beita sér fyrir því, að þessi svonefndi bráðabirgðasöluskattur yrði afnuminn nú um áramótin, eins og lög gerðu ráð fyrir. Það er nú orðið hljóðbært um þessa samþykkt, enda þótt málgagn Alþfl. hafi stungið henni í bréfakörfuna. Það má því segja, að fréttin um þessa ágætu samþykkt Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur hafi ekki verið opinberlega staðfest. En sé hér eitthvað málum blandað, þá vænti ég leiðréttingar á því frá þeim hv. þm., sem gerst mega vita um samþykkt þessa, eins og t.d., hv. 10. þm. Reykv. En hvað sem þessu líður, er hitt staðreynd, að t.d. hv. 10 þm. Reykv. beitti sér fyrir því í stjórn Alþýðusambands Íslands nú fyrir skömmu, að Alþýðusambandið krefðist þess af hæstv. ríkisstj., að söluskattsviðaukinn yrði af tekinn, og enn fremur fyrir því; að viðræður yrðu teknar upp við, ríkisstj. um það mál. Öll stjórn Alþýðusambandsins, þ. á m. þrír af flokksbræðrum þessa hv. þm., var honum fyllilega sammála um afstöðu til þessa máls og samþ. að æskja viðræðna við ríkisstj. því til framgangs. Var þessi hv. þm. meðal þriggja fulltrúa Alþýðusambandsins kjörinn til þess að ræða um málið við ríkisstj. og mun einn slíkur viðræðufundur hafa verið haldinn fyrir meira en mánuði. En hæstv. ríkisstj. hefur síðan slitið þeim viðræðum án þess að skýra þau viðræðuslit á nokkurn hátt. Slíka virðingu sýnir hæstv. ríkisstj. heildarsamtökum íslenzkrar alþýðu og þá um leið þeim hv. stuðningsmanni sínum, sem falinn var sá sérstaki trúnaður af þeirra hálfu að bera fram m.a. kröfu þeirra og ósk um, að hún efndi gefin fyrirheit sín í því efni, sem hér ræðir um. Á þingi Alþýðusambands Íslands báru Alþýðuflokksmenn enn fremur fram till. um afnám söluskattsviðaukans og voru ekki skiptar skoðanir þar um nauðsyn þess. Þá bauð þingið það fram, að allar hugsanlegar aðgerðir í efnahagsmálum og þá að sjálfsögðu einnig afnám söluskattsviðaukans, sem kynnu að geta bætt kaupmátt launa, skyldu metnar til jafns við, beinar launahækkanir og kæmu því til frádráttar hinum beinu launakröfum samtakanna. En slíkt þykir ekki einu sinni svara vert af hálfu hæstv. ríkisstj. Hún er sennilega að sýna styrk sinn með slíku framferði, en Morgunblaðið hefur nýlega lýst því — hátíðlega, að núverandi ríkisstj. sé sterk stjórn, vegna þess að hún sé hafin yfir það að lítillækka sig með því að setjast að samningaborði með launþegasamtökunum.

Ég hygg, að það muni nú brátt sýna sig, hvernig alþýðusamtökin taka slíkum ögrunum, þegar lífshagsmunir þeirra eru í veði, ofan á allt annað, sem á undan er gengið.

Að sjálfsögðu kemur líka brátt á daginn, hvernig þeir hv. þingmenn, sem sérstaklega, hefur verið falið bæði af umbjóðendum sínum í alþýðusamtökunum og einnig af flokksmönnum sínum að vinna gegn þessu máli, þessu frv., sem nú er fram borið, bregðast við slíkum yfirþyrmandi hroka, sem kemur bæði fram gagnvart þeim sjálfum og öllum þeim, sem hafa trúað þeim fyrir málefnum sínum. Ég ætla engu að spá um það, hvort þeir hafa enn þá geð í sér til þess að krjúpa á kné eða hvort þeir muni standa uppréttir. En hitt segir mér svo hugur um, að alþýða manna muni svara fyrir sig. Hún mun að sjálfsögðu marka afstöðu sína og baráttu eftir yfirlætislegum stóryrðum Morgunblaðsins, en hún mun hins vegar gera sér fyllilega ljósa lífsnauðsyn þess að brjóta þann vítahring, sem nú er orðinn staðreynd í efnahagskerfinu, að hrakandi lífskjör kalla í sífellu á harkalegri skattpíningu — og öfugt. Þessi vítahringur verður með engu móti rofinn, nema með því að stórhækka raunveruleg laun og brjóta með því þá fjötra, sem nú hefta með hverjum degi sem líður æ meira alla eðlilega blóðrás athafnalífs og fjármála í landinu. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. standi við stóryrði sín um að setjast aldrei að samningaborði við launþegasamtökin, en hún um það, vil ég segja. Hún skal þá líka vera viðbúin að taka afleiðingunum, og þær verða vissulega verstar fyrir hana sjálfa.