25.11.1960
Sameinað þing: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í D-deild Alþingistíðinda. (2706)

97. mál, landhelgismál

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Menn hafa nú hlýtt á málflutning allra flokka um þetta mikla mál. Öllum þm. var þegar ljóst, að stjórnarandstæðingar vildu flytja umr. úr Ed. í Sþ. vegna þess, hversu mjög hafði á þá hallað þar. Nauðsynlegt þótti að veita liðstyrk þeim fimm stjórnarandstæðingum, sem um málið höfðu talað í margar vikur. Alþjóð hefur nú vegna kröfu okkar um. að umr. skyldi útvarpað, heyrt, í hverju liðstyrkurinn er fólginn. Máttleysi hans dylst ekki, þótt Eysteinn Jónsson reyni að fela hann með því, að umr. er hagað eins og þingsköp segja fyrir um. En Eysteinn Jónsson tryllist yfir því að fá ekki sérreglur settar, þegar hann telur sér henta.

Í stað raka og skynsamlegra tillagna um það, hvernig ráða skuli fram úr einu mesta vandamáli þjóðarinnar, hafa þeir félagar allir keppzt við um skammir, aðdróttanir og raunar einnig afsakanir fyrir eigin fyrri tillögum, sem þeir kalla „lítils háttar tilslakanir“, þegar þeir sjálfir buðu þær fram, en landráð hjá öðrum. Eftirtektaverðast af öllu er, hvernig þessir hv. ræðumenn hafa svarað þeirri spurningu, hvernig eigi að leysa þann alvarlega vanda, sem steðji að okkur, meðan deilan við Breta leysist ekki, — vanda, sem getur gert að engu það, sem þegar hefur áunnizt í landhelgismálinu.

Eysteinn Jónsson játaði, að um þetta hefði verið spurt, en æsti sig einungis enn meira en ella til að reyna að fela, að hann getur ekki frekar en félagar hans svarað því, sem er aðalatriði málsins: Hvernig á að leysa deiluna við Breta og þar með tryggja okkur fullnaðarsigur í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar?

Helzt var svo að skilja á Eysteini Jónssyni, að eina trygging okkar væri áframhaldandi vera í Atlantshafsbandalaginu. Lúðvík Jósefsson kom hins vegar að því, sem fyrir honum er aðalatriðið, að við verðum að fara úr Atlantshafsbandalaginu og kæra fyrir Sameinuðu þjóðunum. Félagi hans, Finnbogi R. Valdimarsson, sagði aftur á móti í Ed., að við gætum fyrir engum kært, og sjálfur gat Lúðvík Jósefsson ekki bent á eina einustu grein stofnskrár Sameinuðu þjóðanna til að hnekkja því, sem Finnbogi hafði áður haldið fram um þetta, enda hljóta Lúðvík Jósefsson og þeir félagar að verða spurðir að því, af hverju þeir kærðu ekki framferði Breta fyrir Sameinuðu þjóðunum, ef þeir töldu rétt og möguleika til þess jafnótvíræðan og þeir nú láta. Af hverju kærðu þeir ekki, meðan þeir sjálfir voru við völd?

Síðan talaði hv. þm. Lúðvík Jósefsson um skoðun fiskifræðinga. Að sjálfsögðu hefur verið og verður haft fullt samráð við fiskifræðinga, og aðra vísindamenn, enda vitum við, sem sáum til Lúðvíks Jósefssonar á Genfarráðstefnunni. að það eru hvorki hagsmunir Íslands né vísindi, sem hann hefur í huga. Þar voru sannarlega aðrir og óhugnanlegri hagsmunir að verki. Hitt er svo engin nýjung, að við heyrum hótanir frá þessum hv. þm., sem raunar voru furðulíkar því, sem Eysteinn Jónsson lét út úr sér, sem er endurtekning á því, sem Tíminn sagði í sumar, að við mættum búast við „japönsku ástandi“ á Íslandi, ef ekki væri látið að vilja þessara herra og ekkert gert til að eyða þessari alvarlegu deilu við Breta. Við höfum nú séð, hvernig japanska þjóðin hefur fordæmt þá upphlaupsmenn, sem þar reyndu að eyða lögum og rétti, og sú aðferð mun ekki heldur njóta hollustu Íslendinga.

Hermann Jónasson verður að spyrja að því, af hverju hann sagði ekki upp samningunum við Breta allan þann tíma, sem hann var forsrh. frá 1934? Áhugi hans vaknaði ekki fyrr en hann var í stjórnarandstöðu. Ólafur Thors hafði sem forsrh. efnt til undirbúnings sóknar í málinu með ráðningu lærðasta þjóðréttarfræðings Íslendinga, Hans G. Andersens, til þess að starfa að því. Hann undirbjó síðan landgrunnslögin, sem hafa verið innanlandslagagrundvöllur allra okkar aðgerða síðan, og hefur ótrauður og óþreytandi unnið að framgangi málstaðar okkar á alþjóðavettvangi, en uppsker svo hnútur frá Lúðvík Jósefssyni að launum hér í kvöld.

Hermann Jónasson segir, að Sjálfstfl. hafi neitað að taka afstöðu í málinu 1957. Sannleikurinn er sá, að flokkurinn óskaði þess að fá vitneskju um afstöðu ríkisstj. En hún kom sér ekki saman um neitt og svaraði spurningum okkar út í hött, enda vildi Lúðvík Jósefsson þá enn byggja á 4 mílna landhelgi sem grundvelli og ákveða, að svo skyldi gert, hvað sem niðurstöðum Genfarráðstefnunnar 1958 liði.

Ósannindi Hermanns Jónassonar um afstöðu Sjálfstfl. í maí 1958 þarf ekki að rekja. Þar rekst eitt á annars horn. Hann sagði, að umr. í Atlantshafsbandalaginu hefðu náð tilgangi sínum hinn 20. maí og væru þýðingarlausar eftir það, en stóð hins vegar sjálfur að viðræðum í ráði Atlantshafsbandalagsins allt sumarið og Eysteinn Jónsson hældist hér áðan yfir árangri þeirra. Hitt er rétt, að þeir neituðu að verða við óskum Sjálfstfl. í ágúst 1958 um að birta öll skjöl málsins og ekki sízt það, sem fór á milli flokka þá um vorið, og trúi því hver sem vill að Hermann Jónasson hafi þá neitað þessum tilmælum okkar af hlífð við okkur.

Ég hef þegar lýst því yfir í Ed. að ég tel sjálfsagt að gefa út skjöl málsins í heild, þegar tímabært er, og þurfti Finnbogi R. Valdimarsson þess vegna ekki að spyrja mig um skoðun mína á því.

Þá sneru þeir félagar alveg við kröfu sjálfstæðismanna frá því í ágústmánuði 1958 um það að kæra herhlaup Breta fyrir Atlantshafsbandalaginu. Hermann Jónasson lætur nú svo, að með því hefðum við hlotið að hopa frá rétti okkar. Hann var þá sjálfur forsrh. og veit, hvernig hann hefði haldið á málum. Hann minnist þá vafalaust farar sinnar á fundi Atlantshafsráðs, eftir að hann hafði svikið loforðið um að reka Bandaríkjaher úr landi. Á ráðsfundinum lofaði hann hins vegar að standa við svikin og hafa að engu heitorð sitt fyrir kosningar 1956.

Við sjálfstæðismenn trúðum á rétt okkar og óttuðumst ekki, þótt það skilyrði hefði verið sett fyrir því að stöðva herhlaup Breta, að með málið skyldi farið svo sem fara ber með alþjóðlegan réttarágreining. Svo er að sjá, sem Hermann Jónasson hafi skort þá sannfæringu.

Af ræðu Finnboga R. Valdimarssonar varð ekki annað séð en hann hafi ekki hugmynd um þýðingu seinni Genfarráðstefnunnar, hvorki meðferð málsins næstu mánuði áður en hún var haldin né þá gerbreytingu, sem varð á afstöðu Breta þá og síðan.

Um eininguna., sem ríkti í meðferð landhelgismálsins á vinstristjórnartímabilinu, hafa menn nú nokkuð heyrt í ræðum þeirra hv. þm., sem á sínum tíma áttu sæti í vinstri stjórninni. Upplýst er, að í nafni þeirrar ríkisstjórnar var hvað eftir annað sent tilboð, sem tveir þáv. hæstv. ráðherrar, Hannibal Valdimarsson og Lúðvík Jósefsson, segjast ýmist hafa mótmælt eða alls ekki vitað um að gert var. Hv. þm. Finnbogi R. Valdimarsson, einn helzti stuðningsmaður þeirra og átrúnaðargoð þeirra beggja og þáv. hæstv. forsrh., Hermanns Jónassonar, sagði aftur á móti í umr. í Ed., að hann hafi vitað um tilboðið og sendingu þess í fyrra skiptið. þegar það var gert, og ekki verið hræddur við það, af því að hann vissi, að því mundi verða hafnað. Svo segir hv. þm. Lúðvík Jósefsson eftir þessa yfirlýsingu Finnboga R. Valdimarssonar, að skeytið hafi ekki verið sent í samráði við Alþb., og hefur þó einn þess helzti forustumaður játað, að hann hafi vitað um það og ekki verið hræddur við það. Er því svo að sjá sem Hermann Jónasson hafi sýnt Finnboga meiri trúnað en meðráðherrum sínum, en Finnbogi farið á bak við flokksbræður sína og sjálfur ekki haft á móti, að erlendum þjóðum væri boðið það, sem hann telur sinni eigin þjóð stórhættulegt.

Þáv. hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, hefur svo farið hörðum orðum um, að nokkurt skeyti skyldi sent í nafni ríkisstj., án þess að hún vissi öll af því, en jafnskjótt sjálfur verið staðinn að skeytasendingu og endurtekinni tilboðsgerð, sem tveir meðráðh. hans neita að hafa haft hugmynd um. Einnig er sannað, að Hermann Jónasson átti í samningum við formann Sjálfstfl., sem þá var í stjórnarandstöðu, og heimsótti Ólaf Thors til að koma sér saman við hann um orðalag þess skeytis, er hans eigin ráðh. kveða sig hafa andmælt en ekki vitað um fyrr en eftir á, og er þó mjög á reiki frásögn þessara heiðursmanna sjálfra um hvenær þeir hafi fengið þá vitneskju. Einlægnin í samvinnu við Sjálfstfl. um málið var hins vegar ekki meiri en svo, að nokkru eftir heimsókn Hermanns Jónassonar til Ólafs Thors var málinu ráðið til lykta án samráðs og vitundar Sjálfstfl.

Þá fullyrðir hv. þm. Hermann Jónasson, að ekki megi láta undan mótmælum og enn síður hótunum eða beinu ofbeldi. Þetta segir maðurinn, sem sendi skeytið 18. maí 1958 um að ríkisstj. hans væri staðráðin í að setja reglugerð með nýjum grunnlínum, en gafst upp á þeirri ákvörðun við fyrstu mótmæli, sem hann fékk erlendis frá. Hann lét þannig breyta hinni fyrirhuguðu reglugerð vegna andmæla útlendinga, strax áður en hún var sett.

Örfáum dögum áður en reglugerðin skyldi ganga í gildi, nær tveimur mánuðum eftir setningu hennar og undir beinni hótun um komu brezkra herskipa á Íslandsmið lýsti sami þáv. hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, sig fúsan til þess að breyta reglugerðinni öllum Atlantshafsríkjunum, þ. á m. Bretum, mun meira til hags en nokkrum hefur síðan komið til hugar að gera. Þetta endurtekna tilboð var a.m.k. í seinna sinnið borið fram í nafni vinstri stjórnarinnar án vitundar þáv. hæstv. sjútvmrh., Lúðvíks Jósefssonar, að því er hann nú segir. Skyldu menn þó varlega trúa hans umsögn. Innan ríkisstj. hafði hann hins vegar úrslitavald um, hvað í þessum efnum var gert. Reglugerðinni var ekki hægt að breyta nema með hans ákvörðun og undirskrift. Engu að síður sætti hann sig við það í fyrra skiptið, að tilboðið væri gert, og tók þar með á sig stjórnskipulega ábyrgð á því. Ráðh. firrir sig ábyrgð á stjórnarathöfn með því einu að segja af sér. Þess vegna hefur Hermann Jónasson e.t.v. þrátt fyrir allt talið sig hafa fyrir fram samþykki þeirra Lúðvíks Jósefssonar og Hannibals Valdimarssonar fyrir seinna tilboðinu.

Meiri skortur á heilindum og einingu hefur aldrei þekkzt í íslenzkum stjórnmálum. Öll þessi saga sýnir, að mennirnir, sem höfðu tekið að sér að stjórna málefnum þjóðarinnar í samvinnu, sátu stöðugt á svikráðum hver við annan.

Ekki væri furða, þó að þeir, sem upp á þennan ljóta leik hafa horft, færu varlega í trúnaði við þá hv. herra, sem fyrir honum stóðu. En hér sker úr, að stjórnarandstæðingar hafa nú fyrir fram tekið af um alla samvinnu við ríkisstj. um viðræður við Breta. Till. sú, sem hér er flutt, fjallar einmitt um bann við þeim, og allur málflutningur þingmannanna fer í sömu átt. Gengu þeir svo langt í Ed., að hv. þm. Ólafur Jóhannesson sá sig knúinn til að halda ræðu gersamlega andstæða aðalatriðunum í málflutningi þeirra, þótt hann jafnframt deildi á ríkisstj., en hann taldi óhjákvæmilegt, að teknar skyldu upp þessar viðræður við Breta.

Af hálfu ríkisstj. var lýst yfir því þegar á fyrsta degi þessa þings, að samráð mundi haft við Alþingi, áður en úrslitaákvarðanir yrðu teknar. Sú hefur ætíð verið ætlunin og það mun að sjálfsögðu gert. En hitt er ljóst, að einungis mundi verða til spillis að ráðgast um einstök atriði í könnun málsins við þá, sem einskis svífast til þess að spilla viðræðunum. Hamagangur stjórnarandstæðinga nú stafar af því, að þeir vita, að hér er um viðkvæmt mál að ræða, og vona, að örðugleikarnir af því verði núv. stjórn til óvinsælda. Auðvitað er ríkisstj. ljóst, að í bili hefði verið hægara í þessu sem öðru að hafast ekki að og láta reka á reiðanum. Sumir sjá aldrei hætturnar, sem fram hjá þarf að stýra, vegna þess að þeir festa hugann einungis við öldufaldinn. sem er að rísa og óttast hann svo mjög. Þá ber upp á sker, eins og þegar hv. þm. Hermann Jónasson stýrði vinstri stjórninni í strand fyrir tveimur árum.

Hv. þm. Hermanni Jónassyni tókst þá illa til um flest. En það má hann eiga, að hann reyndi meira að segja tvisvar að eyða deilunni við Breta með samningum við þá sumarið 1958. Nú neitar hv. þm. þessum samningaumleitunum. M.a. til þess að friða Alþýðubandalagsmenn, mennina, sem hann fór, að þeirra eigin sögn, mest á bak við í samningamakki sínu sumarið 1958, þrástagast hann nú á því, að ef maður lýsi einhliða yfir, að hann ætli að gera svo og svo, gegn því, að annar lýsi einhliða yfir, að hann geri sitt, þá séu það ekki samningar.

Sú málsvörn hv. þm. Hermanns Jónassonar minnir mig á atvik, sem kom fyrir, þegar hann var lögreglustjóri og dómari hér í Reykjavík fyrir um það bil 30 árum. Þá var maður úr nágrenninu kallaður fyrir rétt og sakaður um óleyfilega sölu áfengis. Sakborningur sagði hví fara fjarri, að hann hefði nokkru sinni selt ólöglegt áfengi. Hitt hefði komið fyrir, að hann hefði gefið mönnum áfengi og þeir gefið sér peninga í staðinn. Úr þessari afsökun varð skemmtileg saga, er dómarar höfðu gaman af að segja frá, en vitanlega var hún ekki tekin gild sem sýknunarástæða. Maðurinn fékk sinn dóm, eins og vera bar. Svo frægur sem sprúttsalinn varð af sinni frumlegu málsvörn, verður hann enn frægari sem fyrirmynd hins fyrrv. hæstv. forsrh., Hermanns Jónassonar, í málsvörn hans nú, því að vissulega verður ekki um það deilt, að þegar vinstri stjórnin bauð fram viss kjör af Íslands hálfu að því tilskildu, að önnur ríki gerðu svo eða svo í staðinn, þá var þar um samningaumleitanir að ræða.

Samningaumleitanir um að reyna að leysa deilu geta aldrei verið hættulegar. Efni samninganna kann aftur á móti að verða það. Það fer alveg eftir því, hvernig til tekst. Hér sem ella verður að bíða með úrslitaákvarðanir, þangað til endanleg kjör liggja fyrir.

Fullkomið mishermi er og, að allar þjóðir, sem hafa lýst yfir 12 mílna landhelgi eða fiskveiðilögsögu, hafi gert það án samninga við aðra. Er þar síðast að minnast fordæmis Norðmanna og þessa daga frétta af fyrirætlun Kanadamanna. Þær þjóðir, sem næstar eru okkur að menningu og réttarhugmyndum, hafa einmitt leitt málið til lykta með samningum. Jafnvel Rússar sömdu við Breta um fiskveiðiréttindi til að friða þá, eins og ég gat áðan um.

Að sjálfsögðu hefur núv. ríkisstj. aldrei komið til hugar að hverfa frá áframhaldandi sókn í landhelgismálinu. Samningsgerð af hálfu Íslands án þess, að þeirri leið sé haldið opinni í samræmi við alþjóðalög á hverjum tíma, kemur ekki til greina. Við munum hvorki þola, að rétti sé haldið fyrir okkur, né sækja með ólögum eftir því að svipta aðra sínum rétti.

En endir verður að vera allrar þrætu. Mér hefði fallið bezt í geð að leysa þessa deilu við Breta með dómi alþjóðadómstóls. Að því ber að keppa, að deilur milli ríkja eins og þegna í þjóðfélagi leysist fyrir hlutlausum dómi, ef sættir verða ekki. En hér er um það að ræða, hvort unnt sé að ná samkomulagi með betri kjörum en fram voru boðin tvívegis 1958 til sátta af þáv. stjórn Íslands, vinstri stjórninni, áður en deilan hófst. Og nú mundi taka svo langan tíma að fá dóm, að vissulega verður að íhuga, hvort ekki sé hægt að fá hagkvæmari málalok með samningum en málaferlum. Deilan hefur þegar dregizt nógu lengi.

Friðsamleg lausn deilumála er öllum þjóðum nauðsynleg, en engum þó fremur en lítilli og vopnlausri þjóð. Stundum hefur verið sagt í sambandi við þetta mál, að sjálfstæði okkar sé í veði. Því er ekki stefnt í hættu af hálfu núv. ríkisstj. Hitt er rétt, að smáþjóð, sem heldur áfram að deila deilunnar vegna, er í bráðri hættu um — ekki aðeins að slá sigurinn úr hendi sér, heldur og að glata sjálfstæði sínu.

Þess vegna er hér meira í húfi en sjálf fiskveiðideilan við Breta. Um það er að ræða, hvort við Íslendingar erum nógu stórir til þess að skilja, hvenær við höfum sigrað. Við lifum ekki til lengdar á því, að við séum svo litlir, að ljótt þyki, að við séum beittir valdi. Sá, sem ætlar að treysta á það að geta átt stórveldum saman, lendir áður en varir í þeirri hættu, að aðrir sameinist á móti honum og semji á hans kostnað. Sú hætta hefur komið öflugri þjóðum á kné en okkur Íslendingum. Við skulum því hér sem ella fara með gát og kunna okkur hóf, sýna, að eins og við stöndum óhagganlegir á rétti okkar, þá látum við einnig sanngirni njóta sín í viðskiptum við aðra, svo að við verðum virtir í samfélagi þjóðanna.