28.03.1961
Sameinað þing: 59. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (2663)

221. mál, úthlutun listamannalauna 1961

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég stóð í þeirri meiningu í dag, þegar verið var að ræða það mál, sem hér liggur fyrir, að við værum senn komnir að þinglokum og þess vegna væri máske ekki rétt að fara að flytja mjög veigamiklar brtt. við þau mál. sem fyrir kæmu, og hef hagað mér samkvæmt því.

Nú virðist mér hins vegar nokkuð annað vera upp á teningnum. Mér sýnist, að það eigi nú fyrst að fara að byrja fyrir alvöru á þinginu, frv., sem liggi fyrir og menn hafa verið ósköp rólegir með alveg fram á síðustu daga, eigi nú að fara að taka hér mjög langan tíma og eigi að fara að gera stórbreytingar á gömlu og hefðbundnu fyrirkomulagi.

Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, er til komin, að því er mér skilst, vegna þess, að hér hafa legið fyrir frv., m.a. stjórnarfrv. um, hvernig úthluta skuli listamannalaunum, frv., sem að því er ég fæ bezt skilið hafa verið samþ. í ríkisráði og lögð hér fyrir og hafa átt að hafa hér meiri hl. þings á bak við sig, og samt sem áður hafa þessi frv. ekki verið afgreidd. Það hefur verið talað nokkuð við stjórnarandstöðuna um sumt af þessum frv., og ég er ekki alveg viss í, hvernig þessu hefur lyktað, að stjórnarfrv, um þessi mál skuli ekki einu sinni hafa gengið fram. Mér virðist, að menn hafi þó í sambandi við þessa hluti viljað taka visst tillit um þau mál. t.d. á hvern hátt listamannalaunum væri úthlutað, menn hafi verið á því, að þegar svona stofnun eins og sú, sem úthlutar listamannalaunum, sé sett á laggirnar, þá sé æskilegt, að það sé gert a.m.k. með sem mestu samkomulagi á Alþingi. Og mér sýnist, að það hafi verið af hálfu hæstv. ríkisstj. og sérstaklega kannske hæstv. menntmrh. sýnd sú tilhliðrun í þessu sambandi, að meira að segja frv.. sem eru stjórnarfrv. og eiga þess vegna samkvæmt sínu eðli að vera örugg í gegnum Alþingi, séu ekki látin ganga áfram, séu stöðvuð. Ég verð að segja það, að þegar verið er nú að sýna svona tillitssemi af hálfu hæstv. ríkisstj. í sambandi við einmitt slík mál, sem eru viðkvæm, þá álít ég, að það væri til fyrirmyndar fyrir hæstv. ríkisstj. að sýna slíka tillitssemi á fleiri sviðum. Sökum þess að það lágu fyrir þmfrv. um þessi mál líka, sökum þess að þessi frv. nú hafa stöðvazt, þá er nú lagt til að afgreiða þetta mál til bráðabirgða á þann máta, sem hv. fjvn. nú er a.m.k. að miklu leyti sammála um, úr því sem komið er.

Nú sýnist mér, að á þessum að ég hélt síðustu dögum þingsins sé mjög aukin tilhneiging til þess að setja á stofn ný embætti, og jafnvel í máli, sem við vorum t.d. að ræða áðan í Nd., tilhneigingar til þess að fjölga ýmsum stjórnarnefndum og öðru slíku og yfirleitt ekki hirða sérstaklega mikið um það, hvað það kosti almenning að bæta við nýjum embættum. Nú veit ég, að öllum hv. Þm. er ljóst, að hróður Íslands er ekki fyrst og fremst þessir embættismenn, hve góðir sem þeir ella kunna að vera, heldur hitt, að hróður Íslands sé þess skáld og listamenn — eða allir listamenn, ef ég ætti að fara mjög nákvæmlega í það, eins og var verið að ræða hér í dag. Fyrst svo mjög hefur nú breytzt andrúmsloftið í Alþingi á þessum síðustu vikum, að menn hafa orðið miklu ríflegri á ný embætti og fjárútlát. þá hefur mér dottið í hug, hvort ekki mætti nú reyna aftur við tilraun, sem ég gerði í vetur, þegar fjárl. voru til umr.

Á þeirri fjárlagagrein, sem hér er rætt um að úthluta úr, er til skálda, rithöfunda og listamanna 1 millj. 260 þús. kr. og af því fá tvö af okkar helztu skáldum sérstök heiðurslaun. Það hefur oft verið sýnt fram á það í umr. hér um þessa gr., að það, sem nú séu heiðurslaun á Íslandi, séu miklu lægri skáldalaun en það, sem þóttu smánarlaun og sultarlaun fyrir hálfri öld. Það gamla, fátæka Alþingi virðist aldrei ætla að bíða þess bætur að hafa ekki úthlutað Þorsteini Erlingssyni nema 600 kr. Það virðist loða við það eins og blettur. En það, sem við úthlutum nú til okkar skálda, nær aldrei slíku hámarki sem sultarlaunin voru þá, og það hefur verið reynt að fá þetta hækkað. Ég lagði til, að það yrði tvöfaldað, þegar þetta var rætt í vetur, að það yrði sett 21/2 millj. þarna, en það var fellt, og minni upphæð, um 1 millj., var felld.

Nú vildi ég reyna, með tilliti til þess, að menn virðast vera orðnir ríflegri á fjárútlát úr ríkissjóði, hvort ekki væri nú nokkur leið til þess að fá, þótt með sérstökum hætti væri og af því að ég hélt, að það væri komið seint á þingi, nokkru ríflegri fjárupphæð til útbýtingar. Ég held, að flestir þeir, sem við þessa úthlutun hafa fengizt á undanförnum árum, hafi verið sammála um, að það, sem þeim hafi verið erfiðast, hafi verið, hve upphæðin var lág. Ég vildi þess vegna leyfa mér að flytja nú svo hljóðandi brtt. við þessa þáltill.:

„Aftan við tillgr. bætist: Auk þess fjár, sem veitt er á fjárlögum fyrir árið 1961 í þessu skyni, skal n. úthluta 500 þús. kr. til viðbótar úr ríkissjóði.“

Ég skal taka það fram, að ég hefði ekki farið að koma fram með þessa till. svo seint, ef ég hefði ekki haldið, að það væri alveg að ljúka hér hjá okkur málum, og ég hefði annars komið með þessa till. við fyrri hluta umr. um þessa þáltill., sem kom fram í gær. Ég verð að biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir þessari brtt., vegna þess að hún er bæði skrifleg og of seint fram komin, og mér er líka ljóst, að það væri æskilegt, að hv. fjvn. gæti um þessa till. fjallað, þannig að henni gæfist til þess nokkurt tóm, því að ekki er eðlilegt, að svona fjárveitingar séu veittar úr ríkissjóði, nema fjvn. hafi um þær fjallað áður.

Það er að vísu engan veginn skemmtilegasta aðferðin að veita fé úr ríkissjóði að gera það með þáltill., en hefur þó oft verið gert, þó að það sé ekki að öllu leyti góð fyrirmynd. En ég þykist hafa mér það til varnar, að ég hef áður reynt, í sambandi við fjárlögin, að koma fram með slíka breytingu. Ég held Þess vegna, ef nú á að fara að gefast enn þá alllangur tími til umræðna á Alþingi og jafnvel fresta því fram yfir páska, að við ættum líka að athuga, hvort við eigum ekki að skiljast betur við þetta mál en aðeins með þessari þáltill., sem hér hefur verið lögð fram, um nefndarskipunina. Mér er satt að segja ekki alveg ljóst og hefði gjarnan viljað fá um það upplýsingar, á hverju það raunverulega hefur strandað, að þau frv., sem fyrir lágu, komust ekki í gegn. Og ég á satt að segja dálítið bágt með að skilja það, ef stjórnarfrv., sem eru búin að liggja alllengi til athugunar í nefnd og hafa áður verið vandlega undirbúin af milliþinganefndum, geta ekki náð fram að ganga, hvernig menn ætlist þá til þess, að þingmannafrv., sem eru lögð fram á síðustu stundu þings og hafa ekki verið að neinu leyti vel undirbúin, eigi að ná fram að ganga.

Þetta þætti mér sem sé vænt um að fá upplýsingar um, fyrst okkur þm. á nú að fara að gefast lengri tími en ég hafði hugsað, þegar ég kom til þessa þings í dag, til að ráðgast um okkar mál.

Ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða.