12.12.1960
Efri deild: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

130. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. gert í aðalatriðum grein fyrir afstöðu minni til þess og get þess vegna að verulegu leyti vísað til þess, sem ég þá sagði um málið. En þó vil ég nú víkja nokkru nánar að einstökum atriðum, um leið og ég tek til athugunar helztu firrurnar í málflutningi hæstv. fjmrh. hér í lok 1. umr. málsins, sem flestar hafa nú gengið aftur í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn.

Í marzmánuði s.l., þegar nýju söluskattarnir voru hér til umr., lét hæstv. fjmrh. sig ekki muna um það að fullyrða, eins og hann hefur nú reyndar margendurtekið, að hér væri ekki um að ræða neina nýja skattheimtu, heldur aðeins tilflutning á gjaldheimtu, og jafnvel væri það sannast mála, að nýju skattarnir væru almenningi léttbærari en hin fyrri skipan í skattamálum. Það væri hvort tveggja, að hlutur bæjarfélaganna af söluskattinum lækkaði útsvörin og enn fremur tryggði lækkun tekjuskattsins þetta. Það voru ýmsir hv. þm., sem brostu að þessum barnalegu fullyrðingum hæstv. ráðh. hér fyrir 9 mánuðum, og allir munu hafa þá fundið, að þröngt væri orðið í búi um röksemdir, þegar þessi hæfasti málafylgjumaður hæstv. ríkisstj. átti ekki í önnur hús að venda um röksemdafærslu en þetta. Það hefði þess vegna mátt ætla, eftir að þjóðin öll hefur haft kynni og reynslu af þeim nýja skatti, sem hér er rætt um, og hinum sölusköttunum tveimur samhliða, að hæstv. ráðh, hefði forðazt að verða sér enn á ný til athlægis með slíkum fullyrðingum, enda forðaðist hann þetta vel í fyrstu ræðu sinni hér í hv. deild. En ég hafði ekki fyrr sýnt fram á með tölum úr fjárlögum síðustu tveggja ára, að endurgjaldið í lækkuðum tekjuskatti og greiðslum til sveitarfélaganna næmi aðeins broti af hinni nýju skattpíningu, en hæstv. ráðh. féll á ný í sömu gryfjuna og í fyrra. En ég held, að nú verði ekki aðeins brosað að hæstv. ráðh. Allar þær þúsundir manna, sem nú eru að kikna undan drápsklyfjum þessara nýju skatta, munu finna, að slíkar fullyrðingar æðsta manns í fjármálum í landinu lýsa annað tveggja þekkingarskorti, sem er ekki sæmandi og ekki trúandi upp á mann í hans stöðu, eða þá slíkri kaldrifjaðri óskammfeilni, að hún verður almenningi ekki neitt gamanmál, eins og allt er nú í pottinn búið. Til þess að sýna enn á ný, hve fráleit þessi umrædda fullyrðing hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. fjhn, er, þá hlýt ég enn á ný að rekja það dæmi, — ég vil segja það einfalda dæmi, sem hér er um að ræða, — og ég skora um leið á hæstv. ráðh. að hnekkja útreikningi mínum, ef hann getur.

Síðasta árið fyrir viðreisn var tekjuskattur áætlaður 130 millj. kr. og söluskattur til ríkissjóðs 145 millj., eða samtals 275 millj. kr. Á þessu ári, sem nú er senn á enda, var tekjuskattur áætlaður í fjárlögum 72 millj. og söluskattur, þegar búið er að draga frá hluta sveitarfélaganna af honum, 381 millj., eða söluskattur þannig reiknaður og tekjuskattur samanlagt 453 millj. En á næsta ári er fyrirhugað, að tekjuskattur verði 75 millj. kr. og söluskattur, þegar búið verður að draga frá hluta sveitarfélaganna, verði 438.5 millj., eða samtals 513.5 millj. kr.

Ég vil nú spyrja, hvort mér hafi yfirsézt í einhverju í þessu dæmi. Eru ekki teknar þarna báðar þær röksemdir, sem hæstv. ráðh. hefur notað til þess að sýna fram á það — eða reyna að sýna fram á það, að hér væri um enga nýja skattheimtu að ræða? Það er tekið fullt tillit til allrar lækkunar tekjuskattsins, og það er dregin frá sú hugsanlega lækkun, sem orðið gæti á útsvörum vegna greiðslunnar til bæjarfélaganna.

Staðreyndirnar segja það, þessar staðreyndir, sem ég nú nefndi, að á þessu ári verði mismunurinn á hinum nýju sköttum og þeim, sem áður giltu, þó að fullt tillit sé tekið til þess, sem draga ber frá skv. rökstuðningi ráðh., — mismunurinn verður ekki núll á þessu ári, heldur 178 millj. eða ríflega 1000 kr. á hvert mannsbarn í landinu að meðaltali. Og þær segja líka, að á næsta ári verði mismunurinn ekki 178 millj. kr., eins og hann er nú í ár, heldur hækki í 238 millj. eða í nær 1400 kr. á hvert mannsbarn í landinu að meðaltali. Ég vil nú bara spyrja: Hvernig er unnt að leyfa sér annað eins og það að fullyrða, að raunverulega hafi söluskatturinn ekki orðið nein ný byrði fyrir almenning? Er það kannske þannig, að hæstv. fjmrh. líti aðeins á það, að hann sjálfur og þeir aðrir, sem hirða álíka launatekjur og hann, hafi ekki aðeins sloppið algerlega við nýjar álögur, heldur stóraukið tekjur sínar með tilflutningi gjaldheimtunnar. Menn með slíkar tekjur hafa vissulega ekki farið neitt illa út úr þessum tilflutningi á tekjunum, sem þeir gera sér svo tíðrætt um. Þeir hafa jafnvel hagnazt sumir hverjir um 40–50 þús. kr. á ári með breytingunni, á sama tíma sem öðrum hefur orðið að blæða. En ég ætla ekki neinum slíka þröngsýni og ekki heldur hæstv. ráðh. Það, sem bagar hans málflutning, er einfaldlega það, að hann getur ekki þrátt fyrir ágæta greind fundið nein gild rök fyrir máli sínu og er því dæmdur til þess að fara með staðlausa stafi.

Við þær tölur, sem ég áðan nefndi til sönnunar máli mínu, hlýt ég þó að gera nokkrar athugasemdir, því að það fer fjarri því, að það segi í raun og veru alla söguna um þann þátt viðreisnarinnar, sem að skatta- og útsvarsmálum lýtur. Frádrátturinn til bæjarfélaganna vegna hluta bæjarfélaganna af söluskattinum er í reyndinni ekki neins staðar til nema á pappírnum, en er enginn raunverulegur hagnaður fyrir útsvarsgjaldendur í heild. Gengisfellingin ásamt öðrum efnahagsaðgerðum sá nefnilega fyrir því, að bæjarfélög geta ekki þrátt fyrir þennan tekjustofn komizt hjá því að hækka útsvör í heild. Þau gátu það ekki á s.l. ári, og þau geta það enn síður á næsta ári, ef þau eiga að veita sömu þjónustu og áður. En alveg sérstaklega á þetta þó við um þau bæjarfélög, sem verða að standa undir miklum verklegum framkvæmdum eða eru til neydd, m.a. vegna viðreisnarinnar, að halda uppi atvinnurekstri t.d. á sviði sjávarútvegsins. Það fer því fjarri því, að söluskattshlutinn nægi til þess að vega á móti hækkununum, sem er algengt að séu um 30% á öllum verklegum framkvæmdum, og þar að auki auknum erfiðleikum á öðrum sviðum. Enn var fyrir því séð, eins og ég drap á áður, með nýjum útsvarslögum, að hinir tekjuhæstu hlytu bróðurpartinn af framlaginu í lækkuðu gjaldahlutfalli, en hinir tekjulægri lítið og þeir tekjulægstu ekkert. Þetta sama og þó í enn ríkara mæli hefur verið gert með tekjuskattslögunum. Í umræðunum um þau á síðasta þingi sannaði ég t.d., að 2596 lægstu gjaldendur tekjuskatts hér í Reykjavík fengju eftirgjöf, sem næmi að meðaltali 76 kr. á mann, á sama tíma sem 1924 hæstu gjaldendur fengju eftirgjöf upp á 18.5 millj. eða 9620 kr. á hvern þeirra að meðaltali. Þessar sannanir fyrir eðli tekjutilflutningsins, sem átti ekki aðeins að vera meinlaus, heldur til mikils hagræðis fyrir láglaunamenn, verða ekki fremur nú en þá hraktar, enda fengnar frá þeim heimildum, sem verða ekki vefengdar.

Þannig hefur tvennt gerzt í senn: Stórfelldur tekjutilflutningur, sem hefur aukið hlut lágtekjumanna í skattheimtunni, en dregið hlutfallslega úr skattheimtu hinna efnameiri, og jafnframt stórfelld ný skattheimta, sem leggst með jöfnum þunga á allar aðkeyptar nauðsynjar og óþarfaeyðslu og kemur því harðast niður á þeim þjóðfélagsþegnum, sem minnst hafa gjaldþolið. En þessu til viðbótar hefur það svo gerzt að hreinir nefskattar, eins og t.d. almannatryggingagjöld, sjúkrasamlagsgjöld og námsbókagjöld, hafa verið hækkaðir mjög verulega. Þannig hefur af fullkomnu miskunnarleysi verið seilzt stöðugt dýpra niður í vasa almennings. Jafnvel gamalmenni og öryrkjar, sem hafa lífeyri sinn einan tekna, verða nú, eftir að tekjutilflutningurinn hefur átt sér stað, að gjalda drjúgan hluta þessa lífeyris síns í gegnum aukna söluskatta og hækkaða tolla, og jafnvel sjúkir menn og algerlega tekjulausir verða einnig að gera skil á sínum hluta þessara nýju viðreisnarskatta. En þannig er allt eðli þeirrar byltingar í skattamálunum, sem stjórnarflokkarnir hafa framkvæmt í þeim tilgangi að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Á sama tíma sem öll gróðafélög greiða 50 millj, samanlagt í beinan skatt til ríkisins, eða um 1/25 hluta af sköttum og tollum, sem þangað renna, og allir beinir skattar þeirra einstaklinga, sem mega teljast velmegandi eða jafnvel auðugir, og þeirra, sem hafa margfaldar tekjur t.d. á við verkamenn, allir beinir skattar þessara nema innan við fimmtugasta hluta af tolla- og skattatekjum ríkissjóðs, — meðan þessu fer fram, eru óbeinu skattarnir og nefskattarnir hækkaðir um hundruð milljóna króna, eins og ég hef sýnt hér fram á áður. Og það er von, að þeir hv. þingmenn og ráðherrar, sem standa að slíku, berji sér á brjóst og hrópi upp um það, að almenningi hafi ekki í neinu verið íþyngt, hans hlutskipti sé jafnvel betra en það hafi verið áður.

Ég þykist nú hafa gert þessari meginfullyrðingu í sambandi við þetta mál nokkur skil, þ.e.a.s. þeirri, að hér sé ekki um neinar nýjar álögur að ræða, en vil þá minnast lítillega á hitt atriðið, sem til hefur verið gripið til afsökunar í þessu máli, en það er á þá leið, að ekki hafi stjórnarandstaðan bent á aðrar heppilegar leiðir til tekjuöflunar en þá, sem hér er lögð til, henni farist því ekki að gagnrýna þetta frv.

Þegar þessi málflutningur er hafður í frammi, rétt ofan í hina fullyrðinguna, að í rauninni hafi engar nýjar álögur verið lagðar á, þá held ég, að hverju skólabarni megi vera ljóst, að eitthvað er orðið bogið við röksemdafærsluna. Í fyrsta lagi er fullyrt, að engar nýjar álögur hafi verið lagðar á, jafnvel sé um lækkun að ræða frá því fyrir viðreisn, hér sé bara framkvæmdur tilflutningur á tekjum. Í öðru lagi er svo auðvitað viðurkennt, sem verður ekki fram hjá gengið, að stjórnarandstaðan var á móti þessum tekjutilflutningi. Og í þriðja lagi er svo stjórnarandstaðan hrakyrt fyrir að benda ekki á aðrar leiðir til öflunar nauðsynlegra tekna. Auðvitað held ég, að allir muni sjá, að í þessari röksemdafærslu, ef hægt er að kalla hana slíku nafni, felst afneitun á a.m.k. fyrstu fullyrðingunni, því að ekki er unnt að krefjast ábendinga um leiðir til skattheimtu, ef um engar nýjar álögur hefur verið að ræða. Ég vil segja það, að mér finnst, að með þessari kröfu á hendur stjórnarandstöðunni eftir allt, sem á undan er gengið, sé hámarki ósvífninnar náð. Fyrst er öllu efnahagskerfinu bylt um, framkvæmd gengisfelling, sem hefur hækkað verð á neyzluvörum almennings um 500–600 millj. kr. á einu ári, skattar hækkaðir um hundruð milljóna, vextir hækkaðir um a.m.k. 200 millj. og með öllu þessu knúinn fram slíkur samdráttur á öllum sviðum viðskipta og athafna og launakjör jafnframt skert svo, að atvinnuleysi er ýmist yfirvofandi eða skollið á. Þessi samdráttur og kjaraskerðingarstefnan hefur auðvitað óhjákvæmilega spillt óþyrmilega afkomu ríkissjóðs. Samdráttur framkvæmda og flestra athafna er nú ekki aðeins að brjóta niður lífskjör fólksins í landinu og atvinnuvegi þjóðarinnar, heldur líka tekjumöguleika og afkomu sjálfs ríkissjóðs. Ég hef hér ekki handbærar tölur, — enda er stjórnarandstaðan leynd þeim eins og ýmsu öðru, sem sýni, hverjar tekjur ríkissjóðs yrðu t.d. á næsta ári miðað við hliðstæðan innflutning og hér var t.d. 1958 og 1959. En ég fullyrði, að miðað við sömu gjaldstofna og nú eru fyrirhugaðir yrðu þær nú sem skipti hundruðum milljóna króna hærri en þær eru nú áætlaðar, þ.e.a.s. ef lífskjör almennings, framkvæmdir, atvinna og innflutningur væri sambærilegt nú og þá. Þegar viðreisnarstefnan hefur gefið þessa raun og gjaldþoli almennings er svo komið fyrir hennar tilverknað, að jafnvel hv. formaður fjvn. neyðist til þess að viðurkenna í framsöguræðu sinni fyrir fjárlögum nú í ár, að með engu móti sé hugsanlegt að halda áfram meiri skattpíningu en þegar sé framkvæmd, þá koma þessir herrar og heimta úrræði frá hendi stjórnarandstöðunnar. Sjálfir áttu þeir aldrei ráð við neinum vanda, svo að vitað væri, meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. En nú heimta þeir úrræði af okkur, sem engan hlut höfum átt að þeirri öfugþróun, sem hér hefur orðið, heldur varað við henni eftir getu og barizt gegn henni eftir mætti.

Auðvitað er engin leið út úr allri þeirri ófæru, sem stjórnarstefnan er að leiða þjóðina út í á flestum sviðum, önnur er sú að gerbreyta um stefnu í fjármálum, skattamálum og atvinnumálum og síðast, en ekki sízt, í kjaramálum almennings. Allt er þetta svo samslungið, að ekki verður sundur slitið, og ein tillögugerð , hlýtur að binda aðra. En þó að svo sé, þá er ég víss um það, að enn þá er ekki svo illa komið, að hæstv. ríkisstj. væri ekki kleift, ef hún hefði til þess nokkurn vilja, að standa við fyrirheit um afnám þessa skatts, enda þótt allar viðreisnaraðgerðir hennar að öðru leyti stæðu óbreyttar. Það er áætlað, að þessi skattur gefi ríkissjóði sjálfum rúmlega 130 millj. kr. á næsta ári. Það er minni upphæð en gróði ríkisbankanna nemur á þessu ári. Og hvernig er það t.d. með alla 20 sparnaðarliðina, sem hæstv. fjmrh. taldi upp á síðasta þinginu, sem vinstri stjórnin var við völd, og hélt þá fram að gætu sparað ríkissjóði jafnvel hundruð milljóna? Ætli mætti ekki gera einhverjar af 23 sparnaðarhugmyndum meiri hl. fjvn. nú að veruleika strax á næsta ári, þó að sumar þeirra séu að vísu fráleitar? Þarf t.d. margra ára athugun til þess að spara þær tugmilljónir, sem sannanlega fara til veizluhalda ríkisstjórnarinnar og stofnana hennar? Gætu gróðafélögin, sem öll til samans greiða einar 50 millj. beint til ríkissjóðs, ekki þolað nokkrar auknar byrðar? Og hvers vegna eru sum mestu auðfyrirtæki landsins, eins og t.d. vátryggingarfélögin, skattfrjáls með öllu? Nei,ð ég veit að það er tilgangslaust að telja svo áfram. Hæstv. ríkisstj. og ráðherrar hennar munu ekki viðurkenna, að nokkur aðili í landinu geti sparað nema verkafólkið og aðrir launamenn, sem marga hverja skortir nú þúsundir og jafnvel hátt á annan tug þúsunda í laun á ári til þess að geta lifað álíka lífi og þeir gerðu, áður en viðreisnin kom til sögunnar. Almenningur er ekki einasta eini aðilinn, sem getur sparað að dómi stjórnarflokkanna, heldur eini aðilinn, sem hægt er að leggja á nýjar byrðar að hennar dómi.

Þessi söluskattsviðauki, sem hér er rætt um, er aðeins einn þátturinn í þeirri stórfelldu dýrtíðarhækkun, sem viðreisnin hefur skapað. Afnám hans hefði töluverða þýðingu í þá átt að draga úr þeirri allsherjar kjaraskerðingu, sem orðið hefur. hjá launamönnum. Ég hef áður skýrt frá því, hver áherzla hefur verið lögð á það af hendi verkalýðssamtakanna að fá fram efndir á því loforði að nema þennan skatt úr gildi. En sem dæmi þess, hver áhrif hann hefur í verðlaginu, vil ég nefna aðeins þrjú dæmi, sem sýna það vel, að um verulegar verðlagslækkanir yrði að ræða, ef skatturinn yrði af tekinn. Þannig hefur verið reiknað út af aðilum, sem verða ekki véfengdir, að 7% eða nákvæmlega 6.95% — af verði timburs og margra fleiri byggingarvara er fólgið í þessum söluskattsviðauka. Af algengum neyzluvörum almennings mun skatturinn nema frá 6 til 71/2% að öllum jafnaði, t.d. á ýmsum vefnaðarvörum nálægt 6% og á sumum innfluttum matvælum 8%. Þessi dæmi ættu að geta skýrt að fullu þá áherzlu, sem samtök launafólks úr öllum flokkum leggja á það, að þessi dýrtíðarvaldur verði skorinn í burtu, og líka skýrt þau drengilegu tilboð launþegasamtakanna að meta þann aukna kaupmátt, sem með slíkri ráðstöfun fengist, til jafns við launahækkanir. En þessi afstaða er ein og söm innan alþýðusamtakanna hjá mönnum af öllum stjórnmálaskoðunum. Þegar þessa er gætt, verður enn óskiljanlegri sú dæmalausa framkoma hæstv. ríkisstjórnar að vilja ekki ræða þetta mál til hlítar við fulltrúa Alþýðusambands Íslands, sem sérstaklega hafa verið til þess kjörnir.

Hæstv, fjmrh. taldi mig hafa farið með ósvífnustu ósannindi, þegar ég skýrði frá því hér við 1. umr. málsins, að ríkisstj. hefði slitið viðræðum, sem hafnar voru í byrjun nóvember s.l., viðræðum, sem áttu að vísu að snúast um fleiri atriði, en þetta lá þó fyrir sem fyrsta og stærsta málið. Hæstv. ráðherra leyfði sér að láta liggja að því, ef ekki fullyrða, að hin kjörna nefnd Alþýðusambandsins hefði ekki neinn áhuga á viðræðunum, sagði, að hún hefði ekki látið til sín heyra, siðan þessi fyrsti fundur hefði verið haldinn. Ég læt mönnum nú eftir að dæma, hvor okkar sýnir sannleikanum meiri ósvífni, ég eða hæstv. ráðh., þegar eftirfarandi er haft í huga: að á fundinum, þessum eina viðræðufundi, sem mun hafa verið hinn 3. nóv. s.l., sagði ríkisstj. í lok fundarins nefndarmönnum Alþýðusambandsins, að hún mundi kalla aftur á nefndina, þegar hún teldi það hafa einhvern tilgang og það væri tímabært. En frá hæstv. ríkisstj. hefur síðan ekkert heyrzt, og síðan er liðið nokkuð á annan mánuð. En hvað hefur svo gerzt, á meðan nefndin bíður eftir náðarsamlegri áheyrn hæstv. ríkisstj.? Jú, ekkert annað en það, að þessi hæstv. ríkisstj. er hér og nú að ráða til lykta stærsta umræðuefninu, sem vera átti. Á sama tíma lætur hún svo málgagn sitt, Morgunblaðið, lýsa því sem lítillækkandi athæfi, að ríkisstj. setjist að samningaborði með launþegasamtökunum, og stæra sig af því, að það sýni einmitt styrk hennar og festu, að hún skuli ekki láta slíkt henda sig. Ef þetta er ekki að slíta viðræðum, eins og ég orðaði það, sem efnt var til af hálfu Alþýðusambandsins, þá kann ég ekki mál að skilja. Og a.m.k. held ég, að ekki geti verið um það deilt, að umræðunum af hálfu ríkisstj. um þetta mál, um lækkun söluskattsins, var slitið, um leið og þetta frv., sem hér er til umr., var lagt á borð hv. þm.

Ég ætla, að ég hafi nú fært fram fullgildar ástæður fyrir því, að það ber að fella þetta frv. Og ég vil aðeins endurtaka það að lokum, sem ég hef áður sagt, að ég fagna því, að rökstuddar vonir standa til, að svo verði gert, þar sem í þessari hv. deild á sá þm. sæti, sem ræður úrslitum um afgreiðslu þess, en hefur innan alþýðusamtakanna beitt sér sérstaklega fyrir því, að þessi óréttláti og almenningi þungbæri skattur verði af tekinn, eins og lög standa til. En verði þetta frv. fellt hér í hv. þd., hlýtur afgreiðsla fjárlaga að koma til nýrrar endurskoðunar og þá jafnframt öll sú stjórnarstefna, sem nú ógnar í senn bæði atvinnulífinu í landinu og lífskjörum almennings, og hygg ég, að ekki yrði unnið þarfara né þakklátara verk af hendi alþjóðar.

Ég held, að ég sé ekki orðinn hv. frsm. meiri hl. fjhn. skuldugur, svo að teljandi sé, nema vera kynni, að hann ætti inni hjá mér svar við spurningu, sem hann beindi til mín sérstaklega í lok máls sins og hafði við orð, að mér yrði stefnt fyrir einhvern æðri dóm, ef ég gerði ekki nú þegar grein fyrir henni. Spurningin var um það, hver trygging væri fyrir því, að kauphækkanir rynnu nú ekki út í sandinn, ef ég og mínir samherjar fengjum því ráðið, sem við leituðumst nú við, eins og hann orðaði það, að farið yrði í almenn verkföll. Ég kannast ekki við það, að ég eða mínir samstarfsmenn í verkalýðsfélögunum hafi sérstaklega sem númer eitt hvatt til verkfalla. Við höfum krafizt leiðréttingar á launakjörum almennings, eins og við teljum efni standa til, og við höfum krafizt þess, að ríkisstj, gerði raunhæfar ráðstafanir til þess að bæta lífskjörin frá því, sem nú er, og skila nokkru af því, sem hún hefur af launamönnum tekið. En ég hygg, að það séu ýmsir fleiri, sem muni þá þurfa að svara til saka í þessu efni, sem hv. frsm. ræddi hér um, eins og t.d. hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ), hv. 12. þm. Reykv. (PS), flokksbróðir frsm., Guðjón Sigurðsson og ýmsir fleiri, en í till., sem þessir menn báru fram á síðasta Alþýðusambandsþingi, segir svo, eftir að upp hafa verið taldar ýmsar kröfur á hendur ríkisstj., eins og t.d. númer eitt almenn lækkun á vöruverði, m.a. með niðurfellingu viðaukasöluskatts í tolli, lækkun aðflutningsgjalda og ströngu verðlagseftirliti, að útsvör á láglaunafólki verði lækkuð verulega og vextir verði lækkaðir á íbúðarlánum og lánum til framleiðsluatvinnuveganna; enn fremur, að almenn vinnuvika verði stytt um 4 klst., laun verkakvenna verði hvergi lægri en 90% af hliðstæðum launum karla, og ýmsar fleiri kröfur, sem þeir settu þar fram — og eftir að þeir hafa talið þessar kröfur fram, segja þeir, með leyfi forseta:

„Verði ekki, svo að viðunanlegt sé að dómi verkalýðsfélaganna, orðið við þeim kröfum, sem að framan greinir, lítur þingið svo á, að ekki verði komizt hjá því að setja fram beinar kaupkröfur, er bæti þá kjararýrnun, er orðið hefur.“

Það er svo sem ekkert um að villast, hvar þessir menn standa, eftir að þetta frv. og allar undirtektir ríkisstj. við þessar kröfur eru ljósar. Ég sé ekki betur en þeir séu límdir upp við hliðina á mér og öðrum samherjum mínum innan verkalýðshreyfingarinnar um það að krefjast hærri launa. Hitt er svo annað mál, hvenær full trygging er fyrir því, að launabarátta leiði til varanlegrar hagsældar, að full trygging sé fyrir því, að ríkisvaldið taki það ekki aftur. Ég held, að slík trygging verði aldrei til. Ég held, að lífskjörin séu eitt af því, sem launamenn og almenningur í landinu verður alltaf að vera að berjast fyrir, með þessum hættinum eða hinum. En næst mundi verða því að ná slíkri tryggingu, ef í landinu væri ríkisstj., þar sem verkalýðshreyfingin hefði veruleg áhrif og tryggði það með áhrifum sínum á löggjafarvaldið, að framleiðsluaukningin yrði t.d. nægilega ör til þess að halda uppi batnandi lífskjörum og tryggði það, að skipting þjóðarteknanna væri sem réttlátust. Ég er sannfærður um það, að verkalýðshreyfingin mun, þó að það kunni eitthvað að dragast, skapa sér slíka tryggingu. En það gerir hún vitanlega ekki, meðan hæstv. núv. ríkisstj. er við völd í landinu.