18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (2608)

114. mál, varnir gegn landspjöllum af völdum Dyrhólaóss

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð til þess að gefa upplýsingar. — Það stóð þannig á, að um það leyti eða dálítið seinna en þáltill. sú hafði verið samþ.. sem síðasti hv. ræðumaður minntist á, hafði ég hafnarmál með höndum um tíma. Kynnti ég mér því nokkuð þetta mál, eins og skylt var, og ráðgaðist um það við vita- og hafnarmálastjóra. Það stóð þannig á, að um það leyti komu við sögu bæði fyrrv. og núv. vitamálastjóri. Niðurstaðan af þeim viðræðum varð sú, að þeir upplýstu, að til þess að hægt væri að dæma um, hvort unnt væri með kleifum kostnaði að gera höfn á þessum stað, þyrfti að athuga talsverðan tíma sandrekið með ströndinni o.fl., en það kostaði nokkurt fé að halda uppi slíkum rannsóknum. Út úr þessu kom svo, að það var settur inn á fjárlög, a.m.k. á tímabili, — ég þori ekki að segja, hvort það stendur þar enn, — nokkur póstur til þess að kosta athugun þessa. Var ætlazt til, að því yrði m.a. varið til þess að fylgjast með hreyfingum sandsins og öðrum atriðum, sem gætu haft úrslitaþýðingu við að ákveða endanlega, hvort þarna væri unnt að ráðast í hafnargerð eða ekki.

Þetta vildi ég upplýsa. Ég vildi benda áhugamönnum um þetta mál á að hafa alveg sérstaklega samvinnu við hafnar- og vitamálastjórnina um, að þær athuganir fari fram, sem óhjákvæmilegar eru, til þess að skera úr þessu. En þessi skref voru stigin ásamt því, sem síðasti hv. ræðumaður gat um.