22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í D-deild Alþingistíðinda. (2640)

188. mál, alþingishús

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Um þessa till. mætti tala langt mál. en vegna þess, hve langt er komið þingtímans og störfum þingsins er nú háttað, mun ég láta nægja að segja aðeins fá orð að þessu sinni.

Hér er um mál að ræða, sem öllum hv. þm. er kunnugt, hvílík nauðsyn það er, að Alþingi hafi kost á betra húsnæði en það hefur nú, þannig að því sé sýndur hæfilegur sómi og þm. hafi sæmileg starfsskilyrði. Það mál er öllum þm. svo ljóst, að óþarft er að fara um það mörgum orðum. Þetta mál hefur líka nokkuð verið til athugunar á undanförnum árum, þótt ekki hafi orðið úr framkvæmdum, og hefur þá einkum verið rætt um þrjár leiðir til úrbóta: Fyrst þá að stækka alþingishúsið og reyna að leysa úr brýnustu þörfum á þann hátt. Einnig hefur komið til athugunar að byggja sérstaka viðbótarbyggingu við þinghúsið og bæta þannig úr húsnæðisþörfinni. Og loks hefur sú hugmynd komið fram, að þetta mál yrði ekki sæmilega leyst nema með því að byggja alveg nýtt alþingishús og þannig mundi hagkvæmust og bezt lausn vera á þessu fengin. Aðrir hafa mælt á móti þessu vegna þess, að þeir hafa talið, að núv. alþingishús væri búið að vinna sér svo mikla sögulega helgi, að ekki ætti að flytja þingið þaðan, nema alveg sérstök ástæða eða sérstök þörf væri fyrir hendi.

Efni þessarar till. er það, að sérstök nefnd verði kosin á Alþingi til þess að athuga þessar leiðir og skera úr um það, á hvern hátt yrði fundin heppilegust lausn á málinu. Það er gert ráð fyrir því, að þessi nefnd verði skipuð fimm mönnum, og er það gert með tilliti til þess, að allir flokkar þingsins geti átt kost á því að eiga þar fulltrúa.

Í till. er gert ráð fyrir því, að n. hafi lokið störfum ekki síðar en haustið 1962. Ýmsir kunna að álita, að henni sé ætlaður nokkuð langur starfstími. En þess er að gæta, að hér getur verið um nokkuð umfangsmikið verkefni að ræða og ýmsir hlutir komið til athugunar, sem taka sinn tíma, og þó að þetta tímatakmark sé sett, er ekki þar með sagt, að n. geti ekki lokið fyrr störfum, heldur er það miklu frekar sett af þeirri ástæðu, að það sé þá eitthvert ákvæði um, að hún hafi lokið störfum sínum fyrir ákveðinn tíma. En oft vili það verða, þegar slíkar mþn. eru kosnar. að störf þeirra dragast óhæfilega lengi, og þess vegna er þetta tímatakmark fyrst og fremst sett til að koma í veg fyrir, að óhæfileg bið verði á því, að n. skili till. sínum. En að sjálfsögðu væri æskilegt, að þær geti legið sem fyrst fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess vegna þeirra röksemda, sem ég greindi hér áðan, að orðlengja frekar um þessa till. að sinni. en leyfi mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði henni vísað til allshn.