25.11.1960
Sameinað þing: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (2705)

97. mál, landhelgismál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hver hefði trúað því fyrir einu ári, að við stæðum nú frammi fyrir því, að ríkisstj. landsins væri að semja við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands? Þá voru nýlega um garð gengnar tvennar alþingiskosningar, og þjóðin vissi ekki annað en að allir stjórnmálaflokkar og allir alþingismenn væru heilir í landhelgismálinu. Þeir höfðu hátíðlega lýst yfir því, að samningar við ofbeldið kæmu ekki til greina og að aldrei skyldi hvikað frá fullum 12 mílum umhverfis landið allt. Svo engilhreinir voru þeir, sem nú standa í samningum við Breta um landhelgismálið, að sumarið 1959 neituðu þeir að mæta á NATO-fundi í Bretlandi og sögðust ekki geta setzt til borðs með ofbeldismönnum, sem sendu herskip sín upp að ströndum Íslands til þess að brjóta niður lög og reglur vopnlausrar þjóðar. Jafnvel kennarar, sem ætluðu að sitja þing með stéttarbræðrum sínum í Bretlandi, voru stöðvaðir frá slíku af stjórnarvöldum landsins. Svona voru Íslendingar vandir að virðingu sinni þá og ákveðnir í því að lúta ekki ofbeldinu.

En svo kom tilkynning ríkisstj. þann 10. ágúst í sumar um það, að hún hefði ákveðið að verða við tilmælum Breta um að taka upp viðræður við þá um landhelgismálið. Mönnum hnykkti við og ætluðu varla að trúa sínum eigin eyrum. Stjórnarblöðin reyndu að draga úr ótta almennings og sögðu, að hér væri ekki um samninga að ræða um landhelgismálið, heldur aðeins viðræður um að koma í veg fyrir árekstra á Íslandsmiðum, og auk þess væri aðeins kurteisi að ræða við Breta. Þannig var reynt að dylja fyrir þjóðinni, hvað raunverulega var að gerast í landhelgismálinu. En nú stendur þjóðin frammi fyrir bláköldum veruleikanum. Nú geta ráðamenn þjóðarinnar ekki lengur dulið fyrirætlanir sínar. Á Alþingi hefur landhelgismálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, orðið að viðurkenna, að rætt sé við Breta — orðrétt eftir honum haft — um að veita þeim mjög tímabundna heimild til fiskveiða innan 12 mílna, gegn því, að við fáum ákveðin, ótvíræð hlunnindi þar á móti. Hann segir enn fremur, að rætt sé um þriggja til fimm ára heimild til handa Bretum. Stjórnarblöðin reyna ekki lengur að neita því, að ætlunin sé að semja við Breta um landhelgismálið.

En hvað gerir svo ríkisstjórn Íslands, þegar svona er komið málum, þegar ljóst liggur fyrir, hvað er að gerast? Jú, þá grípur hún til þess að reyna að afsaka og blekkja og reyna að þyrla upp rykmekki ósanninda um tveggja og þriggja ára gömul ágreiningsefni í landhelgismálinu. Þannig á að leiða athyglina frá því, sem nú er að gerast, frá þeim háska, sem nú vofir yfir þjóðinni í landhelgismálinu, og fá hana til þess að taka þátt í þrætum um löngu liðna atburði. En slíkt skal ekki takast. Það er sá voði, sem nú stendur fyrir dyrum, það eru þau svik, sem nú eru undirbúin, sem eru kjarni málsins, og það er hann, sem nú á að ræða fyrst og fremst.

Þjóðin veit líka fullvel, hvað var að gerast í landhelgismálinu 1958. Þann 21. maí 1958 gaf Sjálfstfl. út yfirlýsingu um, að hann vildi taka upp samninga við NATO-ríkin um landhelgismálið, og hún var birt í Morgunblaðinu. Sama dag lýsti Alþfl. yfir, að hann væri á sömu skoðun og vildi fresta málinu. Það var birt í Alþýðublaðinu. Framsfl. lýsti hins vegar yfir, eftir að hann hafði kannað ásamt Sjálfstfl. og Alþfl. kröfur og vilja NATO-ríkjanna, að hann vildi ekki semja um málið. Alþb. krafðist skilyrðislaust efnda á samningi stjórnarflokkanna um útfærslu í 12 mílur og neitaði öllum samningatilraunum við erlenda aðila um málið. Þetta liggur allt opinberlega og skjalfest fyrir. Símskeytið 18. maí var sent algerlega án samráðs við Alþb., eins og margsinnis hefur verið viðurkennt af þáv. forsrh., Hermanni Jónassyni, og símskeytið frá 20. ágúst var sent án þess, að Alþb. fengi nokkurn tíma um það að vita. Þó að foringjar Sjálfstfl. og Alþfl. hafi friðlausir viljað svíkja í málinu sumarið 1958 og mjög reynt til þess að fleka Framsfl. inn á sitt mál, þá breytir það engu um þann dóm, sem þjóðin hlýtur að kveða upp yfir þeim, sem nú eru að svíkja, í málinu og glata unnum sigri í einu stærsta máli þjóðarinnar.

Svo langt gengur óskammfeilni núverandi ráðherra í þessu máli, að utanrrh. Guðmundur Í. Guðmundsson mun hér, ef að venju lætur, þegar hann ræðir þetta, mál reyna að afsaka svik sín nú í málinu með því að halda því fram, að ég hafi 1957 — eða ári áður en landhelgin var stækkuð — ekki lagt til að breyta 4 mílna landhelginni, heldur aðeins hugsað um grunnlínubreytingar og tímabundna útfærslu. Hér er öllu snúið við, 2 bréfum mínum frá apríl 1957 og júní 1957 legg ég höfuðáherzlu á, að ekki sé beðið lengur með aðgerðir í landhelgismálinu, og tel alltaf upp sem leið númer eitt 12 mílna landhelgi með breyttum grunnlínum. Þegar Guðmundur Í. Guðmundsson og Hans Andersen höfðu neitað að fallast á slíkt fyrr en eftir Genfarráðstefnu, sem halda átti ári síðar, þá lagði ég til, eins og segir í bréfinu:

„Með sérstöku tilliti til þess, að umrædd alþjóðaráðstefna er fram undan um víðáttu landhelgi, þá tel ég rétt að fara að þessu sinni þá leið, sem meðfylgjandi uppdráttur sýnir, en hún byggir á breyttum grunnlínum og tímabundinni útfærslu á þremur stöðum við landið. Með þessari leið breytum við ekki 4 mílna reglunni að þessu sinni, en náum hins vegar þeim stækkunum á friðunarsvæðinu, sem mestu máli skiptir.“

Einnig sú staðreynd, að Guðmundur Í. Guðmundsson gat stöðvað allar framkvæmdir í landhelgismálinu 1957, stöðvað, að þá væru gerðar breytingar á grunnlínum og friðun stóraukin við landið, einnig það skal gert að umræðuefni nú til þess að draga athyglina frá því, sem nú er að gerast í landhelgismálinu.

Spurning dagsins í dag, sú spurning sem allir Íslendingar eru með á vörunum, er þessi: Á að hleypa Bretum inn í landhelgina? Ætlar ríkisstjórnin að svíkja yfirlýsingar sínar og loforð? Það er um þetta, sem þjóðin ræðir í dag, en ekki um leyniskeyti og svikafyrirætlanir núverandi stjórnarflokka, sem mistókust hjá þeim 1958.

Jafnhliða því, að ríkisstjórnin reynir að leiða umræður um málið inn í gamlar hliðargötur, reynir hún að bera fyrir sig ýmiss konar afsakanir. Afsökun nr. 1 er sú, að gegn því, að Bretar fái tiltekin svæði innan 12 mílna, ætli þeir að samþykkja friðun á jafnstórum svæðum fyrir utan 12 mílur. Og orð eru látin liggja að því, að hér sé raunverulega um kaup kaups að ræða og að Íslendingar græði jafnvel á öllu saman. Hér er um hina herfilegustu blekkingu að ræða. Hvert mannsbarn á Íslandi veit, að hver fermíla innan 12 mílna, á grunnmiðum. þar sem uppeldisstöðvar ungfisksins eru, er margfalt dýrmætara friðunarsvæði en fermíla utan 12 mílna, þar sem eru gönguslóðir hins fullvaxna fisks. Dettur nokkrum manni í hug, að Bretar séu að brjótast í því að ná samningi um veiðisvæði innan 12 mílna til þess að tapa um leið jafngóðum eða betri veiðisvæðum fyrir utan? Nei, auðvitað dettur engum í hug slík fjarstæða.

Afsökun nr. 2 er sú, að leyfi Breta til fiskveiða innan 12 mílna eigi aðeins að gilda í fá ár, 3–5 ár. Þá er strax komið svo í röksemdafærslunni. að samningurinn, sem átti að vera okkur til hagsbóta, hefur sér það til gildis að eiga að standa í aðeins fá ár. En hver trúir því, að samningur, sem þannig er neyddur upp á okkur með ofbeldi af erlendu valdi. standi aðeins í 3–5 ár, þó að því sé lofað nú í upphafi? Má í þessu sambandi benda á, að sá sami maður, sem nú flytur loforð hins erlenda valds um þetta, hefur áður flutt þjóðinni hliðstætt loforð. Það var veturinn 1949, þegar verið var að lokka Íslendinga inn í hernaðarbandalag. Þá gaf Bjarni Benediktsson hátíðlega yfirlýsingu, sem var orðrétt þannig:

„Við munum aldrei samþykkja, að erlendur her né herstöðvar séu í landi okkar á friðartímum. Er því allur ótti um það, að fram á slíkt verði farið við okkur, ef við göngum í bandalagið, gersamlega ástæðulaus.“

Nú segir Bjarni Benediktsson landhelgismálaráðherra nákvæmlega það sama og þá: Það er gersamlega ástæðulaust að óttast. Bretarnir fara út eftir 3–5 ár. — En hver trúir? Láta menn blekkja sig með sama bragðinu af sama manninum tvisvar?

Og þá kemur afsökun nr. 3 um, að eyða verði deilunni við Breta. Í málflutningi ríkisstj. er staðreyndum beinlínis snúið við, þegar kemur að þessu atriði. Það eru Bretar, sem efnt hafa til deilu við okkur Íslendinga. Það eru þeir, sem halda uppi lögbrotum á fiskimiðum okkar og halda hér uppi deilunni. Staða Íslendinga í þessari deilu Breta er hliðstæð stöðu saklauss manns, sem verður fyrir því á förnum vegi að ofbeldismaður ræðst að honum og heimtar af honum peningaveski hans. Hinn saklausi maður getur auðvitað sett niður deilu ofbeldismannsins með því að afhenda honum peningaveskið. Á sama hátt getum við Íslendingar auðvitað látið undan ofbeldi Breta og afhent þeim landhelgina og eytt þannig deilunni. En auðvitað er það að hafa hausavíxl á hlutunum að ætlast til þess, að sá saklausi eyði þeirri deilu, sem sá seki heldur uppi.

En stjórnarandstæðingar hafa engin ráð til þess að eyða deilunni, segja talsmenn ríkisstj. og hæstv. dómsmrh. Slíkt segir hann auðvitað gegn betri vitund. Öll þjóðin veit, að með einni setningu gætum við Íslendingar rekið Breta úr landhelginni á svipstundu, með því að segja herliði Bandaríkjamanna að hypja sig þegar í stað með allt sitt hafurtask frá Keflavíkurflugvelli og láta þá vita, að við mundum fylgja slíku eftir með kæru til Sameinuðu þjóðanna.

Hæstv. dómsmrh. reyndi að láta lita svo út sem við ættum engan rétt hjá Sameinuðu þjóðunum til þess, að þær stöðvuðu hernaðarlegt ofbeldi Breta hér við land. Hér fer hæstv. ráðh. algerlega rangt með staðreyndir, þar sem hann vitnar í lagagreinar Sameinuðu þjóðanna, sem fjalla um allt annað en um beitingu hervalds einnar þjóðar gagnvart annarri. Slíkt herhlaup eins og það, sem Bretar hafa gert hér við landið, eiga Sameinuðu þjóðirnar að stöðva, og enginn vafi er á, að þær mundu stöðva herskipavaldbeitingu Breta hér við land, eins og þær stöðvuðu á sínum tíma herhlaup Breta á Súez. En hverjir eru það, sem hafa ekki fengizt til þess að eyða deilunni á þennan hátt, sem við sannarlega getum? Jú, ætli Bjarni Benediktsson og Guðmundur Í. Guðmundsson þekki ekki þá menn? Ætli þeir viti ekki, hverjir það eru, sem neitað hafa að afgreiða tillögu um þetta efni í utanrmn.? Þjóðin hefur lengi vitað, að þeir tveir hæstv. ráðh., sem hér eru málsvarar ríkisstj., einu málsvarar hennar að þessu sinni, hafa verið veikustu hlekkir þjóðarinnar í landhelgismálinu.

En hvernig hefur svo deilu Breta við okkur verið háttað að undanförnu? Stóð sú deila þannig, að það væri lífsnauðsynlegt fyrir okkur að gefast upp? Eða voru kannske Bretar að gefast upp?

Reynslan hafði sannað, að rúmlega helmingur þess togaraflota Breta, sem veiðar stundaði við Ísland áður, hafði algerlega gefizt upp við veiðar hér við land og leitað á önnur mið. Hinn helmingurinn var geymdur í herskipabásum og gat ekkert fiskað. Brezk blöð höfðu lýst yfir, að áframhaldandi fiskveiðar undir herskipavernd væru óframkvæmanlegar með öllu. Friðun fiskimiðanna við Ísland var meiri fyrir þá heimsku Breta að halda skipum sínum í básunum heldur en verið hefði, ef þeir hefðu viðurkennt 12 mílurnar strax í upphafi. Geymsla brezku togaranna í básunum þýddi í reynd, að fiskimiðin nutu óvenjulegrar friðunar einnig fyrir utan 12 mílurnar allt í kringum landið. Hver maður gat séð, að sigurinn var okkar í málinu og að Bretar áttu engan annan kost en þann að gefast upp opinberlega. Ekkert gat raunverulega bjargað Bretum úr þessari klípu, frá þessari smán, annað en liðhlaup í okkar eigin liði.

Þegar svona var komið, komu landhelgismálaráðherra Bjarni Benediktsson og utanríkisráðherra Íslands Guðmundur Í. Guðmundsson með þá furðulegu kenningu, að við Íslendingar yrðum að eyða deilunni, hvað sem það kostaði.

En hefur ríkisstj. gert sér grein fyrir raunverulegum afleiðingum þess að hleypa Bretum inn í fiskveiðilandhelgina upp að 6 mílum? Getur það verið, að ríkisstj. hafi áttað sig á, hvílíkan háska hún er að leiða yfir þjóðina með slíkum samningum? Afleiðingarnar yrðu þessar í stuttu máli: 2–3 hundruð brezkir togarar mundu strax streyma inn í landhelgina. Í kjölfar þeirra mundu efalaust koma önnur 2–3 hundruð erlend veiðiskip og svo auðvitað íslenzki togaraflotinn. Þessi erlendi floti er stærri og öflugri en nokkru sinni áður hefur veitt hér við land. Hann er betur búinn að tækjum en áður, m.a. nú búinn fullkomnustu fiskleitartækjum. Eyðingarkraftur þessa flota á grunnmiðunum er margfaldur á við það, sem áður var. Ný tækni gerir skipunum fært að dveljast helmingi lengur á miðunum en áður. Og veiðarfæri eru komin til sögunnar, sem lítt voru notuð fyrir nokkrum árum. Innan 12 mílnanna getur þessi floti ekki verið nema á miðum bátanna, jafnvel á miðum hinna smærri báta. Skark þessa erlenda flota á fiskimiðunum upp að 6 mílum mundi á næstu 3 árum eyðileggja meira en allur erlendi veiðiflotinn gerði síðustu 10 árin fyrir útfærsluna. Með því að leyfa slíka rányrkju á miðunum er verið að brjóta niður grunninn undir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

90–95% af öllum gjaldeyri þjóðarinnar fær hún fyrir sjávarafla. En hvernig fer, ef þannig á að fara með dýrmætustu fiskimið hennar? Við Íslendingar höfum fengið hverja aðvörunina af annarri frá þekktum fiskifræðingum, innlendum og útlendum, um það, hvað sé að gerast á fiskimiðunum í Norður-Atlantshafi um þessar mundir. Norskir fiskifræðingar benda á, að vaxandi togveiðar við Noreg eyði svo ungviðinu þar, að fiskstofninum sé ógnað. Yfirmaður fiskirannsóknarstöðvarinnar í Lowestoft í Bretlandi sagði nýlega, að hann teldi brýna þörf á því, að nýjar alþjóðareglur yrðu settar til þess að varna ofveiði í Norður-Atlantshafi. Og við Íslendingar höfum sára og tilfinnanlega reynslu af því, hvernig afli togaranna hefur farið stórum þverrandi við Ísland hin síðari ár. Við vitum, að aukin friðun er ráðið, og við höfum séð, hvernig friðun síðustu ára er þegar farin að skila arði á grunnmiðum bátanna. En þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir þau himinhrópandi rök, sem við Íslendingar höfum með málstað okkar, þá ætlar ríkisstj. að lúta valdinu, beygja sig, fyrir ofbeldinu og svíkja af þjóðinni þann sigur, sem hún hafði unnið í landhelgismálinu.

Hvað er að gerast? Hafa þeir menn, sem nú sitja í ríkisstj. á Íslandi. tapað glórunni? Vita þeir ekki, hvað þeir gera, eða ráða þeir ekki gerðum sínum?

Þegar Íslendingar stækkuðu landhelgi sína úr 3 mílum í 4 árið 1952 og breyttu grunnlínum, sagði Ólafur Thors, núv. forsrh.: „Landauðn eða landhelgi er í dag letrað í hvert einasta íslenzkt hjarta.“ Þá sagði hann: „Siðferðilegur réttur Íslands í þessu máli er rétturinn til að lifa.“ En hvað segir Ólafur Thors nú? Hvað stendur nú letrað í hans hjarta og í hjörtu annarra Íslendinga? Árið 1952 sagði Bjarni Benediktsson, að við semdum aldrei um landhelgi Íslands, því að við ættum lagalegan og siðferðilegan rétt til þess að taka einhliða ákvörðun um verndun fiskimiðanna við Ísland. En hvað segir hann nú? Hvað er hann nú að gera? Í maímánuði 1959 lýstu báðir þeir hæstv. ráðh., sem hér tala fyrir hönd ríkisstj. í kvöld, Bjarni Benediktsson og Guðmundur Í. Guðmundsson, því yfir, að frá 12 mílum umhverfis landið yrði ekki hvikað. En hvað ætla þeir nú að gera? Í vor sagði Ólafur Thors: „Ég hef enga heimild til þess að afsala þjóðinni 12 mílum.“ En hvað er hann að gera? Í vor sagði Guðmundur Í. Guðmundsson utanrrh. í útvarpi til þjóðarinnar: „Við munum berjast gegn öllum frádrætti, hverju nafni sem nefnist, tímatakmörkunum og öðrum, gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 12 mílna við Ísland.“ Hvað á nú að gera við þessi fögru orð, þessar afdráttarlausu yfirlýsingar? Í sumar lýsti einn af forustumönnum Alþfl. á Austurlandi yfir því á almennum fundi á Eskifirði um landhelgismálið, að hann hefði rétt í þeim svifum átt símtal við Emil Jónsson, formann Alþingi, og hefði hann leyft sér að skýra fundinum frá því, að ekki kæmi til mála, á meðan hann, Emil Jónsson, sæti í ráðherrastól, að semja um nein frávik frá 12 mílum allt í kringum landið né semja við Breta um landhelgismálið. Hvað ætlar Emil Jónsson nú að gera? Ætlar hann kannske að víkja úr ráðherrastól á meðan samið er við Breta? Er það virkilega svo, að orð æðstu manna þjóðarinnar séu einskis virði, að frá þeim sé hægt að hlaupa eins og ómerkilegum hlut? Halda þessir háu herrar, að þeir geti leyft sér allt, að í krafti flokkshollustu eða flokksbanda sé hægt að draga dár að mönnum, eins og þeir séu fífl?

Nei, því skal ekki trúað, að þær þúsundir Íslendinga, karla og kvenna úr öllum flokkum, sem saman hafa staðið í landhelgismálinu og saman hafa gert samþykktir og áskoranir til stjórnar og Alþingis, láti gabba sig þannig með uppgerðarafsökunum eða tylliástæðum til þess að fallast á slík svik í málinu og nú eru ráðgerð. Ég veit, að ríkisstj. getur að forminu til gert samning við Breta, sem heimilar þeim fiskveiðar innan 12 mílna, a.m.k. ef henni tekst að handjárna allt sitt þinglið. En slíkur samningur yrði byggður á ótraustum grunni. Þm. hafa ekkert umboð til þess að semja um undanslátt í landhelgismálinu. Þvert á móti höfðu þeir allir lofað fyrir kosningar að víkja í engu frá 12 mílum allt umhverfis landið. Og svo er hitt, að enginn vafi er á því, að mikill meiri hluti þjóðarinnar er algerlega á móti slíkri samningsgerð. Samningarnir væru því gegn vilja þjóðarinnar og gætu orðið pappírsgagn í framkvæmd. Reynslan hefur sýnt, að Bretar geta ekki stundað fiskveiðar við Ísland að neinu gagni, geti þeir ekki leitað lands og haft viðskipti við landsmenn með eðlilegum hætti. Þjóðin gæti gert samning ríkisstjórnarinnar að engu í framkvæmd.

Landhelgismálið er eitt mesta stórmál þjóðarinnar. Samningar um að veita öðrum þjóðum fríðindi innan landhelginnar eru ekki aðeins málefni líðandi stundar, það er mál, sem varðar komandi ár og afkomumöguleika þjóðarinnar í framtíðinni. Það er því skýlaus réttlætiskrafa að ríkisstj. láti fram fara þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn við Breta og að enginn samningur taki gildi um skerðingu á núv. fiskveiðilandhelgi Íslands, nema þjóðin, meiri hluti landsmanna, hafi fallizt á slíkt. Neiti ríkisstj. þjóðaratkvgr. um málið, er augljóst, að hún er hér að vinna ofbeldisverk, verk, sem hún veit að meiri hluti landsmanna er á móti, og þá verður þjóðin sjálf að taka til sinna ráða. Þau ráð munu sanna núv. ráðherrum það, að engin ríkisstj. fær setið við völd á Íslandi gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar, jafnvel þó að hún styðjist við erlent vald.

Góðir Íslendingar. Landhelgismálið stendur tæpt í dag. En enn þá er hægt að bjarga málinu. Einasta leiðin er sú, að þið, fólkið í landinu, í öllum flokkum, knýið ríkisstj. til þess að falla frá fyrirætlun sinni, knýið þingmenn ykkar til þess að stöðva svikin. Gerið þeim ljóst, að svik í landhelgismálinu verða aldrei fyrirgefin.