28.03.1961
Sameinað þing: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í D-deild Alþingistíðinda. (2681)

149. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég, verð víst að byrja á því að leiðrétta það, sem stendur á þskj. 591, að hv. 1. þm. Vestf. sé frsm. meiri hl. n., því að eins og menn geta séð á þskj., þá skrifa þrír nm. undir hvort álit. Þetta stafar þó ekki af því, að þeir, sem gengu frá þessum þskj.. hafi ekki viljað skýra rétt frá, heldur stendur það í sambandi við það, að ekki voru allir mættir á nefndarfundi þeim, sem tók ákvörðun um afgreiðslu þessa máls, og mun hafa verið á það gizkað, að meiri hl. stæði að öðru nál. og minni hl. að hinu. En eins og sakir standa, þá er það nú svo, að hér er ekki um meiri hl. eða minni hl. að ræða, heldur jafnstóra nefndarhluta, sem að þessum nál. standa.

Tillaga sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 257, er flutt af 7 hv. þm. úr báðum d. þingsins, og var fyrsti flm. till. hv. 1. þm. Vestf., sá er þá átti sæti á Alþingi, Sigurður Bjarnason.

Afgreiðslan hefur orðið sú í hv. allshn., að hvorugur nefndarhlutinn hefur fallizt á till. óbreytta, eins og hún lá fyrir. En við, sem stöndum að áiltinu á þskj. 625, þ.e.a.s. hv. 5. þm. Norðurl. v., Jón Kjartansson, hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, og ég, viljum gera orðalag till. töluvert ákveðnara en það var og heldur en það er í brtt. þess nefndarhluta, sem stendur að álitinu á þskj. 591.

Ég get að vísu sagt það, að ég tel, að brtt. sú, sem fram er lögð á þskj. 591, geri orðalag till. nokkru ákveðnara en það var í öndverðu og sé að því leyti til bóta. En samt sem áður virðist mér till., sem þar liggur fyrir, allt of óljós, til þess að ég telji verulegan ávinning að því að afgreiða hana.

Við, sem gefið höfum út nál. á þskj. 625, leggjum til, að tillgr. orðist svo. með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að leggja fyrir næsta Alþingi frv. til laga um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem í meginatriðum verði sniðið eftir frv. því, er nú liggur fyrir Ed. á þskj. 65.“

Við athugun á þessu máli og þessum till. geri ég ráð fyrir, — segi það að gefnu tilefni, — að enginn þurfi að vera í neinum vafa um það, að brtt. á þskj. 625 er miklu ákveðnari en till. á þskj. 591 og segir ýtarlegar fyrir um það, hvernig þeim undirbúningi skuli hagað og þeim tillögum, sem gert er ráð fyrir að fela hæstv. ríkisstj. að gera. Í till. okkar er vísað í ákveðið þskj., ákveðið frv., sem flutt hefur verið á Alþ. og fyrir liggur, og lagt til, að væntanlegt frv. ríkisstj., sem flutt er að hennar tilhlutun, verði í meginatriðum sniðið eftir því frv. Það er sem sagt nokkru ýtarlegar sagt fyrir um það, hver eigi að vera meginatriðin í því væntanlega frv. En úr því að vitnað er í ákveðið þskj. í brtt., þykir mér rétt að víkja nokkrum orðum að þessu þskj., sem vitnað er til í brtt. okkar, þskj. 65.

Þetta þskj. 65 á þessu þingi, sem er eitt af fyrstu málum þingsins, er frv. til l. um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það var flutt á öndverðu þingi af 6 hv. þm. í Ed., og var fyrsti flm. þessa máls hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson. Það er ekki í fyrsta sinn, sem þetta frv. er flutt, því að það var einnig flutt í hv. Ed. á síðasta þingi. Má segja, að þar sé um sama frv. að ræða. Í þessu frv., sem ég nú nefndi, er m.a. kveðið á um, að stofnaður skuli framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður og árlegt framlag til hans 20 millj. kr. í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að úr sjóðnum verði veitt lán til að kaupa eða koma upp atvinnutækjum eða aðstöðu til hvers konar framleiðslu- og atvinnuaukningar, sem til þess eru fallin að efla atvinnulífið í landinu og stuðla að jafnvægi í byggð landsins, að lánin verði veitt sveitarfélögum, samvinnu- og hlutafélögum og einstaklingum og þá fyrst og fremst í þeim landshlutum, sem verst eru á vegi staddir í atvinnumálum, enn fremur að leitað verði umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar, áður en lán er veitt félagi eða einstaklingi. Í frv. er gert ráð fyrir, að skipuð verði sérstök stjórn fyrir framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og að hún geti haft með höndum að gera árlega skýrslu um atvinnuástand og aðstöðu til atvinnurekstrar í einstökum byggðarlögum, eftir því sem ástæða þykir til, og tillögur og áætlanir um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og að lán úr sjóðnum verði veitt með hliðsjón af slíkum tillögum. í frv. eru ýmis ákvæði, sem ég rek ekki hér, en miða að því að styrkja starfsemi sjóðsins. Þar er gert ráð fyrir því, að Framkvæmdabanki Íslands annist dagleg afgreiðslustörf og reikningshald fyrir sjóðinn eftir nánari fyrirmælum sjóðsstjórnar.

Hér hef ég rakið meginatriði þessa frv. Á þskj. 65, sem flutt er að tilhlutan Framsfl. og nú liggur fyrir hv. Ed. í þessu frv. er gert ráð fyrir stofnun sérstaks sjóðs, framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóðs, sem ég nefndi áðan, og í því sambandi sérstakri sjóðsstjórn, og þar er jafnframt, eins og fram kemur í því, sem ég gat um hér áðan, gert ráð fyrir, að þessi sjóðsstjórn verði eins konar áætlunarnefnd, sem starfi stöðugt og hafi með höndum að fylgjast með atvinnulífinu í einstökum landshlutum eða í einstökum byggðarlögum, eftir því sem það er orðað, og að hún geri sínar áætlanir með tilliti til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er sem sagt tvenns konar starfsemi jafnhliða, sem þarna er gert ráð fyrir: lánsstofnunin, framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóðurinn, oh áætlunarstarfsemin, sem hvort tveggja á að vera í höndum sömu stjórnar eða nefndar. Þarna er gerð tilraun til þess að leggja grundvöll að áframhaldandi starfsemi, en ekki tímabundinni. sem miði að því að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Eins og ég sagði áðan, var þetta frv. flutt á síðasta Alþ. og þá einnig í hv. Ed., en það hlaut enga afgreiðslu á því þingi. Snemma á þessu þingi var það svo flutt í annað sinn, eins og ég hef áður sagt. Það er eitt af fyrstu þingmálunum, og því var snemma á þingi visað til nefndar, en þar hefur það enn enga afgreiðslu hlotið. Hins vegar gerðist það, nokkru eftir að frv. var lagt fram í Ed., að sjö hv. þm., sem ég nefndi áðan og allir eru úr hv. Sjálfstfl., lögðu fram þessa till. til þál., sem hér liggur fyrir. Um það væri frá sjónarmiði þeirra, sem vilja stuðla að jafnvægi í byggð landsins, auðvitað ekki nema gott að segja, að slík tillaga skyldi vera lögð fram. Það gat heitið virðingarverð tilraun, þótt till. væri næsta óákveðin, ef það mál, sem ég nefndi áðan, hefði ekki áður legið fyrir þinginu. En þegar á það er litið, að það mál var á öndverðu þingi lagt fyrir og hafði verið lagt fyrir á næsta þingi á undan, á því þingi enga afgreiðslu hlotið og ekki heldur nú, þá er auðvitað auðsætt, hvað hér er á ferðinni. Venjuleg aðferð er sú, þegar þingmenn eða ríkisstj. vilja ekki samþykkja mál, en telja þó ekki beint ástæðu til þess að leggja til, að það verði fellt, að þá er lögð fram svokölluð dagskrártillaga um málið, hvort sem þar er um að ræða frv. eða þáltill., á þeim vettvangi, sem málið hefur verið flutt á, í annarri hvorri d. eða Sþ. — dagskrártill. um málið sjálft, sem felur það í sér, að það verði ekki afgreitt á því þingi, og stundum eru gefnar einhverjar bendingar, sem sýna vilja þingsins í sambandi við einhver atriði, og lagt til að tekið verði fyrir næsts mál á dagskrá. Slík dagskrá hefur ekki verið borin fram við frv. í Ed. um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Málið hefur enga afgreiðslu hlotið og ekki komið fram tillögur um afgreiðslu, en hins vegar er þessi aðferð valin, að leggja fram till. til þál. í Sþ., sem í raun og veru þýðir alveg það sama og borin hefði verið fram dagskrártillaga í Ed., sem hljóðaði eitthvað á þá leið, að í trausti þess, að ríkisstj. léti fara fram þessa og þessa athugun, tæki d. fyrir næsta mál á dagskrá. Í byrjun umr. um þessa till. í Sþ. vakti ég athygli á þessu og þeirri aðferð, sem hér væri viðhöfð. Ég veit ekki, hvort það hefur verið vegna þess eða af öðrum ástæðum, að eftir það var till. ekki tekin til afgreiðslu lengi vel og hefur legið alllengi í hv. allshn. Ef komið hefði til afgreiðslu á málinu fyrr í hv. allshn., mundi ég hafa lagt til fyrir mitt leyti, að þessi till. yrði afgr. með rökst. dagskrá í trausti þess, að frv., sem lægi fyrir Ed., um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, yrði samþykkt á þinginu. En þar sem nú er liðið að þinglokum og nærri má fara um það, að þetta mál. sem enn er í n. í fyrri deild og sætir þeirri aðbúð af hálfu meiri hl. hér í þingi, sem þetta mál hefur sætt, muni ekki verða afgreitt sem lög, þá hef ég heldur kosið og við, sem stöndum að nál. á þskj. 625, að leggja til, að þessi till. frá hv. sjálfstæðismönnum verði samþykkt, enda verði þá orðalag hennar á þá leið, að nokkurn veginn skiljist, hvað við er átt. Sýndist okkur þá einsætt að vísa til frv. í Ed., sem ég hef áður nefnt, og með tilvísun til þess getum við á það fallizt, að till. verði samþykkt, enda verði henni breytt á þá leið, sem segir í brtt. okkar á þskj. 625.