28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (2650)

188. mál, alþingishús

Frsm. (Jón Kjartansson forstjóri):

Herra forseti. Fyrir nokkru var lögð fram á fundi sameinaðs Alþingis till. til þál. um alþingishús. Till. var á þskj. 362, og flm. voru hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) og hv. 3. þm. Vesturl. (HS). Gert var ráð fyrir því í till., að Alþingi kysi 5 manna n., er ynni að því í samráði við hæstv. ríkisstj. að gera till. um stækkun alþingishússins eða byggingu nýs þinghúss eftir því, hvort betur leysti þörf Alþingis fyrir viðunandi húsnæði.

Þegar mál þetta var á dagskrá, urðu litlar umr. um það, þótt segja verði, að þar hafi verið stórt mál á ferðinni. Hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) kvaddi sér þó hljóðs og ræddi þetta mál nokkuð. Taldi hann sig efnislega samþykkan því, að eitthvað yrði gert í þessu aðkallandi máli, en lýsti sig hins vegar andvigan till., eins og hún var flutt af hv. flm., og bar hann fram á þeim fundi till. til rökst. dagskrár, sem var efnislega á þá leið, að í trausti þess, að forsetar þingsins tækju þetta mál til athugunar, væri tekið fyrir næsta mál á dagskrá.

Þegar þessi dagskrártill. var komin fram, virtist mönnum svo, að þessu þingi lyki án þess, að samkomulag næðist um að kjósa n. til að athuga þetta mál í samráði við hæstv. ríkisstj.

Hæstv. forseti sameinaðs Alþingis var einn meðal þeirra þm., sem töldu það miður, að þetta þing lyki störfum án þess, að nokkuð yrði að gert í þessu máli, og beitti hann sér meðal annarra fyrir því, að allshn. Sþ. hélt fund í morgun, ræddi þáltill. og dagskrártill. Eftir nokkrar umræður í n. náðist samkomulag, sem birt er á þskj. 698, og hefur því verið útbýtt í þinginu í dag.

Enda þótt hér sé um viðamikið mál að ræða, sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um það frekar, en mæli með því fyrir hönd allshn., að brtt. á nefndu þskj. verði samþykkt.