12.12.1960
Efri deild: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

130. mál, söluskattur

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er nú sennilega mál, að ég láti til mín heyra í þessum umr., svo mjög sem hv. stjórnarandstæðingum hefur orðið tíðrætt um mína fyrri afstöðu til þessa máls og afstöðu mína á síðasta Alþýðusambandsþingi, í flokksfélögum og víðar, og ætla ég mér í leiðinni að fara nokkuð almennt orðum um málið, þar sem tilefni hefur verið til þess gefið.

Við 1. umr. þessa máls véku hv. stjórnarandstæðingar máli sínu mjög að Alþfl., báru saman afstöðu hans til skattamála fyrr og nú, vitnuðu til gamalla ummæla forustumanna flokksins, m.a. um álagningu söluskatts á fyrri þingum.

Í öllum þessum samanburðartilraunum gætti þess mjög, sér í lagi hjá hv. framsóknarmönnum, að þeir höfðu þungar áhyggjur, svo að vægt sé að orði komizt, af pólitískri framtíð Alþfl. og töldu hana í tröllahöndum, þaðan sem fáum mundi auðnast að bjarga honum, nema ef vera kynni þá hinum frelsandi konungssyni, Framsfl. Í þessu andvökuástandi og þungum þönkum framsóknarmanna vil ég aðeins minna þá á, að það er aðeins rúmt ár síðan þeir lýstu því yfir allmargir, einmitt úr þessum sama ræðustól, að Alþfl. mundi ekki lifa af vorkosningarnar 1959, þess vegna væri óþarfi að breyta kjördæmaskipuninni hans vegna, eins og þeir sögðu. Þegar flokkurinn svo jók fylgi sitt í þessum kosningum, þá var framsóknarmönnum nokkur vandi á höndum. En flokkurinn var ekki lengi að finna ráðninguna á þessari fylgisaukningu. Nú var bara sagt, að Sjálfstfl. hefði leigt, lánað og selt fylgi sitt yfir til Alþfl. og það mundi sannast á fylgishruni flokksins í haustkosningum. Nú fór sem fyrr, að hinn vondi Alþfl. jók fylgi sitt í haustkosningum og það svo, að sýnilegir áverkar, sem flokkurinn hafði af ýmsum ástæðum — ég segi ýmsum ástæðum — áður hlotið, voru horfnir. Ég læt þetta nægja til að sýna fram á spámannlegan vöxt þeirra framsóknarmanna, þegar þeir gera sig líklega til þess að spá um framtíð Alþfl.

Alþfl. hefur ekki til þessa stafað neinn ótti af eða hann þurft að hræðast spádóma Framsfl. Óskhyggjan um tortímingu Alþfl. sýnir bezt, hvert hugarástand ríkir nú á heimili framsóknarmanna, auk þess sem beinar aðgerðir flokksins undanfarna mánuði vitna ef til vill bezt þar um.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) gerði sér mjög tíðrætt í ræðu sinni um þá algeru stefnubreytingu, sem orðið hefði á grundvallarstefnu Alþfl. almennt í skattamálunum. Þm. virtist furðu lostinn yfir þessari stefnubreytingu og lét sem svo, að Alþfl. væri nú fyrst eftir tvennar alþingiskosningar og stórpólitísk umbrot með þjóðinni að upplýsa þessa stefnubreytingu sína. Þessi hv. þm. sat sjálfur oft á Alþingi sem varamaður á síðasta kjörtímabili, þ.e. fyrir hinar tvennar almennu alþingiskosningar síðustu, og hefur áreiðanlega þess á milli fylgzt vel með gangi þjóðmála innan þings og utan. Það verður því að fyrirgefast, þótt tekið sé varlega á slíkum málflutningi, þegar eftirfarandi atriði eru upplýst, sem þó skal gert einu sinni enn.

Á flokksþingi Alþfl. 1956 voru skattamál rædd ýtarlega og um þær umræður deilt mikið í blöðum flokksins og útvarpi. Umræður þessar snerust að .mestu leyti um að breyta tekjuöflunarleiðum ríkisins, m.a. með lækkun beinna skatta. Endanleg ákvörðun var ekki tekin þá, en málið þar á eftir mjög rætt í flokksfélögum og samþykktir þeirra birtar opinberlega í blöðum. Á Alþingi 1957 fluttu allir þáverandi þm. flokksins, sem sátu ekki í ráðherrastólum, þingsályktun þess efnis, að fram færi athugun á afnámi tekjuskatts og lækkun útsvara, auk breyttrar innheimtuaðferðar á þeim opinberu gjöldum, sem einstaklingar yrðu að greiða. í

Þingsályktun þessi var samþykkt hér á Alþingi 30. maí 1958.

Á þingi flokksins haustið 1958 var einróma samþykkt stefnuyfirlýsing í þessum málum á grundvelli fyrri umræðna og fyrrnefndrar þingsályktunar og ýtarlegra umræðna í hinum ýmsu deildum flokksins og málgögnum hans.

Á nýafstöðnu þingi flokksins var enn ítrekað hið breytta viðhorf flokksins í þessum málum og í stuttu máli færð fyrir því rök, sem grundvallast á gerbreyttum aðstæðum íslenzkrar alþýðu og landsmanna yfirleitt frá því, er hin fyrri stefna var tekin. Miðað við staðhætti þá og nú var stefnan í báðum tilfellum rökrétt og nákvæmlega rökstudd. Alþfl. hefur í þessu máli sem öðrum reynt að forðast það í almennum málum að verða taglhnýtingur steinrunninna kennisetninga. Kennisetningar eru góðar. En tímans tönn hefur unnið á því, sem meira hefur mátt sín í fari þjóðarinnar en 40 ára gömul stefna í skattamálum. Forusta og framsýni stjórnmálaflokka byggist á því, að þeir hafi djörfung til að viðurkenna í verki breytta þjóðfélagshætti. Eða hver vill segja, að aðstaða og viðhorf manna sé nú sama og í árdögum þessarar aldar? Það mun enginn gera. Alþfl. telur nú að vel athuguðu máli, að þessi breyttu viðhorf, stefnan inn á meiri óbeina skatta í stað beinna, sé stefna framtíðarinnar. Þess vegna mun hann við svipaða staðhætti ótrauður halda þá braut í anda þeirrar stefnu.

Af því, sem ég nú hef hér sagt, ætla ég, að það verði ekki með neinum rökum sagt, að Alþfl. sé nú fyrst, eins og komizt var að orði, að birta umbjóðendum sínum hin breyttu viðhorf. Um þessa stefnu hefur tvisvar verið kosið í almennum þingkosningum með þeim árangri, sem ég áðan lýsti.

Í sambandi við það mál, sem hér er á dagskrá, framlengingu 8% söluskatts í tolli, var þessum sömu þm. og þó sérstaklega hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) tíðrætt um og mjög hugsað til persónulegrar velferðar mínnar í stjórnmálum, og hann ítrekaði þessar yfirlýsingar sínar aftur nú og treysti að sjálfsögðu á þær, eins og ég veit að hann hefur margoft sýnt áður, að hann ber til mín ákaflega mikið traust, þó að það traust hafi ekki sýnt sig við þær tillögur, sem hann var að vitna til á síðasta Alþýðusambandsþingi, og ég minnist þess ekki, að hann hafi léð tillögum okkar fylgi þar, þó að þær hins vegar þyki góðar til þess að smjatta á þeim nú. Þar á meðal var til þess vitnað, að ég hefði lýst því yfir með atkvæði mínu og í ræðum á Alþýðusambandsþingi, að ég vildi afnám þessarar skattheimtu. Auk þeirrar afstöðu minnar var vitnað til, að Alþýðuflokksfélag Reykjavíkur og ef til vill fleiri hópar minna flokksbræðra vildu afnám þessarar skattheimtu. Af því að það kom fram og líta verður svo á, að flest ljós séu nú að slokkna fyrir okkar ágætu stjórnarandstöðu, þá vil ég upplýsa hana í þessu myrkri um það, að sennilega er þetta það sannasta, sem fram kom í þeirra málflutningi við 1. umr. málsins. Ég hef ekkert farið dult með þessa skoðun mína, að ég vildi stuðla að afnámi þessa skatts. Hins vegar liggja fyrir ákveðnar staðreyndir, sem mér eins og hv. stjórnarandstæðingum ber skylda til þess að horfast í augu við.

Skattur þessi á að gefa íslenzka ríkinu 168 millj. á næsta ári. Að afnema þessar tekjur þýðir því annað tveggja, að draga verður úr útgjaldaliðum ríkisins jafnháa upphæð eða að öðrum kosti vísa á aðra jafntrygga tekjulind, sem við teldum æskilegri. Þrátt fyrir þá óbreyttu skoðun mína að vinna að afnámi þessa skatts, hef ég ekki frekar en hv. stjórnarandstæðingar í dag nægjanlega vel rökstuddar tillögur í þessum efnum, og því miður hafa slíkar tillögur ekki heldur birst í ykkar málflutningi, góðir stjórnarandstæðingar. Ég læt mér ekki á sama standa, úr hvaða útgjöldum ríkisins verður dregið eða inn á hvaða nýjar skattheimtubrautir verður lagt. Og ég er þess fullviss, bæði eftir umr. á Alþýðusambandsþingi, í miðstjórn Alþýðusambandsins og annars staðar, þar sem flokksbræður hv. 5. þm. Norðurl, e. hafa átt hlut að þessum málum, að þá er þar m.a. sá ótti, sem mjög hefur borið á í þessum umr., að við viljum jafnframt kröfunni um það að fá afnám þessa skatts hafa hönd í bagga með, inn á hvaða tekjuöflunarleiðir yrði lagt á ný eða úr hvaða útgjöldum ríkisins yrði dregið. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir því, að þessi hv. þm. eða flokksbræður hans vildu t.d. draga úr þeim stuðningi, sem örkumla fólk og sjúkt í landinu fær í gegnum núverandi almannatryggingakerfi, en það er vitað, að allverulegur hluti þessara tekna fer til þeirra hluta. Í stað þess hluta verður að finna nýja tekjuöflun. Meðan kröfur minar í þessum efnum eru ekki betur rökstuddar en raun ber vitni um og þá jafnframt ekki heldur hv. stjórnarandstæðinga, þá lýsi ég þeirri skoðun minni, að á meðan svo er ástatt, þá tel ég ábyrgðarlaust og nálgast sýndarmennsku eina að greiða atkvæði gegn frv. Fyrir verða að liggja ákveðnar og raunhæfar tillögur í þessum efnum. Ég mun eftir sem áður halda áfram, eftir því sem aðstaða mín leyfir, — og ég verð nú að segja, að þrátt fyrir það ofurtraust, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. virtist áðan til mín hafa, þá treysti hann mér þó ekki til þess að vinna að þessum málum fyrir Alþýðusambandið áfram, þó að hann virtist vilja láta þdm. halda, að hann hefði eitthvert sérstakt ofurtraust á mér í þessum málum, — ég mun halda áfram, eftir því sem aðstaða mín leyfir, að reyna að fá fram þann vilja minn, að óþarft verði að innheimta þennan skatt. En mér er fyllilega ljóst, að í því efni dugir ekki kröfugerðin ein, þar verða jafnframt til að koma undirbúnar tillögur, betri en nú liggja fyrir, annars væru slíkar kröfur blekkingar. Og það var áreiðanlega ekki meining þeirra, sem lýst hafa sig andviga skattheimtu þessari, að fara með slíkt, það verð ég að fullyrða, jafnvel fyrir hönd flokksbræðra hv. 5. þm. Norðurl. e.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. lýsti því yfir, að hann teldi það höfuðatriði — já, höfuðmál þjóðarinnar nú, að hæstv. ríkisstj. færi frá völdum sem fyrst, það væri ráðið við öllum aðsteðjandi erfiðleikum. Að sjálfsögðu er engin ríkisstj. eilíf í lýðræðislegu skipulagi. En íslenzku þjóðinni nægir ekki það eitt, að nákvæmlega séu upp talin þau atriði, sem ríkjandi ríkisstj. eigi ekki að gera. Það eru jafnframt gerðar kröfur til þess, að þeir hinir sömu segi frá því skýrt og skorinort, á hvern annan hátt eða annan veg þeir hyggist leysa þann efnahagslega vanda, sem velflestir eru sammála um að fyrir hendi sé. Við vitum m.ö.o., hvað það er, sem þeir eru á móti. Ég vænti þess nú, að hv. stjórnarandstæðingar skýri ljóslega frá því, á hvern hátt þeir vilji eða mundu leysa aðsteðjandi vandamál. Fyrr en það hefur verið gert, geta þeir ekki vænzt þess, að neikvæðar ræður einar og skrif verði tekin alvarlega. Þetta leyfi ég mér að segja, þrátt fyrir þær afsakanir og úrræðaleysi, sem komið hefur fram í ræðum þeirra tveggja frsm., sem minni hl. fjhn. skipuðu.