22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (2687)

160. mál, læknaskortur

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 4 öðrum hv. þm. að flytja till. um ráðstafanir vegna læknaskorts, á þá lund, að Alþ. skori á ríkisstj, að gera í samráði við landlækni hverjar þær ráðstafanir, sem mögulegar séu, til þess að útvega lækna í þau læknishéruð landsins, sem nú eru læknislaus, og stuðla að því með öðrum hætti að bæta úr því öryggisleysi, sem fólk þessara héraða á við að búa í heilbrigðismálum. M.a. verði athugaðir möguleikar á að koma upp elli- og örorkuheimilum á hentugum stöðum í strjálbýlinu með fastráðnum læknum. sem gegni jafnframt störfum héraðslæknis.

Læknisþjónusta er meðal menningarþjóða talin með frumstæðustu lífsþægindum. Það er talið, að allir borgarar slíkra þjóðfélaga eigi kröfu til þess að njóta slíkrar þjónustu. Þótt við Íslendingar álítum okkur standa framarlega á sviði félagsmála og viljum tryggja fullkomið félagslegt öryggi í landi okkar, brestur þó mjög á það, að allir landsmenn njóti þess öryggis, sem góð læknisþjónusta veitir, í heilum héruðum er nú svo komið, að þar fást ekki læknar og fólk verður að sækja um torsótta óravegu til þess að komast á læknisfund. Því miður fara þessir erfiðleikar vaxandi.

Þessi héruð eru nú samkv. upplýsingum landlæknisskrifstofunnar læknislaus: Árneslæknishérað í Strandasýslu, Flateyjarlæknishérað í Barðastrandarsýslu, Reykhólalæknishérað í Barðastrandarsýslu, Súðavíkurlæknishérað í Norður-Ísafjarðarsýslu, Kópaskerslæknishérað í Norður-Þingeyjarsýslu, Bskkagerðislæknishérað í Norður-Múlasýslu. — Þegar þessi till. var flutt, leit einnig út fyrir, að sjöunda læknishéraðið, þ.e.a.s. Vopnafjarðarlæknishérað í Norður-Múlasýslu, væri að missa lækni sinn, en maður mun nú hafa fengizt þangað til bráðabirgða. Enn fremur er nokkur von um það, að læknir kunni að fást í Súðavikurlæknishérað í Norður-Ísafjarðarsýslu, þó með því skilyrði, að hann sitji ekki á hinu lögboðna læknissetri, heldur á Ísafirði. Auk þessara héraða, sem ýmist eru með öllu læknislaus eða eiga einhverja von í því að fá lækni, voru a.m.k. 3 önnur læknishéruð óveitt, vegna þess að enginn læknir hafði fengizt til þess að sækja um þau. Þau héruð eru Hofsóslæknishérað í Skagafjarðarsýslu, Siglufjarðarlæknishérað og Hólmavíkurlæknishérað í Strandasýslu, en þessum héruðum mun hafa verið ráðstafað til bráðabirgða. En það ætla ég, að menn sjái, hversu ástandið er alvarlegt orðið í þessum efnum, þegar læknar fást ekki einu sinni til þess að sækja um héraðslæknisembætti í kaupstað eins og Siglufirði.

Hér er um mikið og vandmeðfarið vandamál að ræða. Mér er kunnugt um það og okkur flm. öðrum, að bæði hæstv. heilbrmrh. og landlæknir hafa mikinn áhuga á því að ráða fram úr þessu vandamáli og hafa reynt ýmislegt í því skyni. En árangur hefur sáralítill orðið. Læknisleysið hefur í för með sér slíkt öryggisleysi í þeim héruðum, sem við það búa, að það er varla hægt að gera ráð fyrir því, að fólk uni búsetu til lengdar á þeim stöðum á landinu, þar sem ekki næst til læknis. Það má aðeins nefna eitt eða tvö dæmi um það, hvernig ástandið er í þessum efnum nú. Fyrir nokkrum vikum eða tiltölulega fáum dögum beinbrotnar drengur norður á nyrzta bænum í Strandasýslu. Það var haft samband við lækni á Siglufirði um þetta slys, þvert yfir Húnaflóa. Það var ekki hægt að ná á læknisfund með þennan litla sjúkling fyrr en eftir tæpa tvo sólarhringa og þá eftir að vera búið að flytja sjúklinginn á sjó um tveggja til þriggja klukkutíma ferð um opið úthaf og síðan með flugvél til Akureyrar. Þá má einnig benda á það, hversu mikið gagn muni vera að læknisþjónustu, sem fólgin er í því, að fólk við norðanverðan Breiðafjörð út um eyjar og yfir í Barðastrandarsýslu skuli ýmist eiga að sækja lækni til Stykkishólms eða þá til Búðardals.

Frekari dæmi er ekki þörf á að nefna um það, hversu ömurlegt og stórhættulegt ástandið er í þessum efnum í þeim héruðum, sem við læknisleysið búa. En þetta er ekki einungis félagsmál fólksins, sem við læknisleysið býr. Þetta er mikið þjóðfélagslegt vandamál, sem getur, ef ekki verður leyst, haft í för með sér stórkostlega nýja fólksflutninga í landinu, samdrátt framleiðslunnar í heilum landshlutum og mikið tap fyrir þjóðarbúið. Hér er þess vegna ekki um litið mál að ræða, heldur stórt mál og menningarmál. heilbrigðismál og félagsmál.

Ég veit, að hv. þm. munu spyrja, hver sé þá till. okkar flm., sem höfum flutt þetta mál hér inn á Alþ., hvaða leiðir við eygjum til úrbóta í þessum efnum. Við játum hreinskilinslega, að hér er ekki um auðugan garð að gresja, þegar benda á á leiðir til skjótra úrbóta í þessum efnum. En engu að síður eru þó leiðir til, sem kunna að geta bætt úr þessum erfiðleikum.

Í fyrsta lagi leyfum við okkur að benda á það, að hagstæðari kjör lækna í hinum fámennustu og afskekktustu héruðum gætu stuðlað að því, að læknismenntaðir menn fengjust út í þessi héruð. Það er alveg rétt, sem bent er á af hálfu læknanna, að það er ef til vill varla við því að búast, að læknar, ungir eða gamlir, vilji fara út í þessi fámennustu héruð til þess að hafa þar svo að segja ekkert að gera, ryðga meira og minna í sínum vísindum og fræðum og hafa auk þess miklu minni tekjur en starfsbræður þeirra í þéttbýlinu og í hinum fjölmennari læknishéruðum. Nú er það að vísu svo, að samkv. launalögum eru þessir læknar í hinum fámennustu héruðum nokkru betur launaðir en hinir. En það hrekkur engan veginn til. Það er skoðun okkar flm. þessarar till, að í þess um efnum þýði ekki annað en gera sér ljóst eðli málsins og allar staðreyndir. Menn fást ekki til þess að fara sem læknar út í þessi fámennu héruð til þess að ryðga í sinni þekkingu, nema þeim sé borgað verulega og miklu betur fyrir störf sín þar. Ég nefni þetta atriðu fyrst, vegna þess að ég álít það vera eitt meginatriðið, sem stuðlað gæti að úrbótum í þessum efnum.

Í öðru lagi hygg ég, að fullkomnari og betri læknisbústaðir í þessum héruðum gætu átt sinn þátt í því að fá menn til þess að setjast þar að og starfa Þar um lengri eða kannske aðallega skemmri tíma. Það hefur mikið að segja, hvílíkur aðbúnaður mönnum er búinn á slíkum stöðum, og þess vegna held ég, að umbætur á læknisbústöðum í a.m.k. nokkrum þessara héraða gætu reynzt jákvætt úrræði.

Í þriðja lagi brestur nokkuð á það, að nægilega góð samgöngutæki séu fyrir hendi í sumum héruðunum, til þess að læknirinn geti sæmilega auðveldlega ferðazt um og rækt skyldu sína. Með því að afla betri samgöngutækja hygg ég, að enn fremur mætti stuðla að því frekar, að læknar kynnu að fást í héruðin.

Í fjórða lagi má svo hugsa sér, að setja mætti læknastúdenta í ríkara mæli út í héruðin, borga þeim vel fyrir það, þannig að þetta yrði eftirsóknarvert og gæti jafnvel hjálpað ungum og efnalitlum læknum til þess að ljúka sínu námi og verða þjóðfélaginu um leið að miklu gagni á námsárum sínum. Á þessu kann að vera sá hængur, að læknanámið er stöðugt að verða lengra og þyngra, en það verður jafnframt dýrara, og hinir ungu verðandi læknar þurfa þar með frekar á því að halda að vinna fyrir sér nokkuð á námsárum sínum.

Við höfum einnig leyft okkur að benda á það í grg. þessarar till., í fimmta lagi, að ráðning erlendra lækna eða hjúkrunarmanna til þess að annast læknisþjónustu eða hjúkrunarstörf til bráðabirgða í þessum héruðum gæti komið til greina. Þessi leið mun þó með öllu ókönnuð, og því fer fjarri, að ég vilji gegn staðhæfingum lækna hér heima fullyrða nokkuð um það, að þetta væri mögulegt. En þetta mætti að minnsta kosti reyna. Því miður er því þannig varið, að það er læknaskortur víðar en hér í okkar landi, og því má vera, að þetta bæri ekki mikinn árangur, en ástæðulaust er þó að láta þess ófreistað.

Í sjötta lagi höfum við flm. svo bent á það í þessari till., að athuga megi möguleika á því að koma upp elli- og örorkuheimilum á hentugum stöðum í strjálbýlinu með fastráðnum læknum, er gegni jafnframt störfum héraðslækna. Það er alls ekki ólíklegt, að ef einhver slík heilbrigðisstofnun væri til í þessum héruðum og þar nokkuð vistmanna, mætti fá lækna til þess að vera þar búsetta. Það væri þar meira að gera bókstaflega og aðbúnaður að öllum líkindum betri og starfsskilyrði betri fyrir lækninn. Þess vegna er brotið upp á þessari leið. Enn fremur er það vitað, að víða úti í sveitum vantar elliheimili eða vistheimili fyrir aldrað fólk.

Ég hirði nú ekki um að telja upp fleiri leiðir, sem við flm. getum ímyndað okkur, að til greina komi í þessu máli, vil aðeins bæta því við, að nú eru 43 læknar með lækningaleyfi við bráðabirgðastörf hér á landi, þ.e.a.s. þeir eru hvorki ráðnir í héraðslæknisembætti né heldur hafa þeir sett sig niður á ákveðnum stöðum til að praktísera. Enn fremur eru 70 kandidatar, sem hafa ekki fengið lækningaleyfi, útskrifaðir. Samtals eru þessir læknar 113. Margir af þessum læknum eru að vísu erlendis, og eru sumir þeirra þar við framhaldsnám og nokkrir í allgóðum stöðum. En yfirleitt gera heilbrigðisyfirvöldin ráð fyrir, að þessir menn muni nú hverfa hingað heim til síns ættlands, og þá veltur á miklu, að reynt sé að fá þá til þjónustu í þessum héruðum, sem þannig er ástatt um, sem ég hef lýst hér á undan. Héraðslæknisembættin í landinu eru nú 57 talsins, en Það vantar lækna, eins og ég sagði, í ein sjö þeirra og ein þrjú þeirra hafa ekki fengizt veitt. Ég hygg, að það ætti ekki að valda heilbrigðisstjórninni óviðráðanlegum útgjaldaauka að leggja sig fram um það með bættum kjörum til lækna í þessum héruðum að fá einhverja af þessum ungu og óráðstöfuðu læknum a.m.k. um eitthvert skeið til starfa í þessum læknislausu héruðum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þessa till. Ég veit, að hv. þm. hafa fullan skilning á þessu vandamáli og vilja leggja sinn skerf til þess, að það verði leyst. Ég sé, að hér er fram komin brtt. um aðra, hlið á þessu máli. Fljótt á litið sýnist mér hún vera eðlileg, en hv, flm. hennar á eftir að gera grein fyrir henni, svo að ég fjölyrði ekki um hana, vil aðeins óska þess, að umr, um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.