28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (2655)

221. mál, úthlutun listamannalauna 1961

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Snemma á þessu þingi var lagt fram stjórnarfrv. um listamannalaun. Með því að búizt var við, að það frv. yrði afgreitt í einhverri mynd, var sleppt úr fjárl. ákvæði um það, hvernig úthluta skyldi þeirri upphæð, sem þar er veitt til skálda, rithöfunda og listamanna, en undanfarin ár hefur slíkt ákvæði verið í fjárl.

Nú hefur farið svo, að mál þetta hefur ekki náð fram að ganga. Því var vísað til menntmn. Nd., en skömmu eftir að það kom þangað, bárust n. boð frá flytjendum frv. eða hæstv. menntmrh. um það að láta afgreiðslu þess bíða, þar eð væntanlegar væru endurskoðaðar till. um ýmis atriði málsins.

Af þessum ástæðum lá málið um kyrrt hjá menntmn. En þessar till. frá hæstv. menntmrh. urðu síðbúnar og komu ekki fram fyrr en svo seint á þinginu, að menntmn. taldi augljóst, að ekki væri hægt að afgreiða málið, þar sem till. voru þegar eftir flutning þeirra mjög umdeildar.

Þegar menntmn. fjallaði um þessar till. og sendi þær til umsagnar nokkurra aðila, var n. ljóst, að þinginu mætti ekki ljúka svo, að það setti ekki eitthvert ákvæði um það, hvernig þeim listamannalaunum, sem fé er veitt til á fjárl., yrði úthlutað að þessu sinni, og n. óskaði eftir því eða lét bóka ósk til formanns n. um að athuga það mál. Það stendur svo í grg. með þessari þáltill., að till. sé flutt samkvæmt ósk menntmn., og á það þá við, að n. óskaði eftir, að það yrði séð til, að einhver slík samþykkt yrði gerð, en það þýðir hins vegar ekki, að nm. hafi rætt, hvernig úthluta ætti, eða séu á nokkurn hátt efnislega bundnir till. Þetta vil ég taka fram til skýringar.

Þegar séð varð fyrir síðustu helgi, að hæstv. menntmrh. mundi ekki koma til landsins aftur fyrir þá helgi. en síðustu forvöð voru að koma fram till., sem gæti náð fram að ganga, þá flutti ég till. um það, að Alþingi kysi n. til þess að skipta þessu fé, og fylgdi í till. þeim hugmyndum, sem siðast höfðu komið fram hjá menntmrh. í brtt. við listamannalaunafrv., sem hann flutti á þskj. 530, en þar gerir hann ráð fyrir því, að Alþingi kjósi fimm menn til þess að annast þessa úthlutun.

Þannig er þetta mál til komið, og tel ég, að eins og sakir standa, Þá sé rétt, að Alþingi kjósi n. til þess að skipta þessari fjárveitingu, og ég að mínu leyti tel rétt að fylgja þeim till., sem fram hafa komið frá ríkisstj. um að hafa Það fimm manna n. Þar að auki vil ég benda á, að á Þessu þingi öllu hefur verið mjög, sterk tilhneiging til þess að hafa fimm manna nefndir, í stað t.d. fjögurra manna, þar sem menn hafa talið, að fimm manna n. gæfi nokkuð skýra og sanngjarna mynd af þingstyrk, og á það ekki eingöngu við ríkisstj., því að slíkar till. hafa líka borizt frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Af þeim ástæðum tel ég eðlilegt, að kosin verði fimm manna n. til þess að skipta þessari fjárveitingu fyrir Þetta eina ár, og þá í trausti þess, að næsta Alþingi leiði til lykta listamannalaunamálið.

Þessi till. mun þurfa að fara til n., og er Þá eðlilegt, að hún fari til hæstv. fjvn.