28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (2634)

219. mál, sjálfvirkt símakerfi

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. við höfum langa og ánægjulega reynslu af því, að okkar ágæti félagi, hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), hefur manna gleggst auga fyrir Ýmsum mannlegum hliðum vandamálanna. En að þessu sinni get ég upplýst það, að allshn, er ekki hjartalaus með öllu og hefur tilfinningar til hins betra kyns ekki síður en aðrir, því að einmitt þetta félagslega vandamál í sambandi við hinn sjálfvirka síma var nefnt í n. En það er nú svo með þessar framfarir, eins og ýmsar aðrar, að það fylgir ýmislegt til sárabóta í staðinn. Þegar hinn sjálfvirki sími verður kominn um allt land, þá verður hægt að hringja á klukkuna úr öllum landshlutum, þannig að hvar sem menn eru staddir, pá geta þeir tekið upp símann og fá ekki aðeins að hlýða á vinsamlega konurödd í 15–20 sek. á meðan hún hrópar eftir þeim, sem viðkomandi vill tala við, heldur getur maður setið kyrr og hlustað á yndislega stúlkurödd þylja upp, hvað klukkan er, allan sólarhringinn. Nokkur huggun gæti það verið. Og síminn ætlar að gera betur. Hann ætlar að bæta okkur upp kvennatapið með því að taka upp þá þjónustu, að það verði hægt að hringja í ákveðið númer og þá fái menn lesið fréttayfirlit, svo að ef hv. 1. þm. Norðurl. v. verður leiður á því að hlusta á sömu röddina þylja upp klukkuna á 10 sek. fresti. þá getur hann hringt í annað númer og fengið aðra fallega konurödd til þess að lesa yfir honum, hvað helzt er tíðinda úr heiminum. Ef þau tíðindi eru ekki af betra taginu þann daginn og hryggja hann, þá getur hann hringt í þriðja númerið og þá fengið nákvæmar upplýsingar um það, hvernig veðurútlitið er, einnig væntanlega lesið af fagurri konurödd. Ef veðurútlitið er líka slæmt, þannig að það hressir ekki sálu hans, þá er það neyðarúrræðið eftir að nota þennan sjáifvirka síma til að hringja í einhverja af þeim 80–90 þús. konum, sem við eigum í þessu landi, og freista þess, hvort þær eru ekki fáanlegar til þess að hugga þennan sárþreytta símnotanda.

Að lokum vil ég segja það, að það er líka sjónarmið, hvort ekki er nú rétt bæði fyrir kvenholla Íslendinga og aðra að taka 500–600 konur, sem síminn að jafnaði hefur lokaðar inni í klefum víða um landið með heyrnartól fyrir eyrunum, svo að þær mega sér enga björg veita, hárið ýfist á þeim og þær eru þrælkaðar við það að þjóna símnotendum, taka þessar 500–600 konur og dreifa þeim út í atvinnulífið, þannig að menn geti ekki aðeins heyrt í þeim, heldur séð þær líka.