22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (2642)

188. mál, alþingishús

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir það ekki nema eðlilegt, að till. sé flutt eins og sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 362 varðandi húsnæðismál Alþingis. Margir munu vera á einu máli um það, að eins og nú er komið, sé það húsnæði ófullnægjandi. sem komið var upp til afnota fyrir Alþingi fyrir 80 árum. Þm. voru þá miklu færri en nú og starfshættir allt öðruvísi svo og húsagerð. Mér finnst það líka eðillegt, að unnið sé að þessu máli á þann hátt eða svipaðan sem lagt er til í þessari tillögu, og ekki get ég fallizt á það hjá hv. 1. þm. Vestf., sem hér talaði síðast, að engir megi um þetta mál fjalla nema hæstv. forsetar þingsins. Þó að ég hafi álit á þeim til margra góðra hluta, þá sýnist mér, að það skaði ekki, að þar fjalli fleiri um. Auk þess er það svo með forsetana, að þeir eru kosnir aðeins til eins þings í senn, og getur þar breyting á orðið, en ef á að vinna að þessu máli nokkuð langan tíma, eins og hér er gert ráð fyrir, þá er eðlilegt, að það séu sömu mennirnir, sem að því vinna.

Hv. frsm. þessa máls gat þess, að uppi væru ýmsar tillögur um að bæta úr húsnæðisþörf Alþingis, og gerði grein fyrir þeim sumum. En erindi mitt hingað upp í ræðustólinn var eiginlega að minna á það, að enn ein tillaga hefur verið uppi í þessu máli og það mjög lengi. Það er sú tillaga, að það verði upp tekið á ný að heyja Alþingi íslendinga á Þingvöllum við Öxará. Þegar Alþingi var endurreist á öndverðri 19. öld, var slík tillaga uppi frá ýmsum þeim mönnum, sem voru brautryðjendur í sjálfstæðisbaráttunni, þ. á m. og einkum frá Fjölnismönnum. Aðrir, sem einnig komu mjög og ekki minna við þá baráttu, voru þessu andvígir, vildu endurreisa þingið í Reykjavík og færðu fyrir því ýmis gild rök, sem þá voru til staðar, m.a. þær erfiðu samgöngur, sem þá voru hér á landi, og getuleysi þjóðarinnar til þess að koma upp húsnæði fyrir þing sitt. Eins og kunnugt er, hóf Alþingi störf að nýju ekki í alþingishúsi, heldur í öðru húsi, sem þá hafði verið reist af öðru tilefni, og hafði þar aðsetur um marga áratugi, þangað til það hús var byggt, þar sem þingið nú starfar og hefur starfað síðan laust eftir 1880.

Nú er það svo, að ástæður eru mjög breyttar hér á landi frá því, sem var á þeim tíma, er þingið var endurreist 1845, og ýmis þau rök, sem þá voru færð fram gegn því að heyja þingið á hinum forna þingstað, eru nú ekki lengur til staðar. Það er ekki meiri vegalengd frá Reykjavík, sem er stjórnaraðsetrið, til Þingvalla heldur en milli staða í sumum stórborgum erlendis, svo að það eitt sé nefnt.

Ég vil minna á það, að fyrir nokkrum áratugum. eða laust fyrir 1930, voru tvisvar sinnum fluttar á Alþingi till. til þál. varðandi það að flytja þingstaðinn til Þingvalla, og þessar tillögur höfðu í bæði skiptin mikið fylgi í þinginu, þó að þær næðu ekki samþykki, og frá ýmsum félagasamtökum víðs vegar um landið bárust þá áskoranir til Alþingis um að sinna þessu máli. Síðan hefur málið legið niðri, enda hefur þingið haft mörgu að sinna, og mátti segja, að það væri ekki aðkallandi. En nú, þegar farið er að ræða um það af eðlilegum ástæðum, að nauðsynlegt sé að auka húsnæði Alþingis eða jafnvel byggja nýtt alþingishús, sýnist mér óhjákvæmilegt að taka nú upp þetta mál á ný og gera út um það, hvort þjóðin treystir sér til þess og á þann metnað að vilja flytja Alþingi aftur á hinn forna og hér á það við að segja: fornhelga stað. Ég geri ekki að svo stöddu neinar tillögur í þessu sambandi, en mér þótti sem ég gæti ekki látið það vera að minna á þetta, þegar byggingarmálið er nú tekið til umr., og ef tillagan verður samþykkt eða fer í nefnd, að mælast þá til þess, að hún hafi einnig þetta í huga.