25.11.1960
Sameinað þing: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (2699)

97. mál, landhelgismál

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Um landhelgismálið hefur oftast verið ritað og rætt með öðrum hætti en flest önnur deilumál, vegna þess að reynt hefur verið af nauðsyn að laða til samstöðu mismunandi skoðanir stjórnmálaflokkanna á leiðum og markmiðum í málinu. Þeir, sem vildu koma landhelgismálinu í höfn, vissu. að áhrifaríkara en opinberar ádeilur og skammir var að benda hínum tregu og andvígu á, hver væri vilji þjóðarinnar, og ógna með honum. Á örlagastundinni í landhelgismálinu dugði þetta því til sigurs. Það má fullyrða, að ef þessi vinnubrögð hefðu ekki verið viðhöfð, væri landhelgismálið enn óleyst.

Eftir að sigur er unninn, horfir allt öðruvísi við. Það er skylt, að þjóðin fái að vita sannleikann í þessu máli. Andstæðingar þess, að landhelgismálið væri leyst með þeim hætti, sem gert var, hafa duilzt nógu lengi. Það skaðar ekki lengur málið sjálft, þó að flett sé ofan af þessu. Það mun þvert á móti ekkert tryggja betur unninn sigur í málinu en það, að þjóðin þekki þá, sem af ýmsum ástæðum beittu sér gegn lausn málsins á örlagastund eða drógust nauðugir með í lausn þess af hræðslu við yfirvofandi kosningar.

Engir munu þekkja betur en ráðherrar Framsfl. í vinstri stjórninni þættina í þeirri miklu og oft tvísýnu baráttu að koma landhelgismálinu í höfn með því að tengja saman til sameiginlegs átaks stjórnmálaflokka, sem voru ósammála og, blátt áfram andstæðrar skoðunar um lausn málsins.

Bretland hefur lengi verið nýlenduveldi. Nýlendurnar lagði það undir sig með ofbeldi. hótunum um ofbeldi og klóklegum samningum. Hér á Íslandi voru engar frjósamar lendur til að ræna, en miðin kringum landið voru að auðlegð samsvarandi frjósömum löndum. Þess vegna sóttu Bretar eftir að ræna okkur fiskimiðunum, og um þetta er margslungin sorgarsaga: Ofbeldi við yfirvöld, veiðiþjófnaður uppi í landsteinum jafnt á nóttu sem um hábjartan dag. En samtímis kúguðu Bretar Dani til að minnka fiskveiðilandhelgi Íslands. Viðureignin við Dani var Bretum svo auðveld sem köttur væri að fást við mús. Bretar báru þá ægishjálm yfir allar þjóðir á hafinu, og Danir voru þeim háðir viðskiptalega. Þessi viðureign endaði auðvitað með því, að Danir seldu með fiskveiðisamningnum við Bretland 1901 íslenzka landhelgi fyrir markað í Bretlandi á dönskum landbúnaðarvörum o.fl. Með samningnum 1901 fengu Bretar rétt til að fiska upp að þremur sjómílum frá ströndum Íslands og inni á fjörðum. Eftir þennan samning urðu Bretar jafnvel enn þá ósvífnari í veiðiþjófnaðinum. Aðrar þjóðir sigldu í kjölfar þeirra. Svo gjörkúgaðir voru Danir af Bretum, að eftirlit Dana með landhelginni var í framkvæmd litið meira en nafnið tómt.

En þótt samningurinn frá 1901 væri uppsegjanlegur með 2 ára uppsagnarfresti. entist Bretum hann til þess að ræna íslenzk fiskimið allt upp í landsteina í hálfa öld, og eftir að búið var að segja þessum samningi upp, halda sumir Íslendingar áfram að hoppa eins og hestar, sem búnir eru að vera svo lengi í hafti, að þeir trúa því ekki, að þeir séu lausir við hnappelduna. Það er þess vert að benda á það, að svo rík var kúgun Bretans, að raddir, sem komu fram á Alþingi um stækkun fiskveiðilandhelginnar, voru um það að ná samningum við Breta um að fá stækkun, en ekki um hitt, að segja upp samningnum frá 1901.

Gerbreyting á hugsunarhætti í landhelgismálinu verður, þegar Framsfl. á flokksþingi sínu 4. des. 1946 gerði ýtarlega ályktun og áskorun til Alþingis í landhelgismálinu. Ályktunin var þess efnis: að segja upp samningnum frá 1901, að Alþingi setji lög um stækkun landhelginnar, að Alþingi og ríkisstj. vinni að því að afla hinni nýju landhelgislöggjöf viðurkenningar annarra þjóða.

Hinn 20. jan. 1947 barst Alþingi áskorun frá stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem gengur í svipaða átt, en þar er einnig ályktað um rétt Íslendinga til landgrunnsins í kringum landið.

Í lok janúar 1947 flutti Skúli Guðmundsson og ég svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að segja upp samningi þeim, er gerður var 24. júní 1901 milli Danmerkur og Stóra-Bretlands um landhelgi Íslands, sbr. auglýsingu frá 28. marz 1903.“

Síðan menn þorðu að hugsa þá hugsun að segja upp einhliða samningnum við Breta frá 1901, hefur verið látlaus sóknarhugur með þjóðinni í landhelgismálinu. En það var engu líkara en menn óttuðust þetta lengi vel, það kynni að móðga Breta. Fyrst voru stigin smá skref og hikandi, útfærsla fyrir Norðurlandi í 4 sjómílur 1951, síðan 4 sjómílur umhverfis landið allt 1952, jafnframt því sem grunnlínan var færð út. Lengra þorðu menn ekki að fara þá, og eru þó ekki nema 8 ár síðan. En þá sagði dagblaðið Tíminn 20. marz 1952 m.a. um útfærsluna í 4 mílur:

„Það er ánægjulegt spor í rétta átt, en rangt væri að líta á það sem lokaspor varðandi stækkun landhelginnar. Hún þarf að verða miklu stærri, þótt ekki hafi þótt rétt að ganga lengra að sinni.“

Þessi útfærsla kostaði löndunarbannið mikla í Bretlandi. En það er merkilegt til umhugsunar, að 1901, þegar Danir gerðu samninginn við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands, var fiskveiðilandhelgi Íslands a.m.k. 4 sjómílur, ella þurftu Bretar ekki að gera samninginn um 3 sjómílur, en þegar þessum samningi frá 1901 er sagt upp, telja Bretar sig eiga rétt til að fiska áfram upp að 3 sjómílum frá landi, og sýnir þetta ágengni, sem þeir ættu að hafa í huga, sem vilja gera nýja nauðungarsamninga við Breta.

Í stjórnarsáttmála vinstri stjórnarinnar, sem korn til valda 1956, segir um landhelgismálið: „Ríkisstj, leggur áherzlu á útfærslu íslenzku landhelginnar og telur, að stækkun friðunarsvæðisins kringum landið sé brýn nauðsyn vegna atvinnuöryggis landsmanna, og mun því beita sér fyrir framgangi þessa máls.“

Eins og sjá má, er hér ekkert fram tekið um það, hvernig fiskveiðilandhelgin verði færð út eða hve mikið. Sjútvmrh. Lúðvík Jósefsson vildi færa út þegar 1957 á tilteknum svæðum. En með því að Genfarráðstefnu hina fyrri átti að halda seinni hluta vetrar 1958, var ákveðið í ríkisstj. að bíða með aðgerðir í málinu, þangað til séð væri um niðurstöður ráðstefnunnar. Kom það þegar í ljós, að sjálfstæðismenn neituðu að taka afstöðu. Í þess stað héldu þeir uppi aðfinnslum á öllum sviðum um allt, sem gert var, síðar er þessi skemmdarstarfsemi enn þá ljósari. Þegar ráðstefnunni í Genf var lokið, hófust átök milli mismunandi sjónarmiða Alþb. og Alþfl. Til þess að koma í veg fyrir, að þessi ágreiningur stöðvaði með öllu lausn landhelgismálsins og leiddi til stjórnarslita, og sennilega kosninga, tók Framsfl. upp hlutverk málamiðlarans, með þeim árangri, að hin stríðandi öfl fengust að lokum til að sameinast um átakið, sem það valt á, að við fengjum 12 mílna landhelgina.

Samkvæmt sáttmála NATO-þjóðanna er okkur Íslendingum skylt, sem öðrum þátttökuþjóðum, að leita sátta um fyrirsjáanleg ágreiningsmál milli NATO-þjóða, en í þeirri tölu mála var auðvitað landhelgismálið. Lúðvík Jósefsson sjútvmrh. vildi sem minnst við NATO ræða. Ráðherrar Alþfl. vildu skýra málið fyrir NATO, sem lögboðið var, og í raun og sannleika, eins og alltaf hefur gægzt fram, endalaust samningaþóf við NATO- ríkin og færa ekki út nema með samkomulagi við þau.

Við ráðherrar Framsfl. neituðum vinnuaðferðum beggja samstarfsflokkanna að nokkru leyti. Við kröfðumst þess, að sjútvmrh. biði eftir eðlilegum viðræðum við NATO. Þar skyldi ræða málið. skýra málstað okkar, reyna að afla fyrir fram samþykkis fyrir einhliða rétti okkar til útfærslu í 12 mílur. Með þessu gátum við notað NATO til þess að afla málstað okkar fylgis hjá þeim ríkjum, sem voru ekki mjög andvig, og sverfa hvassasta broddinn af vopnum þeirra, sem voru málstað okkar andstæðastir. En hins vegar varð að koma í veg fyrir þá hættu, að viðræðurnar í NATO yrðu að endalausu viðræðu- og samningaþófi og ákvörðun í landhelgismálinu slegið á frest og þannig að engu gerð.

Þeir, sem vildu samningaþófið, héldu því stöðugt fram að ekki skorti nema herzlumuninn, að viðurkenning fengist fyrir fram fyrir einhliða útfærslu okkar. Til þess að sannreyna þetta og til þess að höggva á hnút samningaþófsins var 18. maí 1958 fyrirspurn send til NATO-fulltrúa Íslands í París um það, hvort NATO-ríkin vildu samþykkja fyrir fram 12 mílna útfærsluna, ef tekið væri visst tillit til þeirra, eins og kemur fram í skeytinu, sem hefur verið birt. Svars var krafizt fyrir 20. maí. Svarið var neitandi, en stungið í þess stað upp á sérstakri NATO-ráðstefnu, reynt að draga okkur inn í samningaþóf, eins og alltaf.

Nú var búið að nota aðstöðuna í NATO til þess gagns sem hún gat orðið, en nú þurfti að koma í veg fyrir, að hún yrði að þófi okkur til tjóns. Ákvörðun varð að taka þegar í stað. Fundur var haldinn í Framsfl. að kvöldi 20. maí. í fundargerðabók þingflokksins þennan dag stendur: „Allir þingmenn flokksins andvígir sérstakri ráðstefnu í NATO til þess að semja um landhelgismálið.“ Afstöðu Framsfl. tilkynnti ég á ráðherrafundi 21. maí.

Eftir hádegi átti ég tal við Ólaf Thors, formann Sjálfstfl., og með honum Gunnar Thoroddsen. Þar las Ólafur Thors yfirlýsingu frá Sjálfstfl., er hófst á þessa leið: „Yfirlýsing Sjálfstfl. 21. maí. Forsrh. hefur tilkynnt Sjálfstfl., að Framsfl. hafi ákveðið að hafna algerlega frekarí viðræðum við NATO-ríkin, áður en fiskveiðitakmörkin verða færð út.“ Síðan er sagt, að Sjálfstfl. sé andvígur þessari vinnuaðferð og vilji ekki eiga þátt í henni. Miklu skipti fyrir Íslendinga, að hafa vináttu við NATO-ríkin o.s.frv., en þá vináttu átti að kaupa fyrir að færa ekki út nema það sem NATO-ríkin leyta.

Eins og kemur fram í þessari yfirlýsingu, var Sjálfstfl. andvígur ákvörðun um útfærslu, móti því, að slitið væri viðræðunum við NATO-ríkin, meðmæltur áframhaldandi samningaþófi, sem var safna og að stöðvamálið. Hann skarst úr leik á örlagastund.

Á ráðherrafundinum 21. maí kom í ljós, að Alþfl. vildi ekki eins og Framsfl. og Alþb. fallast á að taka hreina, jákvæða afstöðu með því, að reglugerðin um útfærsluna yrði gefin út 30. júní með gildistöku 1. sept. Þessi afstaða Alþfl. byggðist auðvitað á engu öðru en því, að hann vildi, eins og Sjálfstfl., áframhaldandi samningaþóf við NATO-ríkin. Ríkisstj. var raunverulega klofin og Alþfl. kominn í stjórnarandstöðu í þessu máli, enda var hann það eftir það, þangað til yfir lauk síðar á árinu.

Í þessu stappi stóð við Alþfl. á endalausum fundum allt til 23. maí. Á þessu tímabili boðaði forseti Íslands tvivegis a.m.k. ríkisráðsfundi, þar sem ég kvaðst mundu biðjast lausnar fyrir stjórnina, og. eru eftirminnilegar fréttatilkynningar um þetta í Morgunblaðinu um þetta leyti. Landhelgismálið hefði þá strandað á andstöðu Alþfl. og kosningar snúizt um það. Þá var Alþfl. ekki búinn að tengja sig Sjálfstfl. að fullu og átti því nokkurn veginn vist að verða algerlega þurrkaður út af Alþingi, ef kosningar snerust um það, að hann hefði stöðvað útfærslu landhelginnar. En Alþfl. kærði sig, ekki um alþingiskosningar um þessa afstöðu, og þess vegna samþykkti hann útgáfu reglugerðarinnar. Þannig bjargaði hræðsla Alþfl. við dóm kjósenda landhelgismálinu, þótt bæði hann og Sjálfstfl. væru því andvígir. Reglugerðin var gefin út 30. júní, með gildistöku 1. sept. 1958.

Næstu vikurnar er kyrrara um málið á yfirborðinu. Þekktur Íslendingur, nátengdur stjórn Sjálfstfl., kom að vísu fram í sjónvarpi í Englandi og fullvissaði brezku þjóðina um, að auðvelt væri að ná samningum við Íslendinga í landhelgismálinu. Bjarni Benediktsson hélt fund á Flateyri seint í júní 1958 og sagði, að við kæmumst aldrei lengra í landhelgismálinu en samkomulag næðist um við stærstu siglingaþjóðir heims. Pétur Benediktsson sagði á fundi í Ölver 24. ágúst, að kommúnistar og framsóknarmenn hefðu svínbeygt Guðmund í. Guðmundsson í landhelgismálinu.

Allt sumarið var undirróður fyrir því að taka upp samninga við NATO. Enginn fylgdist betur með þessu en ambassador Breta á Íslandi. Það er vitað, að hann, í samræmi við þær upplýsingar, sem hann fékk frá sjálfstæðismönnum. sagði ríkisstj. sinni, að óeining væri með íslenzku þjóðinni í landhelgismálinu, Sjálfstfl. og Alþfl, vildu semja. Þessar röngu upplýsingar eru ástæðan til þess, að brezka ríkisstj. sendi herskip inn í landhelgina. Það er fyrst og fremst verk Sjálfstfl. En þegar Bretar ráku sig á það síðar og um seinan, að þessar upplýsingar voru rangar að því er þjóðina áhrærði, fluttu þeir ambassador sinn burt og stórlækkuðu hann í tign.

Árás var gerð á mig í Morgunblaðinu, t.d. 13. ágúst, þar segir, að „sérstaða sjálfstæðismanna var fyrst og fremst fólgin í því, að þeir voru andvígir þeirri ákvörðun forsrh. að hafna algerlega frekari viðræðum við NATO-ríkin á s.l. vori, áður en útfærsla fiskveiðitakmarkanna var ákveðin.“

Glöggt er það enn, hvað þeir vilja. Eins og menn muna, hafði krafa NATO-ríkjanna verið sérstök NATO-ráðstefna til þess að semja um landhelgismál Íslands. Þegar neitandi svar barst við fyrirspurninni til NATO 18. maí, neitaði íslenzka ríkisstj. 20. maí og síðan sérstakri ráðstefnu í NATO um málið. Þessa kröfu, sem hvað eftir annað hafði verið neitað, vegna þess að hún leiddi til stöðvunar á málinu, gerir Sjálfstfl. enn á ný að sinni í bréfi til utanrrh., dags. 22. ágúst, að sagt er í bréfinu til að afstýra voða á miðunum.

Á forsíðu Morgunblaðsins 22. ágúst birtist með stærsta letri þessi fyrirsögn: „Sjálfstæðisflokkurinn leggur til, að ráðherrafundur í Atlantshafsbandalaginu verði kallaður saman nú Þegar.“ í undirfyrirsögn segir, að Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson hafi 22. ágúst átt ýtarlegt samtal um þessa tillögu Sjálfstfl. við utanrrh.

Þessi stutta klausa segir mikla sögu. Með þessu var stefnt að því í leynisamtölum Ólafs, Bjarna og Guðmundar að ógilda reglugerðina um útfærsluna og hefja í staðinn samningamakk á sérstakri ráðstefnu.

Hinn 30. ágúst heldur herferðin enn áfram í Morgunblaðinu. Þar segir með stórri fyrirsögn: „Ráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins bezti vettvangur til að afla skilnings og viðurkenningar á málstað Íslands.“

Öllum, sem þessar tillögur lesa, er auðvitað ljóst. að ef samningar hefðu verið reyndir, hefði orðið að ómerkja gildistöku og framkvæmd landhelgisreglugerðarinnar frá 30. júní, er átti að taka gildi 1. sept. ríkisstj. átti fyrst að lýsa ómerk og ógild öll sín verk í landhelgismálinu daginn fyrir gildistökuna, fljúga síðan til útlanda og setjast á samningafund með NATO-ríkjunum. Hafa menn yfirleitt heyrt furðulegra? Framsfl. hafnaði þessu með fyrirlitningu, og þar með var hinni nýju herferð um að stöðva útfærsluna lokið.

Eftir fund Péturs Benediktssonar að Ölver og fleiri tákn frá sjálfstæðismönnum munu útvegsmenn. skipstjórar og stýrimenn á Akranesi hafa þótzt sjá, hvert Sjálfstfl. stefndi. Þeir gerðu samþykkt 27. ágúst. Hún er birt í Morgunblaðinu á 3, síðu með fyrirsögninni: „Hvergi að hopa frá settu marki í landhelgismálinu.“ Er talið, að Pétur Ottesen hafi staðið fyrir þessari samþykkt og afhent Morgunblaðinu til birtingar með vel völdum orðum. En allt gerist nú jafnsnemma. Bjarni Benediktsson. aðalritstjóri Morgunblaðsins, fer norður í land 30. ágúst, og 31. ágúst 1958 snýr Morgunblaðið við. Þann dag birtist grein með nýjum tón á forsíðu:

„Íslendingar einhuga um sæmd sína og rétt.“

Ég er ekki í neinum vafa um, að samþykktin frá Akranesi ásamt aðvörunarorðum frá Pétri Ottesen hefur skotið forustumönnum í Sjálfstfl. skelk í bringu í bráð. Þeir vissu frá Alþf1., af nánu samstarfi við hann um landhelgismálið o.fl., að ríkisstj. riðaði til falls. Það varð að gæta sín fyrir kjósendum, ef stutt var til kosninga, og ekki hægt að treysta gleymskunni.

Það er eftirtektarvert, hvernig Sjálfstfl. og Alþfl. hagræddu nú afstöðu sinni og gerast nú hinir skeleggustu í landhelgismálinu. Þeir standa að samþykkt Alþingis 5. maí 1959, þar sem lofað er hátíðlega að víkja hvergi í Landhelgismálinu. Þeir hafa hátt um þessa samþykkt í kosningunum 1959. Ambassador Íslands í London er kallaður heim rétt fyrir kosningarnar og sagt, að eiginlega sé stjórnmalasambandi við Bretland slitið. Við þá ofbeldisþjóð hafi ríkisstj. Íslands ekkert að tala. En svo er ambassadorinn sendur til London aftur. nokkru eftir að kosningarnar eru búnar. Miklu verri mótmæli en engin. því að Bretum varð ljóst, að ríkisstj. meinti ekkert með þessu, enda hlæja þeir að öllu saman. Enginn Íslendingur mátti mæta á NATO-fundi, sem haldinn var í Englandi sumarið 1959. Átti þetta að sýna Íslendingum fyrirlitningu ríkisstj. á framferði Bretanna. Íslendingar máttu ekki einu sinni sækja kennaraþing í Bretlandi. Þetta er allt leikaraskapur fyrir kosningar til þess að breiða yfir fyrri feril sinn og raunverulega stefnu. En skoðanir þessara manna hafa alltaf verið og eru þær sömu í landhelgismálinu, að landhelgin geti aldrei orðið stærri en Bretar og Bandaríkin vilja leyfa okkur að hafa hana.

Þessar skoðanir birtust okkur, sem áttum í höggi við þær, í maí 1958 og í ágúst 1958, eins og þær eru raunverulega. Þær tóku á sig svip yfirdrepsskaparins fyrir síðustu kosningar. Svo er dokað við um tíma, meðan kosningaloforðin eru að gleymast. Síðan er byrjað á að tæpa á viðræðum við Breta. Skaðar ekki að tala við mennina, er sagt. Hins vegar kemur ekki til mála að ræða við þá um landhelgina, því síður um tilslökun á henni, er sagt næst. En smátt og smátt er farið að tæpa á því, að meta verði, hvaða verði borgi sig að kaupa landanir í Bretlandi og friðinn á miðunum.

Nú álíta forustumenn Sjálfstfl. og Alþfl., að sé nægilega langt til kosninga. Nú þora þeir að sýna andlitið, eins og það var 1958 og hefur alltaf verið bak við grímuna. Þeir reyna ekki að réttlæta verk sín með rökum. Þess í stað reyna þeir að hylja sig í þeirri reykbombu, að það, sem þeir séu nú að gera með samningunum við Breta, sé hliðstætt því, sem Framsfl. var samþykkur að gert var 1958. Þá, þegar Íslendingar vissu ekki, hvort nokkur þjóð mundi virða útfærsluna í verki, var reynt með fyrirspurn 18. maí og 22, ágúst að fá viðurkenningu allra þjóða NATO fyrir því, að við hefðum rétt til að færa út einhliða í 12 mílur, en buðumst þá til að athuga að haga útfærslunni með nokkurri tillitssemi við þær. Þetta mál var þá rætt opinberlega og flestir á einu máli um, að þessi málsmeðferð væri sjálfsögð, eins og stóð á þá. Nú hafa allar þjóðir viðurkennt landhelgi okkar í verki á þriðja ár. Aðeins ein hefur beitt okkur ofbeldi. Við hana eina á að semja sérstaklega um að minnka landhelgina aftur.

Árið 1958 hafði reglugerðin verið gefin út, og í ágúst hafði hún ekki tekið gildi, enda tekið fram, að tímann til 1. sept. ætti að nota til að afla henni viðurkenningar meðal þjóðanna. Nú hefur friðun staðið á þriðja ár með 90% árangri. Allir viðurkenna, að Íslendingar hafa sigrað. Bretar geta ekki fiskað hér undir herskipavernd. Þá stóðum við í því einangraðir að sækja fram úr 4 sjómílum í 12. Nú eigum við að gera sérsamning við einu ofbeldisþjóðina um það að ganga aftur á bak fyrir hana um 6 mílur. Árið 1958 hafði engin þjóð sýnt okkur ofbeldi. Framboðin tillitssemi var engin lítillækkun, en sjálfsögð tilraun. Nú eru samningar helzt réttlættir með því, að við verðum að kaupa af okkur ofbeldið fyrir landhelgi, sem við höfum helgað okkur, og fyrir virðingu okkar. Væntanlega á svo að gera þetta að reglu í viðskiptum okkar við aðrar þjóðir framvegis, að gera bezt við þá, sem sýna okkur ofbeldi og berja á okkur.

Bretar vilja fá þann kaupbæti með hluta af landhelginni. að við játum frammi fyrir öllum þjóðum, að það, sem við höfum gert og alls staðar haldið fram að væri rétt, hafi verið rangt. Þessum bita á þjóðin að kyngja með afsali landhelgisréttinda. Bretar telja sig vita, að þjóð, sem þeir hafa einu sinni kúgað og niðurlægt rækilega, geti þeir kúgað aftur, því að hún hafi tapað virðingu annarra þjóða og nægilega miklu af sjálfsvirðingu sinni. Bretar eru að seilast eftir fleiru í þessum samningum, fjöreggi Íslendinga. Landhelgi, sem þjóðirnar viðurkenna, stækkar svo að segja með hverju árinu. Þjóðir, sem nú fá frelsi og koma í Sameinuðu þjóðirnar, heimta stækkaða landhelgi. Það getur svo farið, að eftir nokkurn tíma verði landgrunnið viðurkennt sem landhelgi Íslands. Ef Bretar getra tælt okkur nú til samninga, segja þeir næst, þegar við ætlum að færa út, þótt þá væri í samræmi við alþjóðalög og okkur lífsnauðsyn: Þegar þið fenguð 12 mílur, urðuð þið að viðurkenna það, að þið gátuð ekki tekið ykkur þær nema með samþykki okkar. Þar með játuðuð þið ykkur undir það, að þið gætuð ekki gert frekari útfærslu nema með samningum við okkur. Þið játuðuð, að við værum sú þjóð, sem ætti vegna sögulegra réttinda hagsmuna að gæta, sem taka yrði tillit til, þegar þið viljið færa út landhelgina.

Þetta er það fjöregg Íslendinga, sem Bretinn vill fá, en við verðum að koma í veg fyrir, að honum takist að ná. Þess vegna samþykkjum við þá tillögu, sem hér liggur fyrir.