25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (2677)

149. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér er ljúft að taka undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um samstarf okkar. Það var mjög gott í þeirri n., sem fjallaði um jafnvægismálin á sínum tíma, og ég minnist þess með ánægju. En ég heild, að hv. þm. hafi nú kannske látið helzt til mikið um mælt í þessum umr., sem hér hafa farið fram, og kannske skilið meðferð þessa máls nokkuð á annan hátt en eðlilegast væri, a.m.k. frá mínu sjónarmiði. ég vil taka það fram og benda á, að í sambandi við frv. okkar frá 1956 er varla ástæða til að tala um, að þar sé sérstaklega verið að rétta hlut sveitanna. Ég mundi fremur orða það á þann hátt, að þar væri verið að rétta hlut dreifbýlisins í sveit og við sjó og þeirrar framleiðslu, sem er sérstaklega mikil í dreifbýlinu, og engu síður framleiðslunnar við sjávarsíðuna en framleiðslunnar í sveitunum og væri jafnt á komið þar.

Um það frv., sem við stóðum að 1956, er það að segja, að það miðaði í þessa átt. En auðvitað verðum við að viðurkenna, að það frv., sem nú liggur fyrir í hv. Ed. og lá fyrir í fyrra, gengur töluvert miklu lengra í þessum stuðningi en okkar frv. gerði á sínum tíma. Við gerðum ráð fyrir, að varið yrði til atvinnuaukningarsjóðsins 5 millj. kr., en hér er gert ráð fyrir allmiklu hærri upphæð. Að vísu hefur verðlag hækkað síðan, en samt er hér raunverulega um allmiklu meira framlag að ræða. Síðan eru liðin nokkur ár, og á þeim tíma gerðist það, að atvinnuaukningarféð var aukið mjög verulega, og sú skoðun vann fylgi hér á Alþingi, að það væri réttmætt að auka þessi atvinnuaukningarframlög. Það veldur því að sjálfsögðu, að nú hafa menn verið við því búnir að fara fram á hærri upphæðir í þessu sambandi en við gerðum.

Ég held, að hv. 1. þm. Vestf., þó að hann að sjálfsögðu vilji líta rétt á þetta mál, — það þykist ég vita, — að þá hljóti hann að hafa misskilið það, sem gerðist á þinginu 1956, og það kom reyndar fram í síðari ræðu hans. Mér heyrðist hann segja það áðan, að framsóknarmenn hefðu lagzt á móti frv., — sem þeir nú ekki gerðu, því að þeir greiddu aldrei atkv. á móti þessu frv. 1956, — til þess að klekkja á Alþb.-mönnum. En það, sem gerðist í þinginu, var það, að þar var samþ. tillaga frá Alþb.-mönnum, að vísu með atkv. framsóknarmanna, og það fer ekki vel saman við það, að þar hafi verið unnið að því að klekkja á Alþb.-mönnum. Hér var sem sagt að mínu áliti ekki um nein svik að ræða, heldur var bara um það að ræða, að mál breyttist í meðferð. Stjórnarfrv. breyttist í meðferð Alþingis undir þinglok, og þegar að því kom, þá mat hæstv. forsrh. þáv. breytingarnar á þá leið, að hann kærði sig ekki um að fylgja frv. fram, og þar af leiðandi dagaði það uppi. Ég fyrir mitt leyti tel, að þessar breyt., sem samþykktar voru á frv., hafi verið til bóta og það hafi ekki verið beint ástæða til þess að láta það stranda af þessum sökum. En eins og ég sagði, þá var þarna liðið að þinglokum, og hæstv. forsrh, hefur e.t.v. ekki unnizt tími til þess að átta sig á þeim breyt., sem þarna var um að ræða. En á þennan hátt dagaði málið uppi. Ég held, að það liggi ekkert fyrir í gerðum þingsins eða þingtíðindum um það, að þar hafi verið um nein svik að ræða af neins hálfu, og mér dettur ekki í hug að halda því fram um hæstv. forsrh., að hann hafi framið þar nein svik, þó að hann hafi hætt við að fylgja málinu fram þarna undir þinglokin og það þar af leiðandi dagað uppi.