22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í D-deild Alþingistíðinda. (2689)

160. mál, læknaskortur

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þetta verða aðeins örfá orð til þess að minna á viðaukatill., sem ég flyt við þetta mál, en till. hljóðar svo:

„Jafnframt verði athugaðir möguleikar á að fá sérfræðinga í hinum ýmsu greinum læknisfræðinnar til þess að setjast að á stöðum utan Reykjavíkur og nágrennis eða starfa í sambandi við fjórðungssjúkrahúsin, eftir því sem framast eru tök á og bezt þykir henta.“

Það má ekki skilja þessa till. mína svo, að ég ætlist til þess, að það verði farið að fylla alla landsbyggðina af sérfræðingum í læknisfræði. hví að sérfræðigreinar læknisfræðinnar munu nú vera, að því er mér hefur verið tjáð, um 20 talsins. En hins vegar held ég, að það séu skilyrði til þess víða um land. og þá hef ég sérstaklega í huga Akureyri, að þar væru fleiri sérfræðingar starfandi en nú er. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið hjá landlækni, eru nú utan Reykjavíkur og nágrennis starfandi alls 10 sérfræðingar, þar af eru 6 í handlæknisfræði, sem eru yfirlæknar við fjórðungssjúkrahús og bæjarsjúkrahús, en auk þess eru á Akureyri einn sérfræðingur í lyflæknisfræði, einn í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og einn augnlæknir. Að öðru leyti eru engir sérfræðingar búsettir utan Reykjavíkur og nágrennis. Ég hef orðið þess var hjá mörgum Akureyringum, að þeim þykir á skorta um sérfræðinga í læknisfræði og eru þess fullvissir, að t.d. á Akureyri mundu vera starfsskilyrði fyrir fleiri en þar eru nú, sérstaklega koma mér í hug barnalæknar og háls-, nef- og eyrnalæknar. Ég vildi því beina því til hv. n., sem fær þetta til athugunar, að athuga þessa viðaukatill. mína, og vænti þess, að af athuguninni megi leiða einhverjar framkvæmdir í þessu máli. Að öðru leyti mæli ég með því, að þessi till. þeirra fimmmenninganna verði samþykkt, því að áreiðanlega er þar hreyft góðu máli.