28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (2656)

221. mál, úthlutun listamannalauna 1961

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Á þskj. 681 hefur hv. 4. þm. Sunnl. flutt brtt. við till. þá til þál., sem hér liggur fyrir, en hv. 4. þm. Sunnl.. hefur af sérstökum ástæðum fjarvistarleyfi á þessum fundi, svo sem lýst hefur verið af forsetastóli. Ég vil því leyfa mér í forföllum hans að segja örfá orð um brtt. þá, sem prentuð er á þskj. 681.

Um allmörg ár hefur þeirri skipan verið fylgt um úthlutun listamannalauna, að því fé, sem veitt hefur verið í fjárlögum í því skyni, hefur verið skipt af fjögurra manna þingkjörinni nefnd samkvæmt ákvæðum í fjárlögum hvers árs.

Fyrir þessu þingi liggja ýmsar till. um breytingu á þessari skipan. Það er í fyrsta lagi frv., sem hæstv. menntmrh. flutti í Nd., og í öðru lagi frv. um Listlaunasjóð Íslands, sem flutt er af hv. 1. þm. Norðurl. e., er var lagt fyrir hv. Ed. og, hefur verið til athugunar hjá menntmn. þeirrar deildar. Og nú fyrir nokkru flutti hæstv, menntmrh. brtt. við það frv., sem hann lagði sjálfur fram snemma á þessu þingi, sem fela í sér mjög gagngerar breytingar á ákvæðum stjórnarfrv. Menntmn. beggja deilda hafa því haft þessi mál til athugunar, og í þeim till., sem fyrir liggja í báðum d., er mikill efniviður í heilsteypta löggjöf um þessi efni. Hins vegar er það nú sýnt, að það vinnst ekki tími til að setja nýja löggjöf um þetta mál á þessu þingi, og þess vegna er hnigið að því ráði að bera fram þáltill. þá, sem hér liggur fyrir. En þar sem augljóst er, að innan skamms mun verða sett löggjöf um nýja skipan þessara mála. virðist vera alls kostar eðlilegt, að nú í þetta sinn sé þeirri skipan haldið óbreyttri, sem gilt hefur að undanförnu, og fjögurra manna nefnd falið að þessu sinni að hafa skiptingu fjárins með höndum, og við þetta er brtt. á þskj. 681 miðuð.