27.03.1961
Sameinað þing: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (2571)

145. mál, framfærslukostnaður námsfólks

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. þessi er um athugun á því, hvort hægt sé að taka tillit til þess í sköttum og tryggingum, ef fjölskylda eða einstaklingar hafa á framfæri sínu námsfólk, sem er yfir 16 ára að aldri og nýtur þar af leiðandi ekki frádráttar eða fjölskyldubóta. Allshn. hefur leitað álits Tryggingastofnunar ríkisins og skattstjórans í Reykjavík, og eru báðir aðilar hlynntir umræddri athugun. Um höfuðefni till. hygg ég, að menn í allshn. hafi verið sammála. Þó vilja fjórir nm. samþykkja till. óbreytta, en tveir þeirra, Gísli Jónsson og Pétur Sigurðsson, gera fyrirvara, sem byggist á því, að upplýst er, að mál þetta hefur þegar verið athugað hvað skattahliðina snertir í nefnd, sem starfað hefur fyrir ríkisstj., enda þótt ekki hafi gefizt tilefni til þess að skýra opinberlega frá störfum þeirrar nefndar. Þessir tveir hv. þm. gera því fyrirvara, sem byggist á því, að sá hluti till., sem varðar skatta, sé óþarfur. Hins vegar stendur þá eftir tryggingahlutinn, en eins og fram kemur í nál. á þskj. 593, er það till. n. með þessum tveim fyrirvörum, að till. verði samþykkt.