28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (2633)

219. mál, sjálfvirkt símakerfi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir skömmu var svonefnd bændavika í útvarpinu. Einn af þeim, sem þar komu fram, var ungur maður, sem nýlega hafði flutt sig héðan úr þéttbýlinu við Faxaflóa og norður í Strandasýslu og var farinn að búa þar í afskekktri sveit. Hann talaði um lífið í sveitinni og störfin þar. Hann minntist á það m.a., að nú hefðu bændur eins og aðrir vélar til ýmiss konar starfa, en fólkið væri horfið, — margt af því fólki, sem áður vann þessi störf. Hann talaði í þessu sambandi um heyvinnuvélarnar, sem væru komnar í staðinn fyrir kaupakonurnar. Það væri þægilegt að vinna með þessum vélum og heyskapurinn gengi hraðar og betur, eftir að vélarnar komu til sögunnar, en það hefði líka, sínar alvarlegu hliðar fyrir lífið í sveitinni, þegar fólkinu fækkaði, þegar kaupakonurnar væru flestar horfnar.

En það er fleira, sem hverfur, heldur en kaupkonurnar. Nú á að taka af okkur talsímakonurnar líka.

Enn er það svo með okkur, sem eigum heima í sveitunum, að þegar við þurfum að nota símann, fáum við að tala við ágætar konur á landssímastöðvunum, sem reyna að veita okkur samband við þá, sem við viljum tala við. Það eru allmörg ár síðan bæjarsímakerfið hér í Reykjavík breyttist þannig, að konurnar, sem unnu við bæjarsímann, hurfu, en það, sem kallað er sjálfvirkt símakerfi, kom í staðinn. Enn er það þó svo, að þegar við erum hér í Reykjavík um þingtímann og þurfum að nota landssímann, þá eigum við kost á því að tala við símakonur á landssímastöðinni. Þessa ánægju á að taka af okkur innan skamms. Við eigum aldrei framar, þó að við þurfum að nota síma, að fá að heyra fallega kvenrödd á landssímastöðinni, rödd konu, sem er fús til að greiða fyrir okkur og veita okkur samband við þá, sem við viljum tala við í gegnum símann.

Það er sagt í grg. með till., að starfslið símans muni verða 5–6 hundruð manns færra, þegar þetta er komið í kring. Hvað verður um allar blessaðar talsímakonurnar, og hvaða möguleikar eru fyrir okkur að halda sambandi við þær á svipaðan hátt og verið hefur? Ég veit það ekki.

Ég ætla ekki að mæla á móti þessari till. Þetta er nýi tíminn, hann er hér á ferð eins og, annars staðar með sínum kostum og með sínum göllum. Það er talað um, að símaþjónustan verði ódýrari með þessu móti, það sparist mikið í launagreiðslum. Það eru hins vegar ekki neinar útskýringar á því hér, eða ekki hef ég séð það. hvað þetta véladót kostar í viðhaldi og rekstri, en gert er ráð fyrir, að þetta verði ódýrara í heildinni, og það er talað um, að símaþjónustan muni verða góð, jafnvel betri en nú er. Ég veit það ekki. En eins og ég hef sagt, um þetta þýðir ekki að fást. Þetta kemur yfir okkur, það er sjáanlegt. En ósköp verður þetta þurrt og leiðinlegt.