28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (2658)

221. mál, úthlutun listamannalauna 1961

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er tillaga flm., að þessari till. til þál. verði vísað til hv. fjvn., og ég vil leyfa mér að beina til n. áskorun um það að laga tillöguna. Fyrst og fremst er það, að ég tel, að inn í till. eigi að taka brtt. hv. 4. þm. Sunnl. um, að úthlutun listamannalaunanna á þessu ári verði falin fjórum mönnum, eins og verið hefur upp á siðkastið, en ekki fimm. Úthlutun listamannalauna er mikið vandamál, viðkvæmt og eldfimt. Ýmsar aðferðir hafa verið hafðar við skiptingu launanna, en engin gefizt vel. Það er óhætt að segja, Nauðsynlegt er, að sett verði löggjöf um það, hvernig ráðstafa skuli fé því, sem Alþingi veitir árlega til að launa listamenn, svo að festa fáist um þá hluti.

Eins og tekið var fram hér áðan, liggja fyrir þessu Alþingi frumvörp til löggjafar. En um þau hefur ekki fengizt samstaða til afgreiðslu, og sýnt er, að þess vegna verður ekki löggjöf sett á þessu þingi. Þar af leiðandi er það rétt, sem hv. flm. till. sagði. að gera verður einhverja ráðstöfun til úthlutunar Þeirri fjárhæð, sem nú er á fjárlögum til launa listamönnum. En sú ráðstöfun, sem nú yrði gerð, verður að skoðast sem bráðabirgðaráðstöfun, því að það verður að teljast ólíklegt, að Alþingi geti ekki komið sér saman um löggjöf, er skipi þessum málum til einhverrar frambúðar. En af því að málið er viðkvæmt og eldfimt, eins og ég sagði, tel ég friðvænlegast að hafa þá aðferð að þessu sinni, sem höfð hefur verið síðustu ár. Ég hygg, að það mundi líklegt til að valda minnstum deilum, bæði utan þings og innan. Það er að vísu rétt, sem hv. flm. till. sagði, að mjög sterk tilhneiging hefur verið á þessu þingi til að skipa fimm manna nefndir. En sú tilhneiging er ekki sprottin af þeirri rót, sem gefur vonir um, að friðsamlegra verði um þessa nefnd. Þótt hún verði fimm manna nefnd.

Ég held samkvæmt framansögðu, að hv. fjvn. ætti að fella brtt. inn í aðaltillöguna, skipa þannig málum. En svo er fleira, sem gera þarf við þessa till., svo að hún sé frambærileg. Hún er orðuð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd til þess að skipta fjárveitingu í fjárlögum fyrir árið 2961 til skálda, rithöfunda og listamanna.“

Með þessari framsetningu er því eiginlega slegið föstu, að skáld séu ekki listamenn, því að listamenn eru þar að auki. Nú er til að vísu viss flokkur skálds, sem hefur ekki talizt til listamanna, en þá hefur hann haft sitt sérstaka nafn sem skáldflokkur, það eru nefnilega leirskáldin. Ekki býst ég við, að hv. flm. eigi við það, að hin væntanlega nefnd, þó að hún verði fimm manna nefnd, eigi að verðlauna leirskáld. Ég held, að nóg sé að segja: „til listamanna“. Rithöfundar koma að vísu til greina, og það er ekki alveg sjálfsagt, að þeir séu listamenn, en þó mun, þegar um þessa fúlgu fjárveitingar er að ræða, aðallega átt við þá rithöfunda, sem hægt er að flokka undir listamenn.

Ég býst við, að hv. flm. hafi eina afsökun í þessu efni, og hún er máske nokkuð stór. Hún er sú, að á fjárlögum lengi hefur þessi klausa staðið í sambandi við fjárveitinguna. Það er einhver ambögumaður að málfari, sem hefur upphaflega komið þessu inn, og svo hefur Þetta staðið þarna óhreyft, staðið, eins og oft er með vitleysur, án þess að menn beinlínis tækju eftir því, að hér væri vitleysa á ferðinni. Það er með ýmsar vitleysur þannig, að með tímanum taka menn ekki eftir þeim frekar en þeir heyra klukkuna ganga. Þeir venjast þessu. En þegar farið er að taka þetta upp á sérstöku þingskjali og án þess þá að hafa það innan gæsalappa, þá er það óþolandi, — raunverulega óþolandi líka innan gæsalappa.

Ég er alveg viss um það, að hver sæmilegur barnakennari mundi leiðrétta þetta í stíl hjá átta ára barni.

Þess vegna álít ég, að það sé tvennt, sem hv. fjvn. eigi að gera: taka brtt. upp í aðaltill. og laga málið á till. Ég vil benda á, að það er alveg nóg að segja þarna: „til listamanna“. Skáld eru listamenn, það veit ég að hv. flm. samþykkir, og rithöfundar þeir, sem þarna eiga að koma til greina, eru þeir rithöfundar, sem má flokka undir það að vera rithöfundar af list.